Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 71/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 71/2024

Mánudaginn 29. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2024, um að staðfesta ákvörðun, dags. 20. júní 2023, þar sem réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði ekki mætt í boðað viðtal á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar. Með erindi, dags. 6. febrúar 2024, óskaði kærandi eftir að ákvörðunin yrði endurskoðuð og veitti skýringar á ástæðu þess að hafa ekki mætt í viðtalið. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri ákvörðun frá 20. júní 2023 þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 18. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Meðfylgjandi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála voru skýringar kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar 2024. Þar vísar kærandi til þess að hann hafi ekki mætt í viðtal hjá stofnuninni í júní 2023 þar sem hann hefði þegar verið kominn í vinnu og því ekki haft þörf fyrir viðtal.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt síðast um atvinnuleysisbætur þann 8. janúar 2024. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 5. febrúar 2024. Þar sem kærandi hafi enn átt eftir að taka út ótekinn biðtíma vegna fyrri umsóknar sinnar hafi hann ekki fengið ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrr en að þeim biðtíma liðnum. Kærandi hafi sætt tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 þann 20. júní 2023. Kærandi hafi hins vegar ekki tekið út biðtíma samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar. Við nánari skoðun á máli kæranda í kjölfar kæru hans til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi komið í ljós að kærandi hefði sannanlega unnið af sér viðurlög, sbr. 3. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, sem honum hafi verið birt með ákvörðun, dags. 20. júní 2023. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærandi hafið störf hjá B þann 1. júlí 2023 og starfað þar til 31. desember 2023. Samkvæmt útreikningi Vinnumálastofnunar hafi starfshlutfall kæranda hjá B verið 27%.

Með erindi, dags. 13. mars 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt með 98% bótarétti og að hann hefði unnið af sér eldri biðtíma. Af þeim sökum væri biðtími eftir greiðslum atvinnuleysisbóta felldur niður og að hann ætti rétt á greiðslum atvinuleysistrygginga frá umsóknardegi.

Mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skuli sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Ákvörðun um biðtíma á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé frá 20. júní 2023. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé því liðinn, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. 

Til umfjöllunar í þessu máli sé hvort kærandi hafi átt að sæta eftirstöðvum biðtíma þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í janúar 2024. Þegar kærandi hafi sótt að nýju um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 8. janúar 2024, hafi eftirstöðvar biðtíma enn verið tveir mánuðir, enda hafi biðtími hans aldrei byrjað að líða þar sem hann hafi verið afskráður frá og með 1. júlí 2023.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um nokkur tilvik þar sem biðtími eða viðurlög samkvæmt lögunum falli niður eða frestist. Í 3. mgr. 58. gr. laganna komi fram að taki hinn tryggði starfi sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma samkvæmt 1. mgr. standi falli biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Þá segi í 3. mgr. að vari starfið í skemmri tíma, hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á haldi biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggðir sæki aftur um atvinnuleysisbætur.

Kærandi hafi uppfyllt skilyrði 3. mgr. 58. gr. um niðurfellingu biðtíma, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í meira en hálfan mánuð áður en hann hafi sótt aftur um greiðslu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafi þegar tilkynnt kæranda að biðtími hafi verið felldur niður.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að frestur til að kæra ákvörðun stofnunarinnar frá 20. júní 2023 sé liðinn. Það sé enn fremur afstaða stofnunarinnar að biðtími vegna sömu ákvörðunar skuli felldur niður, sbr. 3. mgr. 58. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 20. júní 2023 þar sem réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í upphafi telur úrskurðarnefnd velferðarmála ástæðu til að gera athugasemd við tilvísun Vinnumálastofnunar til þess að kærufrestur vegna ákvörðunar stofnunarinnar frá 20. júní 2023 væri liðinn. Fyrir liggur að kærandi óskaði eftir endurupptöku þeirrar ákvörðunar 6. febrúar 2024 sem fallist var á af hálfu Vinnumálastofnunar, sbr. bréf þess efnis frá 9. febrúar 2024. Í kjölfar endurskoðunar og mats á skýringum kæranda var ákvörðun frá 20. júní 2023 staðfest. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar og kemur því réttilega til skoðunar í máli þessu. 

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við því að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var þann 6. júní 2023 boðaður í viðtal sem fara átti fram á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum daginn eftir, þann 7. júní 2023. Kæranda var greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Jafnframt var athygli kæranda vakin á því að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Þá var kærandi hvattur til að hafa samband við stofnunina ef eitthvað væri óljóst eða ef hann vildi frekari upplýsingar. Kærandi hvorki boðaði forföll né mætti í viðtalið.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hann hafi þegar verið komin með vinnu og því hafi hann ekki haft þörf fyrir viðtal hjá Vinnumálastofnun.

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins og hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta fjarveru í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. febrúar 2024, um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 20. júní 2023 þar sem réttur A, til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta