Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 362/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 362/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050038

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. maí 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. maí 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 28. febrúar 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 2. mars 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 7. mars sl. bárust svör frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 11. maí 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa þann 17. maí 2016. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 18. maí 2016. Kærandi kærði ákvörðunina þann 19. maí 2016 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 19. júlí 2016. Kærandi var boðaður í viðtal 28. júlí 2016. Hann mætti í viðtalið en ekkert varð úr því vegna veikinda, sem staðfest voru með læknisvottorði [...]. Kærandi kom því í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 30. ágúst 2016 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga auk þess sem hann lagði fram frekari gögn, m.a. ljósmynd og gögn um málsmeðferð kæranda í Svíþjóð. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Áður höfðu verið lögð fram gögn í málinu; [...] Þá bárust frekari gögn frá kæranda 8. og 21. september 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var lagt mat á það hvort kærandi hefði slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga þar sem kærandi á bróður hér á landi. Við matið var stuðst við leiðbeinandi sjónarmið við veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið útgefin af innanríkisráðuneytinu. Fram kom að kærandi væri [...] sem hafi ekki dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis. Fjölskylda kæranda sé öll búsett í [...], að bróður hans frátöldum sem kom til Íslands fyrir [...], og því komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að hvorki væri brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu né 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, með því að synja kæranda um sérstök tengsl. Aðstæður kæranda féllu þar að auki ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi telji að við endursendingu til Svíþjóðar muni kæranda verða vísað aftur til [...], þar sem líf hans sé í mikilli hættu. Hann telji sig hafa engin raunhæf úrræði til þess að fá lokaúrskurð um frávísun til [...] endurskoðaðan þar í landi. Kærandi byggi einnig á því að vegna [...] hans og vegna þess að bróðir hans sé búsettur hér á landi, mæli bæði sérstakar ástæður og tengsl hans við landið með því að umsókn hans verði afgreidd hér á landi.

Þá kemur fram að gríðarlegt álag hafi verið á hæliskerfinu í Svíþjóð undanfarið. [...] hælisleitendum hafi verið synjað um hæli í Svíþjóð í tæplega [...] tilfella árið 2015. Vegna fjölda hælisumsókna í Svíþjóð hafi þarlend stjórnvöld gripið til ýmissa ráðstafana til að gera Svíþjóð minna aðlaðandi fyrir hælisleitendur, m.a. tekið upp tímabundið landamæraeftirlit og tímabundna lagasetningu. Í greinargerð kæranda er vísað í athugasemdir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi þessar ráðstafanir. Fram komi að stofnunin harmi nálgun sumra Evrópuríkja er varðar komu flóttamanna og tilraunir þeirra til að gera lönd sín minna aðlaðandi.

Kærandi vísar í skýrslu Evrópuþingsins frá desember 2015 þar sem fram komi að Evrópuráðið hafi sent Svíþjóð formlega áminningu fyrir að hafa ekki innleitt með fullnægjandi hætti endurskoðaða tilskipun um kröfur varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd nr. 2013/33. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að útlendingahatur hafi gert vart við sig í meira mæli en áður í Svíþjóð, undanfarið hafi til að mynda verið kveikt í húsnæði hælisleitenda víðs vegar um landið.

Kærandi byggir á því að fyrir liggi að kæranda hafi verið synjað um hæli í Svíþjóð. Að sögn kæranda hafi sú ákvörðun verið tekin þrátt fyrir að hann hefði gert þarlendum stjórnvöldum grein fyrir að hann hafi [...]. Talsmaður kæranda hafi þann 19. maí sl. óskað eftir gögnum í máli kæranda hjá sænsku Útlendingastofnuninni. Það hafi verið samþykkt eftir margra vikna samskipti og lagði kærandi þau fram í viðtali hjá kærunefnd þann 30. ágúst sl.

Í greinargerð kæranda er ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar gerð skil. Sérstaka umfjöllun er að finna um 1. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar, ákvæði sem hafa gengið undir nöfnunum fullveldisákvæðið og mannúðarákvæðið. Fram komi í greinargerð að aðildarríki hafi ekki algjörlega frjálsar hendur um val á beitingu þessara ákvæða. Ef ljóst sé að endursending til annars aðildarríkis myndi fela í sér brot á meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement þá sé aðildarríkið skuldbundið til þess að beita fullveldisákvæði 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Þá sé 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga sett fram með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna sem mæli fyrir um bann við að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu, þ.e. non-refoulement. Reglan feli bæði í sér bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans og frelsi kann að vera í hættu og jafnframt endursendingu til þriðja ríkis ef fyrirsjáanlegt sé að það muni senda hann áfram í slíka hættu.

Kærandi byggir á því að hann hafi verið [...] í Svíþjóð. Því til staðfestingar hafi hann lagt fram bréf frá [...] dags. 27. ágúst 2013 Í bréfinu komi fram að margir ættingjar kæranda hafi snúið baki við honum og ættingjar hans í [...] hafi hótað honum vegna [...]. Endursending kæranda til [...] myndi setja hann í óforsvaranlega lífshættu. Í greinargerð kæranda kemur fram að það liggi fyrir að kæranda bíði brottvísun til heimalands síns við komuna til Svíþjóðar. Hann eigi á hættu að vera ákærður fyrir [...] og dæmdur til dauða.

Kærandi byggir einnig á því að hann hafi sérstök tengsl við landið. Fyrir liggi að bróðir kæranda, [...], sem hafi verið búsettur á Íslandi í [...] en honum hafi verið veitt hæli sem flóttamaður hér á landi árið [...]. Í greinargerð gagnrýni kærandi rökstuðning Útlendingastofnunar fyrir því að beita ekki 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Kærandi vísi til þess að fara skuli fram heildarmat á aðstæðum kæranda, m.t.t. fjölskyldusögu og -tengsla. Kærandi hafi greint skýrt frá því að bróðir hans sé sá eini sem hann eigi að í fjölskyldu sinni og að allir aðrir fjölskyldumeðlimir hafi hafnað honum vegna [...]. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til 17. gr. formála Dyflinnarreglugerðarinnar og 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Þar að auki er vísað í ákall Flóttamannastofnunar um fulla beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar og í 3. mgr. 7. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar um forgangsröðun viðmiða reglugerðarinnar þar sem í málsgreininni sé lögð áhersla á sameiningu fjölskyldumeðlima.

Kærandi byggir kröfur sínar jafnframt á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Í fyrsta lagi telji kærandi alfarið hafi skort að sýnt sé fram á að rannsókn hafi farið fram á fyrirséðri endursendingu til [...] með hliðsjón af [...] og þeim afleiðingum sem það muni hafa fyrir hann þar í landi. Í öðru lagi hafi Útlendingastofnun engan reka gert að því að kanna [...] kæranda áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans.

Í greinargerð kæranda kemur fram að [...]. Með greinargerð kæranda fylgdi skýrsla sálfræðings, dags. 8. júlí 2016, en þar kom fram að [...]

Eftir að viðtal við kæranda hjá kærunefnd fór fram lagði kærandi fram vottorð læknis [...] dags. 9. september 2016. Áður hafði kærandi lagt fram gögn um [...]. Þá lögðu bróðir kæranda og kærandi fram yfirlýsingu, dags. 8. september 2016, þess efnis að bróðir kæranda óski eftir því að kærandi fái að dvelja hér á landi og njóta umönnunar sinnar og stuðnings í veikindum hans. Bróðir kæranda lýsti því jafnframt yfir að hann hafi bæði getu og vilja til að veita kæranda stuðning og taka þátt í umönnun hans vegna veikindanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Svíþjóðar.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands eftir því sem tilefni er til. Þá ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Í IV. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar eru ákvæði um einstaklinga sem eru háðir öðrum og um svigrúm ríkja til að taka umsóknir um alþjóðlega vernd til meðferðar þrátt fyrir að annað ríki beri ábyrgð á hælisumsókninni samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar. Nánar tiltekið segir í 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar:

Ef umsækjandi er, sakir meðgöngu, nýfædds barns, alvarlegra veikinda, mikillar fötlunar eða elli, háður aðstoð barns síns, systkinis eða foreldris, sem er með lagalega búsetu í einu aðildarríkjanna, eða ef barn hans, systkini eða foreldri, sem er með lagalega búsetu í einu aðildarríkjanna, er háð aðstoð umsækjanda skulu aðildarríkin að jafnaði halda saman eða sameina umsækjanda og viðkomandi barn, systkini eða foreldri, að því tilskildu að fjölskyldutengsl þeirra hafi þegar verið mynduð í upprunalandinu, að barnið, systkinið, foreldrið eða umsækjandi hafi getu til að annast viðkomandi einstakling og að viðkomandi einstaklingar óski þess skriflega.

Samkvæmt ákvæðinu þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt til að aðildarríki skuli halda saman eða sameina umsækjanda og viðkomandi einstakling sem umsækjandi er háður um aðstoð. Í fyrsta lagi þarf umsækjandi að vera háður aðstoð barns síns, systkinis eða foreldris. Í öðru lagi þarf barnið, systkinið eða foreldrið sem um ræðir að vera með lagalega búsetu í aðildarríkinu. Í þriðja lagi þurfa fjölskyldutengsl þeirra að hafa þegar verið mynduð í upprunalandinu. Í fjórða lagi þarf barnið, systkinið eða foreldrið að hafa getu til að annast umsækjanda og viðkomandi einstaklingar þurfa að óska þess skriflega.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má heldur ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Kærandi ber fyrir sig að vera [...]. Kærandi hefur lagt fram læknisfræðileg gögn er staðfesta það að hann hefur glímt við [...] Í gögnum málsins, þ.m.t. upplýsingum frá læknum, kemur jafnframt fram að kærandi sé algjörlega háður bróður sínum um alla þjónustu. Fyrir liggur að bróðir kæranda er með búsetuleyfi hér á landi. Vegna veikinda kæranda og í ljósi 1. mgr. 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá bróður kæranda um hvort hann hefði getu til að annast kæranda og hvort hann óskaði eftir því. Líkt og áður hefur komið fram skiluðu kærandi og bróðir hans inn sameiginlegri yfirlýsingu þann 8. september 2016 um að bróðir kæranda óski þess að kærandi fái að dvelja á Íslandi og njóta umönnunar hans og stuðnings í veikindum sínum. Þá lýsti bróðir kæranda því jafnframt yfir að hann hafi bæði getu og vilja til að veita kæranda stuðning og taka þátt í umönnun hans.

Í máli þessu liggur fyrir að bróðir kæranda er með búsetuleyfi hér á landi. Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga í efa fjölskyldutengsl bræðranna og að þau hafi myndast í upprunalandinu, en kærandi skilaði m.a. inn ljósmynd af þeim úr æsku.

Kærunefnd telur ljóst að [...]. Um það liggja fyrir ítarleg gögn frá læknum og sálfræðingi. Það er mat kærunefndar að læknisfræðileg gögn málsins og frásögn bróður kæranda staðfesti að kærandi sé verulega háður umönnun bróður síns, [...]. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að skilyrði 1. mgr. 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar séu uppfyllt í máli kæranda, enda á kærandi [...]veikindi að stríða og er verulega háður umönnun bróður.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og hælisumsókn hans liggi fyrir þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð hælisumsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, enda séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar byggist á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun
að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration
shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta