Nr. 223/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. maí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 223/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21040019
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 7. apríl 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2021, um að synja beiðni hans um endurupptöku á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2020.
Af greinargerð má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2020, verði endurupptekin á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 11. júlí 2016. Með ákvörðun, dags. 30. ágúst 2016, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldu sendur til Þýskalands á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 18. október 2016, var ákvörðunin staðfest. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki hinn 12. september 2019 og fékk leyfið útgefið hinn 10. mars 2020 með gildistíma til 31. ágúst 2020. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfinu hinn 25. september 2020 og var umsókninni synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2020. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á ákvörðuninni hjá Útlendingastofnun hinn 26. nóvember 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars. 2021, var beiðni hans um endurupptöku synjað. Kærandi kærði síðastnefnda ákvörðun til kærunefndar þann 7. apríl 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 4. maí 2021 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í hinni kærðu ákvörðun var það niðurstaða Útlendingastofnunar að skilyrði til endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga væru ekki uppfyllt og var beiðni kæranda því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kemur fram að Útlendingastofnun hafi synjað umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis með ákvörðun hinn 3. nóvember 2020. Hafi ákvörðunin byggst á röngum og ófullnægjandi upplýsingum og í kjölfarið hafi frekari gögn verið lögð fram og óskað eftir því að Útlendingastofnun tæki nýja ákvörðun í málinu. Þann 4. desember 2020 hafi beiðnin verið staðfest. Hafi umboðsmaður kæranda skilið samskipti sín við Útlendingastofnun á þá vegu að málið yrði tekið til efnismeðferðar að nýju en það sjáist af ítrekuðum fyrirspurnum um málið auk þess sem þessi skilningur umboðsmannsins hafi aldrei verið leiðréttur í svörum frá stofnuninni. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi með þessu tekið ákvörðun um endurupptöku og verði sú ákvörðun ekki afturkölluð. Vísar kærandi til þess að hinn 22. mars 2021 hafi Útlendingastofnun hins vegar tekið ákvörðun í málinu að því er varðar endurupptöku eingöngu og rök verið færð fyrir því hvers vegna ekki ætti að taka ákvörðunina til efnismeðferðar.
Komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að fyrri ákvörðun stofnunarinnar, þ.e. ákvörðunin frá 3. nóvember 2020, hafi byggst á 3. og 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, þ.e. umsókn um endurnýjun dvalarleyfi hefði borist of seint. Komi fram í síðastnefndri ákvörðun að kærandi hafi lagt fram ráðningarsamning frá 24. ágúst 2019 og að hann gilti í eitt ár. Vísar kærandi til þess að hann hafi gert ráðningarsamning, dagsettan í ágúst 2019, þegar hann hafi sótt um dvalarleyfi. Hafi hann komið fyrst til landsins eftir að leyfið var veitt þann 10. mars 2020 og hafið störf í apríl sama ár. Þessi gögn liggi öll fyrir í málinu. Þá hafi stofnunin einnig verið upplýst um að kærandi hefði starfað skemur en átta mánuði á landinu og þess óskað að undantekningarákvæði 4. mgr. 62. gr. laga um útlendinga yrði tekið til greina. Þrátt fyrir þetta hafi Útlendingastofnun byggt ákvörðun sína á því að ráðningarsamningur kæranda hafi verið gerður í ágúst 2019 og því hefði kærandi starfað lengur en átta mánuði á landinu, án þess þó að hafa verið staddur hér á landi. Hið rétta sé að kærandi hafi starfað hér á landi í fimm mánuði, eða frá því dvalarleyfi var veitt og þar til það rann út.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til skoðunar hvort skilyrði séu fyrir endurupptöku máls en kærandi kærði ekki ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2020, innan tilskilins kærufrests til kærunefndar útlendingamála samkvæmt 7. gr. laga um útlendinga. Kemur sú ákvörðun því ekki til efnislegrar skoðunar í úrskurði þessum, þ.m.t. hvort ákvörðunin hafi verið rétt eða málsmeðferðin hnökralaus.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá kemur einnig til skoðunar hvort kærandi kunni að eiga rétt til endurupptöku máls á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins, s.s. ef upplýst er að ákvörðunin hafi byggt á röngum lagagrundvelli.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að Útlendingastofnun hafi haft fullnægjandi upplýsingar við töku ákvörðunar þann 3. nóvember 2020 en kærandi lagði ekki fram frekari gögn með beiðni sinni um endurupptöku til Útlendingastofnunar. Verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður jafnframt ekki talið að 2. tl. ákvæðisins eigi við í málinu enda ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að atvik málsins hafi breyst frá töku ákvörðunar, dags. 3. nóvember 2020. Að sama skapi verður ekki heldur talið að skilyrði fyrir endurupptöku á grundvelli ólögfestra reglna séu uppfyllt. Kærunefnd hefur jafnframt farið yfir tölvupóstsamskipti umboðsmanns kæranda og Útlendingastofnunar og verður ekki af þeim ráðið að Útlendingastofnun hafi þar fallist á endurupptöku málsins.
Með vísan framangreinds er hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku, staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares