Hoppa yfir valmynd

Nr. 336/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 31. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 336/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18050012 og KNU18050011

 

Kæra […],

[…]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. maí 2018 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir K) og […] , fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. apríl 2018 um að synja kærendum og börnum þeirra, […] fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir A), […]  fd. […] , ríkisborgari Albaníu (hér eftir B) og […] fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir C) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og kærendum verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að lokum er þess krafist að framkvæmt verði sálfræðimat á K, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. febrúar 2018. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 26. febrúar s.á. ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 16. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 7. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 25. maí 2018 ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskuðu kærendur eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Í kjölfar beiðni kærunefndar bárust frekari gögn varðandi heilsufar kærenda K og M þann 27. júlí 2018.

III.       Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að K og börn kærenda séu í hættu í heimaríki vegna ofbeldis og áreitis sem K hafi orðið fyrir af hálfu fjölskyldu M. Jafnframt sé umsóknin byggð á heilsubrestum M og barns þeirra, A. 

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, kom fram að þau væri svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Börnum kærenda var vísað frá landinu.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c- og d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að M og K hafi kynnst fyrir 12 árum og hafi þau deilt húsnæði með fjölskyldu M alla tíð. Faðir M hafi oft beitt hann líkamlegu ofbeldi. Þá hafi K þurft að þola andlegt ofbeldi af hálfu tengdamóður sinnar og mágkonu frá upphafi, m.a. hafi henni oft verið meinaður aðgangur að heimilinu. Í greinargerð kemur fram að ofbeldið hafi náð ákveðnu hámarki í desember sl. þegar tengdafaðir K hafi nauðgað henni. M hafi ekki getað aðstoðað hana þar sem hann hafi verið á spítala vegna krabbameins. Í kjölfar árásarinnar hafi K ekki treyst sér til að leita læknisaðstoðar í Albaníu vegna þess að hún hafi upplifað skömm og hún hafi óttast að atvikið myndi fréttast. Í greinargerð kemur fram að í kjölfar kynferðisbrotsins hafi tengdamóðir og mágkona K orðið mjög reiðar og viljað reka hana af heimilinu. Þá hafi tengdafaðir K hótað henni lífláti ef hún myndi tjá sig um nauðgunina auk þess sem hann hafi sýnt mikinn yfirgang í fjölskyldunni m.a. með því að þvinga börn hjónanna til þess að selja ávexti og grænmeti á götum úti og notað peningana til eigin nota. Kærendur óttist að snúi þau til baka verði K myrt vegna sæmdarreglna.

Í greinargerðinni kemur fram að lögreglan hafi lítið getað hjálpað þeim, þrátt fyrir að sett hafi verið nálgunarbann á föður M hafi það ekki haft mikil áhrif þar sem þau hafi neyðst til að búa í sama húsi og hann. Nálgunarbannið hafi aldrei verið sett á í raun vegna þess að málið hafi ekki farið nógu langt í opinbera kerfinu. Einnig hafi faðir M tengsl við lögregluyfirvöld og hafi nýtt þessi tengsl til að koma í veg fyrir að kærendur gætu fengið afrit af lögregluskýrslum. Þá glími A við hjartavandamál og M hafi glímt við krabbamein síðustu þrjú ár. Hann hafi lagt fram læknisfræðileg gögn vegna þessa. M hafi ekki fengið fullnægjandi læknisþjónustu í Albaníu en fjölskyldan hafi þurft að múta heilbrigðisstarfsfólki til þess að fá nauðsynlega þjónustu. Þá sé K í mjög viðkvæmri stöðu og hafi hún leitað til sálfræðings þann 30. apríl sl. þar sem hún hafi greint frá mikilli vanlíðan.

Í greinargerð kærenda er farið yfir ástand mannréttindamála í Albaníu þar kemur m.a. fram að spilling sé vandamál í Albaníu og þrátt fyrir að árangur hafi náðst í rannsókn spillingarmála á lægri stigum samfélagsins gefi heimildir til kynna að alvarlegri spillingarmál séu ekki rannsökuð af ótta saksóknara við hefndaraðgerðir. Algengt sé að lögreglumenn í Albaníu þiggi mútugreiðslur gegn því t.d. að skrá ekki niður afbrot sem þeir fái tilkynningu um. Þá sé ofbeldi gegn konum útbreitt vandamál sem eigi sér djúpar rætur í hefðum og venjum í albönsku samfélagi. Litið sé á kynbundið ofbeldi sem einkamál fjölskyldunnar og kynferðisofbeldi sem eigi sér stað innan veggja heimilisins sé sjaldan tilkynnt til lögreglu. Einnig er tekið fram að þrátt fyrir að lög í Albaníu heimili setningu nálgunarbanns á ofbeldismenn sé slíkt bann oft bitlaust þar sem fórnarlambið þurfi oft að búa í sama húsnæði og gerandinn eftir tilkynningu um ofbeldið. Dómarar kveði oft á um að fórnarlamb ofbeldis og gerandi búi áfram í sama húsnæði af fjárhagsástæðum eftir að þeir sett hafi verið á nálgunarbann. Konur í Albaníu hafi ennfremur lítið fjárhagslegt sjálfstæði og réttindi kvenna gagnvart börnum sé einnig takmörkuð í Albaníu en þar tíðkist að útiloka öll samskipti við móður eftir skilnað eða ef eiginmaður fellur frá.

Í greinargerð kemur fram að ástand barnaverndarmála í Albaníu sé afar bágborið. Þrátt fyrir viðleitni yfirvalda til að koma á barnaverndarúrræðum hafi innleiðingin ekki gengið samkvæmt væntingum. Ástæðan sé einkum fáliðun fagmenntaðs starfsfólks og skortur á starfsmönnum til að sinna barnaverndarstörfum. Refsingar á börnum sé útbreitt vandamál og ríkjandi viðhorf séu að ofbeldi sé til að aga börn og það sé ríkur þáttur í uppeldi þrátt fyrir að lög í landinu banni það. Breytingar hafi verið gerðar á hegningarlögum í Albaníu til verndar hagsmunum barna svo sem með banni við heimilisofbeldi. Þá hafi refsiramminn verið hækkaður vegna ýmissa brota gegn börnum. Kærandi vísar til heimilda sem kveði á um að mörg börn hætti skólagöngu sinni til þess að vinna og flest þeirra vinni í landbúnaði. Þá vinni mörg börn, allt niður í fjögurra ára gömul, sem götusalar, betlarar, við eiturlyfjasölu og fleira. Þau þurfi að þola verstu tegundir barnaþrælkunar, sérstaklega þau sem séu þvinguð til að betla á götum úti. Þau verði oft fyrir líkamlegu ofbeldi og eigi á hættu að verða fyrir kynferðislegri misnotkun.

Í greinargerð kæranda kemur fram að blóðhefnd (e. blood feud) tíðkist enn í landinu. Þá séu einnig dæmi um að heiðursmorð (e. honour killings) séu framin í landinu.

Aðalkrafa kærenda er reist á því að kærandi K hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu tengdaföður síns og andlegu ofbeldi af hálfu tengdamóður og mágkonu. Þá hafi börn kærenda verið látin sæta barnaþrælkun. Kærandi K tilkeyri sérstökum þjóðfélagshópi í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á grundvelli kynbundinna ofsókna, sbr. leiðbeiningarreglur flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem segi að almennt sé viðurkennt að kyn geti fallið undir aðild að þjóðfélagshópi þar sem kynið sjálft feli í sér hættu. Hún hafi tilkynnt kynferðisofbeldið til lögreglu en það hafi ekki skilað árangri, m.a. vegna þess að nálgunarbann sem hún hafi fengið hafi verið gagnslaust vegna tengsla tengdaföður við lögregluna. Þá hafi M verið beittur ofbeldi í mörg ár. Þar sem kærendur hafi orðið fyrir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi ásamt því að aðgerðir lögregluyfirvalda feli í sér mismunun gagnvart þeim, hafi þau orðið fyrir ofsóknum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð er trúverðugleikamati Útlendingastofnunar mótmælt sérstaklega hvað varði þá staðhæfingu að K og fjölskylda hennar geti fengið viðeigandi vernd vegna vanda síns í heimaríki. Þá er því mótmælt að eftirfylgni við refsilöggjöf í landinu sé góð. Einnig er því mótmælt að ósamræmi hafi verið á milli frásagnar hjónanna varðandi aðgang að lögregluvernd en K hafi sagst hafa fengið nálgunarbann vegna ofbeldisins en M hafi sagt að lögreglan hafi einungis reynt að koma á friði á milli fjölskyldumeðlimanna. Ljóst sé af frásögn M að hann hafi átt við að nálgunarbannið hafi ekki þjónað tilgangi sínum. Þá er því mótmælt að ekki hafi verið samræmi í frásögnum hjónanna um það hvort nágranninn, […] , hafi verið starfandi hjá lögreglu eða hættur störfum þegar atvik hafi átt sé stað. Það sem skipti máli sé að nágranninn hafi beitt ítökum sínum innan lögreglu til þess að hafa áhrif á framgang málsins hjá lögreglunni. Þá er því mótmælt kærendur hafi ekki lagt fram gögn sem bendi til þess að þeim sé ókleift að leita lögregluverndar. Fjölmargar skýrslur bendi til þess að viðhorf til heimilisofbeldis sé slíkt að ekki sé sjálfgefið að fá aðstoð lögregluyfirvalda vegna þess. M telji að nágranni þeirra hafi séð til þess að gögnin hyrfu og því væri erfitt fyrir þau að fá afrit af lögregluskýrslum. Þá sé engin leið að sýna fram á skort á lögregluvernd þó hjónin gætu aflað lögregluskýrslna. Því sé þess krafist að lagt sé til grundvallar að kærendum standi ekki til boða lögregluvernd.

Í greinargerð kemur fram að við mat á möguleikum á flótta innanlands beri að líta til þess annars vegar hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafa um það sé sanngjörn. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að K telji flutning innanlands ómögulegan. Í fyrsta lagi væri fjölskylda hennar mótfallin hjónabandi K og M þannig að þau geti ekki flutt til þeirra. Þá sé flutningur ekki tækur þar sem K sé eina fyrirvinna heimilisins vegna veikinda M. Þau hafi ekki fengið fullnægjandi aðstoð frá yfirvöldum vegna þeirra fjárhagserfiðleika sem þau hafi glímt við. Mikil eftirspurn og lítið framboð hafi leitt til hækkaðs húsnæðisverðs í landinu. Aðgangur að félagslegu húsnæði sé ekki ofarlega á lista hjá stjórnvöldum í Albaníu. Þá sé í Albaníu svokallað fjölskylduhúsnæðisfyrirkomulag við líði og geri hefðar- eða sæmdarreglur þeim erfitt fyrir að flytja af fjölskylduheimilinu. Komi þetta heim og saman við það sem fram hafi komið í viðtölum við kærendur um að ekki yrði auðvelt fyrir þau að koma sér upp heimili á eigin spýtur. Þá sé forsenda þess að albanskir ríkisborgara njóti aðstoðar yfirvalda á svæðinu þar sem þeir búi, að þeir skrái sig til heimilis í viðkomandi umdæmi, sem geti verið flókið fyrir marga. Mikilvægt sé að horfa til félagslegrar stöðu fjölskyldunnar í ljósi alls þessa.

Til stuðnings varakröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða benda kærendur á að þau hafi glímt við heilbrigðisvandamál. M glími við krabbamein, K við andleg vandamál og sonur þeirra, A sé með hjartavandamál. Þá hafi fjölskyldan þurft að búa við erfiðar félagslegar og almennar aðstæður í heimaríkinu. Þá hafi K orðið fyrir kynferðisofbeldi og tilkynnt það til lögreglu. Kærendur hafi ekki fengið viðeigandi aðstoð frá yfirvöldum vegna vandamála sinna. Því sé ljóst að aðstæður kærenda geri það að verkum að þau eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá séu aðstæður kærenda einnig með þeim hætti að yfirvöld veiti þeim ekki vernd gegn ofbeldisbrotum, sbr. það sem áður hafi komið fram um viðbrögð lögregluyfirvalda í landinu við kvörtunum hjónanna.

Í greinargerð er því mótmælt sem fram komi í samskiptaseðli frá Göngudeild sóttvarna frá 6. mars 2018, um að K sé almennt heilbrigð kona. Í dagbókarfærslu frá sálfræðingi sem hún hafi hitt þann 30. apríl sl. komi m.a. fram að K hafi mátt þola óheyrilegt ofbeldi af hálfu tengdaföður síns, hún gráti mikið, sé alveg niðurbrotin og í áfalli. Í greinargerðinni er ítrekuð krafa um að K fái sálfræðimat eða mat á andlegu ástandi hennar, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Kærendur vísa ennfremur til úrskurðar kærunefndar nr. 662/2017 í þessu sambandi, en þau telja að atvik málsins séu sambærileg að þessu leyti. Af greinargerð má ráða að kærendur telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við vinnslu máls kærenda með því að óska ekki eftir slíku mati. Þá er því mótmælt að kærendur hafi fengið fullnægjandi heilbrigðisaðstoð í heimaríkinu. Aðstæður í heilbrigðiskerfi Albaníu styrki enn frekar kröfu um að fjölskyldunni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá er að lokum fjallað um börn M og K. Þau hafi orðið vitni að ofbeldi gegn foreldrum sínum og verið látin stunda nauðungarvinnu. Sérstök athygli er vakin á því að í frumvarpi til laga nr. 80/2016 um útlendinga segi í umfjöllun um ákvæði 74. gr. að lagt sé til að við töku ákvörðunar um þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða skuli sérstaklega tekið tillit til barna og þannig komi til greina að minni kröfur séu gerðar til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laganna. Þá er vísað í ákvæði 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um börn. Það sé börnum kærenda fyrir bestu að vera ekki send aftur til Albaníu í þá óvissu sem ríki um framtíð þeirra. Fjölskyldan muni annað hvort þurfa að fara aftur á heimili foreldra M og eigi þá á hættu að þola áframhaldandi ofbeldi af hálfu föður M eða að fjölskyldan verði heimilislaus og neyðist til að vera á vergangi. Þá liggi fyrir að þau muni sæta samfélagslegri útskúfun vegna þess sem á undan sé gengið.

Þann 27. júlí 2018 lögðu kærendur M og K fram frekari gögn um heilsufar þeirra, þ.m.t. gögn um viðtalsmeðferð K hjá sálfræðingi hér á landi. Í athugasemdum sem fylgdu gögnunum kemur m.a. fram að kærandi hafi í viðtölum hjá sálfræðingi grein frá upplýsingum sem eru í samræmi við frásagnir hennar í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Til viðbótar hafi hún greint sálfræðingi frá því að hún hefði leitað læknis vegna líkamlegra áverka sem hún hlaut af hendi tengdafjölskyldu sinnar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað albönskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra séu albanskir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Albania 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2018);
  • Freedom in the World 2017 - Albania (Freedom House, 1. september 2017);
  • National Integrity System Asessment Albania 2016 (Transparency International, 2016);
  • Amnesty International Report 2017/18: The State of the World´s Human Rights - Albania (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Information and Guidance - Albania: Background information, including actors of protection, and internal relocation (United Kingdom: Home Office, ágúst 2015) (júlí 2017);
  • Annual Report on the activity of the People´s Advocate 1 January-31 December (Republic of Albania People´s Advocate, febrúar 2015);
  • Report by Nils Muižnieks, Commissioner for Human Rights of the Council of Europe following his visit to Albania from 23 to 27 September 2013 (Commissioner for Human Rights, 16. janúar 2014);
  • Operational Guidance Note - Albania (United Kingdom Home Office, 19. september 2014);
  • Albania - Country of Origin Information Report (United Kingdom: Home Office, 30. mars 2012);
  • Information Centre Asylum and Migration Briefing Notes (Germany: Federal Office for Migration and Asylum, 15. maí 2017);
  • Freedom in the World 2017 - Albania (Freedom House, 1. september 2017);
  • Nations in Transit 2017 - Albania (Freedom House, 3. apríl 2017);
  • The World Factbook - Albania (vefsíða Central Intelligence Agency, sótt 22. nóvember 2017);
  • Albania Progress Report (European Commission, 9. nóvember 2016);
  • Commission Staff Working Document. Albania 2015 Report (European Commission, 9. nóvember 2016);
  • Information Note on Directive 2013/32/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on common procedures for granting and withdrawing international protection (recast) (European Council on Refugees and Exiles, desember 2014);
  • Social Protection Albania (International Labour Organization, sótt 22. nóvember 2017);
  • UNHCR Position on the Proposal for a Directive on Common Standards and Procedures in Member States for Returning Illegally Staying Third-Country Nationals (UN High Commissioner, 16. júní 2008);
  • Domestic violence, including legislation, state protection and support services available to victims (2011-April 2014) (Immigration and Refugee Board of Canada, 30. apríl 2014);
  • Report of the Special Rapporteur on Extrajudicial, Summary or Arbitrary Executions, Christof Heyns. Addendum. Follow-up to Country Recommendations: Albania (Human Rights Council, 23. apríl 2013);
  • Landinfo temanotat Albania: Forhold for barn og unge (Landinfo: Utlendingsforvaltningens fagenhet for landinformasjon, 25. september 2015); og
  • National Strategy and Action Plan on Gender Equality 2016-2020 (Ministria E Mirёqenies Sociale Dhe Rinisё, október 2016).

Albanía er lýðræðisríki með um þrjár milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Albanía gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 18. ágúst 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 4. október 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 11. maí 1994. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Albanía er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í ljósi þess má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að réttar- og löggæslukerfinu í Albaníu sé ábótavant en á undanförnum árum hafi yfirvöld unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu. Jafnframt kemur fram að albönsk stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að Albaníu hafi miðað áfram í málefnum er snerti réttarkerfið og frelsi og öryggi borgara landsins. Þá hafi laun lögreglumanna verið hækkuð og mikil endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins auk þess sem yfirvöld sæki lögreglumenn til saka vegna brota í starfi. Þá hafi stjórnvöld tekið til tæknilegra aðgerða til þess að stemma stigu við afbrotum í starfi á borð við að láta lögreglumenn bera myndavélar og gera greiðslur umferðasekta rafrænar. Fram kemur að sett hafi verið á fót þjónusta sem heyri undir albanska innanríkisráðuneytið sem geri borgurunum kleift að senda inn kvartanir vegna spillingarmála í eigin persónu eða símleiðis. Einnig sé starfrækt vefgátt á vegum yfirvalda þar sem borgarar geti tilkynnt misferli opinberra starfsmanna. Samkvæmt skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2017 hafi kvörtunarþjónustu innanríkisráðuneytisins borist fjöldi kvartana varðandi spillingu innan lögreglu og hafi um 43 tilvik varðandi brot í starfi verið skráð og hafi verið lagt til að um 57 lögreglumenn skyldu sæta agaviðurlögum. Árið 2017 hafi Umboðsmaður einnig tekið til meðferðar kvartanir vegna brota lögreglumanna í starfi og þá aðallega vegna vandamála tengdum handtökum og varðhaldi.

Árið 2012 hafi albönskum hegningarlögum verið breytt á þá leið að nú sé þar að finna sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi. Brot á ákvæðinu varði allt að fimm ára fangelsi. Í kjölfarið hafi átt sér stað ýmsar umbætur hjá yfirvöldum í málum er varði heimilisofbeldi. Samkvæmt skýrslu sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna (e. Special Rapporteur on Extrajudicial, Summary or Arbitrary Executions) frá árinu 2013 hafi handtökum vegna tilkynninga um heimilisofbeldi til að mynda fjölgað úr 63 í 119 á milli áranna 2011 og 2012. Talið er að þessar umbætur stafi af fyrrgreindri lagabreytingu. Þá reki bæði albönsk yfirvöld og frjáls félagasamtök athvörf fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis.

Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að kynbundið ofbeldi sé vandamál í Albaníu. Nauðgun, annað kynferðisofbeldi (e. sexual assault) og kynferðisleg áreitni séu refsiverð skv. albönskum hegningarlögum. Sé þolandi nauðgunar fullorðinn einstaklingur spanni refsiramminn fyrir nauðgunarbrot þrjú til tíu ár. Samkvæmt ofangreindum heimildum skorti þó nokkuð á eftirfylgni með löggjöfinni og lágt hlutfall kærumála sæti ákæruferli. Albönsk yfirvöld hafi þróað áætlun um kynjajafnrétti og takmörkun kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis fyrir árin 2016-2020 (e. National Strategy and Action Plan on Gender Equality 2016-2020). Frjáls félagasamtök bjóði upp á lagalega aðstoð og sálfræðiþjónustu fyrir konur sem séu þolendur ofbeldis. Þá geti þolendur jafnframt tilkynnt misferli og kvartað vegna starfa lögreglu, svo sem fram hefur komið.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að atvinnuleysi sé mikið í Albaníu en landið hafi almennt náð að viðhalda jákvæðum hagvexti og fjárhagslegum stöðugleika þrátt fyrir viðvarandi efnahagserfiðleika. Albönsk stjórnvöld hafi, m.a. í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, unnið að úrbótum í atvinnumálum. Einnig hafi verið unnið að því að bæta félagslega aðstoð fyrir þá sem þess þarfnist. Þeir sem eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum geti því leitað eftir aðstoð frá því sveitarfélagi sem þeir séu búsettir í. Þá banni vinnulöggjöf mismunun starfsmanna á grundvelli kynþáttar, húðlitar, kyns, aldurs, fötlunar, stjórnmálaskoðana, tungumáls, þjóðernis, trúar, fjölskyldu, veikinda og þjóðfélagsstöðu. Samkvæmt albönskum heilbrigðislögum eiga íbúar landsins rétt á almennri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum skuli heilbrigðisyfirvöld m.a. kynna og tryggja jafnan rétt allra að heilbrigðisþjónustu. Undir þá þjónustu sem íbúar eigi rétt á falli m.a. geðheilbrigðisþjónusta.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kærenda er byggð á því að kærandi K hafi sætt ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi, og hótunum af hálfu tengdafjölskyldu hennar og að hún og börn hennar séu í hættu í heimaríki þeirra. Jafnframt er umsóknin byggð á heilsubresti M og A. Þá telji M og K að þau geti ekki fengið aðstoð yfirvalda vegna þessa. Í ákvörðunum Útlendingastofnar kemur fram að af hálfu stofnunarinnar sé fallist á að kærandi K hafi sætt ofbeldi og áreiti af hálfu tengdafjölskyldu sinnar. Þá væri ekki hægt að útiloka að nágranni kærenda, sem kærandi kvað að hefði tengsl við tengdafjölskyldu sína, hefði einhvers konar tengsl við lögregluna.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu. Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga í efa að kærandi K hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi og áreiti af hálfu einstaklinga í fjölskyldu M. Það er þó mat kærunefndar að kærendur hafi raunhæfan möguleika á að leita aðstoðar stjórnvalda í heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 26. febrúar sl., kom m.a. fram að tengdafaðir, tengdamóðir og mágkona K hafi sætt nálgunarbanni gagnvart henni. Þá hafi þau verið handtekin þegar þau brutu gegn nálgunarbanninu en sleppt skömmu síðar. Af þessu má ráða að stjórnvöld hafi gripið til úrræða til að vernda K, en að ljóst er að nálgunarbannið hafi verið erfitt í framkvæmd í ljósi heimilisaðstæðna fjölskyldunnar. Gögn benda ennfremur til þess að telji kærendur að lögreglan veiti þeim ekki fullnægjandi aðstoð séu til staðar úrræði í Albaníu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til sérstakrar stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og embættis umboðsmanns í landinu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík þó svo að úrbóta sé enn þörf varðandi sjálfstæði þeirra stofnana sem að þeim koma. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki skorti vilja eða getu til að veita kærendum viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kærenda, öryggi þeirra, velferðar og félagslegs þroska. Kærunefnd telur að það samrýmist hagsmunum barnanna að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis þeirra.

Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í framangreindum athugasemdum við 74. gr. kemur jafnframt fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Samkvæmt framlögðum gögnum, þ. á m. samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 6.-9. mars 2018 og 30. apríl s.á. kemur fram að K glími við andlega erfiðleika, sé í áfalli, gráti mikið og sofi illa. Hún hafi þurft aðstoð sálfræðings. Í mati sálfræðings dags. 24. júlí 2018 kemur fram að K uppfylli greiningarskilmerki áfallastreituröskunar auk alvarlegrar geðlægðar og kvíða. Þjónustuþörf hennar sé mikil og mikilvægt að K geti sótt gagnreynda meðferð við hæfi. Af skýrslum um heimaríki K má ráða að þurfi hún á geðheilbrigðisþjónustu að halda í heimaríki sé slík þjónusta aðgengileg. 

Í gögnum málsins kemur ennfremur fram að A sé með […] . Samkvæmt göngudeildarnótu Barnaspítala Hringsins, dags. 19. mars sl., var ekki talin ástæða til inngrips að svo stöddu en lagt til að hann kæmi til eftirlits eftir eitt ár. Þá kemur fram í viðtali móður A hjá Útlendingastofnun þann 26. febrúar sl. að sonur hennar þurfi að hitta lækni reglulega en að öðru leyti sé í lagi með hann. Önnur gögn málsins staðfesta að A hafi verið undir eftirliti lækna í heimaríki og sem hafi verið fullnægjandi í ljósi ástands hans.

Í gögnum málsins kemur fram að M hafi í tvígang verið greindur með […] og fengið meðferð við því í heimaríki en um er að ræða […] ). Samkvæmt samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 8. og 9. mars sl., var M í meðferð í heimaríki vegna sjúkdóms síns í nóvember og desember 2017. Niðurstöður rannsókna hér á landi hafi ekki bent til þess að þörf væri á frekara inngripi. Ennfremur bera gögn málsins ekki með sér að M hafi verið í meðferð við krabbameini hér á landi. Þótt litið yrði svo á að M þjáðist af sjúkdómi sem kynni að geta valdið alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni benda gögn málsins, þ.m.t. læknisfræðileg gögn sem kærandi hefur sjálfur lagt fram, til þess að meðferð við sjúkdómnum sé til heimaríki hans og hún sé honum aðgengileg, en samkvæmt nefndum gögnum og framburði kæranda er ljóst að kærandi hefur notið læknisþjónustu þar vegna veikinda sinna.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Eins og að framan greinir óttast kærendur hótanir og ofbeldi við endurkomu til Albaníu af hendi fjölskyldu M gagnvart M og sérstaklega K auk þess sem A, B og C hafi orðið vitni að ofbeldinu. Gögn málsins bera með sér að kærendur hafi um langt skeið búið á heimili fjölskyldu M ásamt gerendunum vegna fjárhagsástæðna. Að mati kærunefndar benda gögn málsins þó ekki til annars en að félagslegar aðstæður kærenda séu með þeim hætti að þeim sé unnt að standa á eigin fótum að þessu leyti.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barna þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og börn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið sérstaklega til hagsmuna barna kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barna þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barna þeirra þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur komu hingað til lands 23. febrúar 2018 og sóttu um alþjóðlega vernd 24. febrúar s.á. ásamt börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra og barna þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum og börnum þeirra því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur og börn þeirra koma frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur og börn þeirra að hverfa af landi brott. Kærendum og börnum þeirra er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children are affirmed. The appellants and their children are requested to leave the country. The appellants and their children have 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                              Anna Tryggvadóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta