Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 151 Hjartasérfræðingur

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins










Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með kæru dags. 26. maí 2006 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu kostnaðar vegna komu til hjartalæknis.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að frá 1. apríl 2006 hafa ekki verið í gildi samningar milli heilbrigðis- og tryggingamála­ráðuneytis og hjartalækna. Kærandi leitaði á stofu til sérfræðings í hjartalækningum þann 11. apríl 2006 og greiddi fyrir viðtal, skoðun og EKG. Kærandi fékk tilvísun frá heilsugæslulækni þann 25. apríl 2006 til hjartalæknis. Eftir það leitaði kærandi til Tryggingastofnunar og óskaði eftir endurgreiðslu reikningsins frá hjartalækninum, en var synjað með bréfi Trygginga­stofnunar þann 22. maí 2006 þar sem tilvísunin hefði ekki tekið gildi fyrr en 25. apríl 2006.


Enginn rökstuðningur fylgdi kæru.


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 29. maí 2006. Barst greinargerð dags. 31. maí 2006. Þar segir:


Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 36. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 taka sjúkratryggingar þátt í að greiða nauðsynlegar rannsóknir og meðferð hjá sérgreinalæknum sem starfa samkvæmt samningi sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur gert.

Hjartalæknar sögðu sig af samningi við Tryggingastofnun (sem samninganefnd ráðherra hafði gert) og tóku uppsagnirnar gildi þann 1. apríl 2006. Til að Tryggingastofnun væri unnt að greiða reikninga frá sjúklingum sem þurftu á þjónustu hjartalækna að halda setti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra reglugerð um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum, reglugerð nr. 241/2006, sem tók gildi l. apríl 2006. Í reglugerðinni er gengið út frá að heimilis- og heilsugæslulæknar sinni þeim sjúklingum sem þeir geta en vísi öðrum til hjartalækna. Þannig segir í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar: „Í samræmi við markmið um fagleg samskipti milli heilsugæslulækna, heimilislækna og sérfræðinga í hjartalækningum sem eru án samninga við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra miðar reglugerð þessi við að samskipti sjúkratryggðs einstaklings og læknis hefjist hjá heilsugæslulækni eða heimilislækni.”


Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir síðan: „Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúkratrygginga almannatrygginga á hluta kostnaðar sjúkratryggðra einstaklinga við þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum utan sjúkrahúsa sem starfa án samnings við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er að fyrir liggi tilvísun á sérfræðiþjónustuna frá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Hafi sjúkratryggður einstaklingur ekki slíka tilvísun taka sjúkratryggingar almannatrygginga ekki þátt í kostnaði við þjónustuna.


Samkvæmt framangreindri reglugerð er það skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar vegna þjónustu hjartalækna að fyrir liggi tilvísun frá heilsugæslulækni eða heimilislækni til hjartalæknisins. Ljóst er að ekki nægir að gefa slíka tilvísun eftir að þjónustunnar er leitað enda væri þá því markmiði reglugerðarinnar sem fram kemur í 2. mgr. 1. gr. ekki náð. Kærandi leitaði til hjartalæknis sem starfar án samnings sem samninganefnd ráðherra hefur gert. Hann fékk ekki tilvísun fyrr en eftir að þjónustunnar var leitað og var honum því synjað um endurgreiðslu.”


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 6. júní 2006 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.


Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu reiknings vegna komu kæranda á stofu til hjartalæknis þann 11. apríl 2006.


Enginn rökstuðningur fylgdi kæru.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til 36. gr. laga nr. 117/1993 þar sem segir að sjúkratryggingar taki þátt í að greiða nauðsynlegar rannsóknir og meðferð hjá sérgreinalæknum sem starfa samkvæmt samningi sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur gert. Samningur hafi ekki verið við hjartalækna frá 1. apríl 2006. Þá er vísað til reglugerðar nr. 241/2006. Samkvæmt henni sé það skilyrði fyrir greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar vegna þjónustu hjartalækna að fyrir liggi tilvísun frá heilsugæslulækni eða heimilislækni til hjartalæknis. Kærandi hafi fengið tilvísun eftir að hún fór til hjartalæknis og því hafi verið synjað um endurgreiðslu.


Samkvæmt 36. gr. sbr. og 39. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar er það lögbundin forsenda fyrir þátttöku Tryggingastofnunar í kostnaði við sérfræðilæknishjálp að í gildi sé samningur milli sérgreinalæknis þess sem leitað er til og Tryggingastofnunar. Á þeim tíma sem kærandi leitaði til sérfræðings þ.e. 11. apríl 2006 var ekki í gildi samningur milli hjartalækna og Tryggingastofnunar. Við þær aðstæður er það meginregla að sjúklingar þurfa að bera allan kostnað af sérfræðilæknishjálp sjálfir.


Hins vegar segir í lokamálsgrein 36. gr. laga nr. 117/1993 að með reglugerð sé heimilt að ákveða frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í greininni. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 241/2006 um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum. Með reglugerðinni hafa verið settar reglur um greiðsluþáttöku Tryggingastofnunar þrátt fyrir að samningar séu ekki í gildi og fer þá um þátttökuna eftir því sem segir í reglugerðinni.


Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir:

,, Heilsugæslulæknir eða heimilislæknir sem gefur út tilvísun ákveður gildistíma tilvísunarinnar en þó skal gildistími aldrei vera lengri en fjórir mánuðir í senn. Gildistími tilvísunar miðast við dagsetningu hennar.

Heilsugæslulæknir eða heimilislæknir sem gefur út tilvísun skal kynna sérstaklega fyrir sjúkratryggðum einstaklingi hvenær gildistíma tilvísunar lýkur.”

Kærandi var ekki með tilvísun er hún fór til hjartalæknis 11. apríl 2006. Hins vegar fékk hún tilvísun hjá heilsugæslulækni þann 25. apríl 2006. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 241/2006 miðast gildistími tilvísunar við dagsetningu hennar og því hafði tilvísun kæranda ekki tekið gildi þann 11. apríl 2006. Greiðsluþátttaka vegna komu kæranda til hjartalæknis áður en tilvísun hafði tekið gildi er því ekki heimil sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 241/2006.


Tryggingastofnun hefur afgreitt beiðni kæranda samkvæmt reglugerð nr. 241/2006 og er synjun um endurgreiðslu staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Synjun Tryggingastofnunar um greiðsluþáttöku í sérfræðilæknisreikningi A vegna komu til hjartalæknis 11. apríl 2006 er staðfest.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga


______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta