Hoppa yfir valmynd

Nr. 28/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 28/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17110029

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. nóvember 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. nóvember 2017, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda en lítur svo á að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að honum hafi verið veitt dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 2. janúar 2013 og að hann hafi fengið endurnýjun á því leyfi í þrjú skipti, síðast með gildistíma til 30. júní 2017. Þann 1. júní 2017 hafi kærandi lagt fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. nóvember 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi móttók ákvörðun Útlendingastofnunar þann 9. nóvember og kærði hana til kærunefndar þann 13. nóvember sl. Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að umsækjandi hafi sýnt að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt framfærslustuðli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi lágmarksframfærsla fyrir tveggja manna fjölskyldu verið 245.453 kr. á því tímabili sem um ræðir. Kærandi hafi lagt fram staðfest afrit af skattframtölum síðustu fjögurra ára en samkvæmt skattframtali hans árið 2017 hafi tekjur hans árið 2016 ekki uppfyllt skilyrði um lágmarksframfærslu. Þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. að útlendingur sýni fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram í ákvæðinu að greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljist ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá skilyrði um framfærslu ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun vísaði Útlendingastofnun til lágmarksframfærslu fyrir tveggja manna fjölskyldu samkvæmt framfærslustuðli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem hafi verið 245.453 kr. fyrir það tímabil sem um ræðir. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er þó hvorki útskýrt frekar um hvaða tímabil ræðir né á hvaða grundvelli stofnunin ákvað leggja mat á framfærslu kæranda með vísan til viðmiðs fyrir tveggja manna fjölskyldu.

Í umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi, sem barst Útlendingastofnun þann 1. júní 2017, kom fram að kærandi væri ógiftur. Þá verður hvorki ráðið af öðrum gögnum málsins né hinni kærðu ákvörðun að ástæða hafi verið til að miða framfærslu kæranda við lágmarksframfærslu fyrir tveggja manna fjölskyldu. Gögn málsins bera því ekki með sér að kærandi hafi annan einstaklings á sínu framfæri. Hefur kærunefnd því ekki forsendur til annars en að leggja mat á framfærslu kæranda með hliðsjón af viðmiðum um lágmarksframfærslu einstaklings.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Útlendingastofnunar styðst stofnunin við lágmarksframfærslustuðul velferðarsviðs Reykjavíkurborgar frá 18. desember 2015 við mat á því hvort umsækjandi um dvalarleyfi uppfylli lagaskilyrði um framfærslu. Samkvæmt stuðlinum er lágmarksframfærsla fyrir einstakling 180.550 kr. á mánuði fyrir skatt, eða 2.166.600 kr. á ári. Skattframtal kæranda árið 2017 ber með sér að tekjur hans árið 2016 hafi numið [...]. Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. um að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans hér á landi.

Eins og áður greinir er í undantekningartilvikum heimilt að víkja frá skilyrði um framfærslu hafi hún verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því, sbr. a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Gögn málsins bera ekki með sér að kæranda hafi verið upplýstur um umrædda undantekningu eða verið leiðbeint um að leggja fram gögn sem varpað gætu ljósi á hvort ríkar sanngirnisástæður væru fyrir hendi í máli hans. Var meðferð málsins hjá Útlendingastofnun því ekki í samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ljósi þeirra annmarka sem voru á ákvörðun og málsmeðferð Útlendingastofnunar vegna umsóknar kæranda telur kærunefnd rétt að málið verði tekið til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The directorate is instructed to reexamine the appellant‘s case.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                   Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta