Hoppa yfir valmynd

Nr. 6/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 6/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100023

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. október 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Úganda (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Í máli kæranda liggja fyrir upplýsingar úr upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (e. Visa Information System). Í þeim kemur fram að 11. ágúst 2021 hafi kærandi sótt um vegabréfsáritun til Íslands hjá sendiráði Noregs í Naíróbí, Kenía. Þá kemur fram að 19. ágúst 2021 fékk kærandi útgefna vegabréfsáritun til landsins, með komudegi 24. ágúst 2021 og brottfarardegi 29. ágúst sama ár.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 1. september 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun meðal annars 27. september 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. september 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 9. október 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 24. október 2022. Þá bárust frekari gögn frá kæranda 25. október 2022. Hinn 16. desember 2022 bárust kærunefnd frekari gögn og upplýsingar frá kæranda.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar hvað varðar upplýsingar um aðstæður í Úganda. Til viðbótar umfjöllun í þeirri greinargerð er vísað til skýrslu Mannréttindavaktarinnar frá mars 2022 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá apríl 2022. Telur kærandi að af framangreindum skýrslum megi ráða að ástandið í Úganda hafi ekki breyst til batnaðar heldur hafi það versnað.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að í máli hans liggi fyrir að hann hafi stjórnmálaskoðanir sem séu stjórnvöldum í heimaríki ekki þóknanlegar. Kærandi sé stuðningsmaður og meðlimur stjórnmálaflokksins National Unity Platform (hér eftir NUP) og hafi starfað fyrir hann. Starf kæranda fyrir flokkinn hafi falið í sér að ræða málefni flokksins úti í samfélaginu ásamt fleiri einstaklingum. Þrír af samstarfsmönnum kæranda hafi verið brottnumdir af hálfu stjórnvalda, tveir þeirra hafi verið drepnir og enn sé ekkert vitað um afdrif þess þriðja. Hafi þessir einstaklingar verið meðlimir NUP flokksins og haft sömu stöðu innan hans og kærandi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt landaupplýsingum hafi ríkisstjórn Úganda staðið á bak við alvarleg mannréttindabrot í garð meðlima stjórnarandstöðuflokka í landinu. Samkvæmt skýrslum alþjóðlegra stofnana og mannréttindasamtaka hafi fjölmargir stuðningsmenn NUP flokksins sem tekið hafi þátt í starfi hans verið teknir af öryggisstofnunum og sé enn óvíst um afdrif þeirra. Samkvæmt heimildum beinist mannréttindabrot stjórnvalda einna helst að stjórnmálamönnum og stuðningsmönnum NUP flokksins. Kærandi telur að öllu framangreindu virtu sé ljóst að hann teljist hafa stjórnmálaskoðanir sem falli undir skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. e-liður 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá telur kærandi ljóst að sú meðferð sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki feli í sér ofsóknir samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda hafi yfirvöld í heimaríki hans hvorki getu né vilja til að veita honum vernd þar sem það sé ríkið sem standi að baki ofsóknum á hendur pólitískum andstæðingum sínum. Með hliðsjón af því sé krafa um innri flutning, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, hvorki raunhæf né sanngjörn gagnvart kæranda.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð í tengslum við aðalkröfu hans sé raunhæf ástæða til að ætla að hann eigi á hættu að verða fyrir pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki verði honum gert að snúa þangað. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt heimildum um aðstæður í heimaríki hans séu aðstæður í fangelsum þar í landi harðneskjulegar og lífshættulegar í sumum tilvikum. Að mati kæranda standi hann frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða brottnuminn af stjórnvöldum í heimaríki hans og fangelsaður. Hann eigi því á hættu að búa við þær aðstæður sem sé lýst í heimildum og þola meðferð sem teljist pyndingar eða önnur ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð eða refsing í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu kæranda er sú krafa gerð til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Vegna stöðu kæranda í heimaríki hans sem lýst hafi verið í greinargerð í tengslum við aðal- og varakröfu hans telur hann að líta beri svo á að hann sé fórnarlamb viðvarandi mannréttindabrota sem yfirvöld veiti ekki vernd gegn og stuðli beinlínis að.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þá einkum við hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað hjá stofnuninni. Kærandi vísar til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að það sé mat stofnunarinnar að tilgangur ferðalags kæranda til Íslands hafi verið að aðstoða [...] við ferðalagið en ekki til að flýja heimaríki sitt. Kærandi vill vekja athygli á því að þau atvik sem hafi átt sér stað og orðið til þess að hann ákvað að fara í felur séu nægjanlega alvarleg til að hafa vakið hjá honum ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki. Kærandi telur að sá ótti sé ástæðuríkur þar sem að einstaklingar sem unnið hafi sama starf og hann og hjá sama aðila hafi verið brottnumdir og sumir þeirra myrtir. Með því að fara í felur hafi kærandi komið sér hjá sömu meðferð. Kærandi vísar til þess að það sé ekki skilyrði að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi persónulega orðið fyrir hótunum og að samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna geti ofsóknir sem vinir, ættingjar eða þjóðfélagshópar hafa sætt gefið til kynna að ótti umsækjanda við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur. Þá gerir kærandi athugasemd við það sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ekki verið virkur í þágu tiltekins málstaðar eftir kosningarnar í janúar 2021. Kærandi bendir á að hann hafi ekki hætt stjórnmálaþátttöku eða ekki haft vilja til þess heldur hafi á þeim tíma verið lítið um verkefni til að sinna. Þá bendir kærandi á að ekki skipti máli að formlegur tilgangur þeirrar ferðar sem kærandi hafi nýtt sér til að koma hingað til lands hafi verið annar en að sækja um alþjóðlega vernd. Eðlilegt sé að flóttamenn nýti hvers konar tækifæri til að flýja þær aðstæður sem þeir óttist. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar þess efnis að ekkert í máli hans bendi til þess að hann sé í sérstakri hættu vegna tengsla hans við stjórnmálaflokkinn NUP umfram aðra í sambærilegri stöðu. Kærandi vekur athygli á því að hann hafi lagt fram sönnunargögn sem styðji við trúverðugan framburð hans. Kærandi telur að ljóst sé að honum sé ekki fært að afla sönnunargagna um þá ógn sem honum hafi stafað frá yfirvöldum í heimaríki enda hafi það verið þau sjálf sem standi að baki slíkum ofsóknum. Kærandi vísar til þess að heimildir sýni fram á svo ekki verði um villst að einstaklingar í nákvæmlega sömu stöðu og hann hafi í stórum stíl hlotið sömu örlög og samstarfsmenn hans. Kærandi telur að þær sönnunarkröfur sem Útlendingastofnun gerir í máli hans séu of miklar og ekki í samræmi við þau viðmið sem sett séu fram af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Í því sambandi vísar kærandi einnig til nýlegs dóms Landsréttar í máli nr. 149/2020, þar sem rétturinn segi meðal annars að það geti verið háð umtalsverðum vandkvæðum fyrir fólk á flótta að tryggja sönnunargögn frá landinu sem það flýr. Telur kærandi að heimfæra megi niðurstöðu framangreinds dóms á mál kæranda. Kærandi hafi með greinargerð sinni til kærunefndar nú lagt fram skjal sem sé undirrituð staðfesting aðalritara NUP flokksins á þeim atvikum sem kærandi hafi lýst. Þar komi fram að kærandi hafi flúið Úganda vegna ógnar við líf sitt og fjölskyldu sinnar. Kærandi hafi greint talsmanni sínum frá því að hann hafi forðast að umgangast fjölskyldu sína í heimaríki til að koma í veg fyrir að þau yrðu fyrir áhrifum af þeirri hættu sem hafi steðjað að honum.


 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úgöndsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé úgandskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úganda m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Uganda (United States Department of State, 12. apríl 2021);
  • Amnesty International Report 2021/22 – Uganda (Amnesty International, 26. mars 2022);
  • BTI 2022 Country Report – Uganda (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
  • Freedom in the World 2022 – Uganda (Freedom House, 24. febrúar 2022);
  • “I Only Need Justice” (Human Rights Watch, 22. mars 2022);
  • Uganda 2019 Crime & Safety Report (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 22. mars 2019);

  • World Report 2022 – Uganda (Human Rights Watch, 13. janúar 2022);
  • The 24th Annual Report on the State of Human Rights and Freedoms in Uganda 2021 (The Uganda Human Rights Commission, 13. júní 2022)
  • The World Factbook (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 22. nóvember 2022);
  • OSAC Country Security Report 2021 (Overseas Security Advisory Council (OSAC), 10. September 2021);
  • Upplýsingar af vefsíðum Transparency International og úgöndsku lögreglunnar:

      https://www.transparency.org/news/feature/corruption_perceptions_index_2017 og       https://www.upf.go.ug/complaints/.

Úganda er lýðveldi með rúmlega 46 milljónir íbúa. Úganda gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þann 25. október 1962. Árið 1986 gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1987, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1995 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004. Í skýrslu Mannréttindanefndar Úganda (e. Uganda Human Rights Commission) fyrir árið 2021 kemur fram að Úganda hafi fullgilt mannréttindasáttmála Afríku árið 1986.

Í skýrslu Bertelsmann Stiftung frá febrúar 2022 kemur fram að kosningar á landsvísu um embætti forseta og til þings hafi farið fram 14. janúar 2021. Hafi pólitískt landslag í Úganda breyst frá síðustu kosningum árið 2016, með innkomu stjórnmálaflokksins National Unity Platform (hér eftir NUP) undir forystu hins vinsæla þingmanns Robert Kyagulanyi, sem einnig sé þekktur undir nafninu Bobi Wine. Í kosningunum hafi þáverandi forseti, Yoweri Museveni, leiðtogi stjórnmálaflokksins National Resistance Movement (hér eftir NRM), hlotið endurkjör í forsetakosningunum. Þá hafi flokkur Museveni unnið 336 þingsæti af 529 í kosningunum.

Þá kemur fram í skýrslu Bertelsmann Stiftung að 26 stjórnmálaflokkar séu skráðir og samþykktir af kjörstjórninni í Úganda. Elstu stjórnmálaflokkarnir frá sjálfstæði, Lýðræðisflokkurinn (DP) og Úganda People's Congress (UPC), séu enn virkir á vettvangi stjórnmálanna en hafi lítið fylgi. Tveir nýir stjórnmálaflokkar hafi komið til sögunnar á síðustu tveimur árum, NUP flokkurinn og Alliance for National Transformation (ANT). ANT hafi byrjað að byggja upp grasrótarnet sitt, en það sé ekki enn sterkt. Frá því að horfið hafi verið aftur til fjölflokkalýðræðis árið 2005 hafi Forum for Democratic Change flokkurinn (FDC) verið helsta ógn yfirráð og ofurvald NRM í pólitísku landslagi Úganda. Flokkurinn hafi upphaflega verið stofnaður af fyrrverandi nánum samstarfsmönnum Museveni forseta og hafi Kizza Besigye verið þeirra forsetaefni. Þá kemur fram að NUP flokkurinn hafi upphaflega byrjað sem hreyfing fólks sem hafi verið flykkt sér í lið með þingmanninum Robert Kyagulanyi, vegna persónuleika hans og löngunar til lýðræðislegra breytinga í Úganda. Hreyfingin hafi síðar orðið að stjórnmálaflokki og boðið fram í kosningum til þings og sveitastjórna. Þó að flokkurinn hafi vakið athygli almennings, og sæki fylgi sitt einkum til yngra fólks, þá sé hann nátengdur persónu Bobi Wine og enn sé nokkur vinna óunnin við að byggja upp fylgi og starfsemi á landsvísu. Almennt séð einkennist stjórnarandstöðuflokkar í landinu af skipulagsleysi og skorti á yfirstjórn og þá hafi innri átök haft áhrif á starf þeirra.

Í skýrslu Freedom House fyrir árið 2021 kemur fram að tímabilið fyrir, á meðan og eftir kosningarnar í janúar 2021 hafi einkennst af kúgun og ofbeldi af hálfu yfirvalda. Yfirvöld hafi rænt stuðningsmönnum stjórnarandstöðunnar, truflað netaðgang í landinu, haft afskipti af blaðamönnum og komið í veg fyrir að alþjóðlegir áheyrnafulltrúar gætu fylgst með kosningunum. Þá kemur fram að fáir áheyrnarfulltrúar hafi fylgst með atkvæðagreiðslum í kosningunum, Bandaríkin hafi hætt við sína þátttöku og þá hafi tilboði Evrópusambandsins um að senda sérfæðinga til landsins til kosningaeftirlits verið hafnað.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021 um ástand mannréttindamála í Úganda kemur fram að fjölmargar tilkynningar hafi borist um brottnám einstaklinga af hálfu stjórnvalda. Hafi fjölmiðlar, stjórnarandstöðuflokkar, menningarleiðtogar, mannréttindalögfræðingar og trúarleiðtogar greint frá því að herinn, einkum leyniþjónusta hersins (CMI) og sérsveitarstjórnin (SFC), og lögreglan hafi notað ómerkta Toyota Hiace sendibíla, sem séu þekktir sem „drónar“ til að ræna hundruðum stuðningsmanna NUP flokksins í kringum kosningarnar 14. janúar 2021, og haldið þeim án ákæru á óþekktum stöðum. Þann 4. mars hafi NUP flokkurinn birt lista yfir 423 stuðningsmenn sem höfðu horfið en yfirvöld hafi hins vegar gefið út mótsagnakenndar upplýsingar um fjölda týndra NUP stuðningsmanna. Þann 4. febrúar 2021 hafi fráfarandi innanríkisráðherra Jeje Odongo sagt að ríkisstjórnin væri að rannsaka ásakanir um mannrán á 44 stuðningsmönnum NUP en engar upplýsingar lægju fyrir um örlög 31 þeirra. Hinn 4. mars 2021 hafi Odongo neitað ásökunum um brottnám öryggisstofnana og lýst því yfir að stofnanirnar hefðu handtekið og ákært 222 einstaklinga í tengslum við mótmæli í nóvember 2020. Þann 7. mars hafi Museveni forseti sagt að CMI hefði handtekið 177 grunaða sem annað hvort hafi fengið lausn gegn tryggingu fyrir dómstólum eða verið sleppt en 65 grunaðra enn verið í haldi. Þá hafi SFC handtekið 68 grunaða í Kampala, Kyotera, Mpigi, Mukono og Nakasongola héruðum. Museveni hafi bætt við að handtökurnar hafi komið til vegna tilrauna stjórnarandstöðunnar til landráðs og erlendra stuðningsmanna. Samkvæmt fjölmiðlum hafi öryggisstofnanir sleppt hluta hinna brottnumdu úr haldi, en leiðtogar NUP greindu frá því að hundruða stuðningsmanna NUP væri enn saknað í árslok. Fjölmargir stuðningsmenn NUP, sem öryggisstofnanir slepptu, sögðu við fjölmiðla að þeir hefðu upplifað pyntingar af hálfu öryggisfulltrúa. Þá hafi NUP-stuðningsmönnum verið kastað út við á víðavangi þegar þeim hafi loks verið sleppt úr haldi. Þá kemur fram í skýrslunni að aðgerðarsinnar stjórnarandstöðunnar, fjölmiðlar og mannréttindasinnar hafi greint frá því að öryggissveitir hafi myrt nokkra einstaklinga sem ríkisstjórnin hafi bent á sem andófsmenn og þá sem hún hafi sakað um hryðjuverk. Þann 13. mars 2021 hafi fjölmiðlar greint frá því að Fabian Luuk, stjórnarandstöðuflokksmaður NUP hafi látist á Kiruddu sjúkrahúsinu af sárum sem hann hafi hlotið við pyntingar meðan hann hafi verið í haldi. Leiðtogar NUP hafi fullyrt að herforingjar hefðu handtekið Luuka og þrjá aðra við eftirlitsstöð í Luweero-héraði, eftir að þeir hafi séð NUP-aðildarskírteini þeirra. Að sögn leiðtoga NUP hafi hermennirnir barið fjórmenningana og drepið tvo þeirra, Agodri Azori og Obindu, áður en þeir hafi yfirgefið Luuka á Nakawa matarmarkaðnum í Kampala. Fjórða fórnarlambið, sem komi frá frá Terego-sýslu, væri hins vegar enn ófundið. Þann 11. mars 2021 hafi fráfarandi forseti þingsins, Rebecca Kadaga, sagt að hún hefði beint því til mannréttindanefndar þingsins að rannsaka dauða Luuka, en nefndin hefði ekki gefið út skýrslu fyrir árslok.

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að handahófskenndar handtökur og ólögleg gæsluvarðhöld, sérstaklega andófsmanna, væru áfram vandamál í landinu. Lögregla og hermenn hafi margsinnis handtekið og áreitt stjórnmálamenn stjórnarandstöðunnar, stuðningsmenn þeirra og borgara sem hafi tekið þátt í friðsamlegum mótmælum og haldið opinbera fundi. Lögreglan hafi handtekið nokkra blaðamenn fyrir að fjalla um misnotkun í tengslum við samantekt og tilkynningu kosningaúrslita, ríkiskaup og landréttindi. Hinn 18. janúar 2021 hafi Bobi Wine greint frá því að lögreglu- og hermenn hefðu frá kjördegi 14. janúar 2021 umkringt og lokað húsi hans, stokkið yfir girðinguna og tjaldað í húsnæði hans og í raun haldið honum í stofufangelsi. Bobi Wine hafi greint frá því að lögreglumennirnir hafi hindrað hann í að yfirgefa hús sitt og að taka á móti gestum. Þá hafi þeir beitt þingmann sem hafi reynt að komast inn á heimili Bobi Wine ofbeldi. Talsmaður lögreglunnar hafi neitað því að öryggisstofnanir hefðu sett Bobi Wine í stofufangelsi og sagt að öryggissveitir í kringum bústað hans hafi verið honum til varnar. Öryggisverðir hafi framfylgt stofufangelsi Bobi Wine til 25. janúar 2021 þegar dómstóll hafi skipað öryggisstofnunum að fjarlægja starfsfólk sitt. Hinn 13. desember 2021 hafi Bobi Wine greint frá því að lögregla og hermenn hafi umkringt heimili hans fyrir fyrirhugaða kosningaherferð 14. desember til að styðja NUP frambjóðanda í kosningum í Kayunga-héraði. Öryggisverðirhafi yfirgefið heimili hans 15. desember og hafi kosningarnar farið fram 16. desember.

Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að samkvæmt lögum skuli dómarar eða saksóknarar gefa út tilskipun áður en yfirvöld framkvæma handtöku nema handtakan eigi sér stað á meðan glæpur sé framinn eða á leit standi að geranda. Engu að síður hafi yfirvöld oft handtekið grunaða án heimilda. Þá skuli yfirheyra grunaða innan 48 klukkustunda frá handtöku. Þá verði yfirvöld að dæma grunaða sem handteknir hafi verið vegna stórbrota innan 360 daga (120 daga ef þeir eru ákærðir fyrir brot sem undirdómstólar dæma) eða sleppa þeim gegn tryggingu. Þó lögin mæli fyrir um að fangi skuli upplýstur strax um ástæður gæsluvarðhalds hafi yfirvöld stundum látið það ógert. Lögin kveði á um  rétt fanga málflutningi og aðgangi að lögfræðingi, en yfirvöld hafi ekki alltaf virt þann rétt. Lögin geri kröfu um að stjórnvöld útvegi lögfræðing fyrir fátæka sakborninga sem séu ákærðir fyrir stórfelld brot. Flestir sakborningarnir hafi orðið fyrir verulegum töfum í gegnum dómsferlið áður en dómstólar hafi getað lokið málum þeirra.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í handbók Flóttamannastofnunar er í f-lið í kafla B fjallað um umsóknarástæður vegna stjórnmálaskoðana. Í 80. efnisgrein kemur fram að það eitt og sér að hafa aðrar stjórnmálaskoðanir en ríkisstjórn heimaríkis nægi ekki til að gera tilkall til réttarstöðu flóttamanns. Verði umsækjandi að sýna fram á að hann óttist að verða fyrir ofsóknum vegna þessara skoðana sinna. Gengið sé út frá því að stjórnmálaskoðanir umsækjanda feli í sér gagnrýni á stefnu og aðferðir stjórnvalda, og að þær séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Einnig sé gert ráð fyrir að stjórnvöldum sé kunnugt um slíkar skoðanir eða að þau ætli að umsækjandi hafi þær. Stjórnmálaskoðanir kennara eða rithöfunda geti verið meira áberandi en þess sem gegnir minna sýnilegri stöðu. Hlutfallslegt mikilvægi skoðana viðkomandi og það hversu fastur hann sé fyrir, að svo miklu marki sem greina má það af málsatvikum, skipti einnig máli.

Í 82. efnisgrein kemur fram að aðstæður geti einnig verið með þeim hætt að umsækjandinn hafi ekki látið skoðanir sínar í ljós en þar sem hann hafi sterka sannfæringu, megi ætla að hann láti fyrr eða síðar skoðanir sínar í ljós og af þessum sökum muni hann lenda  í deilum við yfirvöld. Ef ætla megi að efnt verði til slíkra átaka, þá megi líta svo á að umsækjandinn hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þá kemur meðal annars fram í 83. efnisgrein að þegar metið sé hvort umsækjandi með ákveðin stjórnmálaviðhorf hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir skuli leggja til grundvallar hvaða afleiðingar það hefði í för með sér fyrir umsækjandann að snúa aftur.

Niðurstaða

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna pólitískra ofsókna. Kærandi sé meðlimur í NUP stjórnmálaflokknum og hafi annars vegar unnið sem „political mobilizer“ fyrir flokkinn og hins vegar við forseta- og alþingiskosningarnar sem fram fóru í janúar 2021. Kærandi óttist að hljóta sömu örlög og tveir meðlimir flokksins og samstarfsmenn hans hafi hlotið en þeim hafi verið rænt og séu hugsanlega látnir.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að frásögn kæranda um störf hans fyrir stjórnmálaflokkinn NUP sé trúverðug og hafi hann lagt fram gögn því til stuðnings. Var lagt til grundvallar að kærandi hefði starfað á vegum stjórnmálaflokksins í aðdraganda kosninganna í janúar 2021 og við framkvæmd þeirra. Útlendingastofnun taldi hins vegar að ekkert hefði komið fram sem varðaði kæranda persónulega sem benti sérstaklega til þess að hann væri í hættu umfram aðra í sambærilegri stöðu. Væri ljóst af gögnum málsins og framburði kæranda að hann hefði dvalið óáreittur í heimaríki sínu á meðan hann hafi starfað fyrir stjórnmálaflokkinn NUP, eftir kosningarnar í janúar 2021 og allt þar til hann hafi yfirgefið heimaríki í ágúst sama ár. Þá yrði ekki annað séð en að kærandi hefði notið fulls ferðafrelsis og verið unnt að ferðast óáreittur frá heimaríki á leið sinni til Evrópu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Hinn 12. desember 2022 sendi kærunefnd talsmanni kæranda tölvubréf þar sem nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Svör og frekari upplýsingar bárust kærunefnd frá kæranda 16. desember 2022. Í fyrirspurn kærunefndar var kærandi meðal annars beðinn um að greina frá nöfnum einstaklinga sem hann kvað hafa verið brottnumdir og þá hvort hann gæti vísað í fréttir um það eða önnur gögn. Kærandi nafngreindi mennina en kvaðst ekki geta fundið fréttaumfjöllun um brottnám þeirra eða önnur gögn. Þá var kærandi einnig spurður að því hvers vegna hann teldi sig vera í hættu í ljósi þess að hann hefði hætt að starfa fyrir NUP flokkinn eftir kosningarnar í janúar 2021. Kærandi vísaði til þess að eftir kosningarnar hafi ríkisstjórnin hafið að elta uppi stuðningsmenn Robert Kyagulanyi Ssentamu, leiðtoga NUP flokksins, og á sama tíma hafi kærandi fengið upplýsingar um mannránin og morðin á samstarfsmönnum sínum. Kærandi greindi jafnframt frá því að hann hefði verið sjálfboðaliði fyrir NUP flokkinn og að frá janúar til ágúst 2021 hafi hann verið aðstoðarmaður [...].

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram 25. október 2022 skannað eintak af bréfi einstaklings að nafni [...], dags. 10. október 2022, stílað á íslensk útlendingamálayfirvöld. Fram kemur í bréfinu að kærandi sé meðlimur People Power Movement og stjórnmálafls þeirrar hreyfingar, NUP flokksins. Þá staðfestir bréfritari að kærandi hafi starfað við kosningarnar í janúar 2021. Vísað er til þess að kærandi hafi kosið að flýja heimaríki sitt vegna ógnana á hendur honum og fjölskyldu hans. Þá kemur fram að NUP flokkurinn telji að kærandi hafi ríkar ástæður til að sækja um alþjóðlega vernd. Í framangreindu tölvubréfi kærunefndar til talsmanns kæranda var kærandi beðinn um að skýra misræmi á því að hafa í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá því að hafa ekki orðið fyrir hótunum eða áreiti í heimaríki og því sem kæmi fram í framangreindu bréfi [...] um ofsóknir og áreiti á hendur honum og fjölskyldu hans. Í svari kæranda var vísað til blaðsíðu fjögur í greinargerð hans til kærunefndar. Þá var tekið fram að enska orðið „threat“ hefði merkinguna ógn.

Samkvæmt frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og í svörum til kærunefndar hafi hann sinnt sjálfboðaliðastarfi fyrir NUP flokkinn frá nóvember 2020 til ótilgreinds tíma í janúar 2021. Frá þeim tíma kveðst kærandi hafa starfað sem aðstoðarmaður fyrir [...] sem hann hafi einnig starfað fyrir áður. Kærandi kvaðst ekki hafa orðið fyrir persónulegu áreiti eða hótunum af hálfu stjórnvalda vegna tengsla sinna og sjálfboðaliðastarfs fyrir NUP flokkinn. Kærandi kvaðst hafa ákveðið að fara í felur eftir að hafa fengið fregnir af því að þrír einstaklingar sem hefðu unnið sömu störf fyrir NUP flokkinn og hann hefðu verið brottnumdir og tveir af þeim myrtir. Eins og áður sagði kvaðst kærandi ekki geta lagt fram gögn um brottnám þeirra. Leit kærunefndar á veraldarvefnum að tilgreindum mönnum bar engan árangur. Í framangreindri skýrslu úgöndsku mannréttindanefndarinnar er að finna lista yfir einstaklinga sem taldir eru hafa verið brottnumdir á ólögmætan hátt af hálfu stjórnvalda en nöfn framangreindra manna er ekki að finna á þeim lista.

Samkvæmt framangreindum heimildum urðu ýmsir stuðningsmenn og meðlimir NUP flokksins fyrir áreiti og handtökum í aðdraganda og mánuðina eftir forseta- og þingkosningar sem fram fóru í landinu 14. janúar 2021. Voru margir þeirra brottnumdir á ólögmætan hátt af aðilum er taldir voru starfa fyrir stjórnvöld. Samkvæmt heimildum var farið með hina brottnumdu einstaklinga á leynilega staði og þeim haldið þar án dóms og laga í lengri eða skemmri tíma. Þá hafi komið fram frásagnir um pyntingar á þessum einstaklingum og að sumir þeirra hafi verið drepnir. Hafi forseti landsins, Museveni, lýst því yfir í sjónvarpsræðu 7. mars 2021 að ástæða brottnáms þessara einstaklinga hefði verið sú að koma í veg fyrir tilraun stjórnarandstöðunnar til landráðs. Má af heimildum ráða að einkum hafi verið um að ræða einstaklinga sem höfðu sig frammi í mótmælum og /eða voru áberandi í andstöðu sinni við stjórnvöld eftir að leiðtogi NUP flokksins var settur í stofufangelsi í aðdraganda kosninganna. Af framangreindum skýrslum verður ráðið að þessi háttsemi stjórnvalda hafi að mestu verið hætt seinni part ársins 2021.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður í Úganda undanfarið ár séu ekki með sama hætti og vorið 2021 þegar fjöldi stjórnarandstæðinga og meðlima NUP flokksins voru handsamaðir á ólögmætan hátt og vistaðir á ótilgreindum stöðum í lengri eða skemmri tíma. Þá er það mat kærunefndar að framangreind gögn um aðstæður í Úganda bendi ekki til þess að einstaklingar sem styðji stjórnarandstöðuflokkanna eigi almennt á hættu að verða handteknir fyrir það eitt að styðja þá flokka eða starfa með þeim. Ljóst er að í landinu starfa ýmsir stjórnarandstöðuflokkar og hafa gert til fjölda ára sem eiga fulltrúa á þingi landsins og í sveitastjórnum. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann sé á einhvern hátt eða af öðrum ástæðum útsettari fyrir áreiti vegna stjórnmálaskoðana sinna eða þátttöku í starfsemi stjórnarandstöðuflokks en aðrir ríkisborgarar í heimaríki hans í sambærilegri stöðu. Upplýsingar í framangreindu bréfi [...] hnekkja ekki því mati. Þá er ljóst að kærandi gat ferðast frá heimaríki hingað til lands og fékk útgefið vegabréf og vegabréfsáritun án sérstakra vandkvæða til þeirrar ferðar. Að framangreindu virtu verður ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94, 110. mgr.) frá 29. apríl 1997.

Þrátt fyrir að heimildir um aðstæður í Úganda beri með sér að lýðræði þar í landi sé veikburða þá er öryggisástand í landinu almennt talið öruggt. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að að kærandi sé ekki í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana. Þá er það mat kærunefndar að heimildir um heimaríki kæranda bendi ekki til þess að hans bíði fangelsisrefsing við endurkomu til heimaríkis hans. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis síns.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Af viðtölum við kæranda að dæma virðist hann við góða heilsu. Þá kvaðst kærandi hafa lokið háskólanámi í heilbrigðisvísindum, hafa verið starfandi í heimaríki og eiga þar fjölskyldu, foreldra og systkini. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika kæranda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og stofnunin. Að framangreindu virtu er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 1. september 2021. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að kærandi greindi frá því að hafa komið til landsins fimm dögum áður. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta