Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 3/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar sökum þess að hún hefði verið að starfa sem tónlistarmaður. Þá var kærandi upplýst um að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.974.982 kr. með 15% álagi, vegna tímabilsins frá 11. maí 2012 til 30. september 2013. Þann 18. nóvember 2014 var óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Beiðni um rökstuðning var hafnað með bréfi, dags. 28. nóvember 2014. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga með kæru, dags. 7. janúar 2015. Kærandi krefst þess að hin kærð ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 1. maí 2012 og fékk greiddar bætur til 30. september 2013. Kærandi fór til C í atvinnuleit á undanþágu samkvæmt U2 vottorði þann 8. júlí 2013 og vottorðið gilti til 7. október 2013. Þann 8. október 2013 flutti kærandi lögheimili sitt til C.

Með bréfi, dags. 25. október 2013, sem sent var á eldra lögheimili kæranda að D, var kæranda tilkynnt um að Vinnumálastofnun hefði upplýsingar um að hún hefði verið stödd í E í ágúst 2012, í F, G, H og E í september 2012 og í C í október 2013. Þá segir að stofnunin hafi enn fremur upplýsingar um það að hún hafi haldið nokkurn fjölda af tónleikum á tímabilinu frá X til X og gefið út geisladisk í X. Stofnunin óskar eftir skýringum á því hvers vegna hún hafi ekki tilkynnt annars vegar um ferðir hennar til útlanda og hins vegar um vinnu hennar við tónleikahald og útgáfu á geisladiski.

Þann 31. október 2013 bárust skýringar frá kæranda. Í þeim kemur m.a. annars fram að hún hafi farið til útlanda í X til að halda tónleika en hún hafi ekki fengið greidd laun fyrir þá. Einnig hafi hún ekki fengið nægilegar greiðslur fyrir tónleika hennar á Íslandi til að geta lifað á þeim.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar. Bréfið var sent á eldra lögheimili kæranda að D. Í október 2014 hafði skuld kæranda ekki verið greidd og því var krafan send til Innheimtumiðstöðvar á Blönduósi þann 8. október 2014 til frekari innheimtu. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun þann 27. október 2014 og spurðist fyrir um innheimtu.

Þann 18. nóvember 2014 hafði B samband við Vinnumálastofnun f.h. kæranda og óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Vinnumálastofnun svaraði beiðni umboðsmanns kæranda með bréfi, dags. 28. nóvember 2014. Í bréfinu hafnaði stofnunin beiðni um rökstuðning með þeim rökum að meira en ár hefði liðið frá því ákvörðun hefði verið tekin í máli kæranda.  

Í kæru, sem er á ensku, kemur fram að kærandi sé bæði í hefðbundnu starfi og vinni sem listamaður. Hún sjái fyrir sér fjárhagslega með hefðbundnum störfum og með slíkum störfum hafi hún öðlast rétt til atvinnuleysisbóta þar sem hún hafi aldrei fengið samning sem söngvari. Þá byggir hún á því að hún hafi haldið að hún ætti að tilkynna um hefðbundna starfið til Vinnumálastofnunar eins og hún hafi gert. Hún geti ekki séð fyrir sér sem söngvari og því sé hún ekki sammála ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem hún sé sökuð um að hafa starfað sem söngvari án þess að tilkynna um það.

Kærandi greinir frá þeim störfum sem hún hefur haft á Íslandi frá því að hún flutti til landsins í X. Fram kemur meðal annars að hún hafi verið rekin úr starfi sínu hjá K og þá farið á atvinnuleysisbætur. Síðar hafi hún fengið hlutastarf íL og hún hafi tilkynnt það til Vinnumálastofnunar enda hafi það verið hefðbundið starf. Þegar hún hafi misst hlutastarfið hafi hún farið til C til að leita af starfi. Hún hafi fyllt út alla nauðsynlega pappíra og Vinnumálastofnun hafi vitað að hún hefði farið til C þann X til að leita af starfi.

Venjulega fái söngvarar á Íslandi u.þ.b. 25.000 kr. fyrir opinbera tónleika hjá bæjum, á hátíðum, hótelum o.s.frv. Þegar söngvarar fái greiddan aðgangseyrinn fyrir tónleikana getur það verið minna eða næstum ekkert. Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þurfi ekki að tilkynna um störf þegar þau séu ekki regluleg og atvinnuleitandi þéni ekki meira en 53.000 kr. Þetta séu einnig þær upplýsingar sem hún hafi fengið á fyrsta fundinum með Vinnumálastofnun. Hún hafi aldrei fengið meira greitt en 53.000 kr. vegna þeirra tónleika sem Vinnumálastofnun minnist á. Þess vegna hafi hún aldrei tilkynnt Vinnumálstofnun um tekjurnar. Þær fjárhæðir sem hún hafi fengið greiddar inn á reikning hafi ekki farið einungis til hennar heldur hafi hún einnig greitt hljóðfæraleikurum sínum. Þau hafi því fengið um 20.000 til 25.000 kr. á mann.

Kærandi hafi fengið greiddan styrk frá M til að halda tónleika og hún hafi samið við hljóðfæraleikarana um að nota peningana til að búa til geisladisk. Hún hafi fengið lítinn pening fyrir sölu á disknum, innan við 53.000 kr. á tveimur árum.

Kærandi viðurkennir að hún hafi ekki tilkynnt um ferðalög sín til útlanda á árinu X. Fram kemur að þetta hafi verið stuttar ferðir og hún hafi aldrei hætt atvinnuleit sinni. Hún hafi ekki vitað að hún þyrfti að tilkynna um þessar ferðir og ekki reynt að fela ferðalögin. Greint hafi verið frá þeim í dagblöðum og á hennar eigin vefsíðum. Í kæru greinir kærandi frá öllum ferðalögum sínum í X. Þá kemur fram að N hafi greitt allan ferðakostnað en hún hafi ekki fengið greidd nein laun.

Það sé einkennilegt að Vinnumálastofnun geri athugasemdir við ferðalag hennar í X. Hún hafi fengið leyfi frá Vinnumálastofnun til að fara til C. Hún hafi síðan komið til Íslands í X til þess að vera með tónleika í O með styrk frá Ó. Hún hafi einnig farið til Þjóðskrár og flutt lögheimili sitt til C þann 7. október 2013. Hún hafi lokið rétti sínum til greiðslu atvinnuleysisbóta í byrjun X og farið aftur til C. Vinnumálastofnun hafi vitað að hún byggi ekki í Reykjavík en hafi samt sent öll bréf á fyrrum lögheimili hennar að D og hún hafi ekki fengið bréfin og ekki getað kært innan réttra tímamarka. Hún hafi fengið áfall þegar hún hafi séð tveggja milljóna skuld á bankareikningum sínum.

Kærandi ítrekar að hún hafi ekki fengið greitt meira en 53.000 kr. á mánuði fyrir þá tónleika sem hún hafi haldið frá X til X og X. Hún hafi ekki verið að fela neitt. Greint hafi verið frá ferðalögum hennar á mörgum stöðum m.a. í fjölmiðlum, á íslenskum bloggsíðum og vefsíðum um íslenska tónlist. Þegar einstaklingar brjóti lög vísvitandi reyni þeir oftast að fela upplýsingar. Hún hafi ekki gert það.

Þá spyr kærandi hvort það sé sanngjarnt að hún borgi tvær milljónir þrátt fyrir að hún hafi gert einhver mistök. Hún hafa ekki gert neitt vísvitandi. Kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki sanngjarna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. janúar 2015, óskaði stofnunin eftir frávísun málsins á þeim grundvelli að kærufrestur væri liðinn. Fram kom að hin kærða ákvörðun hefði verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, og kærufrestur hafi því runnið út í febrúar 2014. Kærandi hafi hins vegar ekki kært skuldamyndun sína fyrr en í nóvember 2014 [sic].

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi, mótteknu þann 16. febrúar 2015. Þar komu fram sambærilegar upplýsingar og í kæru auk upplýsinga um greiðslur sem kærandi fékk fyrir ýmsa tónleika og sölu geisladiska.

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, til Vinnumálastofnunar er greint frá því að úrskurðarnefndin hafi ákveðið að taka kæru til efnislegrar úrlausnar. Af því tilefni var stofnuninni gefinn kostur á að tjá sig um málið.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. nóvember 2015, segir að mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Henni hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerðinni er vikið að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að 2. málsl. 60. gr. taki á því þegar atvinnuleitandi sem starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi starfað sem tónlistarmaður, bæði hérlendis og erlendis, á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þá liggi fyrir að hún hafi staðið fyrir plötuútgáfu í X. Ítarleg gögn í máli sýni fram á fjölda tónleika sem kærandi hafi haldið og fjölda utanlandsferða tengdum tónleikahaldi hennar. Kærandi hafi aldrei tilkynnt Vinnumálastofnun um ferðir sínar erlendis. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning um plötuútgáfu hennar og þau skipti sem kærandi hafi haldið tónleika hafi aldrei verið tilkynnt til Vinnumálastofnunar.  Með vísan til framanritaðs sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi starfað á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi hafni því ekki að hún hafi verið að sinna verkefnum og dvalið erlendis á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þá viðurkenni kærandi einnig að hún hafi ekki tilkynnt um breytingar á högum sínum til Vinnumálastofnunar. Kærandi haldi því hins vegar fram að hún hafi talið að hún þyrfti ekki að tilkynna um störf sín til Vinnumálastofnunar ef tekjur vegna þeirra starfa væru lægri en frítekjumark laga um atvinnuleysistryggingar. Hún segist jafnvel hafa fengið þær upplýsingar á kynningarfundi Vinnumálastofnunar. Þær fullyrðingar kæranda séu rangar.

Kærandi segir einnig að hún hafi ekki fengið neinar tekjur vegna starfa sinna. Þær tekjur sem hún fái fyrir vinnu sína hafi farið upp í kostnað eða ekki náð frítekjumarki laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi segist m.a. ekki hafa fengið miklar tekjur af plötuútgáfu þar sem hluti af þeim tekjum hafi farið til tónlistamanna sem hafi unnið við útgáfu. Í fyrsta lagi sé óljóst af svari kæranda hvað hún telji sem tekjur og hvað ekki. Í öðru lagi sé ekki unnt að staðreyna þær upplýsingar sem kærandi haldi fram um endurgjald fyrir vinnu hennar enda hafi engar tekjur vegna umræddra starfa hennar verið gefnar upp á kæranda fyrir þann tíma sem um ræði. Þá verði ekki séð að þær tekjur kæranda breyti niðurstöðu í máli hennar. Þar að auki verði ekki séð að einstaklingur sem standi að upptöku og útgáfu á plötu og tónleikahaldi bæði hérlendis og erlendis geti talist virkur í atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í málflutningi kæranda segist hún einnig hafa gert mistök að tilkynna ekki um ferðir sínar til útlanda en haldi því fram að hún hafi ekki gert tilraunir til að fela upplýsingar um hagi sína.  Hún bendi á að skrifað hafi verið um ferðir hennar í dagblöðum og öðrum miðlum. Vinnumálastofnun fallist ekki á að fjölmiðlaumfjöllun um tónleika kæranda jafngildi tilkynningu til stofnunarinnar.  Kærandi geti ekki búist við því að aðrar reglur gildi um þá sem fjölmiðlar ákveði að fjalla um eða að umfjöllun í fjölmiðlum sé nægjanleg tilkynning til Vinnumálastofnunar.

Athugasemdir kæranda um að hún skilgreini sig annars vegar sem launamann og hins vegar sem listamann hafi að mati Vinnumálastofnunar engin áhrif á niðurstöðu í máli þessu.  Vinnumálastofnun sé ekki heimilt að gera greinamun á beitingu laga um atvinnuleysistryggingar eftir því hvaða starfstétt eigi í hlut.

Í ljósi alls framangreinds og afdráttarlausri verknaðarlýsingu 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tilfallandi vinnu, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga nr. 54/2006, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún hafi ekki uppfyllt skilyrða laga um atvinnuleysistryggingar, eða frá 11. maí 2012 til 30. september 2013, samtals  kr. 1.974.982. kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Krafa um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysistryggingum taki mið af 11. maí 2012 þar sem stofnunin hafi upplýsingar um að hún hafi þá fyrst starfað án þess að tilkynna um vinnu sína.  

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. nóvember 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þann 8. nóvember 2015 bárust frekari athugasemdir frá kæranda sem voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi, dags. 9. nóvember 2015.

2. Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. janúar 2015. Kæra varðar viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. nóvember 2013, sem var send á skráð heimilisfang kæranda hjá Vinnumálastofnun að D. Kærandi var hins vegar ekki með skráð lögheimili að D á þeim tíma þar sem hún hafði flutt það til C þann 8. október 2013 samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Hin kærða ákvörðun var því ekki send á lögheimili kæranda og þar sem kærandi var hætt að fá greiðslur atvinnuleysisbóta þegar ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi ekki borið að tilkynna stofnuninni um að hún væri flutt.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt kæranda með fullnægjandi hætti í nóvember 2013. Kærufresturinn byrjaði því ekki að líða fyrr en kærandi fékk upplýsingar um hina kærðu ákvörðun í tölvupósti frá Vinnumálastofnun þann 29. október 2014. Þriggja mánaða kærufrestur var því ekki liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni þann 7. janúar 2015. Með vísan til þess hefur úrskurðarnefndin fallist á að taka kæru til efnislegrar meðferðar.

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá kemur fram í 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sá sem er tryggður skuli tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og í 35. gr. a laganna er fjallað um það að tilkynna skuli án tafar um tilfallandi vinnu.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Óumdeilt er að kærandi starfaði sem tónlistarkona á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Kærandi byggir hins vegar á því að henni hafi ekki borið að tilkynna um vinnu sína þar sem tekjur hennar fyrir starfið hafi verið undir frítekjumarki 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að ráða megi af orðalagi 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 10. og 35. gr. a laganna, að óheimilt sé að vinna nokkurt starf á innlendum vinnumarkaði án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það. Þannig er hvorki gerð krafa um ákveðið lágmarksstarfshlutfall né að viðkomandi fái greidd einhver lágmarkslaun fyrir sína vinnu. Það er því mat nefndarinnar að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta.

Kærandi byggir einnig á því að hún hafi fengið þær upplýsingar á kynningarfundi Vinnumálastofnunar að hún þyrfti ekki að tilkynna um tekjur sem væru lægri en frítekjumark laga um atvinnuleysistryggingar. Erfitt er að segja til um hvað fór nákvæmlega fram á milli kæranda og starfsmanns Vinnumálastofnunar á kynningarfundinum. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun eru engar upplýsingar skráðar um kynningarfundinn. Á þeim fundum er hins vegar almennt farið yfir réttindi og skyldur atvinnuleitanda samkvæmt kynningarefni Vinnumálastofnunar. Kynningarefnið er annars vegar í bæklingi um réttindi og skyldur umsækjanda um atvinnuleysisbætur og á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Bæði í bæklingnum og á heimasíðunni er lögð áhersla á að tilkynna um störf. Hvergi er minnst á frítekjumarkið í tengslum við það. Þá má ráða af samskiptasögunni að þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur fékk hún afhentan fyrrgreindan bækling. Einnig fór kærandi í eftirlitsviðtal þann 16. maí 2013 þar sem haft er eftir kæranda að hún sé með nokkur söng verkefni í sumar. Henni er bent á að setja inn tilkynningu um tekjur fyrir öll laun eða afskrá sig ef um verktakavinnu sé að ræða. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar verði ekki hnekkt á þeim grundvelli að stofnunin hafi veitt kæranda rangar upplýsingar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar auk 15% álags. Í málinu liggja fyrir gögn um að kærandi hafi haldið P á R þann 11. maí 2012. Kæranda ber því að endurgreiða atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins frá 11. maí 2012 til 30. september 2013 auk 15% álags eða samtals 1.974.982 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. nóvember 2013 í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og að hún skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 1.974.982 kr., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta