Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 448/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 448/2019

Þriðjudaginn 28. janúar 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. október 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2019, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 26. ágúst 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. ágúst 2019, var óskað eftir að kærandi skilaði inn vottorðum frá tilgreindum atvinnurekendum, B og C. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2019, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að umsókn hans væri ófullnægjandi þar sem ekki væri ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2019. Með bréfi, dags. 29. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 25. nóvember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. nóvember 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir því að málið verði endurskoðað. Kærandi hafi fengið boð um viss gögn, staðfestingu á vinnu og starfstímabili hjá tilteknum fyrirtækjum sem hafi vantað til þess að atvinnuleysisbætur yrðu samþykktar. Kærandi hafi farið í málið og rétt gögn verið send til Vinnumálastofnunar frá vinnuveitendum. Kærandi hafi einnig verið búinn að vera í sambandi við starfsmann Vinnumálastofnunar á D og átt samtal við hana í sambandi við umsóknir kæranda um vinnu á ýmsum stöðum. Samt sem áður hafi umsókn hans um atvinnuleysisbætur verið hafnað vegna vöntunar á gögnum sem eigi að vera til staðar núna. Kærandi hafi verið búinn að ganga á eftir þessu máli án árangurs.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í f-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 sé tekið fram að eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga sé að atvinnuleitandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skuli atvinnuleitandi leggja fram skriflegt vottorð vinnuveitanda er hann sæki um atvinnuleysisbætur. Að öðrum kosti sé Vinnumálastofnun ekki unnt að staðreyna starfstíma, starfslok eða starfshlutfall umsækjanda á ávinnslutímabilinu. Enn fremur skuli koma fram ástæður þess að umsækjandi hafi hætt störfum hjá vinnuveitanda.

Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 26. ágúst 2019. Samkvæmt vottorði frá C hafi kærandi starfað hjá fyrirtækinu frá apríl 2018 til júní 2019. Hann hafi hætt þar störfum til að sinna rekstri hjá eigin fyrirtæki. Vinnumálastofnun hafi ekki borist vottorð frá því fyrirtæki, B, þrátt fyrir beiðni stofnunarinnar þar um. Það hafi því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda hafi umsókn hans ekki uppfyllt hin almennu skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki framvísað nauðsynlegum gögnum til Vinnumálastofnunar, þrátt fyrir beiðnir þess efnis. Vottorð fyrrverandi vinnuveitenda sé eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið sé til við ákvörðun á rétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í athugasemdum með 16. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að kveðið sé á um skyldu launafólks til að skila inn slíkum vottorðum, enda erfiðeikum bundið að ákvarða rétt fólks innan kerfisins án þeirra upplýsinga er þar komi fram. Kærandi hafi ekki fært fram vottorð frá síðasta vinnuveitanda. Þess í stað hafi kærandi skráð launaseðil frá fyrirtækinu vegna ágúst 2019 þar sem fram komi að hann hafi fengið greiddar 100.000 kr. fyrir vinnu sína hjá fyrirtækinu þann mánuð.

Í ljósi alls ofangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli kærandi ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga fyrr en umrætt vinnuveitendavottorð hafi borist stofnuninni.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að launamaður leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skal vottorðið vera skriflegt á þar til gerðu eyðublaði þar sem meðal annars komi fram starfstími hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. ásamt starfshlutfalli hans. Enn fremur skal tilgreina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað.

Einnig er skilyrði samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Ljóst er af gögnum máls að kærandi hefur ekki skilað inn fullnægjandi vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda. Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt skýru lagaákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 bar Vinnumálastofnun að hafna umsókn kæranda, enda liggur ekki fyrir hvort hann uppfylli almenn skilyrði 1. mgr. 13. gr. um að vera tryggður samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2019, um að hafna umsókn A um atvinnuleysisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta