Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2013: Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. september 2013

í máli nr. 23/2013:

Inter ehf.

gegn

Ríkiskaupum

 

Með kæru 10. september 2013 kærir Inter ehf. ákvörðun varnaraðila, Ríkiskaupa, um að hafna þeirri kröfu kæranda að auglýsa útboð nr. 15468, „Rekstrarvörur fyrir speglun“ á nýjan leik. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt þyki að stöðva innkaupaferlið að kröfu kæranda. Varnaraðila hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda.

Hinn 29. maí 2013 auglýsti Ríkiskaup fyrir hönd Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) og fleiri heilbrigðisstofnanna útboð auðkennt nr. 15468, „Rekstrarvörur fyrir speglun“. Fyrirspurnarfrestur vegna útboðsins rann út 3. september 2013 og svarfrestur 6. sama mánaðar. Í útboðsgögnum kom fram að útboðið væri auglýst á EES-svæðinu og um útboðið giltu ákvæði laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og ákvæði laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Hinn 19. júlí 2013 barst kærða Ríkiskaupum athugasemd frá tilteknu fyrirtæki á þá leið að deildarstjóri á speglunardeild LSH væri meðeigandi fyrirtækis sem byði umræddar vöru til kaups, en í krafti stöðu sinnar hefði deildarstjórinn aðgang að innkaupsverðum frá þeim fyrirtækjum sem væru líkleg til þess að senda inn tilboð í útboðinu. Hinn 8. ágúst 2013 brást Ríkiskaup við athugasemdinni með því að birta á vef sínum skjal sem innihélt upplýsingar úr Oracle vörukerfi LSH um innkaup vöru á speglunardeild frá 1. janúar 2012 til júlí 2013, en þar komu fram vörunúmer í Oracle, vörunúmer viðkomandi birgja, heiti vörunnar í birgðakerfi LSH, hvenær varan var síðast pöntuð og síðasta innkaupsverð. Með tölvupósti 3. september 2013 mótmælti kærandi þessari birtingu þar sem gögnin væru trúnaðargögn og innihéldu viðkvæm viðskiptaleyndarmál kæranda. Gerði kærandi þær kröfur að Ríkiskaup fjarlægði verðupplýsingarnar, leiðrétti rangfærslur, að útboðinu yrði hætt og hafið að nýju.

Kæra kæranda lýtur að lögmæti framangreindrar ákvörðunar varnaraðila um birtingu verðupplýsinga 8. ágúst 2013.  Byggir málatilbúnaður hans í meginatriðum á því að ákvörðun varnaraðila um að birta umræddar upplýsingar hafi brotið gegn jafnræði með því að stór hluti upplýsinganna hafi verið verð frá honum. Um sé að ræða afar viðkvæm trúnaðargögn sem gefi samkeppnisaðilum hans forskot í fyrirhuguðu útboði. Þá er einnig vísað til þess að andmælaréttur hafi verið brotinn á kæranda þar sem ákvörðun hafi verið tekin um birtingu án samþykkis hans. Hér sé um að ræða verulega annmarka sem leiði til ógildis innkaupaferlisins. 

Niðurstaða

            Í máli þessu liggur fyrir að kæra var móttekin hjá kærunefnd útboðsmála hinn 10. september sl. Var þá liðinn frestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, til að bera undir nefndina lögmæti ákvörðunar varnaraðila 8. ágúst 2013 um birtingu verðupplýsinga. Samkvæmt þessu verður ekki talið að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna, sbr. 1. mgr. 96. gr. laganna, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því að hafna kröfu kæranda þess efnis að kærunefnd stöðvi þegar í stað innkaupaferlið. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Inter ehf., um að stöðvað verði útboð varnaraðila, Ríkiskaupa, nr. 15468 auðkennt „Rekstrarvörur fyrir speglun“, er hafnað.

 

Reykjavík, 23. september 2013.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta