Hoppa yfir valmynd

Nr. 180/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 180/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030022

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. mars 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda aftur til meðferðar. Að lokum gerir kærandi kröfu í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar um að henni verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla með vísan til 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 31. ágúst 2017 ásamt fjölskyldu sinni. Með ákvörðunum, dags. 20. júní 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda og fjölskyldu hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru staðfestar af kærunefnd útlendingamála hinn 1. nóvember 2018. Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi og fjölskylda hennar hafi farið sjálfviljug til heimaríkis hinn 9. nóvember 2018.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi að nýju hinn 19. október 2020 ásamt eiginmanni sínum, [...]. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. hinn 3. desember 2020, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. febrúar 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 5. mars 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 19. mars 2021 ásamt fylgiskjölum. Þá bárust skýringar frá kæranda hinn 24. mars 2021 og frekari gögn hinn 26. mars og 6. apríl 2021.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna trúarástæðna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og eiginmanns hennar (hér eftir M) kemur fram að við komu þeirra til Bosníu og Hersegóvínu árið 2018 hafi M verið hnepptur í hald landamæralögreglu. Öll skjöl sem hann hafði meðferðis, þ. á m. vegabréf, hafi verið tekin af honum. Hann hafi setið í fangelsi í sex mánuði og sætt bæði líkamlegu- og andlegu ofbeldi. Eftir að M hafi verið sleppt úr haldi hafi M og kærandi tafarlaust flúið yfir landamærin til Serbíu. M hafi leitað til stjórnvalda þar í landi og veitt upplýsingar um starfsemi öfgahópa í Bosníu og Hersegóvínu gegn því að hann fengi serbneskan ríkisborgararétt. Serbnesk yfirvöld hafi ekki getað veitt M vernd gegn þeim hópum sem hann hafi sætt ofsóknum frá og hafi þau jafnvel hvatt hann til að leggja á flótta. Kærandi og M hafi því ákveðið að fara aftur til Íslands.

Í greinargerð kemur fram að ógildingarkrafa kæranda byggi á því að málsmeðferð hafi verið ábótavant hjá Útlendingastofnun og að hinar kærðu ákvarðanir séu haldnar verulegum annmörkum sem leiði til þess að þær beri að fella úr gildi. Rannsókn Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og mat á trúverðugleika kæranda og M hafi ekki verið framkvæmt með forsvaranlegum hætti. Útlendingastofnun hafi metið frásagnir kæranda og M ótrúverðugar í hinum kærðu ákvörðunum, m.a. vegna frásagnar M um að hann hafi öðlast ríkisborgararétt í Serbíu eftir að hafa flúið Bosníu og Hersegóvínu og veitt serbneskum yfirvöldum gögn og upplýsingar. Vísað hafi verið til þess að lög um ríkisborgarétt í Serbíu styðji ekki við frásögn M. Kærandi telur að það sé rangt og vísar í því sambandi til 2. mgr. 23. gr. þeirra laga sem heimili veitingu ríkisborgararéttar til einstaklings sem sé fæddur í ríki sem hafi verið hluti af Júgóslavíu eða hafði ríkisborgararétt þar og dvelur í Serbíu sem flóttamaður. Útlendingastofnun hafi einungis vísað til 6. gr. laganna og yfirsést framangreint ákvæði, en ekki verði annað séð en að það taki til aðstæðna sambærilegum þeim sem M hafi lýst í viðtölum sínum. Í ljósi framangreinds telji kærandi að könnun Útlendingastofnunar á serbneskum lögum hafi verið óforsvaranleg.

Kærandi vísar í greinargerð sína til Útlendingastofnunar hvað varðar umfjöllun um stöðu mála í Bosníu og Hersegóvínu. Kærandi byggir á öllum sömu málsástæðum og gögnum sem þar eru rakin. Þá vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna sem hún telur að varpi ljósi á raunverulegt ástand mannréttindamála, mismununar og hryðjuverkastarfsemi í landinu. Auk þess vísar kærandi til þess að í dómi mannréttindadómstóls Evrópu frá 15. júlí 2014 í máli nr. 3681/06 (Zornic gegn Bosníu og Hersegóvínu) hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá landsins mismuni fólki á grundvelli þjóðarbrota.

Í greinargerð kemur fram að kærandi tilheyri minnihlutahóp í Bosníu og Hersegóvínu þar sem hún sé trúlaus. Kærandi hafi sætt ofsóknum þar í landi, bæði vegna trúarskoðana og vegna tilrauna M til að uppljóstra um ólögmæt athæfi hryðjuverkamanna sem hann hafi komist á snoðir um er hann hafi gegnt embætti [...]. Í embætti sínu hafi M verið áberandi á opinberum vettvangi gegn skaðlegri öfgahyggju og hafi það orðið til þess að öfgahópar hafi beint sjónum sínum að honum og fjölskyldu hans. M hafi leitað til lögreglu og annarra opinberra aðila en ekki fengið neina vernd. Kærandi óttist um öryggi sitt í Bosníu og Hersegóvínu og geti ekki snúið aftur til landsins.

Kærandi byggir á því að hvað sem fyrri málsmeðferð líði þá sé nauðsynlegt að skoða mál hennar og M með heildstæðum hætti í ljósi þeirrar meðferðar sem M hafi hlotið er hann hafi snúið aftur til Bosníu og Hersegóvínu árið 2018. Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar, í ljósi þess að M hafi nú framvísað serbnesku vegabréfi og lýst framangreindri atburðarrás, að aðstæður þeirra hafi ekki breyst frá því að þau lögðu fram fyrri umsókn sína um alþjóðlega vernd.

Með vísan til alls framangreinds telur kærandi einsýnt að málsmeðferð að baki hinni kærðu ákvörðun hafi verið háð verulegum annmörkum og beri því að fella hana úr gildi. Frásagnir kæranda og M í viðtölum hafi verið sambærilegar og hljóti framburður hvors um sig því stuðning hjá hinu. Þá hafi frásagnir þeirra verið sams konar í bæði skiptin sem þau hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, en kærandi telji að rangtúlkun hafi valdið grundvallarmisskilningi við fyrri málsmeðferð.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli þess að hún sé flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Líkt og rakið hafi verið að framan tilheyri kærandi ekki neinu sérstöku þjóðarbroti og sé trúlaus. Fyrir liggi að bosníska þjóðin samanstandi aðallega af þremur þjóðarbrotum og sé trúin það helsta sem sameini hvern hóp fyrir sig. Aðrir hópar samfélagsins nái ekki nema um 2,7 % af íbúafjölda þjóðarinnar og virðist ýmsir minnihlutahópar sæta mikilli mismunun. Kærandi hafi áður lýst þeim ofsóknum sem hún hafi orðið fyrir í heimaríki, annars vegar vegna þess að M hafi beitt sér gegn starfsemi öfgahópa og hins vegar vegna þess að hún sé trúlaus. Þá hafi kærandi greint frá því að M hafi verið fangelsaður við heimkomu árið 2018. Með vísan til framlagðra gagna, frásagnar M af því hvað hafi átt sér stað eftir að hann snéri aftur til Bosníu og Hersegóvínu og heimilda sem vísað er til í greinargerðum kæranda byggir kærandi á því að ótti hennar við ofsóknir í heimaríki sé ástæðuríkur.

Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Raunhæf ástæða sé til að ætla að hún eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki. Þá sé ekki hægt að útiloka að hún muni sæta dauðarefsingu eða pyndingum. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi m.a. til þeirrar meðferðar sem M hafi orðið fyrir síðast þegar hann fór til Bosníu og Hersegóvínu.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi fái ekki nauðsynlega vernd í Bosníu og Hersegóvínu. Þá sé andlegt ástand M mjög slæmt og þurfi hann á vernd að halda af heilbrigðisástæðum. Þá þurfi að hafa í huga að kærandi og M hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi í sameiningu. Kærandi sé ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu en M ríkisborgari Serbíu. Ekki sé víst að þau eigi rétt á því að setjast að í sama landi nú þegar þau séu af sitt hvoru þjóðerninu og sé því ekki unnt að senda þau til sama lands ef til brottvísunar kemur.

 

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað bosnísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé bosnískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Bosnia and Herzegovina (U.S. Department of State, 31. mars 2021);

  • 2019 Report on International Religious Freedom – Bosnia and Herzegovina (U.S. Department of State, 10. júní 2020);
  • Bosnia and Herzegovina 2018 Report (European Commission, 17. apríl 2018);
  • Bosnia and Herzegovina Analytical 2019 Report. Commission opinion on Bosnia and Herzegovina’s application for membership of the European Union. (European Commission, 29. maí 2019);
  • Bosnia and Herzegovina 2020 Report (European Commission, 25. júní 2020);
  • Bosnia and Herzegovina. Nationality Law (National Legislative Bodies, 7. október 1992);
  • Bosnia and Herzegovina: assessing health systems capacity to manage large influx of refugees and migrants (World Health Organization, Regional Office for Europe, 2020);
  • EASO Country of Origin Information Report. Bosnia and Herzegovina (European Union: European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  •  

  • ECRI Report on Bosnia and Herzegovina (European Commission against Racism and Intolerance/Council of Europe, 28. febrúar 2017);

  • Freedom in the World 2020 – Bosnia and Herzegovina (Freedom House, 4. mars 2020);
  •  

  • Healthcare Systems, Patients’ Rights and Patient Organisations’ Involvement in Healthcare Policy and Programme Development: A Situational Analysis of the Western Balkans – 2017 (European Patients Forum, ágúst 2017);
  • Mental Health ATLAS 2017. Member State Profile. Bosnia and Herzegovina (World Health Organization, 2018)

  • Nations in Transit 2020 – Bosnia and Herzegovina (Freedom House, 6. maí 2020);
  • Law on Movement or Stay of Aliens and Asylum (National Legislative Bodies, 2002)
  • World Report 2021 – Bosnia and Herzegovina (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
  • The Involvement of Salafism/Wahhabism in the support and supply of arms to rebel groups around the world (European Parliament, júní 2013);
  •  

  • Tackling Hate crimes. An analysis of bias-motivated incidents in Bosnia and Herzegovina with recommendations (Organization for Security and Co-operation in Europe, 1. desember 2012);
  • The World Factbook – Bosnia and Herzegovina (CIA, síðast uppfært 7. apríl 2021);
  • Vefsíða umboðsmanns í Bosníu og Hersegóvínu (https://www.ombudsmen.gov.ba);
  • Upplýsingar af vefsíðu Interreligious Council in Bosnia-Herzegovina (www.mrv.ba) og
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 21. apríl 2021);

Sambandslýðveldið Bosnía og Hersegóvína er lýðræðisríki með u.þ.b. 3,8 milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum hinn 22. maí 1992. Ári síðar fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 2002 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu sama ár. Bosnía og Hersegóvína sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2016.

Í framangreindri skýrslu Freedom House frá árinu 2021 kemur fram að í kjölfar stríðsátaka sem geisuðu 1992 til 1995 hafi með friðarsamningi (Dayton Peace Agreement) verið ákveðið að landinu skyldi skipt í tvenn ríkjasambönd (e. entities), þ.e. serbneska lýðveldið Sprska og sambandsríkið BiH undir stjórn Bosníumanna og Króata. Stjórn landsins skiptist á milli forsetaráðs og ríkisstjórnar, en forsetaráðið samanstandi af einum Bosníumanni, einum Króata og einum Serba, sem kosnir séu á fjögurra ára fresti.

Í framangreindri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi í heiminum kemur fram að við síðasta manntal sem framkvæmt hafi verið árið 2013 hafi komið í ljós að 51% þjóðarinnar séu súnni-múslímar; 31% tilheyri serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni; 15% séu kaþólikkar og aðrir falli m.a. í hóp gyðinga eða mótmælenda. Trú og þjóðerni séu mjög samofin í Bosníu og Hersegóvínu. Þannig séu Bosníakar flest allir múslímar, Serbar séu í serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni og Króatar séu kaþólikkar. Í stjórnarskrá ríkisins og ríkjasambandanna tveggja er kveðið á um trúfrelsi, bann við mismunun á grundvelli trúar og frelsi fyrir skráð trúfélög til að starfa án takmarkana.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur fram að samkvæmt lögum séu þeir aðilar sem annist löggæslu m.a. rannsóknar- og varnarþjónusta ríkisins (e. State Investigation and Protection Agency (SIPA)), landamæralögreglan, utanríkisþjónustan og samþætt lögreglustofnun (e. the Directorate for Police Bodies Coordination). Þá fari svæðisbundin lögregluembætti og aðrar stofnanir einnig með löggæsluvald. Yfirvöld fari með skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu en óskýr lögsögu- og ábyrgðarmörk hafi verið á milli löggæslustofnana. Spilling og skortur á gagnsæi hjá hinu opinbera hafi verið viðvarandi vandamál í Bosníu og Hersegóvínu en lagarammi um varnir gegn spillingu sé fullnægjandi. 

Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur fram að bosnísk lög leggi bann við geðþóttahandtökum og kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku eða varðhalds fyrir dómi. Yfirvöld hafi fylgst með því að þessi skilyrði séu uppfyllt og hafi lögreglan að jafnaði handtekið einstaklinga á grundvelli viðhlítandi sönnunargagna eða í samræmi við reglur sem mælt sé fyrir um í lögum. Lögin leggi skyldu á yfirvöld til að upplýsa sakborning um efni ákæru strax við handtöku. Samkvæmt lögum geti fangar óskað eftir aðstoð lögfræðings að eigin vali og hafi þeir ekki efni á lögfræðingi beri yfirvöldum að útvega þeim slíkan. Þá kveði lögin á um að lögfræðingur skuli vera viðstaddur yfirheyrslur og réttarhöld. Aðstæður í fangelsum í Bosníu og Hersegóvínu séu mismunandi eftir landssvæðum. Fangelsiskerfi landsins sé ekki í fullu samræmi við evrópska staðla og hafi verið gerðar athugasemdir við aðbúnað í fangelsum, s.s. við heilbrigðisaðstoð og skort á gæsluvarðhaldsrýmum. Yfirvöld hafi lagt til umtalsverða fjármuni undanfarin ár í því skyni að bæta aðstæður í fangelsum og gæsluvarðhaldsrýmum. Ráðist hafi verið í endurbætur og stækkanir á fangelsum og hafi nýtt fangelsi verið opnað hinn 22. júlí 2020. Þá hafi yfirvöld heimilað óháðum eftirlitsaðilum óhindraðan aðgang að fangelsum landsins.

Í framangreindum skýrslum Evrópuráðsins frá 2018 og 2019 kemur fram að bosníska ríkið hafi innleitt áætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi og fjármögnun hryðjuverka. Þá hafi aðgerðaráætlun gegn peningaþvætti verið innleidd sem og samþætt landamærastefna. Ríkið verði þó að bæta enn frekar getu sína til að berjast gegn hryðjuverkum með aukinni samvinnu, miðlun upplýsinga um glæpi, forvörnum gegn öfgahyggju og áætlunum til að draga úr róttækni. Þá kemur fram að samkvæmt opinberum gögnum hafi 181 karlmaður, 61 kona og 81 barn með bosnískan ríkisborgararétt ferðast til Sýrlands og Íraks frá ríkinu á tímabilinu 2012 til 2015. Stjórnvöld hafi náð að stöðva slíkar ferðir frá árinu 2015. Þá hafi tilvist róttækra hópa í landinu verið staðfest, sérstaklega innan Wahhabi samfélagsins. Starfshópur gegn hryðjuverkum hafi verið í Bosníu og Hersegóvínu en þátttöku stjórnvalda hafi verið ábótavant. Í kjölfarið hafi verið stefnt að því að halda reglulega sameiginlega fundi frá ársbyrjun 2018. Geta ríkisins til að berjast gegn hryðjuverkum sé fullnægjandi en saksóknari ríkisins hafi ákært og síðar dæmt 25 einstaklinga sem hafi framið hryðjuverk á erlendri grundu. Refsingarnar hafi þó oft verið vægar og ítrekað grundvallaðar á samkomulagi milli ákæruvalds og sakbornings (e. plea bargain). Heimsókn sérstakrar sendinefndar frá Evrópuráðinu um baráttuna gegn hryðjuverkum og forvörnum gegn ofbeldisfullum öfgamönnum hafi átt sér stað í apríl 2017 og leitt til nokkurra tillaga að frekari aðgerðum. Tillögurnar hafi aðallega lotið að framkvæmd stefnumótunar og samræmingar á sviði forvarna gegn ofbeldisfullum öfgamönnum, viðeigandi refsinga fyrir erlenda hryðjuverkamenn og aðlögun þeirra að samfélaginu, vopnaflutningum, landamæraeftirliti, fjármögnun hryðjuverka og svæðisbundinnar- og alþjóðlegrar samvinnu, sérstaklega við Eurojust og Europol.

Í framangreindri skýrslu European Patients Forum frá 2017 kemur fram að löggjöf og regluverk á sviði heilbrigðismála sé mismunandi eftir því hvort um sé að ræða serbneska lýðveldið Sprska eða sambandsríkið BiH. Undanfarin ár hafi bæði ríkjasambönd ráðist í víðtækar endurbætur á heilbrigðiskerfinu en þörf sé á frekari breytingum. Yfirvöld í Bosníu og Hersegóvínu hafi fullgilt alþjóðasamninga sem tryggja eigi að allir ríkisborgarar landsins hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Nóg sé af heilbrigðisstofnunum á sveitastjórnarstigi og spítölum en sérfræðiaðstoð, sem sé einkum í boði á einkareknum læknastofum, geti verið kostnaðarsöm. Þá hafi skortur á tækjum og hæfum stjórnendum á heilbrigðisstofnunum verið viðvarandi vandamál. Yfirvöld hafi innleitt fjölmargar aðgerðaráætlanir, þ. á m. áætlun um endurbætur á sviði geðheilbrigðismála (e. the Policy and Strategy for the protection and Improvement of Mental Health in the Federation 2012-2020). Þá kemur fram í Mental Health Atlas frá 2017 að ríkisborgurum Bosníu og Hersegóvínu sé, lögum samkvæmt, tryggður endurgjaldslaus aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í máli kæranda liggur fyrir að hún sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt fjölskyldu sinni hinn 31. ágúst 2017 og var þeim umsóknum synjað með ákvörðunum Útlendingastofnunar hinn 20. júní 2018. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvarðanir Útlendingastofnunar með úrskurði nr. 458/2018 hinn 1. nóvember 2018. Við meðferð þess máls báru kærandi og fjölskylda hennar fyrir sig að þau hefðu ástæðuríkan ótta við áframhaldandi ofsóknir af hálfu róttækra íslamista í heimaríki sínu, Bosníu og Hersegóvína, þar sem þau hafi orðið vitni að hryðjuverkastarfsemi á flugvellinum í Sarajevó þar sem þau hafi starfrækt bílaleigu. Í því sambandi hafi fjölskyldan m.a. vísað til þess að þau hafi orðið fyrir andlegu- og líkamlegu ofbeldi af hendi róttækra íslamista og borist ítrekaðar hótanir. Þá kvaðst fjölskyldan hafa orðið fyrir ofsóknum í heimaríki vegna þess að þau séu trúlaus.  

Í úrskurði kærunefndar frá 1. nóvember 2018 kemur fram að það hafi verið mat nefndarinnar að ekki hefði gætt samræmis á milli frásagna kærenda, gagna málsins og þeirra gagna sem nefndin hefði kynnt sér um heimaríki þeirra. Í framlögðum gögnum hafi ekki verið að finna gögn, t.a.m. lögregluskýrslur eða læknisfræðileg gögn, er varða þær árásir eða hótanir sem kærendur kváðust hafa orðið fyrir í heimaríki. Þá hafi kærendur ekki lagt fram gögn um viðbrögð stjórnvalda við kvörtunum þeirra eða nokkuð sem talið var renna stoðum undir frásögn þeirra um að stjórnvöld hefðu ekki brugðist við er þau hafi leitað til þeirra. Þá voru þau gögn sem lögð voru fram ekki verið talin til þess fallin að styðja við staðhæfingar þeirra um að þau hafi orðið vitni að hryðjuverkastarfsemi í heimaríki. Að teknu tilliti til framangreinds lagði kærunefnd ekki til grundvallar frásagnir kæranda. Ekki var þó talin ástæða til að útiloka að kærendur hafi átt í erjum við ótilgreinda aðila sem hafi tengst vinnu þeirra á umræddum flugvelli en það hefði ekki verið sýnt fram á að þau gætu ekki leitað aðstoðar yfirvalda eða lögreglu í heimaríki vegna þess. Þá hefðu þau gögn sem kærunefnd kynnti sér ekki bent til þess að trúleysingar ættu sérstaklega í hættu á að verða fyrir ofsóknum í Bosníu og Hersegóvínu á grundvelli trúarskoðana. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í framburði kæranda eða M eða öðrum gögnum málsins sem raskar framangreindu mati nefndarinnar.

Við meðferð málsins sem hér er til úrlausnar hefur kærandi borið fyrir sig sömu málsástæður og þegar hún sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2017. Auk þess bar kærandi því við í viðtali hjá Útlendingastofnun að M hafi verið handtekinn við heimkomu til Bosníu og Hersegóvínu. Öll skjöl sem hann hafi haft meðferðis, þ. á m. vegabréf, hafi verið tekin af honum og hann setið í fangelsi í sex mánuði. Frásögn kæranda af handtöku M og flótta þeirra frá heimaríki var óljós í viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun og ekki í samræmi við þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu. Þá var hún ekki í fullu samræmi við gögn málsins, þ. á m. skjal frá lögbókanda, þar sem fram kemur að kærandi og M hafi, samkvæmt framburði þeirra, verið búsett í Sarajevó í október 2019. Þá hafi skýringar kæranda á því af hverju hún hafi ekki greint lögreglu frá framangreindri atburðarrás þegar hún lagði inn umsókn sína um vernd hér á landi ekki verið til þess fallnar að styðja við frásögn hennar af þeim atvikum sem hún hefur lagt til grundvallar umsókn sinni. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki leitt að því líkur, t.d. með framlagningu gagna, að aðstæður hennar í heimaríki hafi breyst frá því að upphafleg umsókn hennar um alþjóðlega vernd var til meðferðar hér á landi.

Kærandi hefur einnig borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum í Bosníu og Hersegóvínu þar sem hún tilheyri minnihlutahópi þeirra sem tilheyra ekki sérstöku þjóðarbroti. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér bera með sér að einstaklingar sem tilheyri minnihlutahópum í Bosníu og Hersegóvínu, s.s. þeir sem tilheyri ekki þrem stærstu þjóðarbrotunum, þ.e. þjóðarbrotum Bosníaka, Serba eða Króata, geti orðið fyrir mismunun af þeim sökum. Gögnin gefa hins vegar ekki til kynna að þeir eigi á hættu mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Gögn málsins benda ekki til þess að kærandi hafi sætt ofsóknum eða að hún hafi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu bosnískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda geti ekki eða vilji ekki veita henni vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hún telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera þreytt og undir miklu álagi vegna andlegra vandamála M. Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að kærandi sé heilsuhraust. 

Þá hefur kærandi borið því við að ekki sé unnt að senda hana og M til sama lands. M sé ríkisborgari Serbíu en hún ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu og sé ekki víst að þau eigi rétt á því að setjast að í sama landi. Í úrskurði kærunefndar í máli M, nr. 179/2021, kemur fram er það mat kærunefndar að M hafi ekki leitt að því líkur að hann hafi verið sviptur bosnískum ríkisborgararétti sínum. Er það því mat kærunefndar að kærandi og M geti sameinast í heimaríki þeirra beggja, Bosníu og Hersegóvínu. Þá verður ekki annað ráðið en að kærandi geti sameinast M í heimaríki hans, Serbíu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Leiðbeiningar til kæranda

Vegna tilvísunar kæranda í greinargerð til Útlendingastofnunar til þess að hún uppfylli skilyrði 78. gr. laga um útlendinga, vegna þess að hún eigi [...], er kæranda leiðbeint um að leggja inn slíka umsókn hjá Útlendingastofnun. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði ákvæðisins.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 19. október 2020. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta