Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 66/2011

Mánudaginn 16. september 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. nóvember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. október 2011 þar sem umsókn hennar um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklinga var hafnað.

Með bréfi 9. nóvember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. nóvember 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 28. nóvember 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 12. desember 2011.

I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 9. febrúar 2011. Umsóknin var tekin til vinnslu í október 2011. Samkvæmt umsókninni er kærandi einhleyp og býr með syni sínum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. október 2011 var umsókn hennar um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að umboðsmaður skuldara endurskoði afstöðu sína.

Að sögn kæranda hrundi tölvupóstur hennar heima fyrir en vegna þessa var greinargerð kæranda með umsókn ekki send á réttum tíma. Á sama tíma hafi hún verið veik heima. Þegar kærandi kom aftur til vinnu viku síðar hafi tölvan í vinnunni einnig hrunið. Kærandi hafi þá verið án tölvu í tvo daga og geti vinnuveitandi hennar staðfest þetta. Kærandi hafi ekki svarað símtölum því hún hafi verið upptekin á fundum en viðurkennir að hún hefði átt að hringja til baka.

Greinargerðin sem kærandi skilaði inn að lokum hafi verið skrifuð eftir bestu vitund og eftir gefnum leiðbeiningum. Kærandi sé tilbúin að tilgreina hvert lán og til hvers það hafi verið tekið fái hún annað tækifæri til þess.

Kærandi telur að hag sínum og kröfuhafa sinna sé best borgið taki umboðsmaður umsóknina aftur til meðferðar. Banki kæranda sé langt kominn með að afgreiða umsókn hennar um 110% leiðina.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé einstæð móðir með son sinn á framfæri. Kærandi keypti íbúð í janúar 2006 og hafi henni gengið vel að standa í skilum. Kærandi hafi átt ræstingafyrirtæki með fjölskyldu sinni og hafði fyrirtækið nokkur föst verkefni. Haustið 2008 hafi fyrirtækið misst þau verkefni í kjölfar hrunsins og tekjur kæranda dregist saman. Í framhaldi af þessu hafi greiðsluerfiðleikar hennar hafist.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 2. gr. laga nr. 101/2010.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður bendir á að kærandi hafi ekki skilað inn greinargerð með umsókn sinni um heimild til greiðsluaðlögunar. Starfsmenn embættisins hafi ítrekað óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda. Kærandi hafi oftsinnis verið upplýst um að til þess að unnt væri að afgreiða umsókn hennar yrði hún að skila inn greinargerð og öðrum umbeðnum gögnum. Þegar ákvörðun hafi verið tekin þann 17. október 2011 hafi kærandi ekki verið búin að skila inn neinum gögnum.

Upplýsingarnar sem umboðsmaður hafi óskað eftir séu þess eðlis að það sé ekki á færi annarra en kæranda að leggja þær fram. Þessi gögn séu jafnframt nauðsynleg til að unnt sé að leggja mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði laga til þess að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Þrátt fyrir að kærandi hafi skilað inn greinargerð sama dag og kærunefnd móttók kæru hennar hafi hún ekki skilað inn greinargerðinni innan þess lokafrests sem umboðsmaður veitti henni. Henni hafði þá ítrekað verið veittur frestur til að skila inn umbeðnum gögnum. Umboðsmaður telur því greinargerðina of seint fram komna.

Umboðsmaður bendir á að hann hafi gætt leiðbeiningarskyldu. Leiðbeiningar um gerð greinargerðar hafi verið sendar kæranda með tölvupósti 18. júlí 2011 og einnig í ábyrgðarbréfi, mótteknu 2. september 2011, þar sem beiðni um upplýsingar hafi verið ítrekuð. Einnig hafi verið gætt að upplýsingaskyldu við meðferð málsins. Kærandi hafi í áðurnefndum tölvupósti og ábyrgðarbréfi verið upplýst um að umsókn hennar yrði synjað sökum ófullnægjandi gagna, bærust umbeðin gögn ekki innan tiltekins tíma.

Í greinargerð sinni tiltekur umboðsmaður að kærandi hafi ekki tilgreint ástæður úttektar á kreditkorti sínu, yfirdráttar á tékkareikningi sínum eða lána samkvæmt þremur skuldabréfum hjá Íslandsbanka. Kærandi hafi heldur ekki tilgreint ástæðu láns samkvæmt skuldabréfi hjá Landsbankanum.

Umboðsmaður telur ljóst samkvæmt þessu að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður fer því fram á að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sem tekin hafi verið á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., en þar er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn með umsókn sinni um greiðsluaðlögun. Ítrekað hafi verið beðið um frekari gögn en engin gögn hafi borist. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað.

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála bendir á að endurskoðun æðra setts stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Það er hlutverk kærunefndarinnar að taka afstöðu til þess hvort lagaskilyrði fyrir ákvörðun séu uppfyllt, hvort rétt atvik hafi verið lögð til grundvallar og hvort forsendur hinnar kærðu ákvörðunar séu lögmætar og málefnalegar. Þá er það einnig hlutverk kærunefndarinnar að taka afstöðu til þess hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt. Í 1. mgr. 32. gr. lge. kemur fram að ákvörðunum í samræmi við ákvæði laganna sé heimilt að skjóta til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Í 3. mgr. 32. gr. lge. kemur fram að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir á stjórnsýslustigi. Af þessu leiðir að löggjafinn hefur gert ráð fyrir að þau mál sem lögin taka til og ágreiningur rís um séu tekin til afgreiðslu á tveimur stjórnsýslustigum.

Í málinu er synjun umboðsmanns skuldara byggð á því að greinagerð kæranda hafi ekki borist embættinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir þess efnis. Undir rekstri málsins hjá kærunefndinni lagði kærandi fram umbeðna greinagerð og hefur því, að minnsta kosti að einhverju leyti, fært fram þær upplýsingar sem óskað var eftir.

Þar sem málsmeðferð samkvæmt lge. fer, eins og áður segir, fram á tveimur stjórnsýslustigum er kærunefndinni ekki fært að taka ákvörðun í málinu byggða á þeim viðbótargögnum sem nú liggja fyrir. Kærunefndin telur því rétt að vísa málinu á ný til meðferðar umboðsmanns skuldara á grundvelli hinna nýju gagna.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi og málinu vísað aftur til umboðsmanns skuldara.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta