Mál nr. 39/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 20. apríl 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 39/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur borist kæra A með bréfi dagsettu 17. apríl 2009. Vinnumálastofnun fjallaði um umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar, sbr. bréf stofnunarinnar til hans, dags. 16. apríl 2009. Þar kemur fram að stofnunin hefur frestað afgreiðslu umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og óskaði með bréfinu eftir skriflegri afstöðu frá kæranda á ástæðum starfsloka hans hjá X hf. skv. 10. gr. og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til þess að hægt væri að meta rétt hans til atvinnuleysistrygginga. Í bréfinu kemur einnig fram að Vinnumálastofnun muni enn fremur óska eftir skýringum X hf. á ástæðum starfslokanna skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í áðurnefndu bréfi kemur einnig fram að ef ástæða starfsloka kæranda er eigin uppsögn hans eða uppsögn sem rekja megi til eigin sakar hans geti verið um niðurfellingu bótaréttar að ræða í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, skv. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í fyrrnefndu bréfi Vinnumálastofnunar er kæranda tjáð að umbeðnar upplýsingar þurfi að hafa borist Vinnumálastofnun innan 7 virkra daga frá dagsetningu bréfsins, en að öðrum kosti muni ákvörðun stofnunarinnar byggjast á fyrirliggjandi gögnum.
Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. apríl 2009, kemur m.a. fram að hann sé orðinn móðgaður út af meðferð máls hans hjá Vinnumálastofnun. Hann fer fram á að þurfa ekki að hafa samband eða vera í viðskiptum við starfsfólk vinnumiðlunar og hann fer einnig fram á að honum verði skipaður fulltrúi frá ráðuneytinu til að fara með sín mál strax.
2.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar er ekki verið að binda enda á mál kæranda heldur er afgreiðslu málsins frestað þar til kærandi hefur greint frá afstöðu sinni á ástæðum starfsloka hans hjá X hf. og þar til Vinnumálastofnun hefur borist skýringar X hf. á ástæðum starfslokanna. Í bréfinu er enn fremur gerð grein fyrir því að ef ástæða starfsloka sé eigin uppsögn eða uppsögn sem rekja megi til eigin sakar starfsmannsins getið verið um niðurfellingu bótarréttar í 40.
Þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um lyktir málsins er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð
Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson