Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 46/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. desember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 46/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. apríl 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 21. apríl 2015, fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Það hafi verið ákvörðun Vinnumálastofnar að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur á grundvelli 4. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Í bréfi til kæranda kemur fram að hún þurfi að starfa í a.m.k. 24 mánuði til að eiga rétt á bótum á ný. Þann 4. júní 2015 var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað á ný þar sem að hún hafði ekki starfað í 24 mánuði frá fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru þann 8. júní 2015. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. mars 2015. Með umsókninni fylgdi vottorð vinnuveitenda kæranda, B þar sem fram kom að ástæða starfsloka hafi verið eigin uppsögn kæranda. Þann 26. mars 2015 óskaði Vinnumálastofnun eftir því með bréfi að kærandi færði fram skriflegar skýringar á uppsögn sinni. Skýringar kæranda bárust 7. apríl 2015 þar sem fram kemur meðal annars að hún hafi ekki treyst sér til að vinna svona ábyrgðarmikið starf undir þeim kringumstæðum sem B bjóði upp á. Umsókn kæranda var hafnað með bréfi, dags. 22. apríl 2015.

Kærandi greinir frá því í kæru að ástæðan fyrir uppsögn hennar hafi verið kvíði og vanlíðan í starfi. Kvíðinn og álagið hafi orsakað svefnleysi sem sé mjög hættulegt fyrir C. B sé karlavinnustaður og hafi hún lent í miklu einelti vegna kynhneigðar sinnar og verið niðurlægð af samstarfsfélögum sínum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 26. júní 2015, vísar stofnunin til þess að í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf sé ekki í boði.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar  séu talin upp tvenns konar tilvik er heyri til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annars vegar þegar maki hins tryggða hafi hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hafi af þeim sökum þurft að flytjast búferlum og hins vegar ef atvinnuleitandi hafi neyðst til að segja starfi sínu lausu af heilsufarsástæðum. Enn fremur komi fram í greinargerðinni að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða aðstæður liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Ágreiningurinn snúist um það hvort ástæður kæranda fyrir uppsögninni teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Hafi orðalagið „gildar ástæður“ verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir.

Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar segist kærandi hafa sagt starfi sínu lausu sökum vinnuálags. Vaktir hafi verið langar og kærandi hafi ekki treyst sér til að vinna svo ábyrgðarfullt starf undir þeim kringumstæðum sem vinnustaðurinn hafi boðið uppá. Einnig tiltaki kærandi að óhöpp hjá fyrrum vinnuveitanda hennar séu tíðari en opinberar tölur gefi til kynna og að C hjá B sofni við D. Þá segi kærandi að vinnuálag hafi orsakað alvarleg veikindi hjá vinnufélögum hennar.

Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar sem kærandi hafi gefið fyrir uppsögn sinni gætu ekki talist gildar ástæður í skilningi 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi skýringar atvinnuleitanda sem beri fyrir sig að ábyrgð í starfi hafi verið of mikil almennt ekki verið teknar gildar. Að auki verði ekki séð að ábyrgð eða vinnuálag C hjá B sé umfram það sem almennt eigi við um starfsstétt C. Í kæru sinni til úrskurðarnefndar færi kærandi fram nýjar ástæður fyrir uppsögn sinni. Segi í kæru að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu vegna kvíða og vanlíðan í starfi. Hún hafi orðið fyrir einelti sökum kynhneigðar sinnar og verið niðurlægð af starfsfélögum. Vinnumálastofnun telji að í þeim tilvikum sem óánægja starfsmanns með vinnuumhverfi sitt sé ástæða starfsloka, þurfi sá er hlut eigi að máli a.m.k. að hafa gert tilraunir til úrbóta áður en hann taki ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Af gögnum málsins sé ekki að sjá að kærandi hafi reynt að leita úrbóta á aðstæðum á vinnustað enda liggi ekkert fyrir að hún hafi leitað til stéttarfélags síns, vinnueftirlitsins eða annarra aðila sem gætu hafa gripið inn í þær aðstæður sem hafi verið til staðar á vinnustað hennar. Þá liggi engin gögn fyrir í málinu er bendi til þess að kærandi hafi af heilsufarsástæðum þurft að segja starfi sínu lausu.

Í ljósi ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 4. mgr. 54. gr. sé að finna ákvæði sem fjalli um viðurlög ef atvinnuleitandi hafi þegið atvinnuleysistryggingar í 24 mánuði eða lengur þegar hann segi starfi sínu lausu. Ákvæðið feli í sér önnur og strangari viðurlög en almennt eigi við skv. 1. mgr. 54. gr. laganna. Þ.e. að atvinnuleitandi vinni sér inn nýtt bótatímabil áður en hann geti átt rétt á atvinnuleysisbótum að nýju. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysistryggingar þann 2. mars 2015 hafði hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 24,42 mánuði á bótatímabili skv. 29. gr. laganna. Framangreint sérákvæði eigi því við í tilviki kæranda. Hafi umsókn kæranda því verið hafnað í samræmi við 4. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. júní 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. júlí 2015. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Með bréfi, dags. 6. október 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði leitað til læknis vegna kvíða í tengslum við starf hennar hjá B og hvort kærandi hefði reynt að leita úrbóta á vinnustað áður en hún sagði upp. Þann 27. október 2015 barst tölvupóstur frá kæranda þar sem fram kemur meðal annars að hún hefði kvartað til starfsmannastjóra B. Starfsmannastjórinn hafi fundað með mönnunum sem hafi tekið þátt í eineltinu og þeir hafi lofað að hætta en þetta hafi bara farið í felur og hvísl. Hún hafi verið skráð veik í einhvern tímann. Hún hafi verið hætt að geta sofið og þurft svefnlyf til að geta unnið á daginn. Henni hafi liðið illa í vinnunni og hætt áður en eitthvað hættuleg myndi gerast. Framangreindur tölvupóstur var sendur Vinnumálastofnun til kynningar þann 27. október 2015.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum B um hvort framangreind málavaxalýsing kæranda væri rétt. Með tölvupóstum þann 12. og 20. nóvember 2015 frá deildarstjóra D-deildar B kemur meðal annars fram að kærandi hafi greint frá því að hún hafi upplifað andúð frá öðrum C í hennar garð. Hún hafi kvartað þann 20. desember 2013 og verið í veikindaleyfi frá 20. til 25. desember 2013. Hún hafi hins vegar ekki viljað að málið færi í frekari rannsókn, þ.e. formlega rannsókn á mögulegu einelti. Í janúar 2014 hafi verið haft eftir kæranda að andrúmsloftið væri gjörbreytt og það væri enginn að angra hana. Hún þyrfti ekki frekari aðstoð. Viðkomandi starfsmaður hafi boðið henni sálfræðiaðstoð og nefnt að hennar dyr væru alltaf opnar en kærandi hafi ekki viljað aðhafast frekar í bili. Þann 23. nóvember 2014 hafi kærandi sent póst þar sem fram hafi komið að hún væri búin að gefast upp á að vinna hjá B og ætlaði frekar að halda heilsunni.

Framangreindir tölvupóstar voru sendir kæranda til kynningar þann 20. nóvember 2015. Sama dag bárust athugasemdir frá kæranda þar sem fram kemur meðal annars að starfsmenn B ættu erfitt með að viðurkenna að samkynhneigðar konur væru lagðar í einelti á vinnustaðnum. Henni hafi ekki verið boðin sálfræðihjálp en hún hafi verið send í frí. Þetta sé orð á móti orði en hún væri enn að vinna þarna ef allt hefði verið í lagi. Athugasemdirnar voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar þann 23. nóvember 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Með símtali þann 2. desember 2015 óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði kvartað yfir hegðun viðkomandi starfsmanna á tímabilinu eftir janúar 2014 þangað til hún sagði upp þann 23. nóvember 2014. Í samtalinu kom fram að kærandi hefði reglulega rætt við yfirmenn sína um þetta. Hún nefnir sem dæmi að komið hafi verið til móts við hana og henni boðið 80% starf til þess að létta á henni. Hún hafi þegið það en samt gefist upp að lokum.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009 og 9. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Kærandi sagði sjálf upp starfi sínu hjá B og að hennar sögn var ástæða uppsagnarinnar vinnuálag, vaktir hafi verið langar og hún hafi ekki treyst sér til að vinna svo ábyrgðarfullt starf undir þeim kringumstæðum sem vinnustaðurinn bauð upp á. Jafnframt hafi hún fundið fyrir kvíða og vanlíðan í starfi. Hún hafi orðið fyrir einelti sökum kynhneigðar sinnar og verið niðurlægð af starfsfélögum.

Skýringar atvinnuleitanda um að starf hafi verið of ábyrgðarfullt hafa almennt ekki verið teknar gildar. Úrskurðarnefndin tekur jafnframt undir þau orð Vinnumálastofnunar að í þeim tilvikum sem óánægja starfsmanns með vinnuumhverfi sitt er ástæða starfsloka, þurfi sá er hlut á í máli a.m.k. að hafa gert tilraunir til úrbóta áður en hann tekur ákvörðun um að segja starfi sínu lausu. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi kvartað til vinnuveitanda yfir andúð sem hún upplifði frá öðrum þann 20. desember 2013. Í kjölfarið fór kærandi í veikindaleyfi frá 20. – 25. desember. Ágreiningur lýtur hins vegar að því hvað hafi gerst í framhaldinu. Af hálfu Strætó er byggt á því að haft hafi verið eftir kæranda í janúar 2014 að andrúmsloftið væri gjörbreytt og enginn að angra hana lengur. Þá hafi kærandi fyrirvaralaust sagt upp starfi sínu þann 23. nóvember 2014. Kærandi byggir hins vegar á því að hún hafi reglulega kvartað yfir hegðun viðkomandi vagnstjóra C á árinu 2014. Henni hafi verið boðið 80% starf til að létta á henni en hún hafi samt fengið nóg að lokum og sagt upp starfinu.

Úrskurðarnefndin telur að ráða megi að framangreindu að kærandi hafi fundið fyrir vanlíðan í starfi og a.m.k. gert tilraunir til úrbóta á vinnustað sínum í desember 2013. Þá telur úrskurðarnefndin að upplýsingar kæranda um að hún hafi einnig kvartað á árinu 2014 trúverðugar. Úrskurðarnefndin horfir jafnframt til þess að vinnuveitendur geti verið tregir til þess að viðurkenna slæmar aðstæður á vinnustað. Með vísan til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndarinnar að ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi hafi verið gildar í skilningi 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun var því óheimilt að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til 4. mgr. 54. gr. laganna.

Að framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Greiða skal kæranda atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi að öðrum skilyrðum uppfylltum.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. júní 2015 í máli A um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi. Greiða skal kæranda atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta