Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 228/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 228/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, hóf störf hjá X í júní 2010 og undirritaði ásamt vinnuveitanda og Vinnumálastofnun samning um reynsluráðningu þann 8. júní 2010. Starf kæranda var hluti af vinnumarkaðsaðgerð, sbr. 4. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Kærandi kveðst ekki hafa áttað sig á því að með því ynni hún sér ekki inn bótarétt og vildi ekki una því og kærði samningsgerðina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. desember 2010. Kærandi gerir kröfu um að samningi hennar um reynsluráðningu hjá X verði rift og að starfstímabil hennar hjá X komi til ávinnslu bótaréttar samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Vinnumálastofnun krefst þess að reynslusamningi við kæranda verði ekki rift og að litið verði á það tímabil sem kærandi starfaði til reynslu í átaksverkefni á vegum stofnunarinnar sem hluta af því tímabili sem greiddar eru atvinnuleysisbætur fyrir.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 7. desember 2009.

Í júnímánuði árið 2010 hóf kærandi störf hjá X og liggur fyrir samningur um reynsluráðningu skv. 4. gr. reglugerðar nr. 12/2009, dags. 8. júní 2010, sem kærandi undirritaði ásamt vinnuveitanda og Vinnumálastofnun. Móðir kæranda sendi fyrirspurn til forstjóra Vinnumálastofnunar um atvik í máli kæranda og í svari sínu, dags. 15. nóvember 2010, segir forstjóri Vinnumálastofnunar að samningar um reynsluráðningu samkvæmt reglugerð nr. 12/2009 teljist ekki til ávinnslutímabils frekar en önnur þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum á vegum stofnunarinnar og bendir á að upplýsingar þess efnis sé að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Forstjóri Vinnumálastofnunar bendir á að ef rétt hafi verið staðið að undirritun samnings um reynsluráðningu kæranda, hafi öllum hlutaðeigandi aðilum verið ljóst frá upphafi hver staða atvinnuleitandans var. Forstjóri Vinnumálastofnunar vísar jafnframt til þess að á heimasíðu stofnunarinnar sé að finna upplýsingar sem gera stöðu atvinnuleitanda sem tekur þátt í vinnumarkaðsúrræðum fyllilega ljósa.

Forstjóri Vinnumálastofnunar bendir á að atvinnuleitandi sem fyrirhugað er að taki þátt í slíkum vinnumarkaðsúrræðum, eigi að fara í viðtal við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun áður en til þátttöku í vinnumarkaðsúrræði komi. Í slíku viðtali séu atvinnuleitanda veittar allar upplýsingar og því sjái stofnunin ekki ástæðu til breytinga eða bakfærslna í máli kæranda.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. desember 2010, segir kærandi að sú ráðstöfun að ráða hana til reynslu með þríhliða samningi kæranda við Vinnumálastofnun og vinnuveitandann, X, hafi komið til eftir að hún hóf störf í þeirri sumarvinnu sem um ræðir. Kærandi segir að ekki hafi verið rætt við hana eða henni veittar upplýsingar um hvað fælist í slíkri ráðstöfun. Kærandi bendir jafnframt á að ekki komi fram í samningi hennar um reynsluráðningu að atvinnuleitandi ávinni sér ekki bótarétt atvinnuleysistrygginga með þátttöku í slíkum vinnumarkaðsúrræðum. Kærandi segist hafa skrifað undir samninginn án þess að vita að hún myndi missa réttindi við það. Kærandi bendir á að ekki hafi verið um nýtt starf að ræða þar sem X hafi á ári hverju ráðið einn til tvo einstaklinga í þessi sömu störf. Kærandi heldur því einnig fram að reynsluráðningarsamningar séu gerðir með framtíðarstörf í huga, en umrætt starf hafi eingöngu verið tímabundið sumarstarf.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til 2. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er stofnuninni veitt heimild til að ráðstafa atvinnuleysisbótum atvinnuleitanda til vinnumarkaðsaðgerða. Skuli tryggt að hann njóti hærri launa en sem nemi atvinnuleysisbótum hans á meðan vinnumarkaðsaðgerð vari. Það sé því skilyrði fyrir þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsúrræði að hann sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Sá tími sem kærandi teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar sé hluti af bótatímabili hans, enda séu atvinnuleysisbætur greiddar á því tímabili er vinnumarkaðsúrræði vari. Eigi það jafnt við um námssamninga, samninga um þróun eigin viðskiptahugmyndar, sérstök átaksverkefni og önnur úrræði á grundvelli reglugerðar nr. 12/2009.

Vinnumálastofnun vísar til 4. gr. reglugerðar nr. 12/2009, en samkvæmt því ákvæði sé stofnuninni heimilt að gera samning við fyrirtæki eða stofnun um að ráða atvinnuleitanda sem skráður sé atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Um þríhliða samning sé að ræða milli Vinnumálastofnunar, atvinnuleitanda og atvinnurekanda og Vinnumálastofnun skuldbindi sig til að greiða þær atvinnuleysisbætur er atvinnuleitandi kunni að eiga rétt á, beint til fyrirtækis eða stofnunar sem ráði starfsmann á grundvelli ákvæðisins.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi undirritað reynsluráðningarsamning, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 12/2009 þann 8. júní 2010. Með undirritun samnings um sérstakt átaksverkefni hafi Vinnumálastofnun skuldbundið sig til að greiða á samningstímanum, því sem hafi numið atvinnuleysistryggingum kæranda til X. Atvinnurekandi hafi greitt kæranda laun fyrir vinnu sína.

Vinnumálastofnun vísar til 30. og 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem segi að atvinnuleitandi geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju, hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði í ákveðinn tíma. Samkvæmt e-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það skilyrði að atvinnuleitandi hafi verið launamaður á ávinnslutímabilinu, í starfi sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerðum, svo starfstími komi til ávinnslu. Þá segi í 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 12/2009 að sá tími sem þátttaka í átaksverkefni standi yfir teljist ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sé því ljóst að sá tími sem þátttaka í vinnumarkaðsúrræði standi yfir, komi ekki til ávinnslu atvinnuleysistrygginga.

Vinnumálastofnun bendir á að stofnunin hafi þegar greitt sem hafi numið atvinnuleysisbótum kæranda á starfstímabilinu til X. X hafi leitað til Vinnumálastofnunar í júní 2010 og hafi reynsluráðningarsamningur sá er um ræðir verið undirritaður þann 8. júní 2010. Vinnumálastofnun hafi enga ástæðu haft til að ætla að kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað fólst í undirritun samningsins. Telji Vinnumálastofnun að almennt megi gera þær kröfur til einstaklinga að þeir kynni sér inntak þeirra samninga er þeir skrifi undir. Í samningi um reynsluráðningu komi meðal annars fram að Vinnumálastofnun skuli greiða sem nemi atvinnuleysistryggingum atvinnuleitanda á starfstímabilinu, til handa vinnuveitanda. Komi skýrt fram að samningur sé gerður á grundvelli 4. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitanda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að ekki sé efni til að rifta samningi um reynsluráðningu og að það tímabil er atvinnuleitandi starfaði á grundvelli þess samnings sé hluti af bótatímabili kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Kærandi ritaði undir ráðningarsamning, dags. 8. júní 2010, þar sem aðrir aðilar samningsins voru X og Vinnumálastofnun. Fram að þessu tímamarki hafði kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar, dags. 18. desember 2009, en bótaréttur hennar nam 56% af fullum atvinnuleysisbótum. Fram kemur í samningnum að hann sé gerður skv. 4. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, og að Vinnumálastofnun veiti styrk vegna hans fyrir tímabilið 7. júní 2010 til 31. ágúst 2010.

Kæra í máli þessu er dagsett 7. desember 2010 en hún barst úrskurðarnefndinni 9. desember sama ár. Kröfur kæranda lúta að ráðningarsamningi sem gerður var í byrjun júní 2010. Gögn málsins gefa til kynna að Vinnumálastofnun hafi farið að lögum og reglum við gerð ráðningarsamningsins og að allar upplýsingar um réttarstöðu kæranda hafi verið henni tiltækar við gerð samningsins. Það sama á við á meðan samningstímanum stóð og eftir að honum lauk. Þrátt fyrir þetta barst kæra kæranda sex mánuðum eftir að ráðningarsamningurinn var gerður.

Þessi dráttur kæranda á að bera málið undir úrskurðarnefndina verður ekki talinn réttlætanlegur með vísan til þess að hún hafi fyrst áttað sig á því í október 2010 að vinna hennar yfir sumarið hafi ekki leitt til hærri bótaréttar. Afstaða þessi byggir á því að efni ráðningarsamningsins er nægjanlega skýrt ásamt því að 2. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þágildandi lokamálsgrein 33. gr. sömu laga sem og 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 12/2009, leiða afdráttarlaust til þess að kærandi gat aldrei vænst þess að vinna hennar frá júní til ágústloka 2010, á grundvelli ráðningarsamningsins frá 8. júní 2010, myndi hækka bótahlutfall hennar. Að sama skapi er ljóst að kærandi átti rétt á að X réði sig í vinnu í tæpa þrjá mánuði eftir ágústlok 2010 en sú skylda haggar því ekki að Vinnumálastofnun hafði engin lögleg úrræði til að tryggja henni aukinn bótarétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins á grundvelli starfa hennar á tímabilinu 7. júní til 31. ágúst 2010.

Eins og málavöxtum er háttað verður talið að kæra þessi hafi borist að liðnum þriggja mánaða kærufresti, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Eins og fram hefur komið verður ekki talið afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta