Mál nr. 454/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 454/2023
Mánudaginn 11. desember 2023
A
gegn
barnaverndarþjónustu B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með kæru, dags. 21. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir barnaverndarþjónustu B, dags. 5. september 2023, um að loka málum samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna barna kæranda , C og D.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan, C er X ára gömul dóttir kæranda og drengurinn, D, er X ára gamall sonur kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar, dags. 21. febrúar 2023, samkvæmt 17. gr. bvl.
Í ódagsettum greinargerðum barnaverndarþjónustu B um könnun málanna kemur fram að á fundi barnaverndarþjónustunnar þann 10. janúar 2023 hafi verið ákveðið að hefja könnum vegna tilkynninga sem vörðuðu vanrækslu um umsjón og eftirlit (áfengis og fíkniefnaneyslu).
Að undangenginni könnun var mál barnanna tekið fyrir hjá starfsmönnum barnaverndarþjónustu B 5. september 2023 og var niðurstaðan sú að það væri mat starfsmanna að ekki væri þörf á frekari afskiptum af hálfu þjónustunnar og því hafi málinu verið lokað. Hin kærða ákvörðun um lokun málsins er dags. 5. september 2023.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. september 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. október 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu B barst nefndinni með bréfi, dags. 25. október 2023. Með bréfi, dags. 26. október 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að barnaverndarþjónusta B hafi haft til meðferðar mál sem varði kæranda, börnum hennar og föður þeirra sem sé búsettur á E en kærandi sé búsett á F.
Kærandi kveðst alls ekki sammála því að málinu skuli lokað. Í sömu viku og þjónustan ákváðu að loka málinu bárust einnig tvær tilkynningar um neyslu föður í kringum börnin og þar steig haldbært vitni af neyslu fram og sagði frá að faðir hafi verið út úr dópaður í kringum börnin og í það annarlegu ástandi að geta ekki hugsað um þau. Kærandi kveðst hafa lagt til að barnavernd tæki þvagpróf af föður en þau hafi neitað að gera svo og taki eingöngu svo kölluð munnstrokupróf sem séu einnig notuð af lögreglunni. Kærandi telji að þessi munnstrokupróf sé hægt að falsa með því að drekka slatta af sítrónusafa eða skola munninn með honum áður en prófið sé tekið. Kærandi kveðst hafa upplýsingar um að faðir barnanna hafi gert svo og því hafi hún beðið þjónustuna ítrekað um að taka þvag eða blóðprufur af honum til að tryggja velferð barnanna í umgengni. Starfsmaður félagsþjónustu og barnaverndar í G hafi sagt það vera of erfitt því þá þyrfti karlmaður að koma með henni og standa yfir honum. Kærandi telur í fyrsta lagi að umræddur starfsmaður sé óhæf að sinna málinu vegna þess að hún sé tengd inn í fjölskyldu barnsföður og sé vinkona föður hans. Hún hafi verið kölluð frænka af þessu fólki og virðist því vera tengd þeim einhverjum blóðböndum. Hún búi í sama bæjarfélagi og barnsfaðir og hafi umgengist hann frá barnsaldri og hans fjölskyldu. Kærandi telji að málið hafi ekki verið rétt unnið að þar sem umræddur starfsmaður hafi komið að málinu. Að mati kæranda ætti umræddur starfsmaður að stíga til hliðar við meðferð málsins. Það séu aðrir starfsmenn innan barnaverndarþjónustunnar sem séu hæfir til að sinna málinu.
Kærandi telji að ekki hafi verið rétt að fylgja ekki eftir tilkynningum er varði fíkniefnanotkun föður í kringum börnin í umgengni. Þá hafi kærandi sent tilkynningu fyrir hönd sonar hennar þar sem hann neiti að fara til föður síns eftir þessa ferð og hafi liðið mjög illa í eftir umgengni hjá honum í langan tíma.
Kærandi kveðst hafa þurft að grípa sjálf inn í og senda ekki börnin til hans vegna þess að barnaverndarþjónustan vilji ekki vernda börnin fyrir vanvirðandi og hættulegri háttsemi hans, eins og tilkynnt hafi verið og ákveða að fylgja tilkynningunum ekki eftir. Kærandi telji að sonur hennar sé ekki að ljúga að henni, hann hafi verið hræddur. Auk þess hafi einstaklingur staðfest frásögn barnsins og sent inn tilkynningu.
III. Sjónarmið barnaverndarþjónusta B
Í greinargerð barnaverndarþjónustunnar kemur fram að þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti þá ákvörðun barnaverndarþjónustu B frá 5. september 2023 að loka barnaverndarmáli.
Um málsatvik vísast til framlagðra gagna málsins m.a. greinargerða þar sem málsatvik séu rakin í tímaröð. Í gögnunum sé vinnslu málsins og aðgerðum ítarlega lýst. Rétt sé hins vegar að draga saman í greinagerð þessari helstu atriði málsins, sem máli kunna að skipa við úrlausn þess.
Meðferð málsins spanni nokkuð langt tímabil en barnaverndarþjónustan leggi áherslu á að í framhaldi af tilkynningum sem bárust í janúar 2023 hafi verið ráðist í ítarlega könnun á núverandi stöðu barnanna. Hún hafi staðið fram á sl. sumar og leitt til hinnar kærðu ákvörðunar. Það séu því einkum nýleg gögn vegna ítarlegrar könnunar máls á núverandi stöðu málsins sem máli skipta varðandi lokun málsins.
Mál tengd kæranda, barnsföður hennar og börnum þeirra, hafa lengi verið í vinnslu hjá barnaverndarþjónustunni. Fyrst á árinu 2018 en því máli hafi verið lokað í desember sama ár. Könnun máls hófst að nýju í október árið 2021 og hafi verið til meðferðar síðan, þar til ákvörðun hafi tekin um lokun máls 5. september 2023. Á því tímabili hafi ítrekað verið rætt við foreldra, unnið eftir meðferðaráætlun fyrir föður, farið í óboðað eftirlit á heimili föður, fíkniefnapróf tekin og kallað eftir umsögnum viðeigandi aðila.
Ítrekaðar tilkynningar hafa borist frá kæranda og aðilum tengdum henni þar sem tilkynnt sé um áhyggjur af andlegu ástandi föður, neyslu o.fl. Af gögnum málsins megi sjá að deilur foreldra um umgengni hafi staðið með hléum frá árinu 2018. Kærandi hafi ítrekað fundið að því að barnaverndarþjónustan stöðvi ekki umgengni föður. Starfsmenn barnaverndarþjónustunnar hafi leiðbeint foreldrum um að ákvörðun um umgengni sé ekki á forræði hennar og þeim leiðbeint um hvert þau ættu að snúa sér í þeim efnum.
Eins og sjá megi af gögnum málsins hafi barnaverndarþjónustan fylgt málinu eftir m.a. með óboðuðu eftirliti og fíkniefnaprófum af föður, allt fram á sumarið 2023. Könnun máls vegna tilkynninga hafi ekki leitt til beitinga sérstakra úrræða gagnvart föður. Fíkniefnapróf hafi í öllum tilfellum verið neikvæð og ástand á heimili föður verið metið gott, svo og tengsl hans við börnin, bæði af starfsmönnum barnaverndarþjónustunnar og utanaðkomandi aðilum.
Á árinu 2023 hafi verið kallað eftir umsögn frá skóla, heilsugæslu og félagsráðgjafi (utanaðkomandi verktaki í barnavernd) fenginn til að ræða við foreldra, börnin og taka út aðstæður á heimilum foreldra. Rætt hafi verið við foreldra á heimilum þeirra og við börnin í skóla og á heimilum foreldra að foreldrum viðstöddum. Niðurstöður þeirrar könnunar bentu til að aðstæður á hvoru heimili fyrir sig virtust vel viðunandi með tilliti til umsjónar, eftirlits og umhirðu barna. Engar vísbendingar séu um neyslu efna eða áfengis á heimilum, hvorki móður né föður. Samskipti barna við móður og föður teljast eðlileg. Tengsl barna við föður virðast eðlileg og samskipti þeirra á milli jákvæð og ekki sé hægt að greina merki um óöryggi og ótta í hegðun eða vanlíðan í samskiptum barna við föður. Merki um vanlíðan og óöryggi barna virðast fyrst og fremst tengjast samskiptum foreldra og vanlíðan foreldra í þeim aðstæðum og komi m.a. fram í því að börnin eiga erfitt með að tjá sig um samskipti foreldra og forðast að ræða þau.
Við vinnslu málsins hafi verið aflað nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barna og metin þörf fyrir úrræði barnaverndarlaga. Af gögnum máls að dæma sé ekki ástæða til að ætla að um vanrækslu varðandi umsjón, eftirlit eða umhirðu sé að ræða, hvorki að hálfu föður né móður og aðstæður barna vel viðunandi á heimilum beggja foreldra. Engin ummerki hafa fundist um neyslu áfengiseða fíkniefna hjá hvorugu þeirra, sem bent gæti til að börnum sé hætta búin. Tengsl barna við foreldra séu metin góð og engin merki um ótta, óöryggi eða vanlíðan tengt samskiptum við foreldra.
Á framangreindum forsendum hafi málinu verið lokað þann 5. september 2023 og foreldrum boðin ráðgjöf hjá fagaðila á forsendum félagsþjónustu sem laut að því að þau bæti samskipti sín á milli um það sem varða börnin, auk þess sem foreldrum hafi verið leiðbeint um samþættingu þjónustu samhliða tilkynningu um lok máls.
Þann 30. ágúst 2023, rétt áður en formlega hafi verið gengið frá ákvörðun um lokun máls á fundi barnaverndarþjónustunnar, barst tölvupóstur frá kæranda. Óskaði kærandi eftir að tölvupóstur hennar yrði bókaður undir málið. Í tölvupóstinum rakti kærandi sögusagnir af neyslu barnsföður síns. Þá viðhafði kærandi óviðurkvæmilegar lýsingar á sögum um meinta kynhneigð og kynhegðun hans. Í ljósi langrar sögu málsins og ítarlegrar könnunar barnaverndarþjónustunnar á tilkynningum kæranda sama eðlis hafi, að mati barnaverndarþjónustunnar, ekki verið tilefni til að grípa til frekari aðgerða eða könnunar vegna þessa tölvupósts. Voru þær heimildir sem kærandi vitnaði til í tölvupósti sínum ekki metnar áreiðanlegar og virtust lýsingar byggðar á sögusögnum sem komu ekki heim og saman við upplifun þeirra starfsmanna barnaverndarþjónustunnar, sem höfðu unnið að málinu.
Kærandi málsins hafi þann 14. nóvember 2022 kvartað til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála yfir vinnslu málsins. Í áliti Gæða- og eftirlitsstofnunarinnar, sem lá fyrir þann 3. október 2023, sé vissulega komist að þeirri niðurstöðu að tiltekinn misbrestur hafi orðið við vinnslu mála kæranda. Þar hafi verið um að ræða annmarka varðandi formhlið málsins s.s. vegna þess að skort hafi á skráningar og vantað hafi upp á upplýsingagjöf til kæranda. Þær athugasemdir verði að sjálfsögðu teknar til skoðunar af hálfu barnaverndarþjónustunnar og verklag bætt. Hvað efnishlið málsins varðar sé hins vegar rakið í álitinu að Gæða- og eftirlitsstofnunin telji að aðgerðir og eftirlit barnaverndarþjónustunnar hafi verið í samræmi við bæði rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sbr., 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi Gæða- og eftirlitsstofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri séð að fullyrðingar kæranda um að litið hafi verið fram hjá tugum tilkynninga væru réttar og ekki væri rétt að málið hafi ekki verið athugað m.t.t. fíkniefnaneyslu föður.
Samandregið megi segja að málatilbúnaður kæranda samkvæmt kæru til úrskurðarnefndarinnar byggi á þremur sjónarmiðum. Í fyrsta lagi virðist byggt á því að ekki hafi verið tekið tillit til tilkynninga sem bárust sömu viku og málinu hafi verið lokað. Í annan stað að þau fíkniefnapróf sem barnavernd notist við í tengslum við könnun máls séu ófullnægjandi. Í þriðja lagi að starfsmaður barnaverndar sé „óhæf“ og virðist þar vísað til vanhæfis vegna fjölskyldutengsla.
Um tölvupóst kæranda dags. 30. ágúst 2023 hafi þegar verið fjallað. Samkvæmt faglegu mati barnaverndarþjónustunnar hafi innihald hans og upplýsingar, ekki gefið tilefni til frekari viðbragða og upplýsingaöflunar. Sú ákvörðun hafi tekin út frá heildstæðu mati á málinu öllu og fyrirliggjandi upplýsingum. Þá hafi barnaverndarþjónustunni borist tölvupóstur frá kæranda þann 24. september 2023 eftir að máli því sem kæra þessi lýtur að hafi verið lokað, virðist kærandi hafa sent úrskurðarnefndinni þann tölvupóst með kæru sinni. Í viðhengi með tölvupóstinum hafi verið hljóðskrá þar sem, að sögn kæranda, megi heyra barnsföður hennar og nafngreinda konu kaupa fíkniefni s.l. sumar. Hljóðskráin sé ódagsett og samklippt. Samkvæmt upplýsingum barnaverndarþjónustunnar hafi hin nafngreinda kona verið inniliggjandi á spítala allt s.l. sumar. Það hafi verið því mat barnaverndarþjónustunnar að í öllu falli bendi flest til þess að um gamalt gagn sé að ræða. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga leiddi þessi sending kæranda ekki til þess að rökstuddur grunur væri uppi um að nauðsynlegt væri að hefja könnun máls á ný og sé sú ákvörðun ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar sbr. 3. mgr. 21. gr. bvl.
Hvað fíknipróf barnaverndarþjónustunnar varðar þá hafa við meðferð málsins bæði verið tekin þvagprufupróf og strokupróf af föður, til að fylgja eftir tilkynningum frá kæranda. Strokuprófin séu þau sömu og lögregla notar í störfum sínum og tíðkast að nota í starfsemi barnaverndarþjónustu um land allt. Fíknipróf í málinu hafi öll reynst neikvæð, hvort sem þau hafi verið framkvæmd af lögreglu, heilsugæslu eða starfsmanni barnaverndar.
Rétt sé að upplýsa að langamma barnsföður kæranda og amma málastjóra málsins voru systur, en hvorug þeirra lifir. Því sé ljóst að málastjórinn hafi ekki verið vanhæfur í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna þeirra fjölskyldutengsla. Þá séu engin samskipti milli fjölskyldu barnsföður kæranda og málastjórans sem skapa aðstæður sem væru til þess fallnar til að draga óhlutdrægni málastjórans í efa í skilningi 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Enn fremur sé bent á að ákvörðun um lokun málsins hafi ekki verið tekin af málastjóranum heldur hafi hún tekin á fundi barnaverndarþjónustunnar. Gætt hafi verið að hæfi við meðferð málsins í hvívetna. Ljóst sé að barnaverndarþjónustan á þessu landsvæði yrði vart starfshæf ef vanhæfi teldist til staðar við þessar aðstæður, sem kærandi hafi fundið að í kæru sinni. Við þetta megi bæta að kærandi hefur sjálf kosið að beina flestum tölvupóstum sínum og erindum til málastjórans en henni hafi staðið til boða að koma upplýsingum á framfæri við barnaverndarþjónustuna í gegnum aðrar boðleiðir.
Samkvæmt 5. mgr. 21. gr. bvl. skal barnaverndarþjónusta ekki hefja könnun máls nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. skal barnaverndarþjónusta sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá komi fram í 2. mgr. sömu greinar að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Samkvæmt 22. gr. bvl. sé það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns.
Það liggi í hlutarins eðli að þeir starfsmenn barnaverndarþjónustunnar sem séu í beinum samskiptum við foreldra, börn og aðra sem að málinu koma séu best til þess fallnir að leggja mat á hvað telst upplýst í málinu og hvort þörf sé á beitingu sérstakra úrræða. Á það ekki síst við þegar tilkynningar byggjast á sögusögnum þar sem vísað er til misáreiðanlegra heimilda.
Eins og að framan hafi verið rakið hafa ítrekaðar tilkynningar borist frá kæranda og nánum aðstandendum hennar á meðan könnun máls stóð yfir. Málinu hafi verið fylgt eftir í lengri tíma og rannsakað. Meðferð málsins hafi vissulega dregist, nú síðast m.a. vegna þess að beðið hafi verið lengi eftir upplýsingum frá heilsugæslu. En það sé mat barnaverndarþjónustunnar að á þessum tímapunkti sé málið nægilega upplýst og ekki þörf á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt barnaverndarlögum.
Að baki hinni kærðu ákvörðun bjó lögformleg málsmeðferð og byggði niðurstaðan á málefnalegum sjónarmiðum og niðurstöðu ítarlegrar skoðunar á því hvort að eitthvað sé hæft í þeim ásökunum sem settar hafi verið fram í tilkynningum til barnverndarþjónustunnar. Aðstæður barnanna hafi verið rannsakaðar ítarlega og málinu fylgt eftir. Meðalhófsreglan sé ein af grunnreglum barnaverndarstarfs og gildi hún gagnvart foreldrum en ekki síst gagnvart börnunum en það geti verið mjög íþyngjandi fyrir þau að þriðji aðili sé með afskipti af þeirra daglega lífi, sérstaklega eftir því sem þau verði eldri. Af gögnum málsins sé ljóst að foreldrar eiga í deilum sín á milli um ýmis atriði varðandi börnin. Það sé hins vegar ekki á forræði barnaverndarþjónustunnar að leysa þær deilur og þær geta ekki verið ástæða þess að halda barnaverndarmálinu í vinnslu. Foreldrar barnanna beri forsjárskyldur gagnvart börnunum.
Samkvæmt framansögðu telur barnverndarþjónustan að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 og öll málsmeðferð í málinu hafi verið í samræmi við lögin. Í það minnsta hafi ekkert komið fram sem bendir til að annmarkar á meðferð þess leiði til þess að vísbendingar séu uppi um að ákvörðunin sé efnislega röng. Komi fram nýjar upplýsingar eða tilkynningar sem gefa til kynna að ástand hafi breyst mun barnaverndarþjónustan að sjálfsögðu bregðast við með því að hefja könnun máls, ef rökstuddur grunur er um að tilefni sé til þess í skilningi 4. mgr. 21. gr. bvl.
IV. Niðurstaða
Stúlkan, C er X ára gömul dóttir kæranda og drengurinn, D, er X ára gamall sonur kæranda. Mál barnanna hófst í kjölfar tilkynninga sem bárust barnaverndarþjónustunni í janúar 2023. Efni tilkynningar var vanræksla og áfengis- og fíkniefnaneysla föður. Með hinni kærðu ákvörðun var ákveðið að loka barnaverndarmáli barnanna.
Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir þjónustunnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að þjónustan skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarþjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarþjónustunnar, skyldu til að láta barnaverndarþjónustum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort barnaverndarþjónusta B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum barnanna og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.
Samkvæmt gögnum málsins hafa mál barnanna áður verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda. Árið 2018 hafði barnaverndarnefnd H mál þeirra til meðferðar vegna tilkynningar kæranda um vanrækslu og áfengis- og fíkniefnaneyslu föður. Málinu var lokað í desember 2018 í kjölfar þess að rætt var við foreldra. Á þeim tíma lauk faðir áfengis- og fíkniefnameðferð og voru fíkniefnaprufur voru teknar af föður og eftirlit haft með heimili föður. Málinu var lokið þar sem ekkert athugavert var við ástand föður né aðbúnað barnanna. Í kjölfar þess að ákveðið var að hefja könnun máls vegna tilkynninga sem bárust í janúar 2023 vegna meintrar vanrækslu og áfengis- og fíkniefnaneyslu föður, var rætt við foreldra og börn og aflar upplýsinga frá skóla og heilsugæslu. Auk þess sem óboðað eftirlit var með heimili föður. Við vinnslu málsins bárust fleiri tilkynningar um vanrækslu föður. Niðurstaða könnunar sýndi að aðstæður barnanna voru vel viðunandi og engin merki voru um neyslu áfengis- eða fíkniefna á heimili föður. Þá voru tengsl barna við foreldra metin góð og engin merki um ótta, óöryggi eða vanlíðan vegna samskipta við foreldra. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framansögðu að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim gögnum sem aflað var í málinu.
Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati barnaverndarþjónustunnar að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl. Aflað hafi verið viðeigandi upplýsinga um hagi barnanna og rannsókn málsins í samræmi við 41. gr. bvl.
Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun barnaverndarþjónustu B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun barnaverndarþjónustu B, dags. 5. september 2023, um að loka málum vegna, C og D, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson