Nr. 12/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 12/2018
Miðvikudaginn 25. apríl 2018
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 16. janúar 2018, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. nóvember 2017 um bætur úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 31. október 2016, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 22. nóvember 2016. Sótt var um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala þann X.
Samkvæmt umsókn kæranda voru gerð mistök þegar hann var ekki sendur strax í aðgerð eftir hann leitaði á slysadeild Landspítala vegna handleggsbrots. Kærandi hafi ekki vitað að hugsanlega hafi verið um varanlegan skaða að ræða fyrr en haustið 2015 þegar ákveðið hafi verið að setja hann í aðgerð. Kærandi finni fyrir verkjum í vinstri úlnlið og framhandlegg. Hann eigi bágt með að framkvæma margar hreyfingar sem fari versnandi. Kærandi telji þetta hefta starfsgetu og að hann búi við varanlegan skaða á vinstri handlegg.
Sjúkratryggingar Íslands synjuðu kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 16. nóvember 2017, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. janúar 2018. Með bréfi, dags. 17. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 23. janúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. janúar 2018, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir við greinargerðina bárust 1. febrúar 2018 og voru þær sendar stofnuninni til kynningar með bréfi, dags. 1. febrúar 2018. Viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 16. febrúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. febrúar 2018. Athugasemdir kæranda bárust 27. febrúar 2018 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki sérstaka kröfu í málinu en líta verður svo á að með kærunni sé þess krafist að synjun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. nóvember 2017, um bætur úr sjúklingatryggingu verði felld úr gildi.
Kærandi telur að mistök og vanræksla hafi átt sér stað þegar hann vitjaði slysadeildar Landspítala vegna handleggsbrots þann X. Kærandi hafi leitað á heilsugæsluna í C en verið vísað á slysadeild Landspítala þar sem um slæmt brot hafi verið að ræða. Innkýlt brot fremst í radíus, samkvæmt röntgen á heilsugæslunni. Kærandi hafi fengið tilvísun með sér um að það þyrfti að teygja þetta þar sem brotið væri þess eðlis. Það hafi ekki verið gert og kærandi ekki sendur í aðgerð strax við komu eins og hefði átt að gera. Kærandi telur að ef hann hefði fengið rétta meðhöndlun í upphafi hefðu afleiðingar slyssins ekki orðið jafn miklar.
Við komu á slysadeild Landspítala hafi kærandi ekki verið tekinn í aðgerð heldur einungis settur í gifs. Gifsið hafi verið mjög illa sett á og hafi kærandi verið viðþolslaus af kvölum. Daginn eftir hafi hann fengið nýtt hærra gips. Kærandi hafi aftur farið á Landspítala ca. viku síðar og þá hafi komið í ljós að hann væri þríbrotinn en ekki bara brotinn á einum stað. Skekkjan hafi þá verið metin of mikil og því verið farið í lokaða réttingu í svæfingu og lagt gips yfir olnboga. Kærandi telur að það hefði átt að reponera (draga brotið rétt) strax eftir slysið.
Í sjúkraskrá kæranda segir vegna komu þann X:
„Þetta er ekki Salter-Harris fractura, þetta er ekki epiphysiolysa eins og var lýst í journal enda segir rtg. logiskt við skoðun eða fyrir viku síðan að þetta er distal radius og ulna fractura af collesi typu þó maður tali ekki um collesi fracturu hjá krökkum. Drengurinn er X ára og þetta er 25° skekkja sem ekki réttist. Þannig að það þarf að reponera þessu og hefði átt að reponera þessu strax í byrjun.“.
Síðan segir: ,,Hann er tekinn til aðgerðar. Það er farið að harðna í þessu og það er mjög erfitt að reponara þessu.“
Kærandi kveðst ekki skilja hvernig hægt hafi verið að horfa fram hjá þessum ummælum aðgerðarlæknis. Í sjúkraskránni hafi komið skýrt fram að það hefði átt að reponera strax rétt eins og kærandi fékk upplýsingar um við fyrstu komu á Heilsugæslunni C.
Misvísandi upplýsingar séu í gögnum um hvers eðlis brotið sé, einn læknir segir Salters-Harris fractura, en aðrir segja ekki Salters-Harris fractura. Meðal þeirra sem segja að þetta sé ekki Salters- Harris fractura sé aðgerðarlæknir sem hafi tekið kæranda til aðgerðar X. Einnig taldi aðgerðarlæknir að það hefði átt að reponera strax í byrjun. Greining skipti miklu máli í upphafi og þá með tilliti til þess hvaða meðferð verður fyrir valinu. Orð yfirlæknis bæklunardeildar Landspítalans hafi verið algjörlega óviðunandi að mati kæranda en fram komi í greinargerð hans: „Eftir yfirferð gagna og röntgenmynda telur undirritaður að líklegasta ástæða kvörtunar A sé að misvísandi upplýsingar hafi verið gefnar og er slíkt í sjálfu sér ekki óalgengt ef mismunandi aðilar koma að, sýnist þá sitt hverjum. Ber að harma það.“
Kærandi kveðst hafa leitað til D, læknis í E, vegna mikilla verkja og farið í aðgerð hjá honum í X. Kærandi hafi farið aftur í aðgerð hjá honum í X þar sem járn úr fyrri aðgerð voru fjarlægð. Kærandi hafi bundið vonir við að verkjaástand myndi lagast eftir þessar aðgerðir og að hann myndi ná fullum bata. Kærandi telji því ljóst að um varanlegan skaða sé að ræða og kveðst enn vera til meðferðar hjá D.
Kærandi kveðst ennþá verða með mikla verki frá vinstri úlnlið og framhandlegg. Hann eigi erfitt með að framkvæma margar hreyfingar og hafi farið versnandi. Þetta hái honum mjög mikið í vinnu og skerði starfshæfni hans. Þá hafi kærandi þurft […] vegna verkja og óþæginda í hendi. Kærandi kveðst eiga erfitt með ýmsar hreyfingar og mikil kraftminnkun sé í hendinni.
Kærandi telji ljóst að hann hafi ekki fengið rétta meðferð við fyrstu komu á Landspítala og þar af leiðandi séu afleiðingar slyssins umtalsvert meiri en mátti búast við, þ.e. ef hann hefði fengið rétta meðhöndlun strax í upphafi. Það verkjaástand sem kærandi búi við í dag megi að mestu leyti rekja til mistaka við meðferð á Landspítala.
Í athugasemdum, dags. 1. febrúar 2018, við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að kærandi velti því fyrir sér hvernig munurinn á brotinu frá X til X hafi getað farið úr 8° í 20° á svo stuttum tíma. Var kærandi rangt meðhöndlaður í fyrstu, var ekki rétt mælt og hefði átt að laga brotið strax eða fékk hann rangar umbúðir í byrjun og brotið því hreyfst? Umbúðum hafi verið breytt strax daginn eftir fyrstu komu og þá hafi kærandi fengið háa gipsspelku, svokallaða dorsalspelku. Einnig velti kærandi því fyrir sér hvað hafi farið úrskeiðis á einni viku þegar skekkjan fór úr 8° í 20°. Kærandi vilji fá svör, þ.e.a.s. hvort rangar umbúðir hafi valdið því að brotið hreyfðist eða hvort skekkjan hafi verið ranglega mæld í upphafi og hann hefði þurft að fara strax í aðgerð. Mikil breyting á skekkju hafi verið á einni viku eða um 12°. Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sé fjallað um að ekki sé rétt að laga ef afturhallinn sé minni en 15° en þarna hafi hann verið 20° viku eftir brot og hugsanlegt að hann hafi verið það allan tímann, þ.e. að mæling hafi verið röng í upphafi.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að málavöxtum sé ítarlega lýst í hinni kærðu ákvörðun þar sem meðal annars komi fram:
„Samkvæmt sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar C kemur fram að umsækjandi hafi leitað þangað X eftir að hafa dottið á [...] og slegið vinstri hendi í gólfið. Lýst var bólgu við úlnliðinn og var umsækjandi með verki þar. Röntgen mynd var tekin og sýndi innkýlt brot fremst í radius og var hann sendur á slysadeild Landspítalans (LSH). Sama dag er skráð í sjúkraskrá LSH að mynd sem tekin var í C, sýndi brot inn í vaxtarlínu, Salter Harris týpu 2, sem er dorsal anguleruð. Röntgenmynd staðfesti áðurnefnt brot og var umsækjanda ráðlögð dorsalspelka í vægri volar angulation og ulnar deviation. Endurkoma var ráðlögð eftir viku og gipstími um þrjár vikur ef allt gengi að óskum. Daginn eftir, X, var umsækjandi aftur á bráðamóttöku LSH vegna slæmra verkja í brotinu og fékk hann þá háa gipsspelku, þ.e. spelku sem náði frá hnúum og upp fyrir olnboga en daginn áður hafði hann fengið spelku sem aðeins náði upp undir olnboga. Þann X kom umsækjandi í eftirlit á göngudeild bæklunarlækna LSH og var ákveðið að gera lokaða réttingu þennan sama dag, með vísan til þess að upphaflega hafi afturhalli á liðfleti verið metinn 8°, en „þegar nánar er gáð var það nær 20.“ Brotið var rétt og lagðar við það háar gipsumbúðir. Í eftirliti X kom fram að lega í brotinu var óbreytt frá aðgerðinni og eins í eftirliti X þegar röntgenmyndir sýndu jafnframt fram á beinnýmyndun í brotinu, þ.e. gróanda. Þann X var umsækjandi í eftirliti hjá aðgerðarlækni og kom fram í nótu að gipsið var tekið og röntgenmynd sýndi óverulega skekkju í brotinu „með dorsal angulation vinkil en það er mjög lítið og skiptir engu máli.“
Þann X hafi kærandi verið til skoðunar vegna verkja í vinstri úlnlið sem hann hafði fengið daginn áður þegar hann var að kasta grjóti, en það leiddi ekki til neinnar sérstakrar meðferðar. Kærandi hafi aftur verið til skoðunar hjá C X vegna einkenna frá vinstri úlnlið og hafi honum verið vísað til D, bæklunar- og handarskurðlæknis í E.
Í sjúkraskrárgögnum frá D sé því lýst þann 21. júlí 2014 að eftir áðurnefnt brot hefði orðið vaxtartruflun í vaxtarlínunni og lengdarvöxtur sveifar því stöðvast fyrr en ella. Því væri ölnin, sem óx eðlilega, orðin lengri en sveifin. Þar sem vaxtarlínur umsækjanda hafi ekki verið að fullu lokaðar hafi verið talið rétt að bíða með lokaákvörðun um sinn. Við rannsókn 8. janúar 2015 var lengdarmunur ölnar og sveifar enn sá sami en þá voru vaxtarlínur lokaðar. Aðgerð hafi verið framkvæmd X þar sem gerð hafi verið styttingarbeinhlutun á ölninni vinstra megin og var beinhlutunin fest með plötu og skrúfum. Kærandi hafi verið með gipsumbúðir fram til X og beinhlutunin gróið vel. Þann X hafi platan verið fjarlægð og skrúfurnar fjarlægðar í annarri aðgerð.
Kærandi telji að mistök og vanræksla hafi átt sér stað á slysadeild Landspítala og vísar til sjúkraskrár frá heilsugæslunni, komur 22. og 23. október 2012.
Þann 23. október 2012 sé skráð læknabréf/tilvísun þar sem fram kemur:
„Þetta er ekki Salter-Harris fractura, þetta er ekki epiphysiolysa eins og var lýst í journal enda segir rtg. logiskt við skoðun eða fyrir viku síðan að þetta er distal radius og ulna fractura af collesi typu þó maður tali ekki um collesi fracturu hjá krökkum. Drengurinn er X ára og þetta er 25° skekkja sem ekki réttist. Þannig að það þarf að reponera þessu oog hefði átt að reponera þessu strax í byrjun.“
Kærandi kveðst ekki skilja hvernig hægt sé að horfa fram hjá þessum ummælum aðgerðarlæknis og að misvísandi upplýsingar séu í gögnum um hvers eðlis brotið hafi verið.
Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé tekið fram að bæklunarskurðlæknir stofnunarinnar telji hafið yfir allan vafa að brotið hafi verið svokallaður Salter–Harris áverki af týpu 2. Þannig telji hann að um hafi verið að ræða kastlos þar sem hluti af beini fylgdi með. Kastlos séu brotáverkar hjá einstaklingum sem ekki séu fullvaxnir og þá gengur áverki í gegnum vaxtarlínuna í stað þess að ganga að öllu leyti í gegnum beinvef, en vaxtarlínan sé ekki eins sterk og beinið. Börn og unglingar sem ekki séu fullvaxin búi yfir þeim hæfileika að bein þeirra geti endurmótast eftir brot, sérstaklega ef brotin séu nálægt liðum og ef skekkja brotanna sé í sama plani og aðalhreyfingar í viðkomandi lið eru. Þannig sé oft óhætt að sætta sig við meiri skekkju í slíkum áverkum þegar einstaklingurinn er ekki fullvaxinn heldur en óhætt sé að gera hjá fullvöxnum einstaklingi sem ekki hafi lengur yfir þessum eiginleikum að búa. Að auki megi á það benda að ef gerð sé tilraun til réttingar á kastlosi þurfi að fara varlega því að vaxtarlínan geti hlotið skaða ef of miklu álagi sé beitt eða ef reynt sé aftur og aftur að draga slíka áverka rétta.
Sjúkratryggingar Íslands séu sammála því sem fram hafi komið um brotáverkann í nótu bráðamóttöku Landspítala þann X og því sem fram komi í greinargerð F, [læknis] Landspítala. Upphafleg greining hafi því verið rétt og hafi ekki verið stuðst við álit aðgerðarlæknis sem fram kemur í sjúkraskrárnótu X. Bæklunarskurðlæknir Sjúkratrygginga Íslands mældi afturhalla á liðfleti á fjærenda sveifar á hliðarmyndum þeirra rannsókna sem voru gerðar. Hans mælingar bentu til þess að afturhallinn hafi verið um 12-14° upphaflega og fékk hann ekki séð að afturhallinn hafi aukist nokkuð á rannsókn X. Í fræðiritum[1] sé lögð áhersla á að fara eigi varlega við meðferð svo sem lokaða réttingu þar sem mikil átök og endurteknar tilraunir til réttingar geta leitt til skaða í vaxtarlínunni. Annars vegar sé það alvarlegasti fylgikvillinn við slík kastlos að vaxtarlínan skaddist við sjálfan áverkann og loki sér of snemma að hluta til eða að öllu leyti. Þá hættir lengdarvöxtur í viðkomandi beini á meðan önnur bein í nánasta umhverfi halda áfram í vexti eða þá að fram getur komið skekkja í beininu ef truflunin nær aðeins til hluta vaxtarlínu. Varðandi áverka eins og þann sem kærandi var með sé talið að almennt sé ekki ástæða til að draga rétt brot/kastlos í fjærenda sveifar ef afturhallinn er minni en 15° því endurmótun muni yfirleitt leiða til þess að staðan verði nokkuð góð að lokum. Þar að auki sé bent á þá staðreynd að í 4% tilvika leiði kastlos til vaxtartruflana óháð því hvaða meðferð sé beitt.
Þá sé tekið fram í kæru að á slysdegi hafi gipsið verið sett mjög illa á og kærandi verið viðþolslaus af kvölum. Kærandi hafi farið aftur á Landspítala ca. viku síðar en þá hafi komið í ljós að hann var þríbrotinn en ekki bara brotinn á einum stað. Skekkjan hafi þá verið metin of mikil og þá hafi verið farið í lokaða réttingu í svæfingu og lagt gips yfir olnboga.
Samkvæmt sjúkraskrárgögnum Landspítala hafi það verið niðurstaða og ráðlegging bæklunarlæknis á slysdegi að gipsa brotið og ráðlagt að taka mynd af brotinu eftir ca. viku til að athuga með legu. Gipsmeðferð í um þrjár vikur. Ráðlögð endurkoma hjá slysadeildarlækni í næstu viku. Daginn eftir, X, hafi kærandi aftur verið á bráðamóttöku Landspítala vegna slæmra verkja í brotinu og hafi hann þá fengið háa gipsspelku, þ.e. spelku sem náði frá hnúum og upp fyrir olnboga en daginn áður hafði hann fengið spelku sem aðeins náði upp undir olnboga.
Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekki annað séð af gögnum málsins en að þeirri meðferð sem umsækjandi fékk vegna handleggsbrots þann X hafi verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Sú meðferð sem var valin hafi verið í fullu samræmi við almennt viðtekna og viðurkennda læknisfræði og ekki sé að sjá að önnur meðferð hefði skilað betri árangri. Þá verði ekki talið að þau einkenni sem kærandi kennir nú megi rekja til meðferðarinnar sem hann gekkst undir á Landspítala heldur verði þau rakin til upphaflega áverkans. Með vísan til þessa séu skilyrði 1.-4. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.
Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. febrúar 2018, kemur fram að stofnunin leggi áherslu á að bæklunarskurðlæknir Sjúkratrygginga Íslands ásamt G og F hafi allir talið að kærandi hafi hlotið Salter – Harris áverka af týpu 2.
Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem kærandi telur að rekja megi til afleiðinga meðferðar á handleggsbroti sem fór fram á Landspítala.
Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:
„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“
Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss, eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.
Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.
Kærandi telur að mistök hafi átt sér stað á bráðadeild Landspítala þegar hann leitaði þangað X vegna handleggsbrots. Þar hafi hann verið greindur með brot inn í vaxtarlínu, Salter-Harris gerð 2, með baksveigju (dorsal angulatio). Vísar kærandi til skráningar 23. október X í læknabréfi/tilvísun þar fram komi að ekki hafi verið um kastlos að ræða eins lýst hafi verið í sjúkraskrá. Rétt greining væri brot í fjærendum sveifar og ölnar af þeirri gerð sem kennd sé við Colles. Það þurfi að rétta og hefði átt að gera það strax í byrjun. Kærandi telur að hefði hann fengið rétta meðhöndlun í upphafi hefðu afleiðingar slyssins ekki orðið jafn miklar.
Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.
Í bráðamóttökuskrá, dags. X, kemur fram að kærandi hafi hrasað og slengt vinstri hendi í gólf. Hann hafi farið á Heilsugæsluna C þar sem tekin hafi verið mynd sem sýndi brot inn í vaxtarlínu, Salter-Harris gerð 2, sem væri með baksveigju. Um skoðun á bráðadeild segir: „Röntgenmynd staðfesti áðurnefnt brot. Distal status eðl. Eðl. skyn í fingurgómum og hreyfir eðl. fingur“. Greining sé því brot á neðri enda sveifar og meðferð sé sérmótuð spelka á úlnlið og hönd. Þá segir: „Að ráðleggingum bæklunarlæknis fær hann dorsalspelku í vægri volar angulation og ulnar deviation. Kemur í rtg. kontól í umbúðum eftir viku. Ráðlagður gipstími um 3 vikur ef allt gengur að óskum“.
Í innlagnarskrá bæklunarskurðlækninga, dags. X, kemur fram í sjúkrasögu kæranda: „Hann kom hingað og var myndaður. Samkvæmt úrlestri rtg., læknis var 8º dorsal angulation en þegar að nánar er gáð var það nær 20. Mælt var með því að gifsa hann án reponeringar og að hann kæmi aftur í eftirlit núna í dag.“ Fram kemur í færslunni að ákveðið sé að rétta brot kæranda og reynt verði að gera það samdægurs.
Í aðgerðarlýsingu bæklunarskurðlækninga segir í mati aðgerðarlæknis fyrir aðgerð:
„Þetta er ekki Salter-Harris fractura, þetta er ekki epiphysiolysa eins og lýst í journal enda segir rtg. logiskt við skoðun eða fyrir viku síðan að þetta er distal radius og ulna fractura af collesi typu þó maður tali ekki um collesi fracturu hjá krökkum. Drengurinn er X ára og þetta er 25º skekkja sem ekki réttist. Þannig það þarf að reponera þessu og hefði átt að reponera þessu strax í byrjun.“
Um lýsingu aðgerðar segir:
„Hann er tekinn til aðgerðar. Það er farið að harðna í þessu og það er mjög erfitt að reponera þessu. Maður finnur eiginlega ekkert þegar þetta sígur en það virðist réttast samkv. trg. myndum, maður fær það bara ekki betra en þetta.
Í mobiliseringu verður hann í sex vikur og hann á að vera í þessu gipsi allan tímann svo maður missi nú ekki repositionina. Gipsið er frá hnúum og upp í axillu. Gipsið er sett á vejulegan hátt og maður reynir að það haldi vel við og maður sé með flexion í úlnliðnum og unar deviation.“
Í greinargerð F segir:
„Eftir yfirferð gagna og röntgenmynda telur undirritaður að líklegasta ástæða kvörtunar A sé að misvísandi upplýsingar hafi verið gefnar og er slíkt í sjálfu sér ekki óalgengt ef mismunandi aðilar koma að, sýnist þá sitt hverjum. Ber að harma það. Nær þetta jafnvel til þess að í nótum er til staðar mismunandi túlkun á því um hvers konar brot sé að ræða. Í huga undirritaðs er um Salter-Harris II brot að ræða með vinklun aftur á við (dorsal) og með afrifuflaska á processus stylodeus ulnae. Telur undirritaður nokkuð ljóst að ekki var ástæða til réttingar brotsins þegar A kom á slysadeild X enda sé 8º skekkja vel innan viðunandi marka (er í textabókum gjarnan talað um skekkju allt að 20 – 30º sem í lagi). Æskilegt hefði verið að hann fengi upphátt gips strax en vel lagt framhaldleggsgips er líka fullnægjandi.
Daginn eftir fyrstu meðferð er síðan á gögnum að sjá að A hafi aftur leitað á slysadeild vegna verkja undan gipsspelkunni. Fékk þá uppháa gipsspelku og leið betur. Hefði sennilega verið æskilegt að mynda brotið eftir gipsskiptin en miðað við að brotið var endurrétt X skiptir það ekki höfuð máli og engu miðað við endanlegan árangur meðferðar.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur gögn málsins bera með sér að við slysið X hafi kærandi hlotið brot og kastlos af gerð 2 samkvæmt flokkun Salter og Harris. Hliðrun og bakhalli í brotinu var ekki meiri en svo að ekki var ábending til að gera á því réttingu. Þó að ekki væri greinanleg markverð breyting á legu brotsins við röntgenmyndatöku tæpri viku síðar, ákvað bæklunarlæknir þá að gera réttingu á því. Brotið greri síðan í ásættanlegri legu en truflun varð á vexti beinsins. Það er vel þekktur fylgikvilli áverka af þessu tagi og olli kæranda tjóni. Úrskurðarnefnd fær þannig ráðið af gögnum málsins að meðferð á slysdegi og síðar hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að meiri líkur en minni séu á því að tjónið, sem kærandi varð fyrir, sé óháð þeirri meðferð sem beitt var og því sé bótaréttur ekki fyrir hendi samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 26. september 2017, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson