Hoppa yfir valmynd

Nr. 66/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 1. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 66/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120046

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 13. desember 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Indlands (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. desember 2022, um að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. nóvember 2022, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands og Schengen-svæðisins í níu daga. Samkvæmt ferðaáætlun kæranda hafi hann ætlað að fara til Íslands og Parísar í níu nætur frá 25. desember 2022 til 2. janúar 2023. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. desember 2022. Hinn 13. desember 2022 barst kærunefnd kæra frá kæranda.

III.      Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ætlað í frí til Ísland með kanadískri móður sinni. Eftir mikla skoðun hafi Ísland orðið fyrir valinu vegna þess að þar hafi hann fundið gistingu á viðráðanlegu verði. Ef honum verði veitt vegabréfsáritun til Íslands hafi hann í hyggju að eyða jólum og áramótum hér á landi. Hann hafi lagt inn nýja hótel- og flugbókun.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a – h-liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.

Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins hinn 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir.

Við veitingu vegabréfsáritana ber íslenskum stjórnvöldum sem einu af Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um að öllum formskilyrðum sé fullnægt heldur einnig að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúi ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þannig er reynt af fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að rétt sé að lögfesta ákveðin sjónarmið sem beri að miða við í mati á umsókn um vegabréfsáritun. Séu þessi sjónarmið í samræmi við markmið laganna og hafi mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Enn fremur segir í athugasemdum með frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru sem ástæður synjunar eru ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Synjunarform Útlendingastofnunar er í samræmi við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um vegabréfsáritanir (2009/810/EB), en nánari tilvísun er að finna í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er notað staðlað form þar sem hægt er að merkja í reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsókn sé synjað. Í ákvörðun kæranda er merkt í reit 10 vegna synjunar á umsókn hans, þ.e. að rökstuðningur fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar hefði ekki verið veittur, þ.e. að upplýsingar sem veittar hefðu verið um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar hefðu ekki verið áreiðanlegar. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kæranda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins virðist kærandi ekki hafa óskað eftir slíkum rökstuðningi hjá Útlendingastofnun.

Í 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar og þá sé heimilt að fela utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur sé heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem taki þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi að lögum um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að miðað sé við að umsóknir um vegabréfsáritun verði lagðar fram í skrifstofum sendiráða og ræðisskrifstofa erlendis og þær sendar Útlendingastofnun til ákvörðunar. Viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofa muni síðan gefa áritunina út að fenginni heimild Útlendingastofnunar. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti heimilað utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um umsóknir um vegabréfsáritun. Íslenska sendiráðið í Nýju-Delí tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Indlandi, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þykir skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Í gögnum málsins liggur m.a. fyrir afrit úr málaskrá Útlendingastofnunar, Erlendi, vegna máls kæranda þar sem málsmeðferð umsóknar hans hjá sendiráðinu er rakin. Kemur þar m.a. fram að flugbókanir kæranda hafi verið afbókaðar. Þá kemur fram að starfsmaður sendiráðsins hafi hringt í kæranda. Kærandi hafi ekkert vitað um Ísland eða hvað hann vildi gera hér á landi. Hann hafi sagt móður sína hafa skipulagt ferðina til Íslands og Frakklands. Sjálfur hafi hann aðeins áhuga á að fara til Frakklands en móðir hans hafi viljað að hann myndi sækja um hjá Íslandi. Kærandi hafi greint frá því að móðir hans hafi notið aðstoðar ferðaskrifstofu til að setja saman umsóknina. Það var mat fulltrúa sendiráðsins, í ljósi framangreinds, að umsókn kæranda skyldi synjað í samræmi við ii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Að mati kærunefndar eru framlögð gögn og þær málsástæður sem kærandi byggir á ekki þess eðlis að ástæða sé til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á umsókn hans um vegabréfsáritun. Við mat á því hefur kærunefnd m.a. litið til þess að kærandi er ungur að árum, að ljúka námi í heimaríki og ætlar að ferðast um Evrópu með móður sinni sem búsett er í Kanada og hefur búið þar síðustu tólf ár. Þá hafi flugbókanir kæranda verið afbókaðar eða ekki hægt að staðfesta þær. Kærandi hafi ekkert vitað um Ísland og rökstuðningur hans í kæru fer gegn framburði hans í viðtali hjá sendiráðinu. Að mati kærunefndar er tilgangur ferðar kæranda hingað til lands talinn ótrúverðugur í ljósi framangreindra upplýsinga og þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram.

Að öllu framangreindu virtu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar, með vísan til framangreinds og uppgefins tilgangs ferðar kæranda hingað til lands, að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar á Íslandi, sbr. ii-liður a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Sé því ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Þorsteinn Gunnarsson, formaður

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta