Hoppa yfir valmynd

Mannanafnanefnd, úrskurðir 15. apríl 2010

 

Mál nr. 23/2010                    Eiginnafn:     Erica

 

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 23/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Erica (kvk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls enda er bókstafurinn c ekki í íslensku stafrófi. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er ein kona skráð með eiginnafnið Erica sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna og er hún fædd árið 2009. Það telst því ekki vera hefð fyrir þessum rithætti.

Eiginnafnið Erica uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Erica (kvk.) er hafnað.

 

 

Mál nr. 24/2010                    Millinafn:       Magg

 

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 24/2010:

Millinafnið Magg er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Magg uppfyllir þannig ákvæði 6. gr. fyrrnefndra laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Magg er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 25/2010                    Eiginnafn:     Móri

 

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 25/2010:

Eiginnafnið Móri (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Móra, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Móri (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 26/2010                    Eiginnafn:     Róska

 

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 26/2010:

Eiginnafnið Róska (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Rósku, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Róska (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá

 

 

Mál nr. 29/2010                    Eiginnafn:     Brími

  

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 29/2010:

Eiginnafnið Brími (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Bríma, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Brími (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 Mál nr. 30/2010                    Eiginnafn:     Werner

 

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 30/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Werner (kk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls enda er bókstafurinn w ekki í íslensku stafrófi. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru þrír karlar skráðir með eiginnafnið Werner sem uppfylla skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna og er sá elsti fæddur 1931. Auk ofangreinds er 31 karl skráður í Þjóðskrá með eiginnafnið Werner. Þar af eru tveir með íslenskt ríkisfang frá fæðingu en hafa aldrei átt búsetu hér á landi. Hinir 29 eru allir erlendir ríkisborgarar sem búa eða hafa búið hér á landi. Samkvæmt manntalinu 1910 bar enginn eiginnafnið Werner. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Werner uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Werner (kk.) er hafnað.

 

 

  

Mál nr. 31/2010                    Eiginnafn:     Sylva

 

Hinn 15. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 31/2010:

 

Eiginnafnið Sylva (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Sylvu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Sylva (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

  

Mál nr. 32/2010                    Millinafn: Zíta

 

 Hinn 15. apríl  2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 32/2010:

 

Í úrskurði, dags. 4. nóvember 2009, hafnaði mannanafnanefnd beiðnum um eiginnafnið Zíta og millinafnið Zíta.

 

[...] hafa leitað til dómsmála- og mannréttindaráðherra til þess að kanna hvaða úrræði séu til staðar svo að beiðni þeirra nái fram að ganga. Bent var á að í úrskurðinum væri fjallað um almennt millinafn skv. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 en ekkert tekið til athugunar hvort nafnið Zíta gæti talist vera sérstakt millinafn í skilningi 3. mgr. 6. gr. laganna. Fyrir liggur í málinu að [...] ber eiginnafnið Zíta. Í ljósi þessa lítur ráðherra svo á að fundur [...] með honum sé nægjanleg beiðni um endurupptöku málsins.

 

Í ljósi þess að [] sem óskað er að gefa nafnið Zíta sannanlega bar það nafn, og jafnframt í ljósi þess að í fyrri úrskurði mannanafnanefndar er ekki tekin afstaða til þess hvort fallist verði á nafnið sem sérstakt millinafn í skilningi 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn, er mál þetta tekið fyrir að nýju, og kveðinn upp úrskurður um þann þátt þess. Niðurstaða í fyrri úrskurði um að hafna nafninu og rithættinum Zíta sem eiginnafni annars vegar og almennu millinafni hins vegar stendur á hinn bóginn óhögguð.

 

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, eru upp talin almenn skilyrði þess að fallist verði á millinafn. Kemur þar fram að nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða kvenna, séu ekki heimil sem millinafn. Í 3. mgr. 6. gr. laganna er að finna ákvæði þess efnis að millinafn sem víkur frá  2. mgr.  sé heimilt að gefa þegar svo standi á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn. Því skilyrði er í sjálfu sér fullnægt í máli þessu, enda ber amma barnsins umbeðið nafn. Á hinn bóginn er það einnig skilyrði sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um  mannanöfn að millinafn, hvort sem er almennt millinafn eða sérstakt millinafn samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna, sé ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Að öðrum kosti er óheimilt að fallast á það.

 

Eins og áður hefur verið fjallað um af hálfu mannanafnanefndar, sbr. áðurnefndan úrskurð frá 4. nóvember 2009, er rithátturinn Zíta ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, enda er bókstafurinn z ekki hluti af íslenska stafrófinu. Þá lýtur hugtakið hefð í þessu sambandi sömu skýringu og þegar því er beitt við mat á því hvort ritháttur eiginnafna sé hefðaður skv. 5. gr. laganna. Því var lýst í úrskurði mannanafnanefndar, dags. 4. nóvember 2009, að umræddur ritháttur telst ekki hefðaður í skilningi laga um mannanöfn. Þær forsendur sem þar var á byggt eru óbreyttar. Er samkvæmt því ekki fært að fallast á að umbeðið nafn, Zíta, fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn sem sérstakt millinafn. Er því ekki annað fært en að hafna beiðni þeirri sem hér er til úrlausnar.

 

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á beiðni [...] um að fá að gefa [...] millinafnið Zíta á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. 

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta