Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/1998

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 5/1998:

A
gegn
Skógrækt ríkisins

-------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 11. desember 1998 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 20. apríl 1998 óskaði A, náttúrufræðingur, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning B í stöðu forstöðumanns Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins í febrúar 1998 bryti gegn ákvæðum l. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislög).

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Skógrækt ríkisins um:
1. Hvar og hvenær starf forstöðumanns Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins var auglýst laust til umsóknar.
2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
3. Hvernig staðið var að ráðningu í starfið.
4. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var ásamt afriti af umsókn hans.
5. Hvað réð vali á milli umsækjenda.
6. Skipurit stofnunarinnar þar sem fram kæmu æðstu stöður innan hennar.
7. Kyn þeirra sem gegna æðstu stöðum innan stofnunarinnar.
8. Afstöðu Skógræktar ríkisins til erindis kæranda.
9. Annað það sem stofnunin vildi koma á framfæri og teldi til upplýsingar fyrir málið.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra dags. 20. apríl 1998 ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf Skógræktar ríkisins dags. 26. maí 1998 ásamt fylgigögnum.
3. Svarbréf kæranda dags. 11. júní 1998 ásamt fylgigagni.
4. Bréf Skógræktar ríkisins dags. 12. október 1998.
5. Svarbréf kæranda dags. 9. nóvember 1998.

Kærandi málsins kom á fund kærunefndar 3. september 1998. Kærði óskaði ekki eftir að mæta á fund nefndarinnar.

Starf forstöðumanns Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins (RSr) var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 21. jan. 1998 og Nýjum Degi 22. jan. 1998. Í auglýsingunni sagði m.a.: "Forstöðumaður fer með stjórn og ber ábyrgð á framkvæmdum rannsóknasviðs Skógræktar ríkisins, faglega og fjárhagslega. Samhæfir störf sérfræðinga og annarra rannsóknamanna. Ber ábyrgð á samskiptum út á við varðandi rannsóknir. Menntun, doktorspróf í náttúruvísindum."

Þrír umsækjendur voru um starfið, tveir karlar og kærandi. Annar karlanna, B, var ráðinn.

Kærandi málsins, A, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1977. Hún lauk B.Sc. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1981 og M.Sc. prófi í líffræði frá Montana State University 1984. Árið 1991 lauk hún doktorsprófi í vistfræði landnýtingar frá Texas A&M University. fiá hefur hún sótt ýmis námskeið, m.a. á vegum Endurmenntunarstofnunar H.Í.

A starfaði sem rannsóknamaður hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins 1977-78 og var í sumarvinnu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 1981. Árin 1983-1986 var hún aðstoðarsérfræðingur við Rannsóknastofnun landbúnaðarins þar sem hún vann m.a. að þróun aðferða við mat á ástandi beitilanda og við uppgræðslutilraunir á Blönduvirkjunarsvæðinu. Hún var aðstoðarmaður við rannsóknir við "Department of Range Science" við Texas A&M University 1987 og frá 1988-1990 stundaði hún rannsóknir við sömu stofnun á vistfræði birkis og notkun þess í landgræðslu í samvinnu við Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins. Frá 1990 hefur hún starfað sem sérfræðingur við RSr og felst starf hennar m.a. í að stýra rannsóknum á sviði landgræðsluskógræktar og rannsóknum á vistfræði birkis og birkiskóga.

Hún hefur verið stundakennari við jarð- og landfræðiskor H.Í., við líffræðideild Texas A&M University, við Kennaraháskóla Íslands og við líffræðideild Montana State University. fiá hefur hún einnig kennt á endurmenntunarnámskeiðum á vegum ýmissa aðila, m.a um skógrækt, landgræðslu og beitarfræði.

A hefur tekið þátt í ýmiss konar alþjóðlegu samstarfi frá 1988, setið í stjórn Náttúruverndar ríkisins frá 1986 og verið varafulltrúi starfsmanna í fagráði Mógilsár. Hún hefur skrifað greinar bæði í innlend og ritrýnd erlend tímarit og ýmsar skýrslur, m.a. á sviði skógræktar. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda erlendra og innlendra ráðstefna á sviði skógræktar og skrifað í ráðstefnurit.

B lauk B.Sc. prófi í skógfræði frá University of Alberta í Edmonton í Kanada árið 1986 og doktorsprófi í skógfræði með sérmenntun á sviði erfðafræði við Sveriges Landbruksuniversitet í Umeå í Svíþjóð árið 1992.

B starfaði við skógræktarstörf á sumrum árin 1980-1986, m.a. að skógræktar-rannsóknum. Hann starfaði sem lausráðinn aðstoðarmaður á tilraunastofu við Sveriges Landbruksuniversitet með doktorsnámi sínu 1987-1991. Frá 1991 hefur hann starfað sem sérfræðingur í skógerfðafræði við RSr þar sem hann ber m.a. ábyrgð á fjölda rannsóknaverkefna á sviði tegundarannsókna, kvæmarannsókna, rannsókna á erfðafræði og kynbótum trjáa auk almennra rannsóknaverkefna í skógrækt.

Hann hefur setið í ritstjórn "Scandinavian Journal of Forest Research" sem aðstoðar vísindaritstjóri fyrir greinar á sviði skógerfðafræði, setið í stjórn Héraðsskóga frá 1997 og verið fastafulltrúi Íslands í vinnuhópi samstarfsnefndar um Norrænar skógræktar-rannsóknir (SNS) á sviði skógerfðafræði og trjákynbóta. fiá er hann meðlimur í Skógræktarfélagi Íslands og Gróðurbótafélaginu, sem er samstarfsvettvangur rannsóknastofnana um eflingu lífbreytileika í landgræðslu og skógrækt.

B hefur skrifað fjölda greina í innlend og erlend tímarit bæði ritrýnd og óritrýnd, einn og í samstarfi við aðra.

Í erindi kæranda segir að fagráð RSr hafi kallað alla umsækjendur í viðtal og að þeim loknum hafi ráðið mælt með ráðningu B í starfið og í framhaldi af því hafi skógræktarstjóri ráðið hann. fiegar ljóst var hver ráðinn yrði í stöðuna hafi hún óskað upplýsinga frá skógræktarstjóra og fagráði um hvaða forsendur legið hafi til grundvallar ákvörðun þeirra og að sérstaklega yrði gerð grein fyrir með hvaða rökum hafi verið valið milli hennar og B. Í svari skógræktarstjóra hafi komið fram að hann hafi óskað eftir því við fagráð að það fjallaði um umsóknirnar að nýju, gerði tillögur um ráðningu og tilgreindi forsendur fyrir niðurstöðunni. Fagráð hafi fundað að nýju 27. febrúar og ítrekað fyrri niðurstöðu sína og skógræktarstjóri fallist á forsendur ráðsins. Í fundargerð ráðsins hafi komið fram ýmsar upplýsingar um menntun og starfsferil B en ekki hafi verið gerður neinn samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda.

Kærandi vekur athygli á að framhaldsnám hennar eftir B.Sc. próf í líffræði sé á sviði vistfræði og landnýtingarfræða. fiessar greinar nýti þekkingu frá mörgum mismunandi fræðigreinum og séu því góður undirbúningur fyrir stjórnunarstarf á sviði rannsókna, einkum þar sem starfið byggist á samstarfi vísindamanna með mismunandi bakgrunn og mikilli samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir. Þá hafi doktorsverkefni hennar fjallað um vistfræði íslenska birkisins með hliðsjón af notkun þess í landgræðsluskógrækt. Starfssvið hennar innan RSr hafi fyrst og fremst verið á sviði landgræðsluskógræktar, vistfræði og rannsókna á íslensku birkiskógunum. Landgræðslu- og landbótaskógrækt hafi verið vaxandi þáttur í skógrækt hér á landi undanfarinn áratug og verði líklega enn mikilvægari í framtíðinni, m.a. vegna aukinnar umhverfisvitundar þjóðarinnar. Verndun og friðun birkiskóganna hafi verið snar þáttur í starfsemi Skógræktar ríkisins frá upphafi og lögð hafi verið áhersla á þennan þátt í skógræktarlögum frá því fyrstu íslensku lögin um skógrækt hafi verið sett árið 1907.

Í starfi sínu hjá RSr hafi hún stýrt stórum rannsóknaverkefnum og sé vön að samræma vinnu sérfræðinga, innan stofnunar og utan. Hún hafi aflað styrkja til rannsókna-verkefna, gert kostnaðaráætlanir og séð til þess að þeim væri framfylgt. Þá hafi hún ágæta innsýn í stóran hluta þeirra verkefna sem unnið hafi verið að við RSr á undanförnum árum, ýmist vegna beinnar þátttöku eða vegna ráðgjafar við úrvinnslu gagna úr þeim. Hún hafi birt mikið af rannsóknaniðurstöðum í skýrslum og fræðiritum. Undanfarin ár hafi hún unnið að stórum rannsóknaverkefnum sem nú hilli undir verklok á og muni niðurstöður þeirra verða kynntar á þessu ári og því næsta. Hún hafi haldið marga fyrirlestra um rannsóknir sínar, m.a. á vettvangi áhugamannafélaga um skógrækt og landgræðslu og hafi auk þess kennt á allnokkrum endurmenntunarnámskeiðum.

Kærandi bendir á að engin kona gegni stjórnunarstöðu hjá Skógrækt ríkisins og fáar konur séu í stjórnunarstöðum hjá öðrum stofnunum er heyri undir landbúnaðarráðuneytið. Skógræktarstjóri fari með ráðningarvaldið, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 4. gr. reglna nr. 290/1990 um stjórn og verksvið RSr á Mógilsá, geri fagráð tillögu um ráðningu forstöðumanns. Álit fagráðs sé því leiðbeinandi en ekki bindandi fyrir skógræktarstjóra. Honum beri að meta hæfni umsækjenda sjálfstætt og byggja ákvörðun sína um ráðningu á lögmætum og málefnalegum grunni. Af 43. fundargerð fagráðs megi ráða að efni doktorsverkefnis B hafi ráðið úrslitum við ákvörðun um ráðningu "þar sem kynbætur og erfðarannsóknir þeim tengdar munu ávallt vera áhersluatriði í starfi rannsóknastöðvarinnar" eins og í fundargerðinni segi. Í 5. gr. reglna nr. 290/1990 sé kveðið á um verksvið forstöðumanns, en það sé að hafa á hendi daglega stjórn rannsóknastöðvarinnar og umsjón með rekstri hennar. Í 2. gr. sömu reglna sé tilgreint að rannsóknir á erfðum trjáa og kynbætur séu eitt af sex helstu viðfangsefnum stöðvarinnar en hvergi komi fram að þær séu aðalviðfangsefni hennar.

Kærandi leggur áherslu á að við mat á hæfni umsækjenda skorti málefnalegan rökstuðning fyrir því hvers vegna horft hafi verið fram hjá lengri starfsreynslu hennar við rannsóknavinnu og verkstjórn við rannsóknir, öflun allmikilla styrkja til rannsókna, sem krefjist m.a. góðra vinnubragðra við gerð kostnaðaráætlana, meiri reynslu af kennslu og uppbyggingu námsefnis og meiri reynslu af þátttöku í innlendu og alþjóðlegu samstarfi.

Í auglýsingu um starfið hafi verið krafist doktorsprófs í náttúruvísindum. Grunnmenntun í skógfræði hafi ekki verið gerð að skilyrði. Ef svo hafi verið, hefði átt að geta þess í auglýsingu um starfið sbr. reglur fjármálaráðuneytisins um auglýsingar á lausum störfum nr. 464/1996, sem settar hafi verið með stoð í 7. gr. starfsmannalaganna.

Í svari skógræktarstjóra segir að umsækjendur hafi verið þrír, tveir karlar og ein kona. Samkvæmt skipuriti stofnunarinnar sé ein kona í stjórnunarstöðu hjá stofnuninni, yfirmaður Skógarþjónustu Norðurlands, en hún sé fyrsta skógfræðimenntaða konan á Íslandi. Fjallað hafi verið um ráðninguna á tveimur fagráðsfundum. Allir umsækjendur hafi verið taldir hæfir en meistaragráða (svo) B í skógfræði og þar með innsýn í öll svið skógræktar hafi gert hann hæfastan til að veita RSr forstöðu. Grunnmenntun í skógrækt taki til allra þátta skógræktar en grunnmenntun í líffræði ekki. Menntun og færni hafi ráðið úrslitum við ráðningarmál stofnunarinnar en staðreyndin sé sú að mjög fáar konur hafi enn sem komið er lokið skógfræðimenntun.

Í fundargerð fagráðs frá 27. febrúar þar sem fjallað var öðru sinni um ráðninguna segir:

"Menntunarferill B er glæsilegur. Sérsvið hans fellur einkar vel að þeim verkefnum sem rannsóknastöðinni er ætlað að sinna samkvæmt ákvæðum í reglum um stjórn og verksvið Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá nr. 290 4. júlí 1990. Kandidatspróf (svo) B er í skógfræði frá háskólanum í Edmonton í Kanada sem nýtur álits á sviði skógræktar. Framhaldsnám til doktorsprófs stundaði B við skógræktardeild sænska landbúnaðarháskólans í Umeå í Norður-Svíþjóð. Doktorsverkefni B sameinar það að fjalla um þróun og beitingu nýjustu þekkingar í erfðatækni jafnframt því að fjalla um samspil erfða og umhverfis (þróun) í greni. Skógrannsóknadeildin í Umeå nýtur mikillar virðingar fyrir vísindi sín og hefur lagt áherslu á rannsóknir sem lúta að aðlögun trjáa að umhverfinu einkum á mörkum útbreiðslu tegunda.  Þessir þættir skipta verulegu máli í rannsóknastarfi í þágu skógræktar á Íslandi sem byggir að mestu leyti á notkun innfluttra tegunda. Kynbætur og erfðarannsóknir þeim tengdar munu því ávallt vera áherslu atriði í starfi rannsóknastöðvarinnar."

Ennfremur segir að B hafi verið mjög öflugur og markviss í rannsóknastarfi sínu og stundað viðamiklar rannsóknir sem skipti skógrækt á Íslandi miklu og muni stuðla að auknu ræktunaröryggi. fiá hafi hann verið ötull við að birta niðurstöður sínar í rituðu máli og kynna þær meðal áhugamannafélaga um skógrækt sem séu burðarásar í skógræktarstarfi á Íslandi.

Í fundargerð fagráðs kemur fram að einn fundarmanna telji að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til stjórnunarreynslu við val á milli umsækjenda.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. msar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Þessi forgangsregla er grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Í auglýsingu um starfið voru gerðar kröfur um doktorspróf í náttúruvísindum. Bæði uppfylla það skilyrði. Það er álit kærunefndar að lýsing á menntunarkröfum í auglýsingu um starfið girði ekki fyrir, að ein tegund menntunar í náttúruvísindum verði tekin fram yfir aðra, séu fyrir því gild rök.

Af hálfu Skógræktar ríkisins hefur því verið haldið fram að grunnmenntun þess sem ráðinn var í skógfræði hafi ráðið úrslitum við valið. Kærunefnd óskaði þess sérstaklega að Skógrækt ríkisins gerði nefndinni ítarlega grein fyrir því að hvaða leyti menntun hans gerði hann hæfari en kæranda til að gegna starfinu og með hvaða hætti menntun hans nýttist betur til starfsins en menntun og starfsreynsla kæranda. Í svari skógræktarstjóra segir eingöngu um þetta atriði: "Fram kemur í bréfi fagráðs að það meti það svo að grunnmenntun í skógfræði henti betur fyrir aðila sem veitir rannsóknastöð í skógrækt forstöðu heldur en grunnmenntun í líffræði. Grunnmenntun í skógrækt tekur til allra þátta skógræktar sem grunnmenntun í líffræði gerir ekki."

Sá, sem ráðinn var, fékk lofsamleg ummæli í fundargerð fagráðs frá 27. febrúar 1998, að fram kominni beiðni kæranda um rökstuðning. Þar er hins vegar ekki að finna neina umfjöllun um hæfni kæranda eða samanburð á hæfni þeirra. Þá er álitið aðeins leiðbeinandi fyrir skógræktarstjóra.

Að þessu virtu verður ekki talið að álit fagráðs létti af skógræktarstjóra þeirri skyldu sinni að gæta ákvæða jafnréttislaga. Skógrækt ríkisins þykir því ekki hafa fært að því fullnægjandi rök að sá sem ráðinn var standi kæranda framar hvað varðar menntun eða að menntun hans nýtist betur í starfinu en menntun kæranda.

Starfsreynsla þeirra er svipuð, bæði hafa starfað sem sérfræðingar við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins frá því þau luku námi, hún frá árslokum 1990 en hann frá árinu 1991. Stjórnunarreynsla hennar virðist ívið meiri en hans. Greinaskrif hans virðast heldur meiri en hennar.

Verður ekki séð af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að sá sem ráðinn var búi yfir öðrum sérstökum hæfileikum umfram kæranda. Að teknu tilliti til menntunar, starfsreynslu og fræðistarfa er það álit kærunefndar að kærandi sé a.m.k. jafn vel að starfinu kominn og sá sem ráðinn var.

Við úrlausnina verður því að líta til forgangsreglu 1. tl. 5. gr. jafnréttislaga. Upplýst er að nær allar æðstu stöður hjá Skógrækt ríkisins eru skipaðar körlum. Skógræktinni bar því að skipa kæranda í stöðuna til þess að fullnægja skyldu sinni samkvæmt jafnréttislögum.

Með vísan í framangreint er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf forstöðumanns Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins hafi verið brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, l. nr 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til Skógræktar ríkisins að fundin verði viðunandi lausn á málinu.
 


Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta