Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 51/2022 Endurupptaka Úrskurður 25. apríl 2022

Endurupptaka.

Mál nr. 51/2022                           Eiginnafn:       Baltazar (kk.)

 

 

Með vísan til 2. töluliðs 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 33/1992 ákvað mannanafnanefnd að eigin frumkvæði að endurupptaka mál nr. 58/2020 þar sem umsókn um eiginnafnið Baltazar var hafnað á þeirri forsendu að bókstafurinn z væri ekki hluti af íslensku stafrófi. Eftir að nefndin kvað upp úrskurð í málinu voru gerðar breytingar á vinnulagsreglum mannanafnanefndar er varða mat á því hvort ritháttur nafna teljist hafa áunnið sér hefð þannig að heimilt væri að rita ný tökunöfn með bókstöfunum c, q, w og z sé það í samræmi við rithátt nafnsins í veitimáli. Þar sem umræddar breytingar á vinnulagsreglunum hafa þýðingu í málinu telur nefndin rétt að taka það upp á ný.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Baltazar (kk.) uppfyllir skilyrði nr. eitt, tvö og fjögur hér að framan. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Baltazars, telst ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Í málinu reynir hins vegar á skilyrði nr. þrjú um að nafnið skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls svo sem framar greinir.

Í fyrri úrskurðum hefur mannanafnanefnd hafnað nöfnum sem hafa að geyma stafinn z á þeirri forsendu að stafurinn hafi verið afnuminn úr íslenska stafrófinu með auglýsingu um íslenska stafsetningu nr. 132/1974 og því ekki í samræmi við almennar ritreglur að rita nöfn með z. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 857/2017 hafnaði Hæstiréttur túlkun mannanafnanefndar á auglýsingu nr. 132/1974 og sagði að þó bókstafurinn z hafi verið afnuminn við stafsetningu íslenskra orða hefðu verið gerðar undantekningar um mannanöfn og tilgreint að í sérnöfnum, erlendum að uppruna mætti rita z. Í núgildandi auglýsingu um íslenska stafsetningu, nr. 695/2016, sbr. auglýsing nr. 800/2018, er aftur á móti ekki að finna sérstök ákvæði er varða stafinn z. Nefndin telur þó ekki rétt að líta svo á að þar með hafi verið fallið frá því að heimila bókstafinn z í sérnöfnum af erlendum uppruna. Þá gera vinnulagsreglur mannanafnanefndar, eftir að þær voru uppfærðar 1. júlí 2021, ráð fyrir því að tökunöfn geti innihaldið bókstafinn z. Telur mannanafnanefnd því ekki rétt að hafna nafninu á þeirri forsendu að z sé ekki hluti af íslenska stafrófinu þar sem almennar ritreglur, og vinnulagsreglur nefndarinnar, gera ráð fyrir að sérnöfn af erlendum uppruna megi rita með bókstafnum z en nafnið Baltazar er af erlendum uppruna. Eiginnafnið telst þannig uppfylla skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn og er samþykkt.

Úrskurðarorð:

Eiginnafnið Baltazar (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritháttarafbrigði nafnsins Baltasar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta