Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 190/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 190/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 5. október 2010 fjallað um fjarveru hans á boðaðan fund þann 16. september 2010. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en kærandi hafði áður sætt biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laganna vegna starfsloka, sbr. fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar dags. 26. mars 2010. Ákvörðun stofnunarinnar frá 12. október 2010 hafði því ítrekunaráhrif, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 11. október 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 30. desember 2008.

Með bréfi, dags. 10. september 2010, var kærandi boðaður til fundar hjá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar er haldinn var þann 16. september 2010. Í boðunarbréfi var kæranda bent á að það geti valdið missi atvinnuleysisbóta ef boðunum í viðtöl hjá stofnuninni væri ekki sinnt. Bréfið var sent á lögheimili kæranda, en kærandi hafði tilkynnt framangreint lögheimili til Vinnumálastofnunar sem aðsetur sitt. Boðunin var einnig send kæranda í tölvupósti á netfangið X og skilaboð um fundarboðun voru send í símanúmer Y. Framangreint heimilisfang, netfang og símanúmer hafði kærandi skráð hjá Vinnumálastofnun. Kærandi mætti ekki á boðaðan fund Vinnumálastofnunar þann 16. september 2010.

Vinnumálastofnun tjáði kæranda í bréfi, dags. 16. september 2010, að fjarvera hans á fyrrgreindum fundi gæfi stofnuninni tilefni til að telja kæranda ekki lengur í virkri atvinnuleit, sbr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun óskaði enn fremur eftir skýringum kæranda á fjarveru sinni á boðaðan fund. Vinnumálastofnun barst tölvupóstur frá kæranda vegna fjarveru hans á boðuðum fundi þann 16. september 2010. Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir á fundi stofnunarinnar þann 5. október 2010 og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 12. október 2010, þá ákvörðun stofnunarinnar að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir.

Í tölvupósti sínum til Vinnumálastofnunar, dags. 5. október 2010, færir kærandi fram þær skýringar á fjarveru sinni á boðaðan fund stofnunarinnar þann 16. september 2010, að hann hafi ekki haft vitneskju um tímasetningu fundarins. Kærandi segist hafa verið að flytja í nýja íbúð og þótt honum hafi vissulega borist tölvupósturinn frá Vinnumálastofnun þar sem hann var boðaður á fyrrnefndan fund, hafi hann ekki séð þann tölvupóst fyrir fundinn þar sem nettenging hafi ekki verið komin á í nýrri íbúð kæranda. Einnig segist kærandi ekki hafa fengið bréf það sem Vinnumálastofnun sendi honum með boðun á fundinn þann 16. september 2010 og hann hafi því ekki fengið vitneskju um hinn boðaða fund fyrr en eftir að fundurinn var afstaðinn. Kærandi ítrekar þessar skýringar sínar í skýringarbréfi með kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. október 2010.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. apríl 2011, áréttar Vinnumálastofnun að í 3. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þá sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar með sannanlegum hætti á þeim tíma er atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma, til að kanna hvort breytingar orðið á högum atvinnuleitanda. Atvinnuleitanda beri að vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Vinnumálastofnun áréttar að í athugasemdum um 4. gr., í frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi fram að gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun boði atvinnuleitendur til sín með sannanlegum hætti og að atvinnuleitandi sem láti hjá líða að sinna slíkri boðun, geti þurft að sæta missi atvinnuleysisbóta skv. XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í fyrrnefndu frumvarpi sé einnig tekið fram að boðun með sannanlegum hætti teljist vera bréf á lögheimili hlutaðeigandi. Einnig komi þar fram að boðun með skömmum fyrirvara teljist mikilvægur liður í eftirliti stofnunarinnar með því að þeir sem fái greiddar atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit.

Vinnumálastofnun bendir einnig á að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi fram að sömu viðurlög skuli eiga við í þeim tilvikum þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað og þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar til að kanna hvort þeir uppfylli enn skilyrði laganna. Vinnumálastofnun bendir á þá eindregnu afstöðu stofnunarinnar að bregðist atvinnuleitandi skyldu sinni skuli það leiða til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun kveðst hafa sent kæranda boðunarbréf á skráð lögheimili hans, ásamt því að senda boðunina í tölvupósti og sem skilaboð í skráð símanúmer kæranda hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun vísar til skýringa kæranda í tölvupósti, dags. 5. október 2010, til stofnunarinnar, þar sem hann færi fram skýringar á fjarveru sinni á boðuðum fundi þann 16. september 2010, þar sem kærandi segist ekki hafa séð boðun stofnunarinnar fyrr en eftir að fundur var afstaðinn. Vinnumálastofnun bendir á að í umrætt sinn hafi stofnunin boðað kæranda á sinn fund með öllum tiltækum ráðum. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og að gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum, að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega eru send honum með viðurkenndum hætti. Vinnumálastofnun bendir á að stofnunin líti svo á að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verða á högum atvinnuleitanda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna viðtölum sem stofnunin boðar til með sannanlegum hætti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til fyrirliggjandi gagna og kveður stofnunina telja ljóst að kærandi hafi verið boðaður til fundar hjá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar með sannanlegum hætti. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og til mætingar á boðaða fundi stofnunarinnar, sé það mat Vinnumálastofnunar að með fjarveru sinni á boðaðan fund þann 16. september 2010 hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því sú að með vísan til framangreindra sjónarmiða eigi kærandi að sæta niðurfellingu bótaréttar í þrjá mánuði frá dagsetningu ákvörðunar stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir
10. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

 Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Lokamálslið ákvæðisins var bætt við með 21. gr. laga nr. 134/2009 til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, en helsti tilgangur með setningu laga nr. 134/2009 var að styrkja valdheimildir Vinnumálastofnunar til að sinna eftirliti með þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur.

Í 61. gr. laganna er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana, en þar segir:

 Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir.

Kærandi var boðaður á fund þann 16. september 2010 með bréfi Vinnumálastofnunar sem sent var þann 10. september 2010 á lögheimili hans, en tilkynning þess efnis var einnig send kæranda í tölvupósti og í farsíma hans. Framangreint heimilisfang, netfang og símanúmer hafði kærandi sjálfur skráð hjá Vinnumálastofnun. Kærandi mætti ekki á boðaðan fund Vinnumálastofnunar þann 16. september 2010. Í kjölfarið tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, með vísan til 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en kærandi hafði áður sætt biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna starfsloka, sbr. fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar dags. 26. mars 2010.

Kærandi hefur fært fram þær skýringar að hann hafi verið fjarverandi á boðuðum fundi þann 16. september 2010 þar sem hann hafi ekki haft vitneskju um fundinn. Kærandi segir að hann hafi flutt í nýja íbúð og því hafi honum ekki borist bréf Vinnumálastofnunar á hið nýja heimilisfang sitt og einnig hafi hann ekki verið kominn með nettengingu og því hafi hann ekki lesið tölvupóst Vinnumálastofnunar í tæka tíð.

Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er meðal annars kveðið á um skyldu þeirra sem tryggðir eru samkvæmt lögunum um að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Í 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann sem tryggður er samkvæmt lögunum á fund stofnunarinnar með sannanlegum hætti. Skýrt er kveðið á um það í síðari málslið ákvæðisins, að atvinnuleitandi verði að vera reiðubúinn að mæta á fund Vinnumálastofnunar með mjög skömmum fyrirvara.

Með bréfi Vinnumálastofnunar þann 10. september 2010 var kærandi boðaður með sannanlegum hætti á fund stofnunarinnar í skilningi 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með því að mæta ekki á fundinn telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi hafi í umrætt sinn brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 58. gr., 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir ákvörðun sinni, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. október 2010 í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í þrjá mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta