Mannanafnanefnd, úrskurður 18. júlí 2005
Fundur í mannanafnanefnd haldinn mánudaginn 18. júlí 2005. Í fundarstörfum tóku þátt Aðalheiður Jóhannsdóttir (AJ), Guðrún Kvaran (GK) og Haraldur Bernharðsson (HB).
Eftirfarandi mál var afgreitt:
„Ár 2005, mánudaginn 18. júlí er fundur haldinn í mannanafnanefnd.
Mál nr. 65/2005
Eiginnöfn: Christofer (kk.)
Christopher (kk.)
Daniel (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er kveðið á um að eiginnafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Um almennar ritreglur íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. Um hefð er vísað til vinnulagsreglna mannanafnanefndar sem samþykktar voru á fundi nefndarinnar 1. júlí 2004.
Eiginnafnið Christofer telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki er hefð fyrir þessum rithætti nafnsins því að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ber enginn íslenskur ríkisborgari nafnið þannig ritað. Eiginnafnið Christofer telst því ekki uppfylla tilvitnað ákvæði laga nr. 45/1996. Beiðni um eiginnafnið Christofer er því hafnað.
Eiginnafnið Christopher telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls en hefð er fyrir þessum rithætti því að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands bera 19 íslenskir ríkisborgarar sem eiga eða átt hafa lögheimili á Íslandi nafnið Christopher að fyrsta eða öðru nafni. Eiginnafnið Christopher tekur íslenska eignarfallsendingu (Christophers) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Beiðni um eiginnafnið Christopher er því tekin til greina.
Eiginnafnið Daniel telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls en hefð er fyrir þessum rithætti því að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands ber nú 41 íslenskur ríkisborgari sem á eða átt hefur lögheimili á Íslandi nafnið Daniel að fyrsta eða öðru nafni. Eiginnafnið Daniel tekur íslenska eignarfallsendingu (Daniels) og telst uppfylla ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Beiðni um eiginnafnið Daniel er því tekin til greina.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Christofer er hafnað. Beiðni um eiginnafnið Christopher er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá. Beiðni um eiginnafnið Daniel er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá.“