Mál nr. 539/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 539/2019
Fimmtudaginn 26. mars 2020
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2019, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 11. júlí 2019. Þann 17. september 2019 var kærandi boðaður á hópfund hjá Vinnumálastofnun, sem var haldinn 19. september 2019, og tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti hvorki á boðaðan fund né tilkynnti forföll. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. október 2019, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti þeir sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Engar skýringar bárust frá kæranda og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. október 2019, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði frá og með þeim degi á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun í desember 2019 til að kanna hvers vegna hann hafði ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Í kjölfarið barst læknisvottorð, dags. 10. desember 2019, þar sem staðfest var að kærandi hafi verið veikur 19. september 2019 og ekki getað mætt á fund stofnunarinnar. Mál kæranda var endurupptekið og með bréfi, dags. 18. desember 2019, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar væri staðfest.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. desember 2019. Með bréfi, dags. 30. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. febrúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 15. júlí og vegna mistaka sem hann hafi ekki gert sé hann rangt skráður inn og því ekki fengið borgað fyrr en 4. september. Þetta hafi valdið kæranda miklum vandræðum, sérstaklega þar sem hann hafi verið að taka við leiguhúsnæði. Hinn 19. september hafi kærandi átt að mæta á fund hjá Vinnumálastofnun sem kærandi hafi misst af vegna veikinda. Tæpum þremur mánuðum síðar hafi verið úrskurðað um viðurlög og kærandi misst bótarétt í tvo mánuði, þrátt fyrir að hafa verið veikur. Kærandi hafi skilað vottorði en þá hafi það verið of seint, enda tæpir fjórir mánuðir síðan hann hafi misst af fundinum.
Kærandi vilji taka það fram að hann hafi mjög takmarkað aðgengi að interneti sökum þess að hann hafi ekki verið með fastar tekjur í fleiri mánuði. Kærandi hafi aðeins tvisvar sinnum fengið greiðsluseðil á réttum tíma og í hvorugum mánuðinum sé hann beðinn um að koma á fund sem hann hefði með glöðu geði gert. Nú sjái kærandi fram á að missa íbúðina og komast ekki á námskeið sem hann þurfi helst að taka.
Ef helsti rökstuðningur Vinnumálastofnunar sé sá að kærandi hafi verið of seinn að skila inn veikindavottorði, í ljósi þess að kærandi hafi ekki fengið greitt frá 15. júlí til 4. september, þá finnist kæranda einkennilegt að stofnunin geti verið svona sein á meðan hann þurfi að kljást við afleiðingar þess að vera án bóta í tvo mánuði. Loks þegar kærandi hafi haldið að hann hefði pening til að gera samning við Símann um aukið gagnamagn svo að hann geti séð skilaboð Vinnumálastofnunar. Hann hafi eingöngu tvisvar fengið greiðslur á réttum tíma. Kærandi geti ekki borgað reikninganna sína, farið á námskeið, mætt í vinnu eða rekið sig í gegnum mánuðinn þegar hann geti ekki treyst því að hlutirnir gangi [eðlilega] fyrir sig.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta lúti að 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.
Af gögnum máls megi ráða að ástæða þess að kærandi hafi ekki mætt á fund stofnunarinnar hafi verið vegna veikinda. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði sé staðfest að kærandi hafi verið lasinn þann 19. september 2019 sem sé sami dagur og kærandi hafi átt að mæta á fund hjá Vinnumálastofnun. Vottað sé að kærandi hafi verið veikur þann daginn, þremur mánuðum eftir að sá fundur hafi verið haldinn, en vottorðið sé dagsett 10. desember 2019.
Atvinnuleitendum beri í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda hefði verið unnt að tilkynna um veikindi sín til stofnunarinnar áður en fundur hafi farið fram. Engin tilkynning um forföll eða veikindi hafi borist stofnuninni áður en fundur hafi farið fram. Skýringar eða tilkynningar um forföll sem berist stofnuninni löngu eftir að vinnumarkaðsúrræði sé afstaðið geti augljóslega ekki talist til fullnægjandi tilkynningar í skilningi 14. gr. laganna, enda sé sérstaklega áréttað að atvinnuleitendur skuli án ástæðulausrar tafar láta vita af slíkum breytingum til stofnunarinnar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að ástæður kæranda fyrir höfnun hans á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laganna.
IV. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.
Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009 um breytingu á lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:
„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“
Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal hvort hann hafi heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. b-lið 1.mgr. Þá segir í 4. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar.
Óumdeilt er að kærandi mætti ekki á boðaðan fund Vinnumálastofnunar þann 19. september 2019 um „Atvinnuleit 21. aldar“. Kærandi hefur borið því við að hann hafi verið veikur á umræddum degi og lagt fram læknisvottorð, dags. 10. desember 2019, því til stuðnings. Kærandi upplýsti Vinnumálstofnun ekki án ástæðulausrar tafar um veikindi, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram skýringar sem réttlæta höfnun hans á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu sem honum var gert að sækja.
Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. desember 2019, um að fella niður bótarétt A í tvo mánuði er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson