Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 295/2023-Úskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 295/2023
Mánudaginn 16. október 2023

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 9. júní 2023 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. maí 2023, þar sem krafa kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi var synjað.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem er fædd X, óskaði þann 23. febrúar 2023 eftir breytingum á greiðsluaðlögunarsamningi sem komst á 11. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 27. apríl 2023, óskaði umboðsmaður skuldara eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kæranda svo hægt væri að meta hvort skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.)  væru fyrir hendi. Kærandi svaraði ekki fyrirspurn umboðsmanns og var tekin ákvörðun um synjun á kröfu kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi þann 12. maí 2023 þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr. lge. voru ekki talin vera uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. júní 2023. Með bréfi, dags. 30. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 12. júlí 2023. Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. júlí 2023, og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 8. ágúst 2023 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi, dags. 10. ágúst 2023. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kröfu hennar um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa verið mjög veik og undir miklu álagi undanfarið. Hún vilji áfrýja ákvörðun um synjun á umsókn um niðurfellingu skulda sem eftir séu á samningi um greiðsluaðlögun vegna sérstakra aðstæðna. Kærandi kveðst hafa ítrekað við umboðsmann skuldara að X ára dóttir sín hafi fengið bíl hennar lánaðan þegar kærandi lá á spítala í X 2023 að jafna sig eftir […] og lent í bílslysi og bílinn eyðilagst. Þá hafi kærandi ítrekað við umboðsmann skuldara að útgjöld hennar hafi hækkað töluvert meira en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Kærandi kveðst hafa verið heppin að geta fengið bílaleigubíl til langs tíma þrátt fyrir að vera ekki með neitt lánstraust en bílinn hafi hún þurft vegna veikinda sinna og reglubundinna læknisheimsókna. Kærandi borgi mánaðarlega fyrir bílinn um 58.000 krónur og 1. febrúar þurfi hún að greiða fyrir hann 98.000 krónur (eftir bílastyrk frá Tryggingastofnun) og sé slík hækkun afar erfið fyrir öryrkja. Einnig hafi leiga hækkað og bílakostnaður vegna mánaðarlegra vísitöluhækkana en starfsmenn umboðsmanns skuldara hafi neitað að taka gera ráð fyrir því í greiðslumati sínu.

Kærandi kveðst hafa borgað meiri hluta skuldarinnar sem hafi verið í þessum samningi þar sem tryggingafélag hennar hafi greitt bankanum þeirra hlut í bílnum sem eyðilagðist. Um 180.000 krónur hafi setið eftir og er gerð krafa um að kærandi greiði 20.000 krónur mánaðarlega af þeirri fjárhæð. Kærandi kveðst vera tekjulág og geti ekki rekið heimili með tvær ungar dætur á þeim tekjum og því hafi hún óskað eftir niðurfellingu eftirstöðva. 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi hafi orðið fyrir miklu tjóni þegar bifreið hennar eyðilagðist og hafi hún þá þurft að fá sér bílaleigubíl til langs tíma sem kosti töluvert meira en kærandi hafi borgað í bílalán og tryggingar. Þá hafi umboðsmaður skuldara neitað að setja raunveruleg útgjöld kæranda í matið þegar hún hafi gert kröfu um að restin af greiðsluaðlögunarsamningnum yrði felld niður vegna aukinna útgjalda.

Kærandi kveðst hafa greitt af greiðsluaðlögunarsamningi samviskusamlega í 13 mánuði þar til hún hafi orðið fyrir umræddu tjóni í febrúar 2023. Kærandi kveðst engan sparnað eiga eins og fram komi á skattframtali hennar ár eftir ár. Þá geti kærandi ekki hugsað sér að kaupa eldri bifreið sem þyrfti reglulega að gera við, enda hafi hún ekki efni á því. Kærandi kveðst hafa gefið dætrum sínum ný rúm og föt fyrir tryggingafé sem hún fékk og umboðsmaður skuldara vitni til og greitt skuldir sem hún var með þegar örorkan hafi ekki dugað fyrir mat þann mánuðinn. Kærandi kveðst örsjaldan hafa færi á því gefa börnum sínum hluti sem séu ekki notaðir og föt. Einnig hafi yngsta dóttir kæranda verið fermd […] og fengið stóran hluta af tryggingarfénu í fermingargjöf. Kærandi kveðst vera ein með börn sín og hún fái enga fjárhagsaðstoð frá barnsföður. Þá hafi kærandi farið í erfiða aðgerð í febrúar sl. og jafnframt greinst með alvarlegan sjálfsofnæmissjúkdóm sem krefjist erfiðrar lyfjameðferðar og aukakostnaðar. Þá þarfnist kærandi bíls svo hún komist reglulega til læknis og í blóðrannsóknir.

Kærandi kveðst hafa reynt að standa við greiðsluaðlögunarsamninginn og hún voni að það sem greitt hafi verið af samningum í 13 mánuði, auk ríflega milljón króna sem bankinn hafi fengið út úr tryggingum hennar sé nóg.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að með umræddri ákvörðun, dags. 12. maí 2023, hafi kröfu kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi verið synjað þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. lge. þóttu ekki vera uppfyllt.

Greiðsluaðlögunarsamningur í máli kæranda komst á þann 11. febrúar 2022. Samningurinn kvað á um mánaðarlega afborgun inn á skuldir að fjárhæð 48.639 kr. í 24 mánuði með fyrsta afborgunardag í mars 2022. Síðasti afborgunardagur sé því áætlaður í febrúar 2024. Þegar samningurinn komst á átti kærandi bifreiðina B sem eitt lán frá Arion banka hvíldi á. Mánaðarleg afborgunarfjárhæð samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi kæranda skiptist þannig að 28.430 kr. voru greiddar inn á bílalánið og 20.209 kr. var ráðstafað inn á samningskröfur.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lge. getur skuldari krafist þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun ef á greiðsluaðlögunartímabilinu koma upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. er ekki unnt að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun í samræmi við 1. mgr. fyrr en skuldari hefur fullreynt að ná þeim fram með samningum við alla lánardrottna.

Fjallað sé um málsmeðferð vegna breytinga í 26. gr. lge. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 26. gr. lge. skal kröfu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun beint til umboðsmanns skuldara með skriflegu erindi. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um erindið innan mánaðar frá því að krafa berst.

Frá upphafi olli það vandkvæðum að skuldarar leituðu sjálfir til kröfuhafa sinna með það að markmiði að semja um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi. Embættið ákvað því að bjóða einstaklingum, sem telja sig ekki geta uppfyllt skyldur sínar samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi, að annast milligöngu um samningaviðræður við kröfuhafa um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lge. Hefur sú framkvæmd reynst vel bæði gagnvart skuldurum og kröfuhöfum.

Þann 23. febrúar 2023 barst umboðsmanni skuldara beiðni frá kæranda um milligöngu embættisins vegna breytinga á greiðsluaðlögunarsamningi hennar. Við vinnslu beiðninnar voru upplýsingar um tekjur kæranda og framfærslukostnað uppfærðar, í því skyni að meta hvort skilyrði 1. mgr. 24. gr. lge. væru uppfyllt og þar með hvort forsendur væru til staðar til að hefja samningaviðræður við kröfuhafa um breytingar á samningnum. Samkvæmt uppfærðu greiðslumati embættisins frá 10. mars 2023 hafi áætluð greiðslugeta kæranda verið metin 20.089 kr. á mánuði. Í greiðslumatinu hafi verið tekið tillit til 21.575 kr. greiðslu sem kærandi greiddi á þeim tíma til Félagsbústaða samkvæmt greiðslusamkomulagi vegna vangoldinnar leigu. Samkvæmt gögnum máls hafi síðasta afborgun þess greiðslusamkomulags verið áætluð í júnímánuði 2023.

Við vinnslu málsins lá fyrir að bifreið kæranda varð fyrir tjóni og í kjölfar þess hafi bílalán Arion banka verið greitt upp. Mánaðarleg afborgunarfjárhæð samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningnum lækkaði í kjölfarið niður í 20.209 kr. og í ljósi þess að greiðslugeta kæranda var áætluð 20.089 kr. hafi það verið mat embættisins að ekki væru forsendur til að leggja til breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi kæranda. Kæranda hafi verið bent á að hún gæti sjálf látið reyna á samningaviðræður við kröfuhafa í málinu í samræmi við 3. mgr. 24. gr. og næði hún samkomulagi um breytingu skyldi slíkt samkomulag lagt fyrir umboðsmann skuldara til samþykkis.

Í tölvupósti kæranda til umboðsmanns skuldara, dags. 4. apríl 2023, óskaði kærandi eftir aðstoð við breytingu á samningi vegna breyttra aðstæðna. Með tölvupósti, dags. 11. apríl 2023, óskaði embættið eftir nánari upplýsingum um þær breyttu aðstæður sem kærandi vísaði til og vísaði kærandi um það til breytinga á viðmiðum umboðsmanns skuldara með tölvupósti, dags. 12. apríl 2023. Af þeim tölvupósti kæranda hafi mátt ráða að hún hafi látið reyna á samningaviðræður við Arion banka en að samkomulag um breytingar hafi ekki náðst. Kæranda hafi í kjölfarið verið boðið að leggja fram kröfu um breytingu á samningnum í samræmi við 1. mgr. 26. gr. lge. Þann 17. apríl 2023 hafi embættinu svo borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hún kvaðst sækja um niðurfellingu á rest af greiðsluaðlögunarsamningi sínum vegna breyttra aðstæðna. Að mati embættisins varð að skilja kröfu kæranda á þann veg að hún krefðist þess að þær afborganir sem eftir væru af greiðsluaðlögunarsamningi hennar yrðu felldar niður, að greiðsluaðlögunartímabil samningsins yrði jafnframt stytt og að því myndi ljúka með ákvörðun embættisins um afgreiðslu kröfunnar.

Við vinnslu kröfu kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi hennar kom í ljós að þörf var á frekari upplýsingum og gögnum frá kæranda svo embættinu væri unnt að meta hvort skilyrði 1. mgr. 24. gr. lge. væru uppfyllt. Með bréfi embættisins dags. 27. apríl 2023 var kæranda gefið færi á að leggja fram umbeðnar upplýsingar og gögn vegna þeirra atriða sem þar eru rakin.

Með bréfi embættisins var kæranda gefið færi á að leggja fram gögn sem sýndu fram á hvernig fjármunum að fjárhæð 643.821 kr., sem kærandi fékk greidda frá Sjóvá Almennum tryggingum hf. þann 17. febrúar 2023, hefði verið ráðstafað. Kærandi fékk fjármunina greidda í kjölfar tjóns á bifreiðinni B. Á þeim tíma sem kærandi fékk framangreinda fjármuni lá fyrir að mánaðarleg afborgun samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi hennar myndi lækka niður í 20.209 kr. frá og með marsmánuði 2023 þar sem bílalánið hafi þá verið uppgreitt. Líkt og áður segir sé síðasti afborgunardagur samningsins áætlaður í febrúar 2024 og hafi því 12 afborganir verið eftir af greiðsluaðlögunarsamningi hennar, eða greiðslur að fjárhæð alls 242.508 kr.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka frá 27. apríl sl. er greiðsluaðlögunarsamningur kæranda í vanskilum frá því í mars sl. Kærandi var í sambandi við starfsmann umboðsmanns skuldara bæði í tölvupósti og í síma dagana 15. til 17. febrúar 2023. Þann 17. febrúar 2023, eða sama dag og kærandi fékk ofangreinda greiðslu frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sendi embættið tölvupóst til kæranda í kjölfar símtals þar sem henni var boðið að leggja fram beiðni um að embættið myndi annast milligöngu um breytingu á samningi hennar. Beiðni um milligöngu embættisins barst frá kæranda með tölvupósti þann 23. febrúar 2023. Með vísan til framangreinds hafi það verið mat embættisins að nauðsynlegt væri að kærandi legði fram upplýsingar og gögn sem sýndu fram á hvernig ofangreindum fjármunum að fjárhæð 643.821 kr. hafi verið ráðstafað.

Kæranda hafi með bréfi embættisins einnig verið gefið færi á að leggja fram upplýsingar og gögn teldi hún mat embættisins á greiðslugetu hennar rangt. Í bréfi embættisins sé rakið að greiðslugeta kæranda hafi verið áætluð 20.089 kr. samkvæmt greiðslumati embættisins sem framkvæmt hafi verið var þann 10. mars 2023, þegar mál kæranda vegna milligöngu um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi hafi verið til vinnslu. Kærandi ætti því, miðað við framangreint greiðslumat, að hafa getu til að greiða mánaðarlegar afborganir samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi sínum. Greiðslumatið byggði á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara frá marsmánuði fyrir einstakling með eitt barn, ásamt upplýsingum um fjárhæð húsaleigu, rafmagns, hita og hússjóðs, sem og kostnaðar vegna skóla/dagvistunar, samkvæmt því sem kærandi hafði upplýst embættið um bæði í síma og í tölvupósti. Þá var í greiðslumati embættisins jafnframt gert ráð fyrir greiðslu kæranda til Félagsbústaða að fjárhæð 21.575 kr., og því fyrirséð að greiðslugeta kæranda myndi hækka sem næmi þeirri fjárhæð frá og með júlímánuði 2023.

Framfærslukostnaður kæranda í greiðsluaðlögunarsamningi hennar miðast við einstakling með eitt barn. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé yngra barn kæranda með skráð lögheimili hjá kæranda, en eldra barn hennar, sem sé X ára, er með annað lögheimili. Í greiðslumati embættisins frá 10. mars 2023 hafi framfærslukostnaður kæranda því verið miðaður við framfærsluviðmið embættisins fyrir einstakling með eitt barn. Nam sá kostnaður þá 258.652 kr. á mánuði, auk þess sem mánaðarlegu svigrúmi að fjárhæð 10.346 kr. hafi verið bætt við framfærslukostnað kæranda.

Rakið sé í bréfi embættisins frá 27. apríl 2023 að framfærsluviðmið embættisins hefðu verið uppfærð í aprílmánuði, líkt og kærandi nefndi í tölvupósti sínum frá 12. apríl 2023, og næmi hækkun á framfærsluviðmiðum fyrir einstakling með eitt barn 8.366 kr. á mánuði. Við vinnslu málsins hafi einnig legið fyrir að húsaleiga kæranda nam 223.447 kr. í aprílmánuði eða 1.447 kr. hærri en gert hafði verið ráð fyrir í framangreindu greiðslumati embættisins.

Mánaðarlegu svigrúmi í framfærslukostnaði sé m.a. ætlað að mæta sveiflum á framfærslukostnaði og rúmast fyrrgreind hækkun vegna uppfærslu á framfærsluviðmiðum embættisins, sem og ofangreind hækkun á húsaleigu kæranda, því innan svigrúmsins. Að mati embættisins geti uppfærsla á framfærsluviðmiðum embættisins ein og sér ekki verið grundvöllur breytinga á greiðsluaðlögunarsamningi kæranda.

Kærandi kveðst greiða hærri fjárhæð vegna reksturs bifreiðar en sem nemur framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður við gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Í framfærsluviðmiði embættisins er framfærsluliðurinn „Rekstur bíls“, sem nam 67.342 kr. í fyrirliggjandi greiðslumati embættisins á greiðslugetu kæranda, dags. 10. mars 2023. Með vísan til 4. mgr. 16. gr. lge. sé að mati embættisins ekki heimilt að gera ráð fyrir hærri kostnaði vegna einstakra framfærsluliða en framfærsluviðmið embættisins segja til um. Á það jafnt við um framfærslukostnað skuldara þegar umsjónarmaður útbýr frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun, sem og þegar greiðslugeta skuldara er uppfærð fyrir samningaviðræður við kröfuhafa um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lge.

Embættið hafi þó bætt við framfærslukostnað skuldara kostnaði vegna lyfja sem skuldarar þurfa að taka að staðaldri og kostnaði vegna þjónustu sérfræðinga sem þeir þurfa að sækja reglulega, séu gögn lögð fram sem sýna fram á slíkan kostnað. Í tilviki kæranda lagði hún fram gögn sem sýndu fram á kostnað vegna lyfja yfir 17 mánaða tímabil að fjárhæð samtals 181.173 kr., eða sem nemur að meðaltali 10.657 kr. á mánuði. Þá lagði kærandi fram yfirlit yfir kostnað vegna heilbrigðisþjónustu frá Sjúkratryggingum sem nam samtals 43.665 kr. yfir 12 mánaða tímabil eða sem nemur 3.639 kr. að meðaltali á mánuði. Til að koma til móts við kæranda bætti embættið þessum kostnaði við framfærslukostnað kæranda eða samtals 14.296 kr.

Þegar bréf embættisins var sent til kæranda þann 27. apríl sl. benti greiðsluáætlun Tryggingastofnunar til þess að kærandi fengi ekki greidda uppbót vegna reksturs bifreiðar að fjárhæð 21.520 kr. frá og með maímánuði. Tekið sé fram í bréfi embættisins að greiðslugeta kæranda yrði miðað við það engin í maí- og júnímánuðum. Áætlað væri þó að greiðslugeta kæranda myndi hækka um 21.575 kr. frá og með júlí í ljósi þess að síðasta greiðsla samkvæmt greiðslusamkomulagi hennar við Félagsbústaði væri áætluð í júní 2023. Til skoðunar gæti komið hvort forsendur væru til að semja um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi kæranda þess efnis að veittur yrði greiðslufrestur á afborgunum framangreinda tvo mánuði, ef fullnægjandi skýringar á ráðstöfun áðurnefndra fjármuna frá Sjóvá Almennum bærust.

Í ljósi þess að engin svör eða gögn bárust frá kæranda hafi verið tekin ákvörðun um synjun á kröfu kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi þann 12. maí 2023 þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. lge., þóttu ekki uppfyllt.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, sem og til bréfs embættisins dags. 27. apríl 2023 og hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðun embættisins verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir 1. mgr. 24. gr. lge., sbr. 1. mgr. 26. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lge. getur skuldari krafist þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun ef á greiðsluaðlögunartímabilinu koma upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.

Í athugasemdum við 24. gr. í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að þar sé kveðið á um heimild skuldara til að krefjast þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun. Skilyrði þess að skuldari geti óskað eftir því að gerðar verði breytingar á skilmálunum séu að á greiðsluaðlögunartímabilinu komi upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veiki getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt skilmálum samningsins. Kröfu skuldara skuli ekki taka til greina verði tilefni breyttra forsendna rakið til óábyrgrar hegðunar hans. Hér komi því einkum til skoðunar tilvik eins og þau þar sem skuldari verði fyrir slysi, viðvarandi atvinnuleysi, o.s.frv. Þetta þurfi þó að meta hverju sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lge. skal kröfu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun beint til umboðsmanns skuldara með skriflegu erindi. Umboðsmaður skuldara sendir aðilum sem málið varðar fram komið erindi og kallar eftir nauðsynlegum upplýsingum, sbr. 5. gr. Boðað skal til fundar ef lánardrottinn eða skuldari krefst þess eða umboðsmaður skuldara telur það nauðsynlegt. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um erindið innan mánaðar frá því að krafa berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara getur skuldari eða lánardrottinn kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim. Að fengnum úrskurði nefndarinnar er heimilt að höfða einkamál til ógildingar á ákvörðuninni.

Samkvæmt gögnum málsins tók greiðsluaðlögunarsamningur kæranda gildi 11. febrúar 2022 og kvað á um mánaðarlegar greiðslur kæranda að fjárhæð 48.639 krónur í 24 mánuði. Fyrsta afborgun skyldi vera í mars 2022 og sú síðasta í mars 2024. Þegar samningur komst á var kærandi með bifreiðina B til umráða en skráður eigandi var Sjóvá-Almennar Tryggingar hf. Eitt lán frá Arion banka hf. hvíldi á bifreiðinni og féll afborgun af því undir greiðsluaðlögunarsamning. Fyrrgreind bifreið varð fyrir tjóni og í kjölfar þess var áhvílandi bílalán að fjárhæð  1.540.723 krónum greitt upp auk þess sem 643.821 krónu voru greiddar til kæranda. Vegna uppgreiðslu lánsins lækkuðu greiðslur kæranda af samningnum um 28.430 krónur. Þá stóðu eftir 20.209 krónur af mánaðarlegum greiðslum kæranda samkvæmt samningnum eða samtals 242.508 kr. út greiðsluaðlögunartímabilið. Með erindi, dags. 17. apríl 2023, gerði kærandi kröfu um niðurfellingu þeirra afborgana sem eftir voru af greiðsluaðlögunarsamningi. Samkvæmt uppfærðu greiðslumati umboðsmanns skuldara frá 10. mars 2023 var áætluð greiðslugeta kæranda 20.089 krónur. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að greiðslugeta kæranda jókst um 21.520 kr. á mánuði frá og með júlí 2023 þar sem samningi hennar við Félagsbústaði hf. um niðurgreiðslu á húsaleiguskuld var lokið.

Kærandi kveðst þurfa að greiða hærri framfærslukostnað en umboðsmaður skuldara gerir ráð fyrir í sínum framfærsluviðmiðum. Þá sé mánaðarleg greiðsla vegna bifreiðar sem hún leigi  hærri en kostnaður vegna bifreiðarinnar sem hafi eyðilagst. Auk þess hafi kærandi misst uppbót frá Tryggingastofnun sem hún hafði áður fengið vegna reksturs bifreiðar. Samkvæmt skýringum kæranda hafi hún ráðstafað bótagreiðslu að fjárhæð 643.821 krónu frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. í fermingargjöf, föt, rúm og til greiðslu skulda.

Í málinu liggur fyrir að greiðslugeta kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara, dags. 10. mars 2023, og önnur framlögð gögn, var 20.089 á mánuði. Þá liggur jafnframt fyrir að greiðslugeta hennar jókst frá og með júlí 2023 um 21.520 krónur á mánuði. Að teknu tilliti til þess nemur mánaðarleg greiðslugeta kæranda nú samtals 41.609 krónum á mánuði. Greiðslur kæranda til kröfuhafa samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi nema 20.209 krónum á mánuði. Í ljósi þess og með vísan til annarra atvika málsins verður því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki séð að skilyrði 1. mgr. 24. gr. lge. sé til staðar um að ófyrirsjáanlegar aðstæður hafi veikt getu kæranda til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningnum.

Að framangreindu virtu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi því staðfest.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A, um breytingu á greiðsluaðlögunarsamningi, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta