Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2012

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Ríkisútvarpinu ohf.

Ráðning í starf. Hæfnismat. Aðfinnslur.

Ríkisútvarpið ohf. auglýsti í október 2012 laust starf dagskrárstjóra sjónvarps. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var. Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði haft meiri menntun en sá er ráðinn var en þar sem hann hafði langa starfsreynslu í sambærilegu starfi hafi ekki verið um brot að ræða. Kærunefnd gerði athugasemd við synjun kærða á að láta kæranda í té upplýsingar og rökstuðning fyrir ráðningunni.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. mars 2013 er tekið fyrir mál nr. 12/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 12. nóvember 2012, kærði A ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um að ráða karl í starf dagskrárstjóra sjónvarps. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 16. nóvember 2012. Kærði óskaði eftir fresti til að skila greinargerð sem barst 31. desember 2012 og kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. janúar 2013.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 28. janúar 2013, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða samdægurs með bréfi kærunefndar. Með tölvupósti þann 5. febrúar 2013 óskaði kærði eftir fresti til að skila athugasemdum og var hann veittur til 20. febrúar 2013. Kæranda var tilkynnt um framangreindan frest með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 5. febrúar 2013. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 20. febrúar 2013, og voru sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 22. febrúar 2013. Með bréfi, dagsettu 7. mars 2013, óskaði kærunefndin eftir gögnum um mat á hæfni kæranda gagnvart þeim er ráðinn var og gagnvart öðrum umsækjendum að því marki sem slík gögn hefðu ekki þegar verið afhent. Með bréfi, dagsettu 14. mars 2013, bárust frekari gögn frá kærða. Með tölvupósti þann 18. mars 2013 óskaði kærunefndin skýringa á því hvort gögnin hafi verið unnin í umsóknarferlinu eða eftir að kæra barst. Svör kærða bárust í tölvupósti þann 19. mars 2013. Gögnin og skýringar kærða voru send kæranda til kynningar með tölvupósti þann 20. mars 2013.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR
  6. Kærði auglýsti starf dagskrárstjóra sjónvarps laust til umsóknar í Fréttatímanum þann 12. október 2012, í Morgunblaðinu þann 11. og 20. október s.á., á vef kærða, í samlesnum auglýsingum á Rás 1 og Rás 2 og í skjáauglýsingum í sjónvarpi kærða. Í auglýsingu kom fram að dagskrárstjóri sjónvarps væri faglegur og rekstrarlegur yfirmaður dagskrár sjónvarps. Um væri að ræða krefjandi starf sem tæki til eigin framleiðslu stofnunarinnar og innkaupa og útheimti mikil samskipti við innlenda og erlenda framleiðendur. Helstu verkefni voru talin: Markmiðasetning, mótun og framkvæmd dagskrárstefnu sjónvarps, umsjón með innkaupum á innlendu og erlendu efni auk samningagerðar, ákvarðanir um innlenda dagskrárgerð og aðkeypta þjónustu, hugmyndavinna, undirbúningur og umsjón með framleiðslu á innlendu efni, faglegt eftirlit og gæðamat, gerð fjárhags- og rekstraráætlana, daglegur rekstur og starfsmannahald. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar menntunar- og hæfniskröfur: Háskólamenntun eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi æskileg, starfsreynsla á fyrrgreindum sviðum æskileg, reynsla af stjórnunarstörfum og leiðtogahæfileikar, skipulags- og samstarfshæfileikar, sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði.
  7. Alls bárust 29 umsóknir, 12 frá konum og 17 frá körlum, og var ákveðið að kalla fimm umsækjendur í starfsviðtöl, eina konu og fjóra karla. Kærandi var ekki þar á meðal. Að því loknu var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, karlmanni, starfið sem hann þáði.
  8. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningu dagskrárstjóra með tölvupósti þann 7. nóvember 2012. Kærði hafnaði beiðni kæranda með tölvupósti þann 9. nóvember 2012.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  9. Kærandi telur að hún uppfylli skilyrði þau er fram hafi komið í auglýsingu vegna starfsins og að rétt hefði verið að boða hana í viðtal svo hægt hefði verið að skera úr um hæfni hennar með formlegum hætti. Kærandi krefst þess að kærunefndin skeri úr því hvort umsókn hennar um starfið hafi fengið sanngjarna meðferð og hvort kærandi teljist í það minnsta jafnhæf þeim er hlaut starf dagskrárstjóra sjónvarps. Verði komist að þeirri niðurstöðu telur kærandi ljóst að lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafi verið brotin.
  10. Kærandi bendir á að hún hafi meiri menntun en aðrir sem hafi sinnt starfi dagskrárstjóra sjónvarps að undanskildum þeim er gegndi starfinu síðast og telur kærandi að sú menntun nýtist beint í starfinu. Kærandi kveðst hafa lagt stund á leiklistarnám við Royal Conservatory of Scotland og hafi því skilning og þekkingu á leiklist, framkomu og meðferð talaðs máls. Hún hafi einnig lagt stund á nám í leikhúsfræði við háskólann í Glasgow og háskólann í Stokkhólmi en um sé að ræða nám í greiningu, túlkun og meðferð leikrita, handrita og tengds ritaðs texta. Þá hafi hún lokið meistaranámi frá Háskólanum á Bifröst í félagshagfræði með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlafræði. Í því námi hafi meðal annars falist haggreining sem og stjórnunar- og rekstrarnám. Lokaritgerð hennar, sem hún hafi hlotið hæstu einkunn fyrir, hafi fjallað um einstaklingsbundna þekkingu og virkjun hennar til nýsköpunar innan fyrirtækja og stofnana. Nú sé hún að ljúka doktorsnámi frá Háskóla Íslands á sviði hagfræðimenningar og doktorsritgerð hennar fjalli um hugverkarétt. Hún hafi því góða þekkingu á íslenskum og alþjóðlegum lögum á því sviði sem nýtist við framleiðslu og innkaup á sjónvarpsefni. Að auki hafi hún setið námskeið í handritagerð auk námskeiða í fjármögnun og framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Þá sinni hún einnig kennslu við Háskóla Íslands, meðal annars í stjórnun og rekstri í skapandi greinum.
  11. Kærandi bendir á að hún hafi um 20 ára starfsreynslu á þeim sviðum sem tengjast starfinu og sú reynsla sé mun víðtækari og lengri en flestra þeirra sem áður hafi sinnt því. Kærandi kveðst hafa starfað í eitt ár sem markaðsstjóri Rásar 2. Eftir að hún hafi lokið námi hafi hún starfað á fimmta ár í innlendri dagskrárdeild sjónvarps, fyrst sem aðstoðarmaður við dagskrárgerð flestra tegunda sjónvarpsefnis, leikins efnis, skemmtiþátta, beinna útsendinga, fræðslu- og heimildaefnis og barnaefnis, en undir lokin hafi hún starfað sem dagskrárgerðarmaður. Þá hafi hún farið að starfa sjálfstætt og starfað fyrir ýmis fyrirtæki að kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð. Hún hafi meðal annars verið fengin til að skrifa og stýra heimildaþætti um sviðslistir á Íslandi í tilefni 50 ára afmælis Ríkisútvarpsins. Því næst hafi hún hafið rekstur eigin framleiðslufyrirtækis og starfað við það í tíu ár. Hún hafi borið ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og framleiðslu þess. Þar hafi hún unnið að þróun efnis ásamt öðrum þeim sem komið hafi að verki hvert sinn. Hún hafi unnið að fjármögnun verkefna og áætlanagerð á öllum stigum og sviðum framleiðslu en sú áætlanagerð hafi meðal annars lotið að fjármögnun, kostnaði, framvindu og markaðssetningu. Þá hafi hún komið að gerð samninga, meðal annars vegna ráðninga, fjármögnunar, aðfanga, sölu, dreifingar, alþjóðlegrar samframleiðslu og réttinda. Loks hafi hún stýrt framleiðslu verkefnanna, eftirvinnslu þeirra og markaðssetningu. Eftir að hún hafi horfið aftur til náms hafi hún tekið að sér verkefni fyrir framleiðslufyrirtæki í sjónvarpsefnis- og kvikmyndagerð en verkefnin hafi aðallega falist í gerð umsókna fyrir alþjóðlega og norræna samkeppnissjóði um fjármagn til þróunar og framleiðslu, sem og áætlanagerð og „dramatúrgíu“ eða leiðsögn við og endurskrif á handritum. Einnig hafi hún stýrt starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem unnið hafi skýrslu um starfsskilyrði kvikmyndagerðar á Íslandi en samtök framleiðenda kvikmynda- og sjónvarpsefnis hafi tilnefnt hana til starfsins.
  12. Kærandi vísar til þess að hún hafi skrifað nokkur handrit að sjónvarpsþáttum og heimildaefni sem sýnt hafi verið í sjónvarpi. Þá hafi hún einnig skrifað tvö leikin verk, annars vegar kvikmyndina Dansinn og hins vegar verk fyrir jóladagatal Ríkissjónvarpsins. Þá hafi hún verið formaður Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar og stýrt starfi hennar í tvö og hálft ár. Hafi hún þá stjórnað framkvæmd Edduhátíðarinnar og útsendinga frá henni. Einnig hafi hún starfað í nokkur ár fyrir erlenda aðila sem kvikmyndi á Íslandi.
  13. Kærandi kveðst vera í tveimur alþjóðlegum samtökum framleiðenda kvikmynda- og sjónvarpsefnis og upphafskona að stofnun WIFT á Íslandi sem sé Íslandsdeild alþjóðlegra samtaka kvenna í sjónvarps- og kvikmyndagerð. Enn fremur sé hún skipuð af ráðherra í stjórn Media á Íslandi, sé varamaður í kvikmyndaráði, stjórnarmaður og gjaldkeri í stjórn SÍK, samtaka kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda, í um það bil sex ár. Þá hafi hún verið fulltrúi Íslands á kynningu á efnilegustu framleiðendum Evrópu á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1994. Hún hafi einnig unnið til Edduverðlauna sem og verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og fjallað um gerð sjónvarpsefnis í ræðu og riti með sérstakri áherslu á mikilvægi innlends barnaefnis.
  14. Kærandi telur að það hafi mögulega unnið gegn henni að hún hafi ekki áður gegnt starfi dagskrárstjóra sjónvarps. Kærandi tekur því fram að eingöngu dagskrárstjórar sjónvarps hjá kærða og Stöð 2 beri þessi starfsheiti og sé forsenda ráðningar að umsækjandi hafi gegnt slíku starfi sé einsýnt að einungis dagskrárstjórum Stöðvar 2 standi starfið til boða. Starf dagskrárstjóranna sé ekki eins enda Stöð 2 einkarekin áskriftarstöð en kærði sinni útvarpsþjónustu í almannaþágu og lög kveði á um hvernig sinna beri þeirri þjónustu með vali og gerð efnis í dagskrá. Um sé að ræða ólíkan tilgang og dagskrárstjórar þessara tveggja sjónvarpsstöðva þurfi að hafa þekkingu á ólíkum menningarsviðum. Kærandi bendir á að ekki hafi verið gerð krafa um að umsækjendur hafi gegnt starfi dagskrárstjóra áður.
  15. Kærandi kveðst hafa haft mikinn áhuga á starfinu og að koma að mótun stefnu almanna- og menningarhlutverks Sjónvarpsins. Hún nefnir í þessu sambandi áhuga sinn á barnaefni í sjónvarpi og að hún telji að leita verði nýrra leiða til úrbóta vegna ójafnrar kynjaskiptingar í dagskrá og á framleiðslusviði íslensks sjónvarps. Hún hafi talið að það væri af hinu góða að reynsla og menntun hennar væri ólík reynslu og menntun yfirstjórnanda. Sú reynsla sem hún hafi af skapandi starfi og þekking sem hún hafi aflað sér og kennt í nýsköpunarfræðslu hafi gert sér ljóst að margbreytileiki, ólíkar nálganir og mismunandi þekkingarsvið séu ein mikilvægasta uppspretta nýjunga og framfara. Hún hafi talið að list- og menningartengdur bakgrunnur sinn, reynsla af framleiðslu og rekstri og sérþekking á eðli menningar í samfélagslegu og hagrænu samhengi myndi nýtast stofnuninni og samfélaginu þrátt fyrir að hún væri umfram það sem auglýsing um starfið hefði gert kröfu um.
  16. Kærandi telur að hún hafi í það minnsta verið jafnhæf þeim sem ráðinn var í starfið og í ljósi lágs hlutfalls kvenna í yfirstjórn kærða hafi átt að ráða hana. Hún tiltekur að áður hafi kona gegnt starfi dagskrárstjóra sjónvarps og útvarps en þar sem karlmaður hafi nú eftir uppskiptingu starfsins verið ráðinn í annað starfið hafi stöðugildum er konur skipi fækkað og hlutfall þeirra þar með lækkað í yfirstjórn kærða.
  17. Að lokum tiltekur kærandi að hún hafi ástæðu til að ætla að framkvæmd ráðningar hafi ekki verið með þeim hætti er ætla megi og að umsækjendur hafi ekki haft jafna stöðu hvað varði skilmála auglýsingar. Hún vísar til ummæla útvarpsstjóra kærða í fjölmiðlum um að félagið sé í samkeppni við Stöð 2, meðal annars um starfsfólk, og telur að ráðningin hafi mögulega verið hluti af þeirri samkeppni.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  18. Kærði vísar til þess að ráðið hafi verið í tvö störf á sama tíma, starf dagskrárstjóra sjónvarps og starf dagskrárstjóra útvarps og í síðarnefnda starfið hafi verið ráðin kona. Ekki sé því hægt að leiða líkum að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns, enda hafi fyrri dagskrárstjóri sjónvarps og útvarps verið kona og sá er hlaut starf dagskrárstjóra útvarps sé einnig kona. Kærði heldur því fram að ráðning dagskrárstjóra sjónvarps hafi verið grundvölluð á mati á hæfni, starfsreynslu og menntun auk annarra þátta sem máli skipti við framkvæmd starfsins. Sérstaklega hafi verið litið til þess hvort viðkomandi hefði sinnt þeim verkefnum sem í auglýsingu hafi verið tíundað að starfið fæli í sér. Kærði tekur fram að fyrst og fremst hafi verið leitað að stjórnanda. Dagskrárstjóri sjónvarps sé yfirmaður innlendrar dagskrárdeildar og innkaupadeildar en um 50 starfsmenn og verktakar tilheyri þeim deildum og deildirnar velti samtals um 1,3 milljörðum króna. Það hafi því ekki verið í forgangi að umsækjendur hefðu mikla reynslu af framleiðslu, enda ekki óskað sérstaklega eftir því í auglýsingu. Á grundvelli mats á framangreindum þáttum hafi fimm umsækjendur verið boðaðir í viðtal. Hefði ástæða verið til að taka fleiri í viðtal hefði kærandi, ásamt tveimur öðrum umsækjendum til viðbótar, verið boðuð í viðtal. Að viðtölum loknum hafi það verið einróma álit að sá er starfið hlaut hafi búið yfir mestum kostum til að hljóta starfið.
  19. Kærði bendir á að sá er starfið hlaut sé með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hluti af náminu hafi farið fram í Bretlandi þar sem megináhersla hafi verið lögð á fjölmiðlasögu. Eftir það hafi hann einblínt sérstaklega á kvikmynda- og menningarsögu og lokaritgerð hans fjallað um kvikmyndasýningar í Reykjavík í hálfa öld. Hann hafi haft það forskot fram yfir aðra umsækjendur að hafa víðtæka reynslu af öllum þeim verkefnum sem falli undir verksvið dagskrárstjóra sjónvarps hjá kærða eftir að hafa gegnt sambærilegri stöðu á innlendri sjónvarpsstöð síðustu sex ár. Í starfinu hjá 365 miðlum ehf. hafi hann öðlast yfirgripsmikla reynslu af innkaupum á innlendu og erlendu efni, reynslu af stjórn þróunar og gæðastjórnunar á innlendri dagskrárgerð, séð um alhliða stefnumörkun, dagskrársetningu, gerð rekstraráætlana fyrir innlenda og erlenda dagskrá og daglegan rekstur og starfsmannahald fyrir dagskrárdeild. Auk þess hafi hann verið upplýsingafulltrúi 365 miðla ehf. um tveggja ára skeið. Þar hafi hann haft yfirumsjón með ytri og innri upplýsingamiðlun, innra markaðsstarfi, dagskrárkynningarmálum og textagerð, sem nýtist vel í starfi dagskrárstjóra. Hann hafi einnig reynslu af prentmiðlum þar sem hann hafi um fimm ára skeið verið deildarstjóri dægurmenningardeildar Morgunblaðsins og haft þar yfirumsjón með umfjöllun blaðsins um dægurmenningu, þar með talið tónlist, kvikmyndir, fjölmiðla o.fl. Sá er starfið hlaut hafi þótt sýna mikið sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum. Sem dæmi um það sé hugmyndavinna varðandi erlent sjónvarpsefni og nýsköpun í þáttagerð, svo sem gerð Vaktaseríanna svokölluðu, Pressu, Ástríðar og Réttar sem allt séu fyrstu þættir sinnar tegundar hér á landi. Þekking hans og reynsla hafi þótt falla mjög vel að öllum þeim kröfum sem gerðar séu til starfs dagskrárstjóra sjónvarps og umsókn hans hafi lýst góðum skilningi á verkefnum sem dagskrárstjóri sjónvarps þurfi að takast á við í daglegum störfum.
  20. Kærði tekur fram að kærandi hafi ekki gert grein fyrir því í umsókn sinni hvernig menntun hennar nýttist betur í starfi dagskrárstjóra en önnur háskólamenntun en þau rök hennar hafi fyrst komið fram í kæru. Umfangsmikil reynsla hennar af fjármögnun og framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsverka hafi ekki það vægi við mat á umsóknum sem hún hafi haldið fram þar sem framleiðsla efnis kærða sé meðal annars fjármögnuð með þjónustutekjum frá ríkinu. Þá hafi ekki verið gerð krafa um reynslu af fjármögnun í auglýsingu um starfið. Kærði bendir einnig á að kærandi hafi í umsókn sinni ekki nefnt dæmi um einstök verkefni sem kærandi hafi unnið að fjármögnun á. Hann telur jafnframt að starfsreynsla kæranda á sviði dagskrárgerðar sem aðstoðardagskrárgerðarmaður gefi ekki þá reynslu sem þurfi til að sinna margvíslegum störfum og ákvarðanatöku í daglegu starfi dagskrárstjóra. Kærandi hafi ekki sýnt fram á reynslu af markmiðasetningu eða mótun og framkvæmd dagskrárstefnu fyrir sjónvarp, hún hafi ekki tekið ákvarðanir um innlenda dagskrá og aðkeypta þjónustu eða sinnt faglegu eftirliti sem sé stór hluti starfs dagskrárstjóra sjónvarps. Í umsókn hennar hafi ekki komið fram að hún hafi reynslu af starfsmannahaldi eins og gerð hafi verið krafa um í auglýsingu. Kærði bendir á að í umsókn kæranda komi ekki fram allar þær upplýsingar sem hún tiltaki í kæru. Kærði telur að þegar umsóknir kæranda og þess er starfið hlaut séu metnar verði að leggja til grundvallar umsókn kæranda en ekki ítarlega umfjöllun hennar í kæru.
  21. Kærði byggir á því að ákvörðun um ráðningu dagskrárstjóra sjónvarps hafi verið tekin á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Eftir heildarmat á samanburði á kæranda og þeim er starfið hlaut, sé ljóst að við ráðningu í starfið hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Kærandi hafi ekki gert líklegt að nám hennar eða reynsla nýtist þannig að hún yrði talin jafnhæf eða hæfari en sá er starfið hlaut til að stjórna dagskrárdeild sjónvarps. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að mat kærða á hæfni þess er hlaut starfið hafi verið ómálefnalegt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 33/2003.
  22. Loks mótmælir kærði því að umsækjendur hafi ekki haft jafna stöðu hvað varðar skilmála atvinnuauglýsingarinnar og að vilyrði hafi verið gefið fyrir stöðuveitingunni áður en til úrvinnslu umsókna hafi komið. Kærði vísar í þessu sambandi til þess að auglýsing um starf dagskrárstjóra sjónvarps á árinu 2010 hafi verið sett fram með sambærilegum hætti.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  23. Kærandi gerir kröfu um að henni verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi kærða. Kærandi telur að við ráðningu í stöðu dagskrárstjóra sjónvarps hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, einkum 18., 24. og 26. gr.
  24. Kærandi bendir á að í ljósi þess að hún hafi ekki verið boðuð í viðtal hafi verið mikið misræmi á mati hennar á styrk umsóknar sinnar og mati þeirra sem um umsóknina hafi fjallað. Þá sé mikill munur í kynjahlutföllum stjórnenda kærða sem og þeirra sem leiðandi séu eða ábyrgir fyrir dagskrá sjónvarpsins. Kærði hafi því látið undir höfuð leggjast að vinna markvisst að leiðréttingu kynjahalla. Kærandi gerir athugasemd við að kærði hafi hvorki upplýst hvaða fimm einstaklingar hafi verið kallaðir í viðtal né hafi verið lagðar fram upplýsingar sem veiti innsýn í ráðningarferlið eða matsgerðir sem hafi legið til grundvallar vali á einstaklingum í viðtal og síðar til ráðningar. Kærandi óskar að það verði upplýst ásamt því hverjir hafi skipað ráðgjafahóp sem farið hafi yfir umsóknir og gert tillögur til útvarpsstjóra og hvernig störfum hans hafi verið háttað.
  25. Kærandi gerir athugasemd við fullyrðingu kærða að ekki sé hægt að leiða líkur að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Kærandi bendir á að mismunun á grundvelli kyns hafi í þessu tilfelli falist í því að hvorki hafi verið leitast við að framfylgja jafnréttislögum og jafnréttisstefnu kærða né hafi þau verið höfð að leiðarljósi við ráðningu. Þá vísar kærandi til þess að þeir þættir sem kærði kveðst hafa horft til við ráðningu séu í öllu sambærilegir lýsingu á starfssviði dagskrárstjóra sjónvarps í starfsauglýsingu en ekki lýsingu á menntunar- og hæfniskröfum sem settar hafi verið fram í auglýsingunni. Í auglýsingu hafi fimm þættir verið tilteknir undir menntunar- og hæfniskröfum. Einn þátturinn hafi verið reynsla af verkefnum dagskrárstjóra sem hafi verið talin æskileg. Kærandi gerir athugasemd við að ekki komi fram í umsögn kærða hvernig hinir fjórir þættirnir hafi verið metnir. Í umsókn hafi kærandi fyrst og fremst reynt að sýna fram á hvernig hún uppfyllti menntunar- og hæfniskröfur en ekki starfslýsingu.
  26. Kærandi gerir athugasemd við fullyrðingu kærða um að hún hafi ekki gert grein fyrir því í umsókn hvernig menntun hennar nýttist í starfi dagskrárstjóra umfram aðra. Kærandi bendir á að henni hafi hvorki borið að gera grein fyrir því né hafi hún verið fær um það þar sem hún hafi ekki vitað hverjir myndu sækja um starfið eða hvaða menntun þeir hefðu. Kærandi hafi í umsókn sinni útlistað menntun sína í dramatúrgíu, nýsköpun, hagfræði menningar og hugverkaréttindamálum og illskiljanlegt sé hvers vegna kærði hafi talið óljóst hvernig sú menntun nýttist í starfinu. Þá sé erfitt að sjá hvers vegna kærði hafi talið óljóst að tæplega sjö ára nám í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum og síðar hagfræði menningar í viðskiptafræðideild fæli í sér menntun í stjórnunar- og rekstrarfræðum. Í ljósi athugasemda kærða við framsetningu upplýsinga í umsókn tekur kærandi fram að hún hafi gert ráð fyrir að umsóknir yrðu lesnar af nákvæmni og áhuga í þeim tilgangi að skoða hvort umsækjendur hefðu fram að færa, utan þess sem fram hafi komið í auglýsingu, eiginleika, þekkingu og hæfni sem nýttist stofnuninni. Kærandi hafi sett umsókn sína þannig fram að þeir sem hefðu reynslu og þekkingu á framleiðslu og vinnuferlum í gerð efnis fyrir sjónræna miðla myndu átta sig á innihaldi hennar. Því hafi umsókn, ferilskrá og kynningarbréf verið með hefðbundnum hætti og ekki farið í nákvæmar skýringar sem betur ættu heima í viðtali. Þá tekur kærandi fram að kærði hafi verið að leita að stjórnanda sem bæri ábyrgð á fjármálum og umtalsverðum starfsmannafjölda. Ekkert í gögnum málsins staðfesti að sá sem ráðinn hafi verið hafi reynslu af því en það hafi kærandi vegna sjálfstæðs rekstrar og framleiðslu stórra kvikmyndaverka. Kærandi gerir einnig athugasemd við að kærði telji hana hafa gert of mikið úr reynslu sinni af fjármögnun. Í ljósi ítrekaðra kvartana útvarpsstjóra um áhrif fjárskorts á framleiðslu og hugsanlega tekjuskerðingu verði að telja mikilvægt að dagskrárstjóri búi yfir reynslu af fjármögnun.
  27. Kærandi bendir á að margt það sem kærði kveðst hafa byggt á við ráðninguna hljóti að hafa komið fram í viðtali enda hafi einungis hluti þeirra atriða komið fram í umsókn þess er starfið hlaut. Hefði kærandi verið boðuð í viðtal hefði hún þar getað komið ýmsum frekari upplýsingum á framfæri, meðal annars um nám og búsetu erlendis. Ekki sé um það deilt að sá sem ráðinn hafi verið hafi reynslu af dagskrársetningu og innkaupum á íslensku og erlendu efni en slík reynsla hafi í auglýsingu verið talin æskileg en ekki nauðsynleg. Kærandi bendir hins vegar á að eigandi og forstjóri 365 miðla ehf. hafi tekið virkan þátt í innkaupum. Þá telur kærandi að tilurð þess að sá sem ráðinn var hafi tekið þátt í nýsköpun í þáttagerð hafi meðal annars mátt rekja til stofnunar nýs sjóðs Kvikmyndastöðvar Íslands, sem veitti fjármunum í framleiðslu leikins sjónvarpsefnis. Sjóðurinn hafi verið stofnaður eftir áralanga baráttu Framleiðendafélagsins SÍK og kærandi hafi tekið þátt í þeirri vinnu sem stjórnarmaður og gjaldkeri félagsins. Þá hafi einnig komið til nýjar áherslur eigenda og stjórnenda Stöðvar 2 og ný, einfaldari og ódýrari upptökutækni. Kærandi fær ekki séð af athugasemum kærða hvort og þá með hvaða hætti sá sem starfið fékk, hafi fjallað um gerð fjárhags- og rekstraráætlunar fyrir Stöð 2. Einnig sé tiltekinn daglegur rekstur og starfsmannahald en umfang þess og eðli telur kærandi ekki ljóst. Loks sé fjallað um störf þess sem starfið hlaut, sem upplýsingafulltrúi 365 miðla ehf. Vert sé að taka fram að kærandi hafi unnið sambærileg verkefni, annars vegar í starfi sem markaðsstjóri Rásar 2 og hins vegar sem framleiðandi og framkvæmdastjóri hjá framleiðslufyrirtæki. Kærandi tekur fram að framangreindar upplýsingar um starfsreynslu hennar hafi komið fram í ferliskrá eða kynningarbréfi eða þeim hefði verið komið á framfæri í viðtali.
  28. Kærandi vekur athygli á því að ekkert í athugasemdum kærða varpi ljósi á mats- og ráðningarferlið. Í fylgigögnum sé ekki að finna gögn sem sýni að mat hafi farið fram með formlegum hætti eða greinargerðir sem kærandi telur að hljóti að hafa verið unnar. Þá hafi spurningum kæranda sem settar hafi verið fram í fyrirspurn til kærða ekki verið svarað. Vitnað sé til einróma álits um að sá sem starfið hlaut hafi verið talinn hæfastur án þess að nánar sé skýrt hvernig sú niðurstaða hafi verið fengin. Ekkert í athugasemdum kærða eða fylgigögnum staðfesti frásögn á úrvinnslu og ráðningarferlinu. Án dagsettra gagna, greinargerða, mats eða álitsgerða, sem og upplýsinga um hvaða einstaklingar hafi komið að mati, ráðningu og til viðtala séu upplýsingar úr umsögninni haldlitlar. Skýringar og lýsingar geti hæglega verið ónákvæmar eða unnar eftir að ráðning átti sér stað.
  29. Loks tekur kærandi fram að á meðan umsóknarferli stóð hafi henni borist upplýsingar sem gefið hafi til kynna að umsækjendum hafi verið mismunað, þ.e. að einum umsækjanda hafi verið lofað starfinu gegn því að hann skilaði inn umsókn, hvoru tveggja eftir að umsóknarfrestur hafi verið runninn út. Því gerir kærandi á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 10/2008 kröfu til þess að kærunefndin afli allra gagna um ráðningarferlið, meðal annars hvort skipaður hafi verið sérstakur ráðgjafahópur varðandi ráðninguna, hverjir hafi skipað hann, hver niðurstaða hópsins hafi verið, hverjir hafi sótt um starfið, hverjir hafi verið kallaðir í viðtal, um greinargerðir ráðgjafahópsins og svo framvegis.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  30. Kærði bendir á að þegar umsóknir hafi verið metnar hafi kærandi ekki verið metin jafnhæf þeim er starfið hlaut og því hafi hin óskráða forgangsregla ekki komið til skoðunar. Kærði telur að kærandi hafi mátt vita að um starfið sæktu margir frambærilegir einstaklingar, takmarkaður fjöldi yrði tekinn í viðtal og að ákvörðun um viðtal tæki mið af þeim upplýsingum sem komið yrði á framfæri í umsókn. Í umsókn sinni hafi kærandi lagt mikla áherslu á menntun sína í leiklistarfræðum, nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum og doktorsnám í hagfræði menningar, með áherslu á höfundarétt. Hún hafi þó ekki fjallað um hvernig menntunin myndi nýtast við það starf sem sótt hafi verið um út frá verkefnum sem falli undir verksvið dagskrárstjóra. Reynsla kæranda sé fyrst og fremst af framleiðslu og fjármögnun kvikmynda- og sjónvarpsefnis og samningagerð því tengdu en í umsókn séu ekki tilgreind dæmi um einstök verkefni eða hvert umfang þeirra hafi verið. Þá kveður kærði að út frá upplýsingum í umsókn sé erfitt að átta sig á því hvað framleiðsluverkefnin hafi falið í sér og hvernig sú reynsla nýtist við starf dagskrárstjóra sjónvarps. Kærandi hafi ekki gefið skýra mynd af þeim atriðum sem gerð séu að skilyrði í auglýsingu, til dæmis um reynslu af stjórnunarstörfum og reynsla af sambærilegum verkefnum sem falli innan verksviðs dagskrárstjóra sé takmörkuð.
  31. Kærði tekur fram að mannauðsstjóri og útvarpsstjóri hafi hvor um sig farið yfir framkomnar umsóknir. Eftir úrvinnslu upplýsinga um menntun og reynslu hafi þeir verið valdir sem til greina hafi komið í viðtal um starfið. Framkvæmd viðtalanna hafi verið í höndum þriggja manna nefndar sem skipuð var mannauðsstjóra, framkvæmdastjóra þróunar og dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Kærði kveður alla umsækjendur hafa sætt sömu skilyrðum varðandi skil umsókna. Umsókn þess er starfið hlaut hafi borist á síðasta degi umsóknarfrests líkt og 15 aðrar umsóknir og vísar kærði til meðfylgjandi tölvupósts frá 25. október 2012 sem staðfesti það.
  32. Kærði vísar til þess að kvenkyns stjórnendur sem séu leiðandi í dagskrá sjónvarpsins hjá kærða séu framleiðslustjóri innlendrar dagskrárdeildar, innkaupastjóri innlendrar dagskrárdeildar og innkaupastjóri innkaupadeildar. Þá hafi síðasti dagskrárstjóri sjónvarps verið kona og einnig sú sem ráðin hafi verið árið 2010. Kærði kveður starfssvið dagskrárstjóra sjónvarps hafa breyst umtalsvert frá upphafi sjónvarps og taki kröfur til umsækjenda mið af þessu breytta starfssviði. Kærði gerir athugasemd við umfjöllun kæranda um hæfi þess er starfið hlaut, hann telur að kærandi dragi í efa reynslu hans á ákveðnum sviðum og að þekking hans og reynsla skipti litlu þegar komi að starfi dagskrárstjóra sjónvarps. Kærði bendir á að þegar einstaklingur sækir um sem hafi beina reynslu af nátengdu starfi sé bæði rétt og skylt að horfa til þess því líklegt sé að slík reynsla nýtist að fullu.
  33. Kærði gerir athugasemd við það mat kæranda að dagskrársetning sé ekki flókin og telur að slík ummæli beri vitni um takmarkaða vitneskju og skilning á eðli starfsins. Þetta sé einn þeirra þátta sem gagnrýndur hafi verið í rekstri kærða og því lagt upp með að styrkja hann og bæta. Dagskrársetning og skýr dagskrárstefna sé því afar þýðingarmikið verkefni hjá öllum sjónvarpsstöðvum og hafi því borið að líta til þeirrar reynslu þegar hæfi umsækjenda hafi verið metið.
  34. Kærði vísar til þess að kærandi hafi dregið í efa að sá sem starfið hlaut hafi haft yfirumsjón með innkaupum á erlendu efni. Kærði bendir á að þótt forstjóri 365 miðla ehf. og aðrir hafi sótt einstaka erlenda markaði þá hafi þeir ekki komið að ákvarðanatöku um innkaup á erlendu efni á árunum 2007–2012. Það hafi verið í höndum dagskrárstjóra sem hafi haft faglegt eftirlit með bæði innlendri og erlendri dagskrá og borið ábyrgð á að keypt væri efni til sýninga sem félli að áhorfendahópi stöðvarinnar. Þessu til viðbótar hafi komið fram í umsókn þess sem starfið hlaut að innan starfssviðs hans í fyrra starfi hafi verið gerð fjárhags- og rekstraráætlana, daglegur rekstur og starfsmannahald á dagskrárdeild Stöðvar 2. Því til skýringar hafi hann lagt grunninn að og unnið alla áætlanagerð og uppgjör fyrir dagskrá Stöðvar 2 á starfstíma sínum sem dagskrárstjóri, bæði innlenda sem erlenda.
  35. Kærði leggur áherslu á að kærandi telji sig hæfari til að sinna auglýstu starfi og hafi svör og rökstuðningur tekið mið af því. Kærandi virðist gera kröfu um að kærði ráði konu í starf dagskrárstjóra sjónvarps óháð hæfnismati umsækjenda. Við val á umsækjendum hafi hæfni þeirra verið lögð til grundvallar út frá þeim upplýsingum sem fram hafi komið í umsókn, sbr. úrskurð kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2010.

    NIÐURSTAÐA
  36. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  37. Starf dagskrárstjóra sjónvarps hjá kærða var auglýst laust til umsóknar með auglýsingu er birtist fyrst 11. október 2012. Um starfið bárust 29 umsóknir, 12 frá konum og 17 frá körlum. Í auglýsingu var menntunar- og hæfniskröfum til starfsins lýst þannig að háskólamenntun eða sambærileg menntum sem nýtist í starfi væri æskileg og jafnframt að starfsreynsla á þeim sviðum er verkefni dagskrárstjóra tækju til væri æskileg. Þá var krafist reynslu af stjórnunarstörfum og leiðtogahæfileika, skipulags- og samstarfshæfileika og loks sjálfstæðra vinnubragða og frumkvæðis.
  38. Kærandi hafði lokið BA-prófi í leiklistarfræðum frá University of Glasgow, ásamt MA–gráðu annars vegar í leiklistarfræði frá Stockholms Universitet og hins vegar í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum frá Háskólanum á Bifröst. Hún stundar nú doktorsnám við Háskóla Íslands á svið hagfræði menningar. Sá er starfið hlaut hafði lokið BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Kærandi hafði því ótvírætt meiri menntun en sá er starfið hlaut.
  39. Kærði hefur upplýst að við mat á umsækjendum hafi verið lögð til grundvallar reynsla umsækjenda af þeim verkefnum sem lýst hafi verið í auglýsingu en þau eru þessi: Markmiðasetningu, mótun og framkvæmd dagskrárstefnu sjónvarps, umsjón með innkaupum á innlendu og erlendu efni auk samningagerðar, ákvörðunum um innlenda dagskrárgerð og aðkeypta þjónustu, hugmyndavinnu, undirbúningi og umsjón með framleiðslu á innlendu efni, faglegu eftirliti og gæðamati, gerð fjárhags- og rekstraráætlana, daglegum rekstri og starfsmannahaldi.
  40. Í umsókn greindi kærandi frá starfsreynslu sinni og tiltók þar starf hjá Ríkisútvarpinu, forvera kærða, um nokkurra ára skeið, þ.e. starf á árunum 1988–1989 sem markaðsstjóri Rásar 2 og starf á árunum 1991–1995 við innlenda dagskrárgerð, hún hafi svo rekið eigið framleiðslufyrirtæki um tíu ára skeið og starfað við aðra framleiðslu kvikmynda. Hún hafi síðan hafið framhaldsnám og samhliða því tekið að sér ýmis verkefni við handritaskrif og fjármögnun kvikmyndaverka fyrir innlenda aðila, unnið skýrslu um stöðu kvikmyndagerðar á Íslandi fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti og kennt við Kvikmyndaskóla Íslands og Háskóla Íslands.
  41. Sá er starfið hlaut hafði starfað sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 um sex ára skeið, hann hafði áður starfað sem upplýsingafulltrúi 365 miðla ehf. um tveggja ára skeið og sem deildarstjóri dægurmenningardeildar Morgunblaðsins í fimm ár. Sem dagskrárstjóri hafði hann yfirumsjón með dagskrársetningu, yfirumsjón með innkaupum á erlendu efni og meðumsjón með hugmyndavinnu, þróun, innkaupum og framleiðslu á innlendri dagskrárframleiðslu. Hann sá einnig um daglegan rekstur og starfsmannahald á dagskrárdeild Stöðvar 2.
  42. Kærandi hefur verið lengur á vinnumarkaði og hafði því lengri starfsreynslu en sá er ráðinn var. Hún hafði starfað sem aðstoðarmaður við dagskrárgerð hjá forvera kærða og undir lok starfstíma sem dagskrárgerðarmaður. Þá hafði kærandi langa starfsreynslu við framleiðslu kvikmyndaefnis, lengst af í eigin framleiðslufyrirtæki þar sem hún bar ábyrgð á rekstri og framleiðslu.
  43. Hvað varðar reynslu af stjórnunarstörfum og leiðtogahæfileika, skipulags- og samstarfshæfileika, sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði gerðu umsækjendur grein fyrir hæfni sinni að þessu leyti með almennri tilvísun til starfsreynslu sinnar. Verður ekki séð að kærandi hafi að þessu leyti búið að reynslu umfram þann sem starfið hlaut.
  44. Af framangreindu er ljóst að kærandi hafði vissulega aflað sér starfsreynslu hvað varðar nokkra þá þætti er starf dagskrárstjóra fól í sér auk þess sem hún hafði starfað við framleiðslu efnis sem sýnt hefur verið í sjónvarpi. Sá er starfið hlaut hafði hins vegar sex ára reynslu af starfi sem er afar sambærilegt starfi því er hér er til umfjöllunar. Kærunefndin fellst á það með kæranda að ráðningaraðila ber að meta alla þætti þeirrar hæfni sem er áskilin eða talin æskileg. Nefndin telur hins vegar að þegar hæfni umsækjenda í þessu máli er borin saman heildstætt með tilliti til þessara þátta liggi ekki fyrir að lengri menntun kæranda hefði átt að vega upp langa starfsreynslu þess er ráðinn var í sambærilegu starfi. Við þessar aðstæður koma ekki til skoðunar kynjahlutföll í stjórnunarstöðum hjá kærða.
  45. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í stöðu dagskrárstjóra sjónvarps hjá kærða í nóvember 2012.
  46. Kærunefndin tekur fram að með tölvupósti 7. nóvember 2012 óskaði kærandi upplýsinga frá kærða er vörðuðu meðferð umsóknar hennar um starf dagskrárstjóra og vísaði í þeim efnum meðal annars til jafnréttisstefnu kærða. Kærði synjaði beiðni kæranda um umræddar upplýsingar sem hafði í för með sér að þær og rökstuðningur kærða fyrir ráðningunni komu fyrst fram undir rekstri máls þessa. Viðbrögð kærða að þessu leyti samrýmdust ekki ákvæðum laga nr. 10/2008, einkum 18. gr. og 26. gr. Þrátt fyrir annmarka þessa eru ekki efni til að fallast á málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í stöðu dagskrárstjóra sjónvarps í nóvember 2012. Kröfu kæranda um málskostnað úr hendi kærða er hafnað.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta