Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 227/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 227/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 18. ágúst 2010 fjallað um fjarveru kæranda í boðað viðtal á vegum Vinnumálastofnunar þann 2. júní 2010. Vegna fjarveru kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðun stofnunarinnar var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 9. desember 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 12. mars 2009.

Þann 2. júní 2010 gerði Vinnumálastofnun tilraun til þess að boða kæranda í viðtal hjá Mími símenntun. Var hringt í skráðan heimasíma sem og skráðan farsíma kæranda og einnig var tölvupóstur sendur á netfang kæranda sem skráð var í tölvukerfi Vinnumálastofnunar. Heimasími kæranda reyndist ótengdur, ekki tókst að ná í kæranda í farsíma hennar og tölvupóstur kom endursendur. Þar sem ekki náðist í kæranda var máli hennar hjá Vinnumálastofnun vísað til Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, enda óvíst hvort kærandi gæti talist virk í atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Með bréfi, dags. 12. júlí 2010, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum athugasemdum frá kæranda á ástæðum þess að ekki hafi verið hægt að ná sambandi við hana til þess að boða hana í viðtal hjá Mími símenntun þann 2. júní 2010. Kæranda var veittur frestur í sjö virka daga til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi færði fram skýringar í bréfi, dags. 4. ágúst 2010, þar sem hún gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum. Segir kærandi að hún hafi skipt um símanúmer á þessu tímabili og vegna tímabundinna flutninga hafi heimasími hennar verið ótengdur ásamt því að nettenging hennar hafi verið óvirk.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda þá ákvörðun stofnunarinnar að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var sú ákvörðun meðal annars tekin í ljósi þess að andmæli frá kæranda bárust fyrst er tvær vikur voru liðnar frá þeim degi er frestur til andmæla var liðinn.

Í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2010, segir kærandi að Vinnumálastofnun hafi ekki náð sambandi við sig vegna þess að farsími hennar hafi verið bæði týndur og lokaður og eins hafi verið lokað fyrir netfang hennar. Kærandi segir að fyrirtæki eiginmanns hennar hafi farið í þrot og við það hafi fyrrnefnd lokun á símanúmerum hennar og netfangi átt sér stað. Kærandi segir að hún hafi gleymt að tilkynna Vinnumálastofnun um þessar breytingar, vegna erfiðra heimilisaðstæðna sem kærandi hafi verið að glíma við á þessum tíma. Kærandi segir í skýringarbréfi sínu að hún sé virk í atvinnuleit og myndi taka hverju því starfi sem henni yrði boðið. Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags 9. desember 2010, segir kærandi að hún hafi ávallt sinnt skráningum og boðunum Vinnumálastofnunar. Þann
2. júní 2010 er boða átti hana í viðtal á vegum Vinnumálastofnunar hafi hún glímt við persónulega erfiðleika. Kærandi segir að hún hafi meðal annars átt í miklum samskiptum við sóknarprest vegna þessara erfiðleika og bendir kærandi á að hún hafi í ágústmánuði árið 2010 skilað bréfi og vottorði til Vinnumálastofnunar frá viðkomandi presti sem staðfesti það. Kærandi segist hafa sent kæru í tölvupósti til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. október 2010 en hún hafi fengið þau skilaboð hjá Vinnumálastofnun að sú kæra hafi ekki skilað sér. Kærandi bendir jafnframt á í kæru sinni að hún hafi nú lokið tölvunámskeiði á vegum Vinnumálastofnunar og hún sé komin með nýtt símanúmer og netfang. Kærandi bendir einnig á að hún hafi átt í persónulegum erfiðleikum ásamt fjárhagsörðugleikum og hafi því átt erfitt með að fjárfesta í síma og tölvu.

Kærandi sendi Vinnumálastofnun bréf, dags. 20. desember 2010, þar sem hún segir að Vinnumálastofnun hafi ekki verið að gera tilraunir til þess að ná sambandi við hana vegna starfs þann 2. júní 2010, heldur vegna viðtals hjá Mími símenntun. Kæranda finnist því tveggja mánaða biðtími eftir atvinnuleysisbótum vera mjög íþyngjandi ákvörðun með tilliti til aðstæðna.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. maí 2011, áréttar Vinnumálastofnun að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsúrræða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun vísar enn fremur til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að hver sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur, ella kunni það að hafa áhrif á rétt hans.

Vinnumálastofnun vísar til skýringarbréfs kæranda, dags. 4. ágúst 2010, sem hafi borist stofnuninni tveimur vikum eftir að frestur til að koma að andmælum hafi runnið út. Þar segi kærandi að hún hafi flust búferlum og hafi láðst að tilkynna um breytt símanúmer til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun bendir á að skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sá í virkri atvinnuleit sem sé reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Vinnumálastofnun bendir einnig á að atvinnuleitanda beri að tilkynna Vinnumálastofnun, án ástæðulauss dráttar, um hverjar þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun telur það grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum, að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem séu send atvinnuleitanda með viðurkenndum hætti og tilkynni stofnuninni um breytingar á símanúmeri eða netfangi. Vinnumálastofnun vísar til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 75/2010 og segir það eindregna afstöðu stofnunarinnar að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verði á högum atvinnuleitanda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna starfsviðtölum.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi verið boðuð til fundar hjá Mími símenntun. Gerð hafi verið tilraun til að hringja í farsíma og heimasíma kæranda og tölvupóstur sendur á uppgefið netfang hennar. Telji Vinnumálastofnun að í ljósi þess hve rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og mætingar á boðaða fundi stofnunarinnar, geti hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar, dags. 4. ágúst 2010, né í kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. desember 2010, réttlætt fjarveru kæranda á umræddum fundi. Með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr., 3. mgr. 9. gr. sem og h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar var því að með vísan til ofangreindra sjónarmiða skuli kærandi sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011.

Þann 23. maí 2011 barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bréf frá kæranda þar sem hún lætur fylgja endurrit úr hjónaskilnaðarbók B-sýslumannsembættisins, dags. 13. september 2010, sem staðfestingu á þeim erfiðu fjölskyldu- og heimilisaðstæðum sem kærandi var að glíma við á umræddu tímabili. Kærandi vísar einnig til staðfestingar frá sóknarpresti um viðtöl við hann vegna hjónaskilnaðar og fjölskylduaðstæðna sem hún lagði fram hjá Vinnumálastofnun í ágústmánuði 2010.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og þeir sem tryggðir eru samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitanda. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Í 3. mgr. 13. gr. er kveðið á um heimild til handa Vinnumálastofnun til þess að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með sannanlegum hætti og skal atvinnuleitandi vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Í h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti.

Í máli þessu liggur fyrir að Vinnumálastofnun gerði tilraunir til að boða kæranda í viðtal á vegum stofnunarinnar. Heimasími kæranda reyndist ótengdur, ekki tókst að ná í kæranda í farsíma hennar og tölvupóstur kom endursendur. Verður að telja að Vinnumálastofnun hafi því uppfyllt skilyrði 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistrygginga um boðun með sannanlegum hætti. Vinnumálastofnun gaf kæranda tækifæri til þess að veita skýringar á fjarveru sinni, en svarbréf kæranda barst stofnuninni tveimur vikum eftir að frestur til andmæla rann út. Þann 9. desember 2010 barst úrskurðarnefndinni erindi frá kæranda, en kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var þá liðinn, enda er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar tekin þann 20. ágúst 2010. Kærandi hefur hins vegar fært fram þau rök að hún hafi sent kæru til úrskurðarnefndarinnar í tölvupósti þann 3. október 2010 sem ekki hafi skilað sér. Hún hafi í kjölfar þess sent Greiðslustofu Vinnumálastofnunar kærunar og er hún stimpluð 3. desember 2010.

Fallist verður á þau rök Vinnumálastofnunar að grundvallarskilyrði þess að stofnuninni sé gert kleift að aðstoða atvinnuleitendur, sé að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum sem honum eru sendar með sannanlegum hætti. Atvinnuleitanda ber einnig að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum eins og heimilisfangi, netfangi og símanúmeri, svo stofnuninni sé unnt að boða atvinnuleitanda í viðtöl eða önnur úrræði.

Skýringar kæranda á fjarveru sinni í boðað viðtal á vegum Vinnumálastofnunar eru ekki taldar réttlæta fjarveru hennar í viðtalinu. Með fjarveru sinni brást kærandi skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og slíkt leiðir til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. ágúst 2010 í máli A

um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta