Hoppa yfir valmynd

Nr. 339/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 339/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070024

 

Kæra [...]

og barns

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 12. júlí 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. júní 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barns hennar [...], fd. [...], ríkisborgara Síle (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar aðallega með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara á grundvelli 2. mgr. 36. gr. sömu laga og til þrautavara á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laganna.

Þá gerir kærandi þá kröfu fyrir hönd A að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en til vara að A verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. sömu laga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 14. mars 2022. Með umsókn framvísaði kærandi vegabréfi frá Venesúela og dvalarleyfisskírteini frá Síle með gildistíma til 13. janúar 2025 sem ber með sér að hún sé handhafi ótímabundins dvalarleyfis þar í landi. Þá framvísaði kærandi vegabréfi frá Síle fyrir hönd A þar sem fram kemur að hann sé ríkisborgari Síle. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 23. maí 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 27. júní 2022 að taka umsóknir kæranda og A um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda 28. júní 2022 og kærði hún ákvarðanirnar 12. júlí 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 26. júlí 2022, ásamt fylgigögnum.

III.       Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi er með gilt dvalarleyfi í Síle. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Síle ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Síle.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli foreldris hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, lög um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hans væri best borgið og að honum væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldri sínu til Síle.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi flúið frá heimaríki til Síle vegna ofbeldis af hálfu yfirvalda. Kærandi hafi greint frá því að hafa búið í íbúðablokk í Síle en nágrannar hennar hafi verið ógæfufólk sem hafi neytt eiturlyfja. Kærandi hafi orðið fyrir árás af þeirra hendi og í kjölfarið hafi fjölskyldan fengið ítrekaðar líflátshótanir. Kærandi og barnsfaðir hennar hafi ekki séð sér annað fært en að flýja burt af ótta við mennina. Kærandi hafi greint frá því að mennirnir væru fyrrum hermenn frá Venesúela. Þá hafi lögreglan hvatt kæranda og eiginmann hennar að flytja annað þar sem um afar hættulega menn væri að ræða. Kærandi og barnsfaðir hennar hafi því flutt í aðra borg í kjölfarið en fengið óvænt símtal þar sem þeim hafi verið hótað. Kærandi hafi þá haft samband við lögregluna sem hafi ráðlagt þeim að flytja úr landi. Jafnframt hafi kærandi orðið fyrir útlendingahatri í Síle en fólk frá Venesúela sé stimplað sem glæpamenn þar í landi. Ofbeldi og fordómar í Síle hafi orðið til þess að kærandi hafi lokað sig af. Þá hafi fordómar í garð fólks frá Venesúela hlotið mikinn hljómgrunn í fjölmiðlum í Síle. Þá hafi kærandi upplifað mismunun af hálfu heilbrigðisstarfsfólks. Kærandi vísar til þess að framlögð heilsufarsgögn beri með sér að hún glími við þunglyndi og kvíða auk þess sem hún sýni einkenni áfallastreitu. Þá hafi kærandi greinst með frumubreytingar í leghálsi hér á landi og hún sé mögulega í þörf fyrir frekari greiningu og meðferð. Jafnframt hafi barnsfaðir kæranda nýlega komið til landsins og hætt með henni sem hafi verið enn eitt áfallið ofan á allt annað. Kærandi óttast því enn frekar að vera send aftur til Síle þar sem hún hafi takmarkað tengslanet.

Kærandi byggir aðallega á því að það sé meginregla í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að taka beri umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar. Hins vegar séu gerðar nokkrar undantekningar í a til c-lið ákvæðisins sem beri að túlka þröngt í samræmi við viðurkenndar lögskýringaraðferðir og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Kærandi vísar til þess að Útlendingastofnun beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði séu uppfyllt til að víkja frá meginreglunni um efnismeðferð, að beiting undantekningarinnar sé í þágu lögmæts markmiðs og að ekki hafi verið farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Kærandi byggir á því að engin undantekningarheimild a til c-liðar eigi við um mál sitt. Eina undantekningin sem kæmi til skoðunar í tilfelli kæranda væri a-liður vegna dvalarleyfis kæranda í Síle en hún hafi sætt ofsóknum þar í landi og þar af leiðandi eigi undantekningarákvæðið ekki við í hennar tilfelli. Þá vísar kærandi til þeirra fordóma sem hún og A hafi orðið fyrir í Síle á grundvelli þjóðernis. Þá telur kærandi að sú háttsemi sem hún hafi lýst og orðið fyrir í Síle teljist til ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá telur kærandi að öll skilyrði 1.-4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í tilfelli hennar. Að því virtu eigi undantekningarákvæði a til c- liðar 1. mgr. 36. gr. laganna ekki við í hennar tilfelli og því beri að taka mál hennar til efnismeðferðar hér á landi samkvæmt skýrri meginreglu laga um útlendinga.

Þá byggir kærandi á því að brotið hafi verið gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi lýst andlegri vanlíðan sinni og verið upplýst um með sérstökum áskilnaði að kallað yrði eftir læknisfræðilegum gögnum vegna málsins. Óljóst sé hvers vegna gögnin hafi ekki borist stofnuninni en í ljósi vigtar þeirra og vitneskju stofnunarinnar um að gögnin væru til og að þeirra yrði aflað, byggir kærandi á því að stofnuninni hafi borið að rannsaka þá hlið betur með því að minnsta kosti að kalla eftir þeim. Að sama skapi telur kærandi að skortur á allri umfjöllun um framlögð gögn, helstu málsástæðu hennar fyrir Útlendingastofnun, sé til marks um að stjórnvaldið hafi ekki rannsakað fyllilega þær upplýsingar og gögn og beri ákvörðunin þess merki að vera um staðlaðan rökstuðning að ræða án nokkurrar heimfærslu á einstaklingsbundnum aðstæðum og málatilbúnaði kæranda. Þá telur kærandi að stofnunin hafi ekki tekið inn í úrlausn málsins þau skilaboð sem kærandi hafi fengið send þar sem henni hafi verið hótað lífláti og ofbeldi.

Þá byggir kærandi á því að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning ákvörðunar. Kærandi vísar til þess að í ákvörðuninni sé vart að finna efnislega umfjöllun um málsástæður kæranda umfram staðlaðan texta um aðstæður í Síle. Enga einstaklingsbundna umfjöllun sé að finna um atvik og aðstæður að baki flótta kæranda sjálfrar sem byggt hafi verið á í greinargerð og lýst í viðtali hennar hjá Útlendingastofnun. Kærandi telur því að ógilda beri hina kærðu ákvörðun og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka mál hennar aftur til úrlausnar hvað varðar rétt hennar til að hljóta efnismeðferð þar sem leyst verði úr máli hennar í samræmi við það sem lög ákveði.

Til vara byggir kærandi á því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að stjórnvöldum beri að meta hvaða afleiðingar endursending til Síle muni hafa á hana, bæði líkamlega og andlega, auk þess að meta þurfi hvort hún sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi hafi sýnt fram á að atvinnumöguleikar hennar hafi verið verulega skertir í Síle, hún hafi hlotið óásættanlega heilbrigðismeðferð og staða venesúelskra ríkisborgara í Síle fari síversnandi. Telur kærandi miðað við aðstæður venesúelskra flóttamanna í Síle og framburðar hennar beri að veita henni og A alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna. Þá vísar kærandi til þess að andleg heilsa hennar hafi verið slæm auk þess sem hún bíði niðurstöðu úr skimun úr leghálsi vegna gruns um frumubreytingar. Þá hafi kærandi jafnframt sérstök tengsl við Ísland en hún hafi myndað sterk vinatengsl hér á landi.

Til þrautavara byggir kærandi á því að taka beri mál hennar til efnismeðferðar hér á landi enda myndi beiting undantekningarákvæða 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr. laganna vegna aðstæðna í Síle. Kærandi hafi lýst þeim ofsóknum sem hún hafi mátt sæta í Síle og þeirri hættu sem henni og A hafi stafað af hættulegum venesúelskum glæpahópi auk þess sem útlendingahatur gagnvart fólki frá Venesúela sé sífellt að aukast.

Kærandi vísar til þess að við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hvað varðar börn skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Kærandi vísar til þeirrar hættu sem A stafi af hættulegum glæpahóp sem hafi orðið til þess að foreldrar hans hafi flúið. Þá sé aukin hætta á barnsránum sem hann eigi í sérstakri hættu að lenda í en kærandi hafi lýst því þegar hún vaknaði um miðja nótt við að ókunnugur maður hélt á A í íbúð þeirra. Kærandi byggir aðallega á því að A uppfylli öll skilyrði þess að teljast flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri því að veita honum alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi greint frá þeim ofsóknum sem hún hafi orðið fyrir og því sé A í sömu hættu sem barn venesúelskra innflytjenda í Síle. Þá sé hann í raunverulegri hættu á að verða barnaræningjum að bráð sem seti líf hans, heilsu og frelsi í hættu. Öryggi hans, velferð og félagslegur þroski eigi undir verði hann sendur aftur í þær aðstæður sem kærandi hafi flúið. Verði ekki fallist á að 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi við í máli A telur kærandi að veita eigi honum stöðu flóttamanns á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laganna.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda hvað varðar A er til þrautavara farið fram á að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt byggir kærandi á að ákvörðun í máli hans brjóti gegn rannsóknarreglu og skyldu stjórnvalds til rökstuðnings, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi vísar til þess að samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skuli stjórnvald að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. sömu laga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A sé hvergi vikið að því hvort 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi við í hans tilfelli. Einungis sé fjallað um skilyrði 74. gr. sömu laga og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til að veita A dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Slíkt geti ekki talist fullnægjandi rökstuðningur fyrir svo íþyngjandi ákvörðun og beri þess merki að ekki hafi farið fram tilhlítandi rannsókn á því hvort skilyrði samkvæmt lagaákvæðunum hafi farið fram. Því sé óhjákvæmilegt að taka umsókn A til nýrrar meðferðar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Líkt og fram hefur komið er kærandi ríkisborgari Venesúela og er handhafi ótímabundins dvalarleyfis í Síle. Þá er A fæddur Í Síle og hefur hann síleskan ríkisborgararétt.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A kemur fram að landaupplýsingar um heimaríki A sem stofnunin byggir á og raktar eru í ákvörðun í máli foreldris hans bendi ekki til þess að A verði fyrir meðferð sem nái því alvarleikastigi að geta talist til ofsókna í skilningi 38. gr. laga um útlendinga. Þá telji Útlendingastofnun að fjölskylda A hafi raunhæfan möguleika á því að leita ásjár yfirvalda í Síle telji þau sig þurfa á aðstoð þeirra að halda. Að öðru leyti er ekki að finna umfjöllun um 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er ekki að finna umfjöllun um skilyrði 74. gr. laga um útlendinga í ákvörðun í máli A. Jafnframt liggur fyrir að þar sem kærandi hefur dvalarleyfi í Síle hefur mál hennar hlotið meðferð samkvæmt 36. gr. laga um útlendinga og því er engin umfjöllun um framangreind ákvæði í ákvörðun kæranda. Kærunefnd telur því annmarka vera á ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A og telur að viðhlítandi mat hafi þurft að fara fram á því hvort skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi við í máli hans. Auk þess þurfi að mati kærunefndar að leggja mat á það hvort hann uppfylli skilyrði 74. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

A er barn að aldri í fylgd móður sinnar hér á landi og hafa umsóknir þeirra verið afgreiddar samhliða á grundvelli meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd fyrir hönd barns síns A og hafa umsóknir þeirra verið réttilega afgreiddar á ólíkum lagagrundvelli. Af því leiðir hins vegar að í ákvörðun Útlendingastofnunar vegna umsóknar A bar að taka afstöðu til þess hvort A uppfylli skilyrði 37. og 74. laga um útlendinga og meta stöðu hans sjálfstætt enda ekki um sambærilegt mál að ræða og hjá móður hans. Af þeim sökum telur kærunefnd að kröfum 10. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt við málsmeðferð í máli A.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli A og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á umsókn hans. Þar sem umsóknir kæranda og A hafa verið afgreiddar samhliða telur kærunefnd, í ljósi aldurs A og meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, að mál kæranda skuli einnig sæta nýrri meðferð hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr framangreindum annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda og A hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og A um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barns hennar til meðferðar á ný.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed ro re-examine the cases.

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta