Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Lögreglustjóranum á Suðurnesjum

 

Synjun um endurnýjun ráðningar. Stjórnvald. Mismunun vegna trúar. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun L um að endurnýja ekki ráðningu kæranda í starf landamæravarðar en hann hafði starfað sem slíkur á reynslu í fjóra mánuði. Hélt kærandi því fram að honum hefði verið mismunað á grundvelli trúar, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli trúar við ákvörðunina. Var því ekki fallist á að L hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 10. janúar 2024 er tekið fyrir mál nr. 5/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 4. apríl 2023, kærði A þá ákvörðun Lögreglu­stjórans á Suðurnesjum að synja honum um fastráðningu sem landamæravörður. Af kæru má ráða að kærandi telji að kærði hafi með ákvörðuninni mismunað honum á grundvelli trúar og þar með brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnu­markaði.
  3. Eftir samskipti kærunefndar við kæranda vegna kæruefnisins var kæran kynnt kærða með bréfi, dags. 12. júní 2023. Greinargerð kærða, dags. 21. júní 2023, barst 26. s.m. ásamt fylgigögnum og var kynnt kæranda hinn 27. s.m. Athugasemdir kæranda eru dags. 5. og 26. júlí 2023 og athugasemdir kærða 21. s.m.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærandi, sem er múslimi, var ráðinn til reynslu sem landamæravörður hjá kærða í fjóra mánuði frá 16. nóvember 2022 til 15. mars 2023. Í kjölfar frammistöðumats sem fór fram 1. mars 2023 var hann boðaður á fund 13. mars s.á. þar sem honum var tilkynnt að ráðning hans yrði ekki endurnýjuð.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi heldur því fram að honum hafi verið mismunað á grundvelli trúar þegar kærði synjaði honum um fastráðningu við landamæravörslu. Hafi kærði þar með brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  6. Kærandi tekur fram að hann hafi alltaf verið mjög opinn í samskiptum og sagt samstarfsfólki frá persónulegum högum sínum. Telur hann að lífsskoðun hans og fjölskylduhagir hafi leitt til þess að hann hafi verið settur til hliðar í vinnunni. Hafi hann upplifað mikla fordóma og jafnvel hatursorðræðu innan flugstöðvardeildar kærða í samtölum við samstarfsfélagana.
  7. Kærandi telur að það neikvæða viðhorf sem hann hafi mátt þola í vinnunni hjá kærða sé byggt á Íslamófóbíu, múslimahatri og menningarlegum rasisma. Strax í upphafi hafi hann upplifað neikvætt viðmót gagnvart sér af hálfu samstarfsmanna sem hafi leitt til jaðarsetningar hans innan vinnunnar. Þá hafi hann einnig upplifað neikvætt viðhorf gagnvart múslimum, hælisleitendum og fólki af erlendum uppruna. Telur kærandi að ástæða þess að hann hafi ekki fengið fastráðningu hjá kærða við landamæravörslu sé að hann sé í sambandi við konu sem er hælisleitandi og múslimi, hann hafi búið lengi erlendis, verið giftur konu frá Sádi-Arabíu og tali arabísku.
  8. Kærandi tekur fram að honum hafi liðið illa eftir fund með yfirmanni þar sem fram hafi komið athugasemdir við mætingu hans og framkomu gagnvart samstarfsmönnum. Hann hafi alltaf mætt á réttum tíma fyrir utan eitt skipti þegar hann svaf yfir sig í vinnunni. Bendir hann á að vinnufélagarnir hafi ekki vakið hann jafnvel þótt það hafi verið sagt að þeir ættu að koma fram sem liðsheild. Hafi hann átt að bera ábyrgð á sjálfum sér en samstarfsfélagarnir stutt ötullega við bakið á hver öðrum.
  9. Kærandi tekur fram að hann hafi verið áhugasamur í starfsnáminu. Hann hafi ekki fengið ábendingar varðandi frammistöðu sína. Hann hafi séð frammistöðumatið í fyrsta skipti þegar hann fékk það frá kærunefnd jafnréttismála. Hann hefði sannarlega reynt að bæta sig hefði hann vitað að frammistaðan væri ófullnægjandi. Hann hafi alltaf reynt að vera hluti af liðinu og koma fram við samstarfsfélaga sína af góðsemi og kærleika. Hafi hann haldið að þeir kæmu fram við hann eins og hann við þá. Sú hafi hins vegar ekki orðið raunin.
  10. Kærandi tekur fram að hann hafi reynt allt til að standa sig í starfi. Honum þyki leitt hafi starfsfólkið upplifað hann sem hrokafullan en hann telur sig hafa verið mjög auðmjúkan og reynt eftir bestu getu að læra eins mikið um landamæraeftirlit og hann gat á meðan á starfsnáminu stóð.
  11. Kærandi tekur fram að eftir reynslu sína hjá kærða hafi hann sótt námskeið til að bæta hæfni í samskiptum við annað fólk. Einnig hafi hann þurft að sækja sálfræðitíma þar sem hann hafi reynt að vinna úr neikvæðri upplifun sinni hjá kærða.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  12. Kærði hafnar því að ákvörðun um að endurnýja ekki ráðningu kæranda hafi falið í sér brot á löggjöf um jafnréttismál.
  13. Kærði tekur fram að kærandi hafi, líkt og aðrir landamæraverðir, verið ráðinn til reynslu með tímabundnum ráðningarsamningi. Í samningnum komi fram að gerðar séu kröfur um að starfsmaður standist hæfniskröfur, próf og verkefni sem lögð séu fyrir, sæki sér frekari þekkingu til að takast á við dagleg verkefni og sýni áhuga og aga við störf sín.
  14. Kærði tekur fram að við upphaf tímabundinnar ráðningar fari allir landamæraverðir á námskeið á dagvinnutíma í landamærafræðum á vegum kærða. Að því loknu hefji þeir störf til reynslu í vaktavinnu undir eftirliti og leiðsögn reynslumeiri landamæra­varða til að byrja með. Þá sé notast við frammistöðumat á reynslutímanum sem sé fyllt út af svokölluðum annars stigs landamæravörðum. Í tilfelli kæranda sinnti hann vakta­vinnu frá 21. desember 2022 til 15. mars 2023.
  15. Kærði bendir á að stjórnendur embættisins hafi átt samtal við kæranda 6. mars 2023 í kjölfar kvartana vegna framkomu og vinnubragða hans. Eins og komi fram í saman­tekt um samtalið hafi verið farið yfir ýmis atriði í tengslum við mætingu kæranda til vinnu og framkomu á vinnustaðnum. Þá hafi kærandi verið boðaður í samtal 13. mars 2023 vegna fyrirliggjandi frammistöðumats annars stigs landamæravarða sem er dags. 1. mars 2023. Þar hafi verið farið yfir niðurstöðurnar um að frammistaða kæranda hafi verið ófullnægjandi á reynslutímanum að því undanskildu að mæting hafi verið talin góð og tölvukunnátta fullnægjandi. Allir aðrir liðir hafi verið metnir ófullnægjandi. Hafi honum því verið tilkynnt að tímabundinn ráðningarsamningur hans yrði ekki endurnýjaður.
  16. Kærði tekur fram að hann hafni þeim alvarlegu ávirðingum sem embættið og starfs­menn þess eru bornir í kæru og bendir á að þær séu órökstuddar. Þá bendir kærði á að kærandi hafi í umsóknarferlinu tekið sérstaklega fram að fyrra bragði að hann væri múslimi. Hafi kærði því verið meðvitaður um trú kæranda þegar hann var ráðinn. Hafi trú kæranda því hvorki haft áhrif á ákvörðun um að ráða hann í upphafi til starfa til reynslu né þá ákvörðun að ráða hann ekki áfram.
  17. Kærði áréttar að starfsfólk við embættið sé ráðið óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Staðreynd málsins sé sú að frammistaða kæranda hafi verið langt undir þeim kröfum sem kærði geri til starfsmanna sinna og því hafi tímabundinn ráðningar­samningur hans ekki verið endurnýjaður.

     

     

    NIÐURSTAÐA

     

  18. Af kæru má ráða að mál þetta snúi að því hvort kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun um að endurnýja ekki ráðningu kæranda í starf landamæravarðar. Telur kærandi að honum hafi verið mismunað á grundvelli trúar.
  19. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfs­getu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. við ráðningar, sbr. a-lið sömu málsgreinar. Í 1. mgr. 2. gr. er tekið fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnu­markaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
  20. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Verk­efni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  21. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 er tekið fram að hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna sé óheimil. Jafnframt er tekið fram að fjölþætt mismunun sé óheimil. Sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna um­sækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Í 15. gr. laganna kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að trú hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu.
  22. Í málinu liggur fyrir að kærandi fékk ekki endurnýjun á ráðningu sem landamæra­vörður hjá kærða þegar tímabundinni ráðningu lauk. Af gögnum málsins verður ráðið að ástæða þess að kærandi fékk ekki endurnýjun á ráðningu hafi verið frammistaða hans í starfi. Þá liggur fyrir að hann hafi fundað með yfirmönnum hjá kærða áður en reynslutíma lauk þar sem honum hafi verið gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu að ekki yrði framhald á ráðningu hans í ljósi þess að frammistaða hans hafi verið metin ófullnægjandi. Þá liggur fyrir að kærandi hafi skömmu áður verið upplýstur um óánægju um framkomu hans í starfinu. Samkvæmt því verður, eins og mál þetta liggur fyrir, að telja að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið ákvörðun kærða til grundvallar. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ákvörðunina hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 86/2018.
  23. Samkvæmt því verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mis­munað á grundvelli trúar við ákvörðun um að endurnýja ekki ráðningu kæranda í starf landamæravarðar, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, braut ekki gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun um að endurnýja ekki ráðningu kæranda.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta