Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 241/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. júní 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 241/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16040005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. apríl 2016 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Noregs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 og 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi 29. september 2015. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Noregi. Þann 16. október 2015 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Noregi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 20. október sl. barst svar frá norskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 29. mars 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Noregs. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 5. apríl sl. til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 7. apríl 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 17. maí 2016.

Þann 14. júní sl. kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddur var talsmaður kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Noregs. Lagt var til grundvallar að Noregur virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Noregs ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Varðandi andmæli kæranda um aldur hans þá byggði Útlendingastofnun annars vegar á niðurstöðu aldursgreiningar sem kærandi fór í 10. febrúar 2016 hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands og hins vegar uppgefnum aldri kæranda í Noregi og því var mál hans tekið fyrir eins og um fullorðinn einstakling væri að ræða. Varðandi heilsufarsvandamál kæranda þá byggði Útlendingastofnun á því að norska ríkið veiti hælisleitendum alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þá var sérstaklega tekið fram að Útlendingastofnun myndi tryggja að fyrir væntanlega endursendingu kæranda yrðu norsk yfirvöld upplýst um heilsufar kæranda, sbr. 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi mótmælir endursendingu til Noregs m.a. á grundvelli 4. mgr. 8. gr. Dyflinnar-reglugerðarinnar. Ákvæðið kveði á um skyldu aðildarríkis til að bera ábyrgð á fylgdarlausu, ólögráða barni sem lagt hafi fram umsókn um alþjóðlega vernd, að því tilskyldu að það samræmist hagsmunum barnsins og ef engir aðstandendur, systkini eða skyldmenni séu fyrir hendi. Í greinargerð kæranda kemur fram að óvissa hafi verið um aldur kæranda alveg frá upphafi. Þá er það gagnrýnt að hægt sé að slá því föstu að kærandi sé [...], þar sem að frávik og ónákvæmni aldursgreiningar, er kærandi fór í febrúar sl., séu of mikil. Kærandi bendi á að samkvæmt skýrslum og rannsóknum sé tannrannsókn ein og sér ekki fullnægjandi til aldursgreiningar og skekkjumörkin of mikil til þess að unnt sé að reiða sig á hana eingöngu við mat á aldri einstaklings. Því til stuðnings sé vísað til skýrslu European Asylum Support Office frá árinu 2013 þar sem mælt sé með því að aldursgreining byggi á tannrannsókn til viðbótar við aðrar aðferðir. Í máli kæranda hafi ekkert annað verið aðhafst til að staðreyna aldur hans og því væri réttast að láta kæranda njóta vafans og fara með mál hans sem um barn væri að ræða. Kærandi vísar einnig í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og telur að hann hafi hvorki verið látinn njóta þess vafa sem leikur um aldur hans né að hagsmunir hans hafi verið hafðir að leiðarljósi í málinu.

Kærandi byggir á því að svo sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans að íslenskum stjórnvöldum beri að taka mál hans til efnismeðferðar, skv. 2. mgr. 46. gr. a útlendingalaga. Vísað er til lögskýringargagna laga nr. 115/2010 og til þess að 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum að synja umsækjendum um efnismeðferð hælisumsóknar en ekki skyldu.

Kærandi tekur einnig fram í greinargerð að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Hann sé [...] og hafi gengist undir [...] þann 10. maí sl. Því sé óljóst hvort kærandi sé nægilega hraustur til að ferðast.

Þá kemur fram í gögnum er fylgdu greinargerð að kærandi hafi [...] Vísað sé til úrskurðar innanríkisráðuneytisins í máli nr. IRR12120063 frá 30. maí 2014 þar sem umsókn 18 ára afgansks manns var tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir að samþykki endursendingu til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar lægi fyrir.

Með endursendingu til Noregs taki íslensk stjórnvöld þannig ábyrgð á því að kæranda verði vísað aftur til [...] þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta um að hann muni sæta ofsóknum og verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Slík ákvörðun væri að mati kæranda ólögmæt með vísan í 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar einnig til 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Afmörkun úrlausnarefnis

Fyrir liggur í máli þessu að norsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Noregs. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

2. Lagarammi

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

3. Niðurstaða

Í greinargerð kæranda er byggt á því að taka eigi mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Óvissa hafi ríkt um aldur kæranda frá upphafi og aldursgreining sem fram hafi farið sé ónákvæm og frávik séu of mikil.

Þann 10. febrúar 2016 var kærandi sendur í aldursgreiningu hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að kærandi væri að minnsta kosti [...], með staðalfráviki 1,3 ár. Ekki var talið hægt að útiloka að kærandi væri yngri en 18 ára en það var þó talið mjög ósennilegt.

Kærunefnd útlendingamála telur að við mat á því hvort að kærandi sé barn eða ekki skuli miða við aldur kæranda þann dag sem hann sótti um hæli. Þá er það mat kærunefndar að virða skuli staðalfrávik aldursgreiningar kæranda í hag.

Líkt og fyrr greinir sótti kærandi um hæli hér á landi 29. september 2015. Samkvæmt aldursgreiningu og að teknu tilliti til staðalfráviks verður að ætla að kærandi gæti hafa verið [...] á þeim degi sem matið var gert. Kærandi kom til landsins fimm mánuðum áður og gat hann þá verið svo ungur sem [...] gamall daginn sem hann sótti hér um hæli. Það er því mat kærunefndar að meðhöndla hefði átt mál kæranda líkt og um barn væri að ræða og beita ákvæðum 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, þ.e. kanna hvort að kærandi eigi aðstandendur, systkini eða skyldmenni í öðru aðildarríki, sbr. 1. og 2. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ef svo reynist ekki vera ber að kanna, að teknu tilliti til umfjöllunar um aldur kæranda, hvort 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar eigi við.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli til meðferðar að nýju.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun
að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration
shall reexamine the application of the applicant for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta