Mál nr. 163/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 163/2017
Þriðjudaginn 26. september 2017
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.
Með kæru 30. apríl 2017, B, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júní 2016 um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með örorkumati, 13. júní 2016, féllst stofnunin á að kærandi uppfyllti skilyrði örorkulífeyris frá 1. maí 2016 til 30. júní 2017. Kærandi óskaði upplýsinga um samskipti sín við Tryggingastofnun varðandi umsóknir um örorkulífeyri með tölvupósti 9. desember 2016 og var því erindi svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. desember 2016.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. apríl 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2017, var umboðsmanni kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2017, var framangreint ítrekað við umboðsmann kæranda. Þann 11. og 12. september 2017 bárust nefndinni í tölvupósti skýringar frá umboðsmanni kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma örorkumats verði breytt.
Í kæru kemur fram að upphafstími örorkumats sé 1. júní 2016 og að kærandi sé ósáttur við þá ákvörðun þar sem að hann hafi fyrst sótt um örorkubætur til stofnunarinnar 6. maí 2013. Tryggingastofnun hafi vísað umsókn hans frá 25. júní 2013 þar sem að læknisvottorð hafi vantað með umsókn. Kærandi hafi sótt um að nýju til Tryggingastofnunar 28. maí 2014 en þá hafi læknisvottorð ekki uppfyllt kröfur stofnunarinnar og hafi því umsókn hans verið vísað frá stofnuninni. Í þriðja sinn hafi kærandi sent inn umsókn til Tryggingastofnunar 19. ágúst 2015 en þá hafi stofnunin óskað eftir umsókn frá búsetulandi hans, það er C. Sú beiðni hafi verið dagsett 27. ágúst 2015. Umsókn um örorkulífeyri hafi komið frá samskiptastofnun á C og hafi verið móttekin hjá Tryggingastofnun 3. mars 2016. Stofnunin hafi samþykkt greiðslur örorkulífeyris frá 1. maí 2016.
Kærandi sé afar ósáttur við að greiðsla örorkubóta sé ekki samþykkt tvö ár aftur í tímann eins og Tryggingastofnun sé heimilt að gera. Hann bendir á að á síðu Tryggingastofnunar komi eftirfarandi fram: „mögulegt er að sækja um afturvirkar greiðslur í allt að tvö ár ef sýnt er fram á að sjúkdómur, slys eða fötlun var til staðar á því tímabili. Réttindi eru metin út frá læknisvottorði.“
Kærandi hafi fengið 100% örorkulífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóði sínum frá 1. apríl 2013. Óskað sé eftir því að er örorkulífeyrir verði að minnsta kosti greiddur frá þeim degi sem umsókn hans hafi borist Tryggingastofnun eða frá 19. ágúst 2015.
Í skýringum umboðsmanns kæranda kemur fram að kærandi sé búsettur á C og hafi ekki getað einbeitt sér að málinu í veikindum sínum þar sem hann hafi verið í krabbameinsmeðferð.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2016, þar sem kæranda var ákvarðaður upphafstími örorkulífeyris 1. maí 2016.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega níu mánuðir frá því að umboðsmanni kæranda, D, var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 13. júní 2016, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. apríl 2017. Miðað við framlögð gögn verður að ganga út frá því að kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar hafi verið liðinn þegar kæran var borin fram.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 13. júní 2016 var umboðsmanni kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí og 20. júlí 2017, var umboðsmanni kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með tölvubréfum, dags 11. og 12. september 2017, var greint frá ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þar kemur fram að kærandi sé búsettur á C og vegna veikinda og krabbameinsmeðferðar hafi hann ekki getað einbeitt sér að fylgja málinu eftir.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru búseta kæranda erlendis og veikindi ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var tilkynnt umboðsmanni kæranda sem hafði það hlutverk að gæta hagsmuna kæranda. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir