Hoppa yfir valmynd

Nr. 349/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 349/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120068

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. desember 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Íran ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. nóvember 2023, um að synja umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að dvalarleyfi hans fyrir námsmenn verði endurnýjað.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn 16. september 2021, með gildistíma til 15. júlí 2022, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Dvalarleyfi hans hefur verið endurnýjað tvisvar sinnum, síðast með gildistíma til 15. júní 2023. Hinn 12. júní 2023 sótti kærandi um endurnýjun leyfisins en umsókn hans var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. nóvember 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi verið veitt veikindaleyfi fyrir skólaárið 2022-2023 sem hafi verið framlengt á haustönn 2023, þá að frumkvæði Háskólans í Reykjavík auk þess sem kærandi myndi ekki stunda nám á vorönn 2024. Var það mat stofnunarinnar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 65. gr. laga um útlendinga um að stunda fullt nám hér á landi. Var umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfisins því synjað en ákvörðunin var móttekin af kæranda 30. nóvember 2023. Hinn 14. desember 2023 tilkynnti kærandi Útlendingastofnun að hann væri ósammála ákvörðuninni og vildi fá hana endurskoðaða. Í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga framsendi Útlendingastofnun kæruna til kærunefndar útlendingamála með tölvubréfi, dags. 15. desember 2023. Með tölvubréfi, dags. 15. desember 2023, lagði kærandi fram frekari skýringar vegna málsins.

Líkt og fram kemur í ákvörðunarorðum hinnar kærðu ákvörðunar frestar stjórnsýslukæra réttaráhrifum hennar, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru, dags. 14. desember 2023, vísar kærandi til stöðu sinnar og aðstæðna. Þar kemur m.a. fram að kærandi sé [...], í minnihlutahópi hér á landi vegna þjóðernis, og glími við [...]-heilkenni. Þá telur kærandi sig hafa verið beittan óréttlæti af Háskólanum í Reykjavík. Vísar kærandi einnig til uppeldis síns, bókmennta og réttlætisbaráttu [...], samlanda kæranda, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið [...]. Í tölvubréfi kæranda til kærunefndar, dags. 15. desember 2023, kveðst kærandi vera óviss um frekari gögn til þess að leggja fram hjá kærunefnd, en vísar m.a. til samskipta sinna við heimilislækni og frjáls félagasamtök á borð við Mannréttindaskrifstofu Íslands og [...]. Þá kveðst kærandi leita aðstoðar lögmanns.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Fullt nám er samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sækir einstök námskeið telst ekki stunda fullt nám.

Ákvæði 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga áskilur að 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt, ásamt því að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla eða hafi fengið heimild til undanþágu frá skilyrði um fullt nám, svo sem vegna skipulags náms á grundvelli beiðni frá hlutaðeigandi skóla. Í 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn en það skal gert ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. sömu greinar og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist.

Sá hluti b-liðar 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga sem varðar heimild til undanþágu frá skilyrði um fullt nám, svo sem vegna skipulags náms á grundvelli beiðni frá hlutaðeigandi skóla var bætt við ákvæðið með lögum nr. 56/2023, sbr. nefndarálit með breytingatillögu allsherjar- og menntamálanefndar, dags. 2. júní 2023. Í nefndarálitinu er vísað til breytingatillögu nefndarinnar og vísað til þess að hún eigi við svo sem vegna skipulags náms á grundvelli beiðni frá hlutaðeigandi skóla, þar sem skipulag náms og krafa um námsframvindu kann í einstaka tilfellum að valda því að ekki er unnt að uppfylla kröfu um fullt nám í skilningi laganna.

Kærandi hefur verið innritaður í nám á vegum Háskólans í Reykjavík frá haustönn 2021. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi verið í veikindaleyfi frá námi sínu frá haustönn 2022, og hefur hann því ekki lokið námsframvindu né verið skráður í fullt nám frá vorönn 2022. Fram kemur í vottorði Landspítala, dags. [...]2023, að kærandi glími ekki við geðræn veikindi.

Hvorki hjá Útlendingastofnun né kærunefnd hafa verið lagðar fram beiðnir frá hlutaðeigandi skóla um undanþágu frá fullu námi, svo sem vegna skipulags náms. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, einkum bréf háskólans, dags. 17. ágúst og 27. október 2023, og bréf lögreglu, dags. 7. september 2023. Verður af framangreindum gögnum ekki annað ráðið en að hegðun kæranda hafi í nokkur skipti verið óviðeigandi gagnvart samnemendum og starfsfólki skólans. Hafi það í eitt skipti gengið svo langt að atbeina lögreglu þurfti til þess að flytja kæranda úr húsakynnum skólans. Telur kærunefnd ekki hægt að túlka framangreinda atburði með öðrum hætti en að kærandi beri að einhverju marki ábyrgð á atburðum þeim sem leitt hafi til þess að hann hafi ekki stundað nám skólaárið 2022-2023 og á haustönn 2023. Af hálfu kæranda hafa ekki verið lögð fram sjónarmið eða gögn sem réttlætt geta að dvalarleyfi hans vegna náms verði endurnýjað, enda meginregla 65. laga um útlendinga að útlendingur hyggist vera í fullu námi hér á landi. Í ljósi þess telur kærunefnd ekki tilefni til þess að beita undanþágu sem fram kemur í niðurlagi b-lið 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga.  Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 12. september 2023. Sú umsókn sætir sjálfstæðri meðferð hjá stjórnvöldum. Kærunefnd áréttar að kærandi njóti heimildar til dvalar á meðan verndarumsókn hans er til meðferðar, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta