Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 236/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 236/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að henni bæri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14. október til 8. desember 2009, á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún hafi haft tekjur samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun tók einnig ákvörðun um að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 29. desember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 15. október 2009.

Þann 14. desember 2009 kom kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tjáði stofnuninni að hún væri með öllu óvinnufær frá 9. desember til 31. desember 2009. Kærandi var í kjölfarið tekin af skrám Vinnumálastofnunar, henni bent á að skila læknisvottorði þessu til staðfestingar og minnt á að skrá sig aftur hjá stofnuninni þegar hún væri fær til starfa. Vinnumálastofnun barst læknisvottorð vegna kæranda þann 16. desember 2009.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í febrúarmánuði 2010 komu í ljós tekjur kæranda í nóvembermánuði 2009 frá sjóðum VR, en hún hafði ekki tilkynnt neinar tekjur á því tímabili til Vinnumálastofnunar. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2010, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi gerði grein fyrir tekjum sínum á sama tímabili og hún þáði atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun barst hvorki tekjuáætlun né athugasemdir frá kæranda og með bréfi, dags. 23. febrúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun henni að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar yrðu stöðvaðar.

Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni þann 1. júlí 2010. Þar sem umbeðin gögn höfðu ekki borist Vinnumálastofnun, var kæranda bent á að skila tekjuáætlun og skýringum vegna ótilkynntra tekna í nóvembermánuði árið 2009. Þann 21. júlí 2010 kom kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og skilaði yfirliti yfir tekjur frá VR, dags. 20. júlí 2010. Samkvæmt yfirliti VR hafði kærandi þegið greiðslur úr sjúkrasjóði VR frá 23. september 2009 til 19. júní 2010. Hafði kærandi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar á sama tímabili, eða frá 14. október til 8. desember 2009.

Með bréfi, dags. 1. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda um ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14. október til 8. desember 2009 og að henni bæri að endurgreiða stofnunni þær ofgreiddu atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Einnig tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að fella niður greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. desember 2010, segist kærandi vera afar ósátt við að þurfa að sæta biðtíma eftir atvinnuleysistryggingum. Hún hafi talið að hún hefði skilað öllum gögnum varðandi veikindi sín. Segir kærandi að hún hafi vissulega fengið ofgreitt frá Vinnumálastofnun vegna greiðslna úr sjóðum VR, en stofnunin hefði undir höndum öll gögn og vottorð varðandi þær greiðslur. Kærandi bendir einnig á að hún hafi ekki vísvitandi verið að taka við ofgreiðslum.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. maí 2010, bendir Vinnumálastofnun á að ágreiningur í málinu snúist um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysistryggingum kæranda fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að skv. a-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það skilyrði fyrir því að atvinnuleitandi geti talist tryggður á grundvelli laganna að hann sé vinnufær að hluta eða öllu leyti. Vinnumálastofnun vísar einnig til 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi að hver sá sem njóti sjúkradagpeninga eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, sem komi til vegna óvinnufærni að fullu, teljist ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

Vinnumálastofnun bendir einnig á að í athugasemdum með 15. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 134/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, segi meðal annars að greiðslur sem ætlaðar séu til að bæta óvinnufærni að fullu séu ósamrýmanlegar atvinnuleysistryggingum. Vinnumálastofnun vísar til upplýsinga í vottorði frá VR, dags. 20. júlí 2010, um að kærandi hafi þegið greiðslur sjúkradagpeninga úr sjóðum félagsins á tímabilinu 23. september til 19. júní 2009. Telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga, enda hafi hún á því tímabili ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um skyldu atvinnuleitanda til að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma, eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt sömu lögum. Einnig sé mælt sé fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Vinnumálastofnun bendir á að stofnuninni hafi fyrst borist tilkynning um tekjur kæranda í júnímánuði 2010, en stofnunin hafi óskað eftir upplýsingum um óútskýrðar tekjur kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2010. Telji Vinnumálastofnun að ekki verði séð að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um umræddar tekjur og að kærandi hafi fyrst orðið við beiðni Vinnumálastofnunar er hún hafi að nýju sótt um atvinnuleysisbætur í júní 2010. Telji Vinnumálastofnun að hvort sem farist hafi fyrir hjá kæranda að veita stofnuninni umræddar og umbeðnar upplýsingar eða hafi vísvitandi látið hjá líða að veita þær upplýsingar, telji stofnunin að fella megi atvik í máli kæranda undir 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið sé á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða samkvæmt þeim lögum. Segi þar að sá sem láti hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla sömu laga, fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14. október til 8. desember 2009 og að hún skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar var tilkynnt henni.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Kærandi þáði dagpeninga úr sjúkrasjóði VR á tímabilinu 14. október til 8. desember 2009 á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Hún sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænum hætti 1. júlí 2010 og ritaði undir umsóknina 7. júlí sama ár. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 1. október 2010. Í henni fólst annars vegar að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur og hins vegar að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði frá og með 1. október 2010 að telja. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur Vinnumálastofnun réttlætt hina kærðu ákvörðun með vísan til reglna sem í gildi voru haustið 2010 en ekki við réttarheimildir sem í gildi voru á tímabilinu 14. október til 8. desember 2009. Telja verður þetta aðfinnsluvert, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 23. nóvember 2010 í máli nr. 72/2010.

Á tímabilinu 14. október til 8. desember 2009 var 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 68. gr. laga nr. 112/2008, svohljóðandi:

Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

Ákvæði þetta kvað ekki á um að greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga fæli í sér brottfall réttar í atvinnuleysistryggingakerfinu heldur aðeins sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Þegar af þessum ástæðum getur endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar ekki verið reist á þessum lagagrundvelli.

Upplýsingar um eðli og umfang veikinda kæranda á tímabilinu 14. október til 8. desember 2009 eru af skornum skammti. Nauðsynlegt er að rannsaka þetta nánar þar sem ef kærandi hafi óvinnufær með öllu frá og með 14. október 2009 þá voru engar forsendur fyrir hendi í öndverðu að veita henni atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun kannaði ekki þessa þætti málsins áður en sú ákvörðun var tekin að krefja kæranda um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta. Almennt er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvörðun hins lægra setta stjórnvalds en ekki rannsaka álitaefni af þessu tagi með ítarlegum hætti. Í ljósi þessa verður að ómerkja þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta og vísa þessum þætti málsins til stofnunarinnar til löglegrar meðferðar.

Síðari þáttur hinnar kærðu ákvörðunar laut að því að kæranda bæri að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta, frá og með 1. október 2010 að telja. Á tímabilinu 14. október til 9. desember 2009 var 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar svohljóðandi:

 „Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn eða lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar svo að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem hafa orðið á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti á tímabili skv. 29. gr.“

Það þykir nægjanlega í ljós leitt í málinu að kærandi hafði fengið vilyrði um greiðslu sjúkradagpeninga hjá sjúkrasjóði VR áður en hún sótti um endurkomu á atvinnuleysisskrá 14. október 2009. Ráða má af samskiptasögu Vinnumálastofnunar og kæranda að hún hafi að þessu tilefni hvorki getið veikinda sinna né að hún ætti von á greiðslum úr sjúkrasjóði VR. Því verður talið að hún hafi veitt Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn og því hafi borið að láta hana sæta biðtíma í 40 daga, eins og kveðið er á um í þessum úrskurði.

 

Úrskurðarorð

Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar í máli A, að hún skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14. október til 8. desember 2009, er ómerktur og vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar. Réttur kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta fellur niður í 40 daga frá og með 1. október 2010 að telja.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta