Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 33/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. desember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 27. október 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 7. október 2008. Umsókn kæranda var hafnað samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann væri svokallaður ársmaður, þ.e. hann greiddi ekki staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi með reglubundnum hætti. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 4. desember 2008 og krefst kærandi þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði ógilt og hann fái greiddar 100% bætur frá og með 7. október 2008. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki fallið undir skilgreiningu á sjálfstætt starfandi einstaklingi og þyki ljóst að hann njóti ekki réttar til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 7. október 2008. Honum var tilkynnt, með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. október 2008, um frestun ákvörðunar stofnunarinnar þar sem líkur væru á að hann ætti ekki bótarétt. Honum var jafnframt gefinn kostur á að koma með skýringar og andmæli. Kærandi nýtti sér það ekki og var hin kærða ákvörðun tekin á fundi Vinnumálastofnunar þann 27. október 2008. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var hafnað þar sem hann var ekki talinn uppfylla skilyrði 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um reglubundin skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi.

Kærandi starfaði sjálfstætt við húsbyggingar frá 1. nóvember 2004 til 30. september 2008. Hann kveðst í bréfi sínu mótteknu 4. desember 2008 aðeins hafa skilað tveimur greiðsluseðlum síðastliðna 12 mánuði og hafi umsókn hans þar af leiðandi verið hafnað. Hann kveður að hafa verði í huga varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga að þeir hafi á hverju ári ákveðinn kostnað við reksturinn og geti sú upphæð verið allt að helmingur af tekjum ársins. Fram kemur að tvö greiðslukerfi séu notuð varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga, annars vegar regluleg skil og hins vegar óregluleg skil. Kærandi kveðst hafa verið í óreglulegum skilum, hafi getað ákveðið hve marga greiðsluseðla hann greiddi á hverju ári, en hafi það fylgt nokkuð því hve rekstrarkostnaður ársins var mikill. Kærandi segir að það sé ljóst að tveir sjálfstætt starfandi einstaklingar, annar í reglulegum skilum og hinn í óreglulegum skilum með sömu árstekjur standi jafnt með greiðslur til ríkisins, en þegar þeir þurfi að fá greiðslu frá ríkinu í formi atvinnuleysisbóta sé þeim mismunað, þ.e. bótarétturinn miðist við fjölda innsendra greiðsluseðla reiknaðs endurgjalds án tillits til upphæðar.

Vinnumálastofnun vísar til b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greinargerðar með frumvarpi til laganna. Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi lagt fram hafi hann skilað inn greiðslum vegna reiknaðs endurgjalds óreglulega, þ.e. ekki á mánaðarfresti eða reglulega með öðrum hætti en ljóst sé af tilvitnuðu lagaákvæði að það sé forsenda fyrir því að teljast tryggður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi rak eigið byggingafyrirtæki og starfaði við byggingar frá 1. nóvember 2004 til 30. september 2008. Hann er húsasmiður. Samkvæmt skilagrein RSK greiddi kærandi staðgreiðslu og tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds einu sinni á árinu 2007 og tvisvar sinnum á árinu 2008, eða samtals þrisvar sinnum á tveggja ára tímabili. Í hvert skipti var reiknað endurgjald kæranda 229.000 kr. Kærandi var því, með vísan til b-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sjálfstætt starfandi einstaklingur að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Í 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um ávinnslutímabil og segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr. Í 4. mgr. kemur fram sú regla að til að finna hvert vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga teljist hafa verið á ávinnslutímabili skuli taka mið af skrám skattyfirvalda. Samkvæmt þessu er því gert ráð fyrir að umsækjandi hafi á ávinnslutímabili fullnægt 25% af fullu starfi til að eiga rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Að þessu leyti er tekið undir það sjónarmið kæranda að þegar vinnuframlag er metið skuli miða við fjárhæð reiknaðs endurgjalds en ekki fjölda greiðsluseðla.

Fjármálaráðherra gefur út viðmiðunarfjárhæðir fyrir reiknað endurgjald fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Samkvæmt flokki D í áðurgreindum reglum fjármálaráðherra fyrir árin 2007 og 2008 nemur lágmarksviðmið fyrir reiknað endurgjald iðnaðarmanns sem starfar einn eða með færri en tveimur starfsmönnum 276.000 kr. á mánuði eða 3.312.000 kr. á ári. Kærandi greiddi staðgreiðslu og tryggingagjald af samtals 458.000 kr. á ávinnslutímabili sem nær ekki 25% af árslaunum sjálfstætt starfandi iðnaðarmanns. Hann á því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. október 2008 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta