Mál nr. 334/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Beiðni um endurupptöku máls nr. 334/2019
Miðvikudaginn 4. mars 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með bréfi, dags. 2. febrúar 2020, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 334/2019 þar sem staðfest var afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og synjun á umsókn um 50-60% styrk til kaupa á bifreið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, móttekinni 19. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. júlí 2019, var umsókn kæranda synjað. Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 30. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. júlí 2019, var umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa samþykkt samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun í málinu, dags. 3. september 2019, þar sem umsókn kæranda um styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 var samþykkt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. ágúst 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 15. janúar 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið.
II. Sjónarmið kæranda
Í endurupptökubeiðni kæranda er farið fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði úrskurð sinn, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Greint er frá því að kærandi hafi á árinu 2019 greinst með slagæðabólgu og við henni þurfi hún að taka inn Dekortin stera sem hafi gert hana mjög máttfarna. Hún eigi erfitt með að ganga og komist ekki leiðar sinnar án þess að notast við hækjur, göngugrind eða aðstoð.
Kærandi geti ekki ferðast lengur með strætisvögnum og þurfi á heimilishjálp að halda við dagleg störf. Hún styðjist við göngugrind og hækjur þegar hún þurfi að fara á milli staða í íbúð sinni. Kostnaður við leigubíla sé mjög mikill. Kærandi geti ekki sætt sig við að kaupa ónýtan skrjóð fyrir 1.440.000 kr. Hún stefni að því að fá hærri styrk til að geta keypt sér almennilegan sjálfskiptan bíl með leiðsögukerfi. Þá greinir kærandi frá fjárhagslegum aðstæðum sínum.
Kærandi segir að úrskurðarnefnd hafi tekið fram að til að fá styrkinn þurfi þessi skilyrði að vera uppfyllt, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, að „3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.“ Hreyfihömlun kæranda sé meiri en úrskurðarnefnd hafi talið því hún sé sjúklingur með mikla hreyfihömlun og noti tvær hækjur að staðaldri.
Kærandi vonar að úrskurðarnefnd sjái sóma sinn í að taka þetta mál til efnislegrar meðferðar á ný og úrskurði henni hærri styrk vegna bílakaupa.
III. Niðurstaða
Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. janúar 2020. Með úrskurðinum var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um 50-60% styrk staðfest. Af beiðni um endurupptöku má ráða að þess sé óskað að fallist verði á að veita kæranda 50-60% styrk til bifreiðakaupa.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.
Með beiðni um endurupptöku voru lögð fram tvö læknisvottorð B, dags. 13. nóvember 2019. Í öðru vottorðinu segir meðal annars:
„Það vottast hér með að viðkomandi er ófær um að sinna heimilisþrifum. Óskað er eftir að [kærandi] fái þjónustu heima vaðandi heimilisþrif.“
Í hinu vottorði B segir meðal annars:
„Það vottast hér með að viðkomandi er ófær um að nýta sér almenningssamgöngur, og þarfnast því akstursþjónustu.“
Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Úrskurðarnefndin telur að ekkert í þeim læknisfræðilegu gögnum sem kærandi lagði fram gefi til kynna að það mat úrskurðarnefndarinnar, að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir veitingu styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, hafi verið rangt. Framlögð gögn fjalli eingöngu um þörf kæranda fyrir heimilisþrif og akstursþjónustu þar sem að hún geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur.
Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 334/2019 synjað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 334/2019 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir