Hoppa yfir valmynd

Nr. 550/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 550/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17080037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. ágúst 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. ágúst 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd [...] hér á landi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 42. gr. og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 6. apríl 2017. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. apríl 2017 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þann 10. ágúst 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 29. ágúst 2017. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 14. september sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd í Búlgaríu og hann sé með gilt dvalarleyfi í landinu með gildistíma til 14. júní 2019.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig að bágar aðstæður í Búlgaríu séu slíkar að endursending þangað væri brot gegn meginreglunni um non-refoulement og að sérstakar ástæður mæltu með því að umsókn kæranda yrði tekin til efnismeðferðar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Var það mat Útlendingastofnunar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Búlgaríu. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var mat stofnunarinnar að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í máli kæranda. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd [...] því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga frestaði kæra að meginreglu réttaráhrifum ákvörðunar um umsókn um alþjóðlega vernd. Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi dvalið í Búlgaríu í um eitt ár og þrjá mánuði en þangað hafi hann komið eftir flótta frá heimaríki hans, [...]. Kærandi greinir frá því að dvöl hans í Búlgaríu hafi verið mjög slæm, þar hafi umsækjendur um alþjóðlega vernd verið beittir ofbeldi og ekkert öryggi hafi verið að finna. Þá hafi kærandi ekki haft möguleika á að sækja sér nám eða verða sér úti um atvinnu. Kærandi kveður aðbúnað í flóttamannabúðum hafa verið mjög lélegan, þar hafi verið mjög kalt, fæðið vont og hann hafi ekki fengið dagpeninga. Kærandi hafi jafnframt verið haldinn stöðugum ótta þegar hann hafi farið út fyrir flóttamannabúðirnar þar sem heimamenn hafi setið um umsækjendur um alþjóðlega vernd og rænt þá, vopnaðir hnífum, hótað þeim og beitt þá líkamlegu ofbeldi. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir árás af hálfu þessara manna, sem hafi rænt af honum 300 evrum. Þá hafi steinum margsinnis verið kastað í áttina að honum. Þegar kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Búlgaríu hafi hann þurft að standa á eigin fótum og sjá fyrir sér sjálfur. Þá kvaðst kærandi hafa leigt húsnæði með vini sínum og unnið fyrir sér með óreglulegri svartri vinnu. Aðspurður um heimaríki sitt kvaðst kærandi vera fæddur og uppalinn í [...]. Þar eigi hann fjölskyldu sem hann sakni mjög mikið.

Til stuðnings kröfu kæranda segir í greinargerð að rétt sé að undirstrika að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild stjórnvalda til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd, en ekki skyldu. Meginregla laganna sé að allar umsóknir skuli teknar til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við og í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur þröngt. Af hálfu kæranda er byggt á því að vegna aðbúnaðar og aðstæðna hans í Búlgaríu myndi endursending þangað brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda verði að einblína á það hvort viðkomandi einstaklingur sé í hættu á illri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Með vísan til þess sem rakið hafi verið um aðstæður viðurkenndra flóttamanna í Búlgaríu sé ljóst að aðstæður þeirra séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. sáttmálans.

Þá er í greinargerð gerð grein fyrir ýmsum atriðum er varða aðstæður, aðbúnað og réttarstöðu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Búlgaríu og er í því sambandi vísað til fjölda skýrslna alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Kemur þar m.a. fram að aðstæður flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í Búlgaríu séu lýsandi fyrir þá mismunun sem blasi við minnihlutahópum þar í landi.

Mikið innstreymi af fólki á flótta hafi sett húsnæðismál í uppnám og umsækjendur um alþjóðlega vernd séu hýstir við mjög slæmar aðstæður. Það hafi einnig leitt af sér mikið útlendingahatur. Einstaklingar sem njóti alþjóðlegrar verndar eigi lögum samkvæmt sama rétt og búlgarskir ríkisborgarar. Aftur á móti sé raunin ekki sú í framkvæmd þar sem flóttafólk hafi ekki tækifæri til þess að nýta sér þjónustuna og viti jafnvel ekki af því að hún standi þeim til boða. Í Búlgaríu sé mikið atvinnuleysi, húsnæðisskortur og fátækt. Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd þurfi að flytjast úr flóttamannabúðum eða öðrum vistarverum innan sex mánaða eftir veitingu verndar. Aftur á móti valdi flóknar reglur því að félagslegur stuðningur eða fjárhagsaðstoð séu þeim sjaldan aðgengileg og því sé mjög erfitt að fjármagna leigu á húsnæði. Einnig sé algengt að flóttafólki sé mismunað af hálfu leigusala og það jafnvel svikið vegna tungumálaörðugleika og vanþekkingar á réttarstöðu sinni. Þá kemur fram í greinargerð að á árinu 2016 hafi verið innleidd tilskipun er varði aðlögun og samþættingu flóttafólks að búlgörsku samfélagi. Fram til þessa hafi löggjöfin þó einungis verið orð á blaði þar sem ekkert af 265 sveitarfélögum landsins hafi sótt um fjárveitingu til þess að hefja innleiðingu og framkvæmd á tilskipuninni. Samkvæmt heimildum hafi athafnaleysi búlgarskra stjórnvalda í þessum málaflokki sætt mikilli gagnrýni frá alþjóðasamfélaginu. Mikill fjármagnsskortur hafi einkennt ríkisstofnun flóttamanna í landinu sem hafi leitt til þess að flóttafólk fái hvorki heilbrigðisþjónustu né túlkaþjónustu. Hjálparsamtök og sjálfboðaliðar hafi þó aðstoðað með framlagi sínu til grunnþjónustu sem ætti með réttu að vera tryggð af hálfu búlgarskra yfirvalda. Þá er í greinargerð vísað í álit Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að dönskum stjórnvöldum hafi ekki verið heimilt að endursenda sýrlenska fjölskyldu til Búlgaríu sem hafi hlotið vernd þar í landi. Hafi ráðið komist að þeirri niðurstöðu með tilliti til aðstæðna fjölskyldunnar þar og þess að búlgörsk stjórnvöld gætu hvorki tryggt fullan aðgang þeirra að heilbrigðiskerfinu þar í landi né heldur að þau yrðu ekki fyrir vanvirðandi meðferð í landinu.

Verði ekki fallist á það að endursending kæranda til Búlgaríu brjóti í bága við framangreind ákvæði alþjóðasamninga og íslenskra laga telur kærandi að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 sem breyttu þágildandi lögum um útlendinga. Með hinum nýju lögum um útlendinga sé leiddur í ljós vilji löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í eldri lögum um útlendinga. Með vísan til ofangreindar umfjöllunar og þeirrar staðreyndar að kærandi sé ungur að aldri [...] séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem sem skylda íslensk stjórnvöld til að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt viðbótarvernd í Búlgaríu og hefur hann gilt dvalarleyfi til 14. júní 2019. Liggur þannig fyrir að kærandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd í Búlgaríu og eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. laganna segir að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 veitir stjórnvöldum ríkt svigrúm til mats á því hvað felist í sérstökum ástæðum í skilningi ákvæðisins, á hvaða sjónarmiðum skuli byggt við þetta mat og hvert skuli vera vægi þeirra. Stjórnvöld eru þó ávallt bundin af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar en af henni leiðir að sjónarmiðin skulu vera málefnaleg. Þá gerir jafnræðisreglan þá kröfu að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Þegar afmarka skal nánar á hvaða málefnalegu sjónarmiðum skuli byggt og vægi þeirra við framangreint mat verður að líta til lagagrundvallar málsins, en í því sambandi er áréttað að heimild ráðherra í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt til að setja í reglugerð ákvæði um framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laganna.

Að mati kærunefndar bendir forsaga ákvæðisins til þess að 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli að mestu leyti framkvæma með sambærilegum hætti og 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 enda var orðalag niðurlags 1. málsl. óbreytt frá eldri lögum. Samkvæmt framkvæmd á grundvelli eldri laga fengu sjónarmið sem varða skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkuð mikið vægi. Við mat sjónarmiða sem tengdust stöðu einstakra umsækjenda var gengið út frá því að ástand og aðstæður í viðtökuríki og fyrri reynsla kæranda þyrftu að vera bæði sérstakar og af ákveðnu alvarleikastigi sem segja má að hafi verið talsvert hátt svo til greina kæmi að beita þágildandi 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga.

Tilteknar breytingar á framsetningu 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 hafa þó leitt til þess að nefndin hefur talið að veita bæri sjónarmiðum sem tengjast stöðu einstakra umsækjenda aukið vægi í þessu heildarmati. Frá gildistöku laga um útlendinga nr. 80/2016 hefur kærunefnd litið til innra samræmis 36. gr. laga um útlendinga og þeirra breytinga sem voru gerðar á framsetningu 1. mgr. 36. gr. laganna, með hliðsjón af áðurgildandi 1. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga svo og þeirra breytinga sem fólust í framsetningu þeirra reglu sem nú er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd litið til þeirra lögskýringargagna sem tengdust breytingu á ákvæðinu í meðförum þingsins, n.t.t. nefndaráliti meirihluta þingnefndar og ræðu framsögumanns meirihlutans, en í því sambandi er áréttað að kærunefnd hefur hvorki litið til orðalags ákvæðis 2. mgr. 36. gr. eins og það hljóðaði í upphaflegri mynd frumvarps til laga um útlendinga né athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í ljósi þeirra breytinga sem urðu á því ákvæði frumvarpsins í meðförum þingsins. Með vísan til lögskýringargagna hefur kærunefnd litið svo á að það hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé eitt af þeim sjónarmiðum sem líta verður til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu. Við það mat skuli jafnframt bæði litið til aðstæðna einstaklings og aðstæðna og ástands í viðtökuríki. Kærunefnd hefur þó jafnframt lagt nokkra áherslu á forsögu ákvæðisins og litið til þess að ekki hafi verið um að ræða grundvallarbreytingu frá framkvæmd á grundvelli eldri laga um útlendinga að því er varðar vægi hinna kerfislægu sjónarmiða. Í framkvæmd nefndarinnar frá gildistöku laga nr. 80/2016 hefur þetta leitt til þess að málum sem tekin hafa verið til meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna hefur fjölgað lítillega. Þó má segja að skilvirkni umsóknarferilsins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins hafi áfram vegið þungt í mati nefndarinnar.

Frá gildistöku laga nr. 81/2017 telur kærunefnd rétt að líta til þeirra gagna sem urðu til við meðferð laganna á Alþingi er varða túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hér er um að ræða athugasemdir við frumvarpið, sem samið var að frumkvæði þingmanna og lagt fram sem þáttur í samkomulagi um þinglok, álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar og framsöguræðu nefndarmanns sem kynnti álitið við 2. umræðu frumvarpsins. Þrátt fyrir að þau lögskýringargögn tengist ekki beint setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 eru þau samt sem áður sett fram í tilefni breytinga á inntaki 2. mgr. 36. gr. laganna og því nægilega tengd efni málsgreinarinnar til að hafa áhrif á túlkun hennar.

Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 81/2017 var áréttaður „sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, líkt og fram kom í athugasemdum við 2. mgr. 36. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um útlendinga."

Kærunefnd telur að líta verði til þess að álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar gefur skýrlega til kynna vægi tiltekinna sjónarmiða sem líta eigi til við beitingu ákvæðis 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því áliti kemur eftirfarandi fram:

„Fyrir nefndinni var rætt um texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem áréttaður er sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Bent var á að lögskýringargögn væru ekki skýr um þetta atriði og varhugavert geti verið að nýtt þing árétti vilja fyrri þinga án þess að því fylgi breytingar á lögum. Meirihlutinn bendir á að með þessu er áréttað, líkt og fram kom í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, að taka skuli til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða ef sérstakar ástæður mæla með því að taka skuli mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum aðstæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu sem leiði til þess að þeir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga.“

Í framsöguræðu við 2. umræðu voru þessi sjónarmið árréttuð og hnykkt á með þeim með ummælum að ekki ætti „að vera neinn vafi á því hvað átt sé við með sérstakri stöðu.“

Að mati kærunefndar lýsa þessi lögskýringargögn því með nægilega skýrum hætti bæði þeim sjónarmiðum sem löggjafinn telur að stjórnvöldum beri að beita við mat samkvæmt ákvæðinu og að nokkru leyti vægi sjónarmiðanna. Nefndin telur sjónarmiðin málefnaleg og að þau rúmist innan þess mats sem texti ákvæðisins felur stjórnvöldum, sérstaklega í ljósi þess að reglugerðarheimild skv. 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt. Að mati kærunefndar gefa ummæli í þessum lögskýringargögnum með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjenda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Í ljósi mismunar á orðalagi og inntaki athugasemda í frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2017 og umfjöllun meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta atriði er það þó mat kærunefndar að ekki sé skýrt af lögskýringargögnum að ávallt beri að taka umsóknir frá einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu til efnismeðferðar, þótt það sjónarmið skuli hafa aukið vægi andspænis öðrum sjónarmiðum, sé miðað við þá framkvæmd sem tíðkast hefur fram að þessu. Aftur á móti telur kærunefnd að þegar viðkvæm staða umsækjenda verður að mati stjórnvalda talin leiða til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga, skuli það sjónarmið hafa mikið vægi við matið. Í þeim tilvikum beri að líta svo á að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu og að það skuli almennt tekið til efnismeðferðar.

Til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi m.a. lýst þeirri afstöðu sinni að þær aðstæður sem hann megi búast við verði hann sendur aftur til Búlgaríu séu slíkar að í brottflutningi hans þangað fælist brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að senda hann til Búlgaríu í ljósi ákvæða 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Kærunefnd hefur lagt mat á aðstæður í Búlgaríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Bulgaria (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017),
  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Bulgaria (United States Department of State, 3. mars 2017), • Nations in Transit 2017 (Freedom House, maí 2017), 
  • Pushed Back at the Door: Denial of Access to Asylum in Eastern EU Member States (Hungarian Helsinki Committee, 2017),
  • ECRE/ELENA Research Note: Reception conditions, detention and procedural safeguards for asylum seekers and content of international protection status in Bulgaria (European Council on Refugees and Exiles og European Legal Network on Asylum, febrúar 2016),
  • UNHCR observations on the current asylum system in Bulgaria (UN High Commissioner for Refugees, apríl 2014),
  • Humiliated, ill-treated and without protection – Refugees and asylum seekers in Bulgaria (Pro Asyl, desember 2015),
  • Bulgaria: UNHCR says asylum conditions improved, warns against transfer of vulnerable people (UN High Commissioner for Refugees, 15. apríl 2014) og
  • Upplýsingar af vefsíðu búlgörsku útlendingastofnunarinnar (www.aref.government.bg).

Af framangreindum gögnum má sjá að búlgörsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Í framangreindum skýrslum kemur m.a. fram að of mikill fjöldi umsækjenda í tilteknum móttökumiðstöðvum hafi leitt til óheilnæmra aðstæðna og skorts fyrir þá sem þar dvelja. Þá hafa búlgörsk stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir aðbúnað umsækjenda sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og/eða hafa sérstakar þarfir. Í því sambandi hefur einkum verið bent á skort á skipulagðri skipun einstaklinga í viðkvæmri stöðu og viðunandi þjónustu fyrir þennan hóp. Gagnrýni hefur jafnframt verið beint að notkun búlgarskra stjórnvalda á varðhaldi gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Þá hafa búlgörsk stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir aðbúnað einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar þar í landi. Samkvæmt framangreindum heimildum hafa flóttamenn á undanförnum árum ekki fengið neina aðstoð við aðlögun að búlgörsku samfélagi. Þótt flóttamenn njóti formlega séð sömu réttinda og búlgarskir ríkisborgarar, og einstaklingar með viðbótarvernd sömu réttinda og einstaklingar með ótímabundið dvalarleyfi þar í landi, þegar kemur að aðgengi að grunnþjónustu, svo sem félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu og aðgengi að vinnumarkaði, eru bæði takmarkanir á aðgengi og möguleikum flóttamanna og einstaklinga með viðbótarvernd til njóta þessa réttar. Sem dæmi má nefna að einstaklingar mega dveljast í móttökumiðstöðvum í sex mánuði eftir að þeir fengu jákvæða niðurstöðu á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en njóta ekki frekari stuðnings varðandi húsnæði.

Í framangreindu heimildum kemur jafnframt fram að einstaklingar sem hafi fengið alþjóðlega vernd í Búlgaríu eigi erfitt með að aðlagast búlgörsku samfélagi, finna sér varanlegt húsnæði og afla sér menntunar. Þá fari útlendingahatur og fordómar vaxandi í samfélaginu, einstaklingar af erlendum uppruna verði oft á tíðum fyrir miklu áreiti og dæmi séu um að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði fyrir alvarlegu ofbeldi vegna kynþáttar og stöðu sinnar. Mannréttindasamtök hafa jafnframt greint frá mörgum tilvikum þar sem ofbeldi, niðurlægjandi meðferð og athafnarleysi lögreglunar kemur niður á flóttamönnum eða innflytjendum í landinu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt búlgörsk stjórnvöld fyrir aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd, málsmeðferð slíkra umsókna og stöðu flóttamanna og annarra sem njóta alþjóðlegrar verndar. Árið 2014 lagðist Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tímabundið gegn endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Búlgaríu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Vegna úrbóta sem búlgörsk stjórnvöld réðust í á hæliskerfinu leggst stofnunin ekki lengur gegn endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Stofnunin hefur þó beint til ríkja sem taka þátt í Dyflinnarsamstarfinu að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður umsækjenda með tillit til endursendinga til Búlgaríu, einkum með það að markmiði að meta hvort þeir hafi sérþarfir eða séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn flutningi einstaklinga með alþjóðlega vernd til Búlgaríu.

Kærandi er [...] einstæður karlmaður, sem nýtur alþjóðlegrar verndar í Búlgaríu þar sem hann dvaldist í rúmlega ár. Hann kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Kærandi hefur greint frá því að dvöl hans í Búlgaríu hafi verið honum erfið vegna stöðu sinnar. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir árás og verið rændur í eitt skipti ásamt því að hafa margsinnis orði fyrir steinakasti. Þá hefur kærandi greint frá því að hann hafi verið haldinn stöðugum ótta þar sem heimamenn hafi setið um umsækjendur um alþjóðlega vernd og rænt þá vopnaðir hnífum, hótað þeim og beitt þá líkamlegu ofbeldi. Kærandi greinir einnig frá því að þegar honum hafi verið veitt viðbótarvernd þá hafi hann þurft að standa á eigin fótum og ekki fengið neina aðstoð frá stjórnvöldum. Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli telur kærunefndar þó jafnframt að líta verði til aðstæðna kæranda í viðtökuríki. Frásögn kæranda af aðstæðum sínum í Búlgaríu hefur þegar verið lýst en hún kemur heim og saman við framangreindar heimildir um aðstæður flóttamanna og þeirra sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Búlgaríu. Kærandi, sem samkvæmt gögnum málsins er [...]. Í ljósi aldurs og uppruna kæranda og með hliðsjón af upplýsingum um þær aðstæður sem bíða hans í Búlgaríu er það mat kærunefndar að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki sökum mismunar vegna kynþáttar og aðstæðna hans sem einstaklings með viðbótarvernd. Er það niðurstaða kærunefndar einkum með hliðsjón af gildistöku laga nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga og þeim lögskýringagögnum sem liggja að baki frumvarpinu, sem áður voru rakin, þá sérstaklega ofangreindu áliti meirihluta allsherjar– og menntamálanefndar, að taka beri umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í ljósi alls framangreinds er það mat kærunefndar að í máli kæranda séu fyrir hendi sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að fyrir liggi að búlgörsk stjórnvöld hafi þegar veitt kæranda viðbótarvernd er það mat kærunefndar, m.t.t. gildistöku laga nr. 81/2017 og lögskýringargagna þar að lútandi að rétt sé að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á viðkvæmri stöðu kæranda, aðstæðum hans og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Búlgaríu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Erna Kristín Blöndal                                         Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta