Hoppa yfir valmynd

Nr. 22/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 22/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110043

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. nóvember 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga þann 26. mars 2018 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní 2018. Var kæranda gert að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunarinnar þar sem hann hefði ekki gilt dvalarleyfi. Með úrskurði, dags. 18. september 2018, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar. Þann 27. september sl. sótti kærandi að nýju um dvalarleyfi á grundvelli fyrrgreinds hjúskapar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2018, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var birt ákvörðunin þann 19. nóvember sl. Sama dag var honum birt tilkynning um fyrirhugaða brottvísun og endurkomubann. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 29. nóvember sl. og þann 13. desember sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, 18. október 2018, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 30. nóvember sl. féllst kærunefndin á þá beiðni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga komi fram að útlendingur sem sæki um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann komi til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hafi verið samþykkt. Frá þessu sé heimilt að víkja ef umsækjandi sé staddur hér á landi og sé maki útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið 1. mgr. 51. gr. Á grundvelli framangreinds var kæranda veitt undanþága frá skilyrðum 1. mgr. 51. gr. og umsókn hans tekin til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Vísaði stofnunin því næst til ákvæðis 69. gr. laga um útlendinga en þar væri að finna heimild til veitingar dvalarleyfis fyrir aðstandendur. Í 1. mgr. 69. gr. væri að finna upptalningu á því hverjir ættu rétt til fjölskyldusameiningar hér á landi. Tók stofnunin fram að umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar byggði á sama grundvelli og fyrri ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní 2018, og úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 370/2018 byggðu á. Þar sem maki kæranda væri með dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. væri ljóst að synja bæri umsókn kæranda um dvalarleyfi enda gæti dvalarleyfi á grundvelli síðastnefnds ákvæðis ekki myndað rétt til fjölskyldusameiningar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna. Tók stofnunin því ekki til skoðunar hvort kærandi fullnægði öðrum skilyrðum VIII. kafla laganna. Var kæranda jafnframt tilkynnt um fyrirhugaða brottvísun og endurkomubann til landsins.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að honum og eiginkonu hans sé orðið ljóst að hann eigi ekki rétt á fjölskyldusameiningu á grundvelli hjúskapar þar sem eiginkona hans hafi dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga, sem myndi ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Hafi eiginkona kæranda því lagt inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laganna, svo kærandi geti þá átt rétt til þess að fá dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Jafnframt hafi eiginkona kæranda lagt inn umsókn um íslenskan ríkisborgararétt til Útlendingastofnunar í byrjun [...] sl. Byggir kærandi á því að með vísan til meðalhófsreglunnar eigi ekki að ákvarða um brottvísun og endurkomubann til landsins þar sem hann hafi gert sitt besta til að sækja um dvalarleyfi hér á landi. Þá telur kærandi það ámælisvert að Útlendingastofnun hafi ekki tekið til skoðunar að beita ákvæði 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Loks tekur kærandi fram að það verði að teljast sanngjarnt að hann fái að dveljast hér á landi á meðan málið sé til vinnslu hjá Útlendingastofnun, þ.e. hvað varðar umsókn eiginkonu hans um dvalarleyfi og í ljósi þess að kærandi hafi ekki gerst brotlegur við lög í landinu heldur eingöngu lagt sig fram við að sækja um að fá að dveljast hér löglega með eiginkonu sinni.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 370/2018 frá 18. september 2018 var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar staðfest. Ljóst er að umsókn kæranda byggir á sama grundvelli og sú umsókn sem leyst var úr í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar. Kærandi hefur ekki lagt fram ný gögn við meðferð málsins sem breytt geta fyrra mati kærunefndar. Þótt maki kæranda hafi lagt fram umsóknir um ríkisborgararétt og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, liggur ekki fyrir að umsóknirnar hafi verið samþykktar af Útlendingastofnun og að kærandi hafi þannig rétt til fjölskyldusameiningar. Eiginkona kæranda er með dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga, sem myndar ekki rétt til fjölskyldusameiningar skv. 1. mgr. 69. gr. laganna. Skilyrði 70. gr. laga um útlendinga koma því ekki til skoðunar í málinu, þ.m.t. undanþága 5. mgr. ákvæðisins sem vísað er til í greinargerð kæranda.

Verður ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt framangreindu staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                               Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta