Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 80 Ofgreiddar bætur





A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins













Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 12. mars 2006 til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir A, endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta ársins 2004.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 18. janúar 2006 var kæranda tilkynnt að þar sem ekki hefðu borist athugasemdir frá honum við endurreikning Tryggingastofnunar á bótum ársins 2004 stæði áður kynnt niðurstaða endurreikningsins sem uppgjör bóta þess árs. Samkvæmt endurreikningi hefðu bætur verið ofgreiddar á árinu 2004 sem nam kr. 560.038 en að frádreginni staðgreiðslu skatta væri krafa Tryggingastofnunar kr. 348.736.



Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Ég undirritaður hélt að í svari um tekjuáætlun fyrir árið 2006, dagsett 16. desember 2005, hefði misskilningur verið leiðréttur um meintar fjármagnstekjur, sem áætlaðar voru, en áttu sér ekki stað í raunveruleikanum. Samkvæmt bréfi TR dagsettu 18. janúar 2006 er enga leiðréttingu að finna.Eins og flestum er kunnugt um þá var öllum (og þar á meðal mér) ráðlagt að breyta húsbréfum yfir í hin nýju íbúðabréf sem Íbúðalánasjóður gefur út. Þetta var gert vegna óvissu með viðskipti með húsbréf eftir að íbúðabréfin komu á markað. Það hefur síðan komið í ljós að yfir 90% af öllum húsbréfum var breytt yfir í íbúðabréf og í dag eru nánast engin viðskipti með húsbréf lengur.

Það var samkvæmt kröfu ríkisskattstjóra, að þeir sem vildu breyta úr húsbréfum yfir í íbúðabréf, urðu tæknilega séð að selja húsbréfin sín og kaupa íbúðabréf. Þetta gerði ríkisskattstjóri til þess að geta lagt fjármagnstekjuskatt á mismun á kaup- og söluverðmæti húsbréfana, þó svo að ekki hafi verið um innleystan hagnað að ræða. Ríkisskattstjóri sá sér þarna leik á borði til tekjuöflunar og við því var ekkert að gera, því miður.


Ég fór að ráðleggingum KB banka í þessum efnum og lét breyta húsbréfunum mínum í íbúðabréf. Ég seldi húsbréfin, greiddi “fjármagnstekjuskattinn” og keypti síðan íbúðabréf fyrir afganginn. Það er hins vegar með hreinum ólíkindum að þessi nafnabreyting skuli verða til að skerða bætur til framfærslu með þessum hætti, ef satt reynist. Eins og skýrt kemur fram í meðfylgjandi gögnum kom nákvæmlega sama upphæð inn og út. Hvernig er hægt að refsa fólki svona fyrir að taka ráðleggingum frá fagfólki, eingöngu til þess að bjarga verðmætum. Það var ekki verið að innleysa neinn hagnað. Með þessu bréfi fylgja ljósrit af kvittunum fyrir sölu á húsbréfum annars vegar og kaupum á íbúðabréfum hins vegar.


Það er því einlæg ósk mín að þið leiðréttið þessa skerðingu, sem virðist byggjast á þeim misskilningi að fjármagnstekjuskattur á skattskýrslu, sem kemur til vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra eins og áður hefur komið fram, er túlkaður þannig að um fjármagnstekjur til framfærslu hafi verið að ræða. Eingöngu var um að ræða einfalda nafnabreytingu á skuldabréfum.“


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 15. mars 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 17. mars 2006. Þar segir m.a.:


„Kærð er endurkrafa ofgreiddra bóta til A, en krafan myndaðist við endurreikning tekjutengdra bóta til hans vegna ársins 2004.


Meginástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að tekjur kæranda, samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2004, hafa hækkað talsvert án þess að stofnuninni hafi verið tilkynnt um það, sbr. 47. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 með síðari breytingum (atl.). Þannig voru fjármagnstekjur kæranda samkvæmt skattframtali 2004 verulega hærri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun vegna þess árs.


Í 10. gr. atl. er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við útreikning lífeyrisgreiðslna. Er þar vísað til laga um tekjuskatt og eignaskatt, en samkvæmt þeim lögum teljast vextir af verðbréfum til tekna og skerða því lífeyri, eins og nánar er útfært í ákvæðum II. kafla atl. Engin heimild liggur fyrir sem gerir Tryggingastofnun kleift að líta framhjá fjármagnstekjum á skattframtali við útreikning og endurreikning bóta.Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Komi í ljós að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem uppá vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. atl.


Í 50. gr. atl. segir að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Er þessi skylda nánar útfærð í ákvæðinu m.a. varðandi tilhögun frádráttar.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. atl. er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar sem verða á tekjum hans á yfirstandandi tekjuári. Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra.


Í þessu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.


Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.“


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 21. mars 2006 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda bárust 7. apríl 2006 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar 19. apríl 2006 en var afgreiðslu málsins þá frestað. Málið var svo tekið fyrir aftur á fundi nefndarinnar 23. maí 2006 og þá afgreitt.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2004.


Í kæru kemur fram að kærandi hafi eins og fleiri skipt húsbréfum sínum fyrir íbúðabréf á árinu 2004. Samkvæmt kröfu ríkisskattstjóra hafi orðið að selja húsbréf og kaupa íbúðabréf til að hægt væri að leggja fjármagnstekjuskatt á mismun á kaup- og söluverðmæti húsbréfanna. Hins vegar hafi ekki verið um innleystan hagnað að ræða. Kærandi kveðst hafa selt húsbréf, greitt fjármagnstekjuskatt og keypt síðan íbúðabréf fyrir afganginn. Gerir hann athugasemdir við að framangreint hafi áhrif á bætur til framfærslu þar sem hann telji að eingöngu hafi verið um að ræða „einfalda nafnabreytingu“ á skuldabréfum.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að meginástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að tekjur kæranda, samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2004, hafi hækkað talsvert án þess að stofnuninni hafi verið tilkynnt um það. Fjármagnstekjur kæranda samkvæmt skattframtali hafi verið verulega hærri en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun vegna þess árs. Vísað er til 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þar sem kveðið sé á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Engin heimild liggi fyrir sem geri Tryggingastofnun kleift að líta framhjá fjármagnstekjum á skattframtali við útreikning og endurreikning bóta. Segir svo að samkvæmt 5. mgr. 10. gr. skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Segir ennfremur að bótaþegum sé samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar skylt að veita Tryggingastofnun upplýsingar um tekjubreytingar.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis ef við á, svo fremi að samþykki umsækjanda um bætur liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.


Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.


Í 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga kemur fram að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Í 2. mgr. 50. gr. er sérregla um tekjutengdar bætur. Þar segir að þær megi eingöngu draga frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við samtímaútreikning og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna.


Í 10. gr. almannatryggingalaga er vísað til laga um tekjuskatt og eignarskatt um hvað teljist til tekna samkvæmt lífeyristryggingakafla almannatryggingalaga. Lög um tekjuskatt og eignarskatt (nú lög um tekjuskatt) eru nr. 90 frá árinu 2003. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri leit svo á að þegar skipti á húsbréfum fyrir íbúðabréf fóru fram hafi verið um sölu húsbréfa að ræða og kaup á íbúðabréfum en ekki skilmálabreytingu á fyrrnefndu bréfunum. Skyldi því mismunur þess verðgildis sem kom fyrir bréfin og verðgildis þess sem eigandi þeirra gaf fyrir þau, þegar hann eignaðist þau, teljast til skattskyldra fjármagnstekna og því falla undir 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Var því viðkomandi aðilum, s.s. kæranda, gert að greiða 10% staðgreiðslu tekjuskatts af þeim fjármagnstekjum.


Þær fjármagnstekjur sem urðu til við skiptin (sölu á húsbréfum), en gengu beint upp í kaup á íbúðabréfum, leiddu til þess að við endurreikning bóta kæranda árið 2004 myndaðist endurkrafa á hendur honum m.a. af framangreindri ástæðu. Ekki liggur fyrir að Tryggingastofnun hafi fjallað um endurkröfuna á grundvelli 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins.


Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, segir:


„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“


Telur nefndin rétt í ljósi sérstakra atvika málsins að málið fái nýja umfjöllun hjá Tryggingastofnun þá á grundvelli 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003. Að mati nefndarinnar er því rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar þannig að það fái fyllri meðferð á lægra stjórnsýslustigi þrátt fyrir að ljóst sé að kærandi nýtti sér ekki andmælarétt sinn þegar fyrirhuguð endurkrafa samkvæmt endurreikningi bóta ársins 2004 var kynnt honum með bréfi dags. 21. nóvember 2005.



Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Máli A, er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til frekari og fyllri meðferðar.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta