Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 11. október 1979

Ár 1979, fimmtudaginn 11. október var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Hjörtur Torfason, hrl.
                  f.h. Landsvirkjunar
                  gegn
                  Herði Jónssyni
                  eiganda Höfða, Mosfellshreppi, o.fl.

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 4. maí 1977 hefur lögmaður eignarnema farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að Matsnefndin framkvæmi mat á meintu tjóni eiganda jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi vegna 220 KV. háspennulínu (Hvalfjarðarlínu), sem Landsvirkjun hyggst leggja yfir land jarðarinnar. Kveður hann línu þessa muni liggja frá spennistöð Landsvirkjunar á Hólmsheiði ofan við Geitháls að nýrri spennistöð á Brennimel skammt frá Grundartanga í Hvalfirði og tengjast þar byggðarlínunni til Norðurlands.

Eigandi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi er Hörður Jónsson, verslunarmaður, Bakkaflöt 12 í Garðabæ og lögmaður hans í máli þessu er Skúli Pálsson, hrl. Einnig kemur inn í mál þetta Páll Pétursson, eigandi að landspildu á jörðinni.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 9. maí 1977 á fundi nefndarinnar, sem haldinn var á landi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi. Var eignarnámsþoli mættur þar sjálfur ásamt lögmanni sínum, svo og voru mættir þarna umboðsmenn eignarnema.

Matsmenn gengu þá á vettvang ásamt viðstöddum aðilum og umboðsmönnum þeirra og skoðuðu landið og aðstæður á landinu og þá sérstaklega landsvæði það, sem háspennulínan á að liggja um.

Sátt var reynd með aðilum en árangurslaust. Eignarnámsþoli neitaði því að framkvæmdir hæfust á landi hans nema samkvæmt úrskurði Matsnefndarinnar og þá gegn fullri tryggingu.

Eignarnemi fór þess þá á leit með vísan til 14. greinar laga nr. 11/1973 að Matsnefndin heimilaði Landsvirkjun að ráðast nú þegar í þær framkvæmdir í landi Höfða, sem heyra til byggingu línunnar, svo og taka þau umráð yfir landinu eða aðgang að því, sem til þyrfti í því sambandi. Kvaðst eignarnemi reiðubúinn til að setja tryggingu vegna þessara framkvæmda fyrir væntanlegum bótum.

Þegar Matsmenn gengu á vettvang í þetta sinn komust þeir að raun um, að land það sem hér um ræðir er mestmegnis gróið mosaland með berjalyngi og grónum hvömmum en sumstaðar ógrónum melum og mýrarsundum.

Hinn 10. maí 1977 var síðan kveðinn upp úrskurður í málinu á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 og segir m.a. svo í þeim úrskurði:

"Í 7. gr. laga nr. 59/1965 um Landsvirkjun segir, að til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þurfi Landsvirkjun leyfi ráðherra þess sem fer með raforkumál. Skal Landsvirkjun senda ráðherra þeim, sem fer með raforkumál uppdrætti að hinum fyrirhuguðu mannvirkjum ásamt lýsingu á þeim. Samkvæmt því sem fyrir liggur í máli þessu er lagaákvæði þessu fullnægt.

Í 18. gr. sömu laga segir að ráðherra geti heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki, og önnur réttindi, sem nauðsynlegt sé til framkvæmda skv. lögunum. Um framkvæmd eignarnáms skuli fara eftir lögum nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms, sbr. nú lög nr. 11/1973.

Samkvæmt því, sem fyrir liggur í máli þessu er ákvæðum laganna um eignarnámsheimild til handa eignarnema fullnægt.

Í 14. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir, að þótt mati sé ekki lokið geti Matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir, sem séu tilefni eignarnámsins. Við vettvangsgöngu þá, sem fram fór 9. maí kynntu matsmenn sér rækilega land það, sem hér um ræðir og línan á að liggja um og kom í ljós, að þar er hvergi um ræktað land að ræða né önnur mannvirki, er spillast kunna vegna lagningar línunnar. Þá líta matsmenn svo á að það muni ekki á neinn hátt torvelda framkvæmd efnismats í málinu, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola þótt Landsvirkjun verði veitt leyfi til að hefjast nú þegar handa á þeim framkvæmdum, sem lýst er hér að framan. Ekki hefur heldur af hálfu eignarnámsþola verið bent á nein þau efnisrök, sem mæli því í gegn, að eignarnema verði veitt heimild til, með hliðsjón af 14. gr. l. nr. 11/1973 að hefjast handa um framkvæmdir þær sem hér um ræðir.

Að svo vöxnu máli samþykkti Matsnefndin með samhljóða atkvæðum og með tilvísun til 14. gr. l. nr. 11/1973 að leyfa eignarnema að hefjast nú þegar handa um áðurgreindar framkvæmdir á landi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi.

Eignarnámsþoli hefur krafist tryggingar af hálfu eignarnema vegna framkvæmda þessara. Af því efni þykir rétt að benda á eftirfarandi. Samkvæmt 1. gr. l. nr. 59/1965 setti ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur á stofn virkjunarfyrirtæki, er nefndist Landsvirkjun. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili, er hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkisins og Reykjavíkurborgar og á hvor aðili um sig helming fyrirtækisins. Hvor aðili um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum. Skv. þessu ábyrgist ríkissjóður Íslands og borgarsjóður Reykjavíkur fjárskuldbindingar Landsvirkjunarinnar og að áliti Matsnefndarinnar skiptir það ekki máli, þótt lögin segi að hvor aðili um sig sé í einfaldri ábyrgð vegna skuldbindinga fyrirtækisins. Matsnefndin hefur áður úrskurðað, að um framkvæmdir á vegum ríkisins, sem gerðar séu á ábyrgð ríkissjóðs Íslands komi ekki til álita að ákveða sérstaklega tryggingu fyrir væntanlegum bótum til eignarnámsþola vegna slíkra framkvæmda.

Þykir Matsnefndinni ekki ástæða til, að gera breytingu í þessu efni, þótt Reykjavíkurborg sé inni í málinu, sem annar aðili.

Hæfilegar skaðabætur til eignarnámsþola vegna framkvæmda þeirra, sem hér um ræðir, verða úrskurðaðar í síðara stigi þessa máls.

Einnig verður þá kveðið á um kostnað af málinu skv. 11. gr. l. nr. 11/1973."

Eignarnemi tekur fram, að með byggingu línunnar hafi hann ekki framkvæmt eignartöku á sjálfu landi jarðarinnar Höfða í Mosfellshreppi, heldur á þeirri kvöð að línan fái að standa þar. Sé til þess ætlast að í máli þessu verði landeiganda að Höfða metnar skaðabætur í formi eignarnámsbóta fyrir það tjón, sem kvöð þessi valdi honum, ásamt landspjöllum vegna byggingaframkvæmda. Hins vegar sé rétt að gæta þess í þessu sambandi að réttur landeiganda til landsins verði áfram óskertur að öðru leyti en því, sem leiði af legu línunnar og öryggisreglum samfara henni.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu, er háspennulína sú, sem hér um ræðir þriggja fasa lína með 220 KV spennu, lögð á stauravirki úr stáli. Standa þau yfirleitt á tveimur steinsteyptum sökklum (eitt stauravirki á 4 sökklum), og þeim er haldið lóðréttum með fjórum stögum, sem strekkt eru í festingar úr steinsteypu. Línan er sömu gerðar og Búrfellslína II, er liggur austan frá Búrfellsvirkjun og Sigölduvirkjun að spennistöðinni á Hólmsheiði. Leið þeirrar línu, sem um ræðir í þessu máli er frá Geithálsi austan um Grimmannsfell yfir Mosfellsheiði, Kjósarskarð, Reynivallaháls, Brynjudalsvog, Þyrilsnes og þaðan norðan Hvalfjarðar að Brennimel í landi Kalastaðakots, en þaðan liggur svo grein hennar niður að Grundartanga.

Bil milli víra línunnar er talið 9,4 m., þannig að samanlagt spannar hún 18.8 m. breidd. Línunni fylgir bann við byggingum í næsta nágrenni hennar. Skv. gildandi reglum Rafmagnseftirlits ríkisins er fjarlægð bygginga frá línunni í aðalatriðum á þá leið, að lárétt fjarlægð frá ysta vír og byggingu skuli vera minnst 10 m. miðað við stöðu vírsins án útsveiflu. Við 45° útsveiflu í óhagstæðustu átt má vírinn ekki koma nær byggingu en 5 m. mælt lárétt frá þeirri stöðu. Samkvæmt reglunum bætast því 2 x 10 m. við breidd línunnar sjálfrar eða samtals 38.8 m., að því er tekur til byggingabanns. Algeng hæð línunnar frá jörðu er 20 m. og algengt haf milli stauravirkja er talið 350 til 400 m.

Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja í málinu og ágreiningslausar eru er lengd línunnar í landi Höfða talin 2850 m.

Með bréfi dags. 13. des. 1976 hefur iðnaðarráðherra með heimild í 7. gr. l. um landsvirkjun nr. 59 frá 1965 veitt Landsvirkjun heimild til bygginga 220 KV háspennulínu milli spennistöðvar Landsvirkjunnar við Geitháls og hinnar fyrirhuguðu Járnblendiverksmiðju við Grundartanga í Hvalfirði.
Um eignarnámsheimild sína vísar eignarnemi til bréfs iðnaðarráðherra dags. 9.maí 1977, sem lagt er fram í þessu máli, þar sem ráðherra heimilar Landsvirkjun að framkvæma eignarnám á lóðum og löndum eftir því sem hún þurfi vegna línunnar, skv. 18. gr. laga nr. 59 frá 1965 um Landsvirkjun, að því leyti sem það reynist óhjákvæmilegt að hennar mati til lausnar á vandamálum í samskiptum við landeigendur varðandi línulögnina.

Þá vísar iðnaðarráðuneytið til þess að það líti svo á, að meta beri virkjunina við Sigöldu og tengdar aðalorkuveitur þ.ám. Hvalfjarðarlínu, sem orkuver og orkuveitur, sem leyfðar hafa verið í skilningi 54. gr. vatnalaga nr. 15 frá 1923, þannig að virkjunin og veiturnar njóti þeirra réttinda gagnvart löndum, lóðum og mannvirkjum, sem um er mælt í 55. gr. vatnalaganna.

Eignarnemi telur, að í þrengsta skilningi taki kvöðin af háspennulínunni einungis til þess lands, sem beinlínis fari undir línumannvirki, þ.e. staura og stög og sé flatarmál þess lands óverulegt. Um skerðingu á notum og nýtingarmöguleikum sé ekki að ræða varðandi annað land en þetta.

Hann telur að bætur vegna línukvaðarinnar með tilliti til rýrnunar landsins vegna útilokunar annarra mannvirkja, geti því aldrei tekið til meira landsvæðis en þess, sem sé í byggingarbanni. Flatarmál þess svæðis í landi Höfða sé sýnt á mskj. nr. 34 og sé þar reiknað eftir þremur aðferðum. Hin fyrsta og réttasta að hans áliti sé miðuð við að fylgt sé boganum er myndast við útslag línunnar (þ.e. útslag + 5 m.), þar sem það eigi við og sé flatarmál samkvæmt þessu alls 12.11 ha.

Önnur aðferðin sé byggð á því að fylgja beinni útlínu á hverju staurabili, þ.e. fastri kvaðarbreidd, sem ráðist af mesta útslagi línunnar á því bili. Samkvæmt þessu sé flatarmálið 13.33 ha.

Þriðja aðferðin sé byggð á því að fylgja beinni útlínu og fastri kvaðarbreidd á allri lengd línunnar í landi Höfða. Sé þar reiknað með mestu breidd sem um sé að ræða í því sambandi, þ.e. 16.4 m. eftir því staurabili, þar sem útslagið sé mest. Skv. þessu verði flatarmálið 14.73 ha. og sé sú tala í rauninni of há að áliti eignarnema.

Samkvæmt þessu er það krafa matsbeiðanda, að bætur vegna takmörkunar landsnota af öryggisástæðum verði í hæsta lagi miðað við landsvæði er sé 12.11 ha., eða því sem næst, en þó aldrei meira en 14.73 ha.

Eignarnemi segir, að með lagningu háspennulínunnar um land eignarnámsþola sé sú kvöð lögð á landið, að línan fái að standa þar óáreitt framvegis. Jafnframt sé það áskilið, að umráðamenn línunnar hafi óhindraðan aðgang að línustæðinu til eftirlits, viðhalds og viðgerða á línumannvirkjunum. Það sé og að sjálfsögðu áskilið, að landeigandi stofni ekki línunni í hættu með aðgerðum á landi sínu. Eignarnemi segir, að um þau öryggisskilyrði sem línueigandi þurfi að gæta gagnvart umhverfinu, gildi reglur Rafmagnseftirlits ríkisins skv. reglugerð nr. 61 frá 1933 um raforkuvirki, sbr. nú reglugerð nr. 264 frá 1971.

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþolann, Hörð Jónsson, Skúli Pálsson, hæstaréttarlögmaður. Gerir hann þær kröfur, að eignarnámsbætur vegna háspennulínu um land Höfða verði ákveðnar með hliðsjón af og í samræmi við markaðsverð byggingalóða auk bóta fyrir jarðrask, sem orðið hafi utan þess lands, sem undir línuna fari, skemmda á vegi, kostnað við færslu símalínu og óþæginda, sem eignarnámsþoli hafi orðið fyrir. Þá er krafist málskostnaðar í málinu skv. gjaldskrá L.M.F.Í.

Ágreiningslaust sé í málinu að lína þessi liggi yfir land eignarnámsþola frá austri til vesturs á 2852 m. löngu svæði, en eignarnámsþoli segir, að línan skeri land hans í tvennt.

Eignarnámsþoli telur, að svæði það er eignarnemi reikni með vegna línunnar sé alltof mjótt og einungis miðað við að alls ekki megi byggja á því svæði né hafa þar trjágróður o.s.frv.

Auk þessa komi auðvitað til ýmis önnur atriði, svo sem truflanir á fjarskiptum, sjónvarpi og útvarpi og yfirleitt öllum radiotækjum, einkum á lágtíðnisviðum. Þá séu mikil óþægindi frá hvin í línum þessum þegar hvasst sé. Þá verði símalínur, þ.e. loftlínur, að vera í mikilli fjarlægð frá háspennulínum. Það sé því ljóst að verulega breitt belti við háspennulínur sé nauðsynlegt vegna öryggisráðstafana og til að komast hjá óþægindum og að einungis utan þess beltis verði um að ræða lóðir til bygginga, sem eftirsóknarverðar og seljanlegar megi teljast. Eignarnámsþoli telur að þetta belti verði að vera eigi minna en reiknað sé með eftir íslenskum staðli um vindálag, en útreikningur samkvæmt þeim staðli er lagður fram í málinu. Samkvæmt þessum útreikningum sem séu byggðir á því að vír slitni við staur sé nauðsynleg vegalengd frá stauravirki til bygginga 79.2 m. x 2 til að öllum öryggissjónarmiðum sé fullnægt. Samkvæmt þessum útreikningum verði svæði það, sem fari undir línuna í landi eignarnámsþola 95.83 ha.

Eignarnámsþoli krefst þess, að við ákvörðun eignarnámsbóta verði land það sem tekið sé að fullu bætt. Í því sambandi leggur hann þunga áherslu á það, að land það, sem hér komi til mats sé framtíðarbyggingarland fyrir höfuðborgarsvæðið, hvort sem það verði innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur eða nágrannasveitarfélaga í framtíðinni. Þá minni hann á, að vatnsvernd sem lengi hafi verið þrándur í götu byggingaframkvæmda í nágrenni Reykjavíkur sé ekki lengur raunhæf, enda ljóst að neysluvatn verði fengið í framtíðinni úr borholum.

Eignarnámsþoli segir landið sjálft mjög vel fallið til bygginga. Aðgangur sé að tveimur vötnum, sem hafi í för með sér fjölbreytni í byggingarstíl og fegurð í skipulagi, svo og tækifæri til fjölbreyttara útilífs, bæði á sumrum og vetrum. Þá sé fjölbreytni í landslagi einstök.

Eignarnámsþoli telur, að alls muni ca 960 byggingalóðir rúmast á landi því, sem háspennulínan tekur yfir, ef stærð byggingalóða sé talin ca. 1000 m². Telur hann ekki fjarlægt að hugsa sér, að lóðarverð sé hæfilega áætlað í dag kr. 4.000.000.-. Bendir hann á ýmis dæmi því til sönnunar, sölu einbýlishúsalóða í Selási, á Seltjarnarnesi og á Reykjum í Mosfellssveit.

Varðandi gróðurspjöll, vegaspjöll og annað tjón og óþægindi bendir eignarnámsþoli á eftirfarandi:

Land hans hafi við upphaf framkvæmda á vegum eignarnema verið girt fjárheldri girðingu og mjög gróðursælt.

Við framkvæmdir eignarnema hafi hallað á ógæfuhliðina. Girðingar hafi verið eyðilagðar og hlið, svo fé hafi gengið sjálfala um landið.

Vegur að landinu hafi verið eyðilagður og ýmsar gróðurskemmdir unnar að óþörfu með vinnuvélum og ýmsum átroðningi.

Þá kveðst eignarnámsþoli hafa haft mikið amstur og óþægindi af þessum framkvæmdum.

Loks tekur hann fram, að símalínu sem liggur að húsum hans verði að færa frá háspennulínunni.

Eignarnámsþoli krefst bóta fyrir allt þetta tjón.

Eignarnámsþoli kveðst skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar eiga að fá fullt verð fyrir þá eign hans, sem tekin sé eignarnámi. Hann kveðst hafa leitt rök að því, að landið verði í náinni framtíð nýtt til bygginga íbúðarhúsa og framkvæmdir þær sem um hafi verið að ræða á landinu komi til með að valda verulegri röskun þeirrar nýtingar.

Lögmaður eignarnámsþola hefur í greinargerð sinni tekið upp eftirfarandi málsgrein úr greinargerð lögmann eignarnema: "Er til þess ætlast að Matsnefndin meti til eignarnámsbóta það tjón, sem kvöð þessi veldur landeiganda, þ.á m. þau eignaspjöll sem verða kunna vegna byggingaframkvæmda við upphaflega lagningu línunnar." Síðan segir lögmaður eignarnámsþola í greinargerð sinni: "Þessum skilningi er með öllu mótmælt og þess krafist, að land það, sem verður umbj. mínum ónýtt, verði metið til fulls verðs skv. þeim sjónarmiðum, sem ég hefi sett fram hér að framan. Landið er umbj. mínum ónýtt eftir að línan hefur verið lögð og langt umfram það, sem lögmaður matsbeiðanda vill vera láta." Skv. þessu hefur lögmaðurinn tekið fram, að það sé hans álit, að með greiðslu fullra bóta fyrir landið eignist eignarnemi landspildu þá, sem hér um ræðir.

Eignarnámsþoli telur, að hættan af línunni t.d. ef hún slitni eða mastur falli, sé meiri en eignarnemi vilji vera láta. Telur hann að ekki hafi verið gætt fyllstu sjónarmiða um öryggi við byggingu línunnar. Þá telur hann að verulegar kvaðir fylgi með línunni vegna umferðar og eftirlits með henni. Þá segir hann, að myndast hafi ónothæf ræma í landinu vegna lagningar línunnar. Ekki sé byggilegt undir línunni og eftirlit og viðhald á henni muni sífellt raska notkun eignarnámsþola af landinu, t.d. vegna umferðar um landið með tæki og áhöld.

Þá séu lóðir óseljanlegar í nálægð svona mannvirkja. Er það skoðun eignarnámsþola að land hans sé framtíðarbyggingarsvæði fyrir þéttbýliskjarnann á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Eftir ca. 5 ár muni verða mikil ásókn eftir íbúðarhúsalóðum á jörð hans.

Eignarnámsþoli hefur lagt fram í málinu kostnaðaráætlun "vegna spjalla á vegi, girðingum og hliðum vegna athafna Landsvirkjunar á landi Höfða sumarið 1978" að upphæð samtals kr. 5.097.950.-.

III.

Krafa Landsvirkjunar í máli þessu er sú, að ekki sé óskað eftir eignarnámi í þeim skilningi, að Landsvirkjun verði eigandi að landspildu þeirri, sem hér um ræðir, heldur að sú kvöð verði lögð á landið, sem leiðir af því, að leggja þurfi umrædda háspennulínu yfir landið og að láta hana standa þar, og að hafa óhindraðan aðgang að línumannvirkjunum vegna venjulegs eftirlits og viðhalds. Lítur Matsnefndin svo á að krafa þessi hafi stoð í 18. gr. laga nr. 59/1965 sbr. 55. gr. laga nr. 15/1923. Samkvæmt þessu eru ekki efni til þess að taka þá kröfu eignarnámsþola til greina, að eignarnemi verði eigandi að landspildu þeirri, sem hér um ræðir.

Það er skoðun matsmanna, að þeim beri í mati sínu að meta bætur fyrir þá verðrýrnun, sem verður á landi eignarnámsþola við það, að sú kvöð hefur verið lögð á landið, að háspennulína eignarnema hefur verið lögð yfir það, enda verði og tillit tekið til þeirrar aðstöðu, sem eignarnemi telur sig þurfa á landinu og áður hefur verið greint frá. Þá þykir einnig rétt að meta þá röskun og landspjöll sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir vegna framkvæmda þessara.

Línustæðið um land eignarnámsþola liggur utan núverandi skipulagðra svæða Reykjavíkurborgar enda er jörðin Höfði í Mosfellssveit.

Land það er háspennulínan liggur um er óræktað. Jörðin Höfði hefur verið notuð til búrekstrar á hefðbundinn hátt, en undanfarin ár mun þar þó eingöngu hafa verið rekið hænsnabú a.m.k. um tíma, en landið friðað að öðru leyti, og ekki búið á jörðinni.

Um árabil hefur nokkuð verið sóttst eftir því að fá aðstöðu til byggingar sumarbústaða utan þéttbýliskjarnanna. Hefur nokkuð verið um sölur á löndum undir sumarbústaði í nágrenni höfuðborgarinnar, en ekki hefur eignarnámsþoli í þessu máli eða fyrri eigendur þessarar jarðar látið land af hendi í þessu skyni, nema mjög óverulega. Virðist það hafa verið markmið eignarnámsþola, að friða land sitt og geyma það til síðari skipulagningar fyrir íbúðarhúsabyggð.

Lögmenn aðila hafa skrifað greinargerðir í þessu máli og flutt það munnlega fyrir Matsnefndinni. Sátt hefur verið reynd í málinu en árangurslaust. Talsvert mikið af gögnum hefur verið lagt fyrir nefndina í þessu máli, þ.á m. ýmsar upplýsingar um sölu landa bæði undir íbúðarhús og sumarbústaði.

Matsnefndin hefur gengið á vettvang ásamt eignarnámsþola, lögmanni hans svo og lögmanni eignarnema og verkfræðingi frá honum. Svo og hafa matsmenn skoðað landið frekar eftir því sem þeir töldu þörf á.

Um kvöð þá, er línunni fylgir.

Með lagningu háspennulínunnar um land eignarnámsþola er sú kvöð lögð á landið, að línan skuli fá að standa þar óáreitt framvegis. Jafnframt fylgir það kvöðinni að umráðamenn línunnar hafi óhindraðan aðgang að línustæðinu til eftirlits, viðhalds og viðgerða á línumannvirkjunum. Ekki má landeigandi heldur stofna línunni í hættu með aðgerðum á landi sínu, en um þau öryggisskilyrði sem línueigandi þarf að gæta gagnvart umhverfinu gilda reglur Rafmagnseftirlits ríkisins, skv. reglugerð nr. 61/1933 um raforkuvirki, sbr. reglugerð nr. 264/1971.

Leyfilegar fjarlægðir mannvirkja frá háspennulínum Landsvirkjunar hafa yfirleitt verið ákveðnar með sérstökum tilkynningum Rafmagnseftirlits ríkisins sbr. nú reglugerð nr. 264/1971 er tók gildi 1. júlí 1972. Samkvæmt bréfi Rafmagnseftirlits ríkisins dags. 14. des. 1978, sem lagt er fram í málinu segir, að lárétt fjarlægð milli 220 KV línu og bygginga skuli vera a.m.k. 10 metrar. Hér sé miðað við stöðu víra og upphengibúnaðar þeirra eins og hann sé í logni. Við 45° útsveiflu vírs í óhagstæðustu átt megi hann þó ekki ganga nær byggingu en 5 m. Þessar stærðir séu miðaðar við falltrausta línu og hitastig + 30°C. Einnig verði að taka tillit til aukins slaka þegar vírar á nálgunarhafi beri snjó eða ís, en nálæg höf séu án slíks aukaálags. Snjó eða ísálag verði að ákvarða með hliðsjón af staðháttum.

Fánastengur eða aðrir háir hlutir megi ekki vera það nærri háspennuloftlínum, að þeir eða búnaður þeirra geti snert línurnar, þótt þeir falli eða fánalína fjúki til.

Segir í bréfinu, að framangreindar reglur gildi fyrir þéttbýli og strjábýli og hvort heldur um sé að ræða hús byggt úr timbri eða steini.

Þar sem jarðskaut séu í jörðu megi ekki gera neinar þær breytingar eða jarðrask, sem rýrt geti gildi skautanna, nema í samráði við eigendur eða umráðamenn þeirra og verði slíkt að metast í hverju tilviki.

Þá verði einnig að hafa í huga í sambandi við sprengivinnu, hugsanlegt grjótkast svo og hugsanlegan möguleika á ótímabærri kveikingu vegna áhrifa frá háspennulínu og skautum, að ekki sé því að treysta, að 10 m. fjarlægð nægi alltaf í þessu sambandi.

Sé ekki um nefndar hættur að ræða verði að líta svo á, að nálgast megi nefnd skaut með umræddar aðgerðir allt að 10 m. líkt og möstur slíkra lína. Sé þá gert ráð fyrir að möstur séu samtengd stöðvarskauti með jarðvír og snögg útleysing sé fyrir línu í bilunartilvikum. Ef ekki er svo, þá ætti fjarlægðin ekki að vera minni en 20 m., nema fyrirfram könnun á athafnastað hafi leitt í ljós að nær megi ganga.

Varðandi leyfilega nálægð trjágróðurs við víra 220 KV háspennulínu vísar Rafmagnseftirlit ríkisins til reglugerðar um raforkuvirki, gr. 403.

Umferðarkvöð um landið vegna línunnar getur verið tvenns konar. Annars vegar er um að ræða eftirlit og venjulegt viðhald línunnar, sem er framkvæmt með yfirferð 2-4 manna með handverkfæri tvisvar á ári að öllum jafnaði. Nauðsynlegt er talið að þessir menn hafi frjálsa umferð um landið að turnunum en ekki er talið nauðsynlegt að þeir fari með nein ökutæki um ræktað land.

Hins vegar er um að ræða umferð um landið til að framkvæma viðgerðir á hugsanlegum bilunum, t.d. ef línuvír slitnar eða turn brotnar. Undir þeim kringumstæðum þarf að hafa hraðar hendur við úrbætur og gæti þá t.d. orðið nauðsynlegt að fara með vélknúin vinnutæki að línustæðinu. Tíðleiki slíkra bilanna er talinn afar lítill.

Bil milli strengja línunnar er 9.40 m. á kafla þeim sem hér um ræðir, þannig að á breiddina spannar hún samanlagt 18.80 m. haf í lóðréttri stöðu þeirra. Efnið í línunni er álblanda eins og tíðkast hefur í nýjum línum. Á fyrstu fjórum stauravirkjum út frá spennistöð liggur 1 strengur ofan við línuleiðarana, sem er jarðtengileiðari. Frá jarðtengingu á öðrum stauravirkjum er gengið með rafskautum, sem grafin eru í jörð á hafinu undir línunni.

Mannvirki þetta er talið í heild sömu gerðar og Búrfellslína II og er sagt allt hið rammbyggðasta. Vinna að byggingu línunnar í landi Höfða hófst í maí 1977 og var straumi hleypt á línuna 15. nóv. 1977.

Í landi jarðarinnar Höfða, sem mat þetta tekur til, standa 8 stauravirki þessarar háspennulínu, nr. 2-9. Eru þessi stauravirki af venjulegri gerð burðarvirkja í línunni, þó þannig að á virkjum 2-4 er jarðtengileiðari og er virki 4 jafnframt hornstaur.

Jörðin Höfði er á skipulagsskyldu svæði og háð byggingarsamþykkt þeirri og skipulagsreglum, sem um það gildir í Mosfellssveit.

Lega og landslag

Þrátt fyrir það að landamerkjum jarðarinnar hafi ekki verið glögglega lýst má gera sér grein fyrir því sem máli skiptir á framlögðum kortum og ljósmynd.

Jörðin Höfði er í Mosfellshreppi og liggur að mörkum við Reykjavík. Land jarðarinnar er sunnanvert við Langavatn en yfirborð þess er í u.þ.b. 100 m. hæð yfir sjávarmál.

Til norðurs fer land lækkandi. Norðaustan við Langavatn er Hafravatn í u.þ.b. 1 km. fjarlægð en yfirborð þess er í um 78 m. hæð yfir sjávarmál.

Landið er yfir 100 m. hæðarlínu nema í lægðardragi austur af Langavatni í átt að Seljadalsá. Þar er landið í 90-100 m. hæð, þó heldur lægra á árbakkanum.

Á línustæðinu er landið í meira en 125 m. hæð allt austur fyrir turn 5. Mesta jarhæð í turnmiðju er 143 m. (turn 2) á þessu bili. Grunnur turns 5 er í 126 m. hæð. Frá turni þessum lækkar landið til austurs en jarðhæð turnanna er sem hér segir: Turn 6, hæð 117 m., turn 7, hæð 125 m., turn 8, 109 m., turn 9, 102,5 m. Hæð lands á bakka Seljadalsár er í um 90 m. hæð.

Bæjarhúsin að Höfða eru tengd vegakerfinu með afleggjara frá Mosfellsheiðarvegi. Tengsli afleggjarans við veglínu er nálægt 15 km. frá Reykjavík. Gamall slóði liggur um landið frá Hafravatnsvegi að bænum og fylgir hann línustæðinu að mestu. Stysta leiðin til sjávar (loftlína) er 6-7 km.

Land jarðarinnar telst í 3. flokki, sbr. reglur um verndun vatnsbóla og á uppdrætti er samþykktur var í samvinnunefnd um skipulag Reykjavíkur og nágrennis þann 28.6.1967. Um 3. flokk segir svo stafrétt: "Þar sem vitað er um sprungur eða misgengi, skal fyllstu varúðar gætt í meðferð þeirra efna, sem nefnd eru í kaflanum um verndarsvæði, sem teljast til 2. flokks og meiriháttar geymslur fyrir slíkt séu þar ekki leyfðar. Eftirlit sé með svæðinu öllu."

Í ritinu "Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-83" (hér á eftir nefnt AR) eru ýmsar upplýsingar að finna um landkosti í Reykjavík og nágrenni. Á korti bls. 35 má sjá að berggrunnssprunga liggur þvert yfir Langavatn og margar slíkar muni að finna sunnar og vestar í landinu.

Kort á bls. 34 sýnir byggileika. Þar má sjá að megnið af landi jarðarinnar er talið óbyggilegt. Aðeins blettur meðfram Seljadalsá er talinn byggilegur. Umrætt kort sýnir víðáttu hins byggilega lands allt frá Hvaleyrarholti til Kjalarness.

Augljóst er að ekki verður gerð frárennslislögn frá landi Höfða fyrr en byggð þaðan til sjávar verður orðin svo til samfelld. Ef hugleitt er hvenær það mætti verða þarf að íhuga líklega framvindu fólksfjölgunar.

Í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins júní 1977, um mannfjölda, mannafla og tekjur, er að finna framreikning mannfjölda á árunum 1975-2000. Ef gert er ráð fyrir sömu frjósemi til aldamóta og var árið 1974 mundi fólksfjöldinn á öllu landinu aukast úr 218.621 árið 1975 í 303.704 árið 2000. Sé ennfremur gert ráð fyrir því að flutningur milli byggðarlaga eigi sér ekki stað er útkoman fyrir Reykjavík og Reykjanes aukning úr 129.737 í 178.950 (sjá bls. 64) þ.e. á öllu svæðinu fjölgar um rúmlega 49.000 manns. Síðar í skýrslunni er framreikningur, sem gerir ráð fyrir lækkandi frjósemi tímabilið 1976-2000 en þá yrði talan komin niður í það sem var í Danmörku árið 1974. Á þessari forsendu yrði mannfjöldinn á öllu landinu 285.326 árið 2001 (skv. bls. 90) þ.e. 18.000 lægri en fyrri forsendan.

Viðhorf síðustu ára (byggðastefnan) bendir frekar til hlutfallslegrar fækkunar á Reykjavík/Reykjanessvæðinu miðað við landið allt í framtíðinni.

Síðustu viðhorf í byggingarmálum í Reykjavík virðast beinast í þá átt, að nýta byggileg svæði betur en þegar hefur verið gert og á þann hátt minnka á útþennslu, sem verið hefur á byggðinni.

Byggilegt land á Stór-Reykjavíkursvæðinu er all víðlent (sjá A.R.). Skipulagstillögur hafa komið fram á þessu svæði. Nærtækast er svæðið Geldinganes, Gufunesmelar, Korpúlfsstaðir o.s.frv. (Morgbl. 20/11 `76 og sýning sbr. Kjarvalsstaðir 1976). Þessi lönd liggja milli Höfða og sjávar. Gert er ráð fyrir því, að svæði þetta taki við 50.000 íbúum, þ.e. ívið meira en ýtrasta áætluð fjölgun á öllu Reykjavíkur/Reykjanessvæðinu til ársins 2000. Skipulagstillögur eru í athugun og úrvinnslu til framkvæmda allt frá Hafnarfirði upp á Kjalarnes.

Matsnefndin er þeirrar skoðunar, að þéttbýli í landi Höfða sé svo langt undan, að ekki sé sambærilegt við eðlilegan líftíma háspennulínunnar. Viðmiðun við íbúðarbyggingahúsalóðir komi því ekki til álita við mat þetta.

Sumarbústaðir.

Á korti bls. 77 A.R. er sýnd byggð sumarbústaða í nágrenni Reykjavíkur. Slík byggð nær ekki til lands Höfða. Sama kort sýnir hugsanleg skógræktarsvæði en einu slíku sleppir rétt austan við land Höfða. Skv. þeim fyrirspurnum sem Matsnefndin hefur gert virðist hafa dregið úr eftirspurn eftir sumarbústaðalöndum í nánd við Stór-Reykjavík. Menn virðast nú sækja lengra út í landsbyggðina og í vöxt fer að ýmis samtök komi sér upp sumarbústaðahverfum langt frá þéttbýliskjörnunum. Í máli þessu er greint frá sölu landspildu undir sumarbústað í brekkunni sunnan Langavatns. Brekka þessi er allbrött og veit mót norðri. Línulögnin ætti ekki að trufla sumarbústaðabyggð í brekku þessari ef til kemur. En nú eru skv. hinum nýju jarðalögum komnar miklar hömlur á frjálsræði til sumarbústaðabygginga. Einnig má geta þess, að hreppsnefnd Mosfellshrepps hefur verið mjög treg til að veita leyfi fyrir byggingu sumarbústaða. Kvöð sú sem fylgir línunni hindrar ekki eðlilega umferð um landið, ræktun þess eða notkun.

Stærð landsvæðis þess sem kvöðin nær til.

Breidd þess svæðis sem miða skal við telja Matsmenn eðlilegast að sé sú sama meðfram allri línunni, kvöðin nær því til 14.73 ha. (sjá mskj. nr. 34).

Eignarnámsþoli vill láta miða breiddina við það hve slitin lína geti færst mikið til. Bæði hann og eignarnemi hafa lagt fram útreikninga á líku línusliti. Eignarnámsþoli álítur að hönnunarforsendur hafi ekki verið strangar. Í mskj. nr. 40 gerir eignarnemi grein fyrir forsendum. Eins og í IST 12.3 er miðað við meðalgildi 3ja sek vindhviðu og árlegri tíðni 1/50. Matsnefndinni er kunnugt um að veðurfræðingur athugaði línustæðið og hugaði að þeirri viðvörun, sem finna má í íslenskum staðli um stormsveipa vegna landslags. Matsnefndin getur ekki betur séð en að fyllstu varúðar hafi verið gætt í hönnunarforsendum. Ekki hefur verið rökstutt í málinu, að ástæða sé til að vantreysta framkvæmdum eða eftirliti með þeim.

Í vettvangsgöngum þeim er fram hafa farið kynntu matsmenn sér hvernig umhorfs var á umræddu svæði eftir að eignarnemi hafði lokið framkvæmdum á svæðinu. Farið var meðfram öllu línustæðinu og athugað jarðrask það sem orðið hafði við línuframkvæmdirnar.

Jöfnun lands, ísáning grasfræs og dreifing tilbúins áburðar virtist í góðu lagi, og hætta virtist ekki á því, að uppblástur lands eigi sér stað vegna framkvæmdanna. Vegna ísáningarinnar og áburðargjafarinnar setti hinn nýji gróður annan svip á landið og auðséð var að villigæsir höfðu vel kunnað að meta þennan breytta gróður. Þar sem landið er að mestu rýrt heiðaland má gera ráð fyrir því, að með tíð og tíma breytist gróðurfarið á þá lund sem áður var. Þá voru vegir, hlið og girðingar athugað og taldi matsþoli girðingarnar vera komnar í viðundandi horf en hélt fram kröfum sínum um bætur fyrir veg og hlið.

Matsnefndin lítur svo á, að línukvöðin skerði landsafnot eignarnámsþola á þann hátt, að honum beri að fá fébætur fyrir það. Að því er varðar mat á skerðingunni telur Matsnefndin rétt að hafa hliðsjón af kostum landsins til búskapar og annarrar mögulegrar nýtingar, en á því svæði, sem línan liggur er land þetta óhreyft frá náttúrunnar hendi.

Heildarfasteignamat jarðarinnar Höfða er kr. 6.096.000.-, er skiptist þannig:

   Landverð   kr.   717.000.-
   3 ha. tún   "   430.000.-
   Íbúðarhús   "   3.181.000.-
   Fjárhús   "   317.000.-
   Hlaða   "   431.000.-
   Votheysgeymsla   "   158.000.-
   Geymsla   "   153.000.-
   Alifuglahús   "   709.000.-

Matsnefndin telur, að ekki séu rök fyrir því í málinu, að úrskurða Páli Péturssyni fébætur vegna lagningar háspennulínunnar.

Ekki hafa heldur, að áliti Matsnefndar komið fram í málinu rökstuddar upplýsingar um það, að færa þurfi símalínu frá háspennulínunni, eða að Hörður Jónsson þurfi að kosta slíka tilfærslu.

Varðandi þær málsástæður, að háspennulína þessi valdi truflunum á fjarskiptum, sjónvarpi og útvarpi og yfirleitt öllum radíotækjum, vill Matsnefndin benda á yfirlýsingu Halldórs Jónatanssonar, skrifstofustjóra, dags. 8. júní 1970, að val á efni í háspennulínur og vinna öll sé gerð með það í huga, að halda hátíðni útgeislun frá línum í lágmarki. Þeir telji því hættu á truflunum útvarps og sjónvarps sáralitla, nema beint undir línu eða mjög nærri turnum.

Ekki hafa komið fram í málinu gögn er hnekkja þessu áliti.

Matsnefndin hefur undir höndum talsvert miklar upplýsingar um sölur og möt á löndum í nágrenni Reykjavíkur. Þá hefir nefndin fengið kaupsamning Reykjavíkurborgar og eigenda um sölu jarðarinnar Reynisvatns, en sú jörð liggur milli Höfðajarðarinnar og borgarinnar. Bæði lega þeirrar jarðar og landgæði eru, að áliti Matsnefndar, talsvert hagstæðari og betri en Höfða og líklegt að byggingar hefjist fyrr á þeirri jörð.

Þegar virt eru þau atriði, sem rakin hafa verið og áhrif hafa á mat þetta, og að athuguðum öllum málavöxtum, þykja bætur til handa eignarnámsþolanum Herði Jónssyni hæfilega ákveðnar þannig:

1.   Bætur vegna kvaðarinnar ......................................   kr.   2.475.000.-
2.   Bætur vegna skemmda á vegi og hliði ..................   "   2.250.000.-
3.   Bætur vegna óþæginda .........................................   "   100.000.-
      Samtals   kr.   4.825.000.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþolanum Herði Jónssyni kr. 300.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 600.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Bárður Daníelsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Landsvirkjun, greiði eignarnámsþolanum Herði Jónssyni kr. 4.825.000.- og kr. 300.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 600.000.-.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta