Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/1998

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 1/1998:

A
gegn
Ísafjarðarbæ

-------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 15. júní 1998 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 8. febrúar 1998 óskaði A, viðskiptafræðingur og aðalbókari hjá Ísafjarðarbæ eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu bæjarritara Ísafjarðarbæjar í desember 1997 bryti gegn ákvæðum l. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislög).

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um:
1. Hvar og hvenær starf bæjarritara hefði verið auglýst laust til umsóknar.
2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
3. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var ásamt afriti af umsókn hans.
4. Hvað ráðið hefði vali milli umsækjenda.
5. Skipurit þar sem fram kæmu æðstu stöður hjá bænum eða staðfesting á að framkomið skipurit væri gildandi hjá bænum.
6. Yfirlit yfir æðstu embætti bæjarins.
7. Hvort kona eða karl gegndu þeim embættum.
8. Afstöðu bæjarins til erindis kæranda.
9. Annað það sem bærinn vildi koma á framfæri og teldi til upplýsingar fyrir málið.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra dags. 8. febrúar 1998 ásamt fylgigögnum
2. Svarbréf Ísafjarðarbæjar dags. 3. apríl 1998 ásamt fylgigögnum.
3. Svarbréf kæranda dags. 19. apríl 1998 ásamt fylgigögnum.
4. Bréf kæranda dags. 22. maí 1998 ásamt fylgigögnum.
5. Bréf Ísafjarðarbæjar dags. 28. maí 1998 ásamt fylgigögnum.

Kærandi málsins kom á fund kærunefndar 18. maí 1998 og þann sama dag átti nefndin símafund með Kristni J. Jónssyni, bæjarstjóra.

Starf bæjarritara Ísafjarðarbæjar var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 21. des. 1997, Vestra 18. des. 1997 og Bæjarins besta 19. des. 1997. Í auglýsingunni sagði m.a.: "Bæjarritari er staðgengill bæjarstjóra og annast stjórn bæjarskrifstofa. Umsækjendur skulu hafa reynslu af stjórnunarstörfum. Vakin er athygli á 5. grein jafnréttislaga um jafna stöðu kynjanna."

Þrír umsækjendur voru um starfið, tveir karlmenn og ein kona og var annar karlanna, B, ráðinn.

Kærandi málsins, A, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1985 og viðskiptafræðiprófi frá Handelshøjskole Syd- og Sønderjylland, Sønderborg, 1990. Auk þess hefur hún lokið 9 einingum á reikningshalds- og endurskoðunarsviði við viðskipta- og hagfræðifræðideild Háskóla Íslands. Með leyfisbréfi frá menntamálaráðherra árið 1990 fékk hún leyfi til að kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing. Fyrir háskólapróf starfaði hún við fiskvinnslu, skrifstofustörf og kennslu barna og unglinga. Að loknu háskólanámi starfaði hún eitt ár sem sérfræðingur á skattstofu Reykjavíkur, tvö ár hjá Íslandsbanka hf. og þrjú ár hjá Fjórðungssjúkrahúsinu og Heilsugæslustöðinni á Ísafirði þar sem hún var m.a. fulltrúi framkvæmdastjóra. Þá var hún stundakennari við Framhaldsskóla Vestfjarða. Frá 1996 hefur hún starfað sem aðalbókari Ísafjarðarbæjar.

B lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands 1967. Hann starfaði við Landsbanka Íslands á Ísafirði 1967-1976, hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. 1977-1989 og hjá Hrönn hf. frá 1989 þar til í apríl 1997 þar af sem framkvæmdastjóri síðustu árin. Hjá þessum fyrirtækjum vann hann almenn skrifstofustörf og hafði m.a. umsjón umsjón með bókhaldi og fjármálum. Hann hóf störf við bókhald hjá Ísafjarðarbæ 1997.

Í bréfi kæranda segir að í auglýsingu um starfið hafi verið tekið fram að formaður bæjarráðs veitti upplýsingar um starfið og hafi hún leitað til hans áður en hún lagði inn umsókn sína. Hann hafi afhent henni starfslýsingu bæjarritara. fiar hafi komið fram að helstu verkefni væru:
1. Færsla og frágangur bókhalds fyrir bæjarsjóð og stofnanir hans ásamt ábyrgð á sjóðsuppgjöri og afstemmingu bókhaldsins.
2. Gerð fjárhagsáætlunar fyrir skrifstofu bæjarins og ábyrgð með bæjarstjóra á samræmingu fjárhagsáætlana bæjarfélagsins og stofnana.
3. Umsjón með starfsmannamálum bæjarsjóðs og stofnana hans ásamt umsjón og eftirliti með launaútreikningi og greiðslum.
4. Umsjón með og skipulagning á þeirri skrifstofuþjónustu sem veitt er.
5. Staðgengill bæjarstjóra.
6. Önnur verkefni ákveðin af bæjarstjóra.

Í máli kæranda segir ennfremur að forseti bæjarstjórnar hafi tekið umsækjendur í viðtal og þá lagt fram skipurit en tekið fram að það væri í endurskoðun. Skipurit þetta hafi verið samþykkt í bæjarráði og staðfest af bæjarstjórn 1996. Samkvæmt því sé bæjarritari yfirmaður stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Kærandi telur sig hæfari til að gegna starfinu en þann sem ráðinn var. Hún hafi mun meiri menntun en hann og menntun hennar falli vel að starfinu. Í starfi sínu sem aðalbókari Ísafjarðarbæjar hafi hún öðlast mikla reynslu og þekkingu á innviðum skrifstofu Ísafjarðarbæjar og hafi því yfirburðastöðu umfram karlinn, sem hafi síðustu þrjá mánuði áður en hann var ráðinn sem bæjarritari starfað sem lausamaður í bókhaldi Ísafjarðarbæjar undir leiðsögn hennar. Þá kveður hún hann litla sem enga tölvukunnáttu hafa en slík kunnátta sé nauðsynleg til að sinna starfi bæjarritara. Hvað varði stjórnunarreynslu hans þá hafi hann þau tvö ár sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Hrannar hf. haft einn undirmann. Undirmenn hennar sem aðalbókara hafi verið tveir starfsmenn í 50% starfi hvor.

Í svarbréfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar dags. 3. apríl 1998 segir m.a. að þar sem ekki hafi verið krafist neinnar sérstakrar menntunar til starfans þá telji stjórnendur bæjarins menntun umsækjenda vera aukaatriði. Fyrst og fremst hafi verið litið til víðtækrar stjórnunarreynslu B og samskiptahæfni. Hann hafi síðustu ár sín hjá Hrönn hf. verið framkvæmdastjóri og setið fyrir það fyrirtæki í stjórn Íshúsfélags Ísfirðinga hf., þar af um tíma sem stjórnarformaður. Hann hafi haft yfirburðastöðu hvað varðar starfsreynslu, eigi mjög gott með að umgangast fólk, sé yfirvegaður og hafi prúðmannlega framkomu, sem hafi verið talið nauðsynlegt. Þá sé því alfarið vísað á bug að kynferði hafi ráðið við val milli umsækjenda. Leitað hafi verið umsagna um umsækjendur, m.a. með tilliti til samskiptahæfni. Á grundvelli þeirra umsagna og víðtækrar reynslu af stjórnunarstörfum hafi B orðið fyrir valinu.

Í samantekt um B, sem fylgir svari bæjarstjóra, segir að samkvæmt umsögn yfirmanns sé B nákvæmur og góður bókari og fyrrum yfirmaður hans kveðst treysta honum mjög vel sem bæjarritara. Í umsögn fyrrum samstarfsmanns segir að hann sé "Akkúrat maður. Gott að vinna með honum. Ekki mikill tölvumaður, en vanur bréfaskriftum."

Loks segir í svari bæjarstjóra að kærandi hafi ekki haft yfirsýn yfir hvað hafi helst bjátað á í bókhaldsstjórnun, færsla bókhalds hafi verið komin töluvert á eftir á síðastliðnu ári, þannig að orðið hafi að ráða lausamann til að ljúka ársuppgjöri á réttum tíma. Ennfremur hafi verið erfitt að fá upplýsingar úr bókhaldi.

Á símafundi með bæjarstjóra fullyrti hann að kærandi hafi ekki viljað vinna yfirvinnu þótt þörf hafi verið á. Í bréfi bæjarstjóra dags. 28. maí segir að samkvæmt útskrift úr stimpilklukku frá síðastliðnu ári hafi kærandi unnið 78,25 klst. í yfirvinnu en hafi engu að síður fengið greitt fyrir 480 klst. yfirvinnu. Í svari bæjarstjóra við spurningum um kynjahlutföll í æðstu stöðum Ísafjarðarbæjar kom fram að bæjarstjóri sé karl og yfirmenn annarra sviða en stjórnsýslusviðs, þ.e. fjármálastjóri, félagsmálastjóri, skóla- og menningarfulltrúi, bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri séu karlar.

Í bréfi kæranda dags. 22. maí 1998 er staðfest að bókhald Ísafjarðarbæjar hafi verið orðið á eftir að loknum sumarleyfum starfsmanna bókhaldsdeildar árið 1997. Fyrir sameiningu sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum 1996 hafi stöðugildi í bókhaldsdeildum eldri sveitarfélaganna verið samtals þrjú og hálft. Allt bókhald hafi við sameininguna verið flutt á skrifstofu Ísafjarðarbæjar og því sinni nú starfsmenn í tveimur stöðugildum. Veruleg aukning hafi því orðið á vinnu við bókhald. Þá segir ennfremur að hún hafi farið í sumarleyfi 1997 og enginn leyst hana af og því sé eðlilegt að verkefni hafi safnast upp og nokkurn tíma tekið að vinna úr þeim. Bókhaldsdeildin hafi ítrekað bent stjórnendum bæjarins á þetta vandamál og vandkvæði á að nýta slíkt bókhald sem stjórntæki.

Kærandi mótmælir því að erfitt hafi verið að fá upplýsingar frá bókhaldsdeild. Allir sviðsstjórar og forstöðumenn deilda og stofnana bæjarins fái stöðulista og hreyfingalista frá bókhaldsdeild þann 25. hvers mánaðar. Því eigi þeir að vita nákvæmlega hver sé staða þeirra málaflokka og deilda sem undir þá heyri og þeir beri ábyrgð á. Auk þess hafi aðalbókari að beiðni bæjarstjóra útbúið stöðulista mánaðarlega fyrir bæjarráð. Þá hafi bæjarstjóri beinan aðgang að tölvubókhaldi bæjarins.

Kærandi leggur áherslu á að fastir yfirvinnutímar sem hún hafi fengið greidda séu hluti af föstum launum hennar. Eftir að hún hóf störf hafi komið í ljós að starfið var bundið starfsmati og því hefðu alla tíð fylgt fjörutíu fastir yfirvinnutímar óháð yfirvinnu. Hún hafi ítrekað gert tilraun til að fá skriflegan ráðningarsamning en án árangurs. Kærandi ítrekar að hún sé tilbúin að vinna meiri yfirvinnu sé þess óskað, gegn greiðslu. Núverandi bæjarstjóri hafi hins vegar aldrei beðið hana um það. Í bréfi hennar frá 8. febrúar kemur fram að hún hafi unnið mikla yfirvinnu á árinu 1996 vegna sameiningar sveitarfélaganna.

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna og skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum og taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem í minnihluta er í viðkomandi starfsgrein. Er þessi forgangsregla grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Engar menntunarkröfur voru gerðar í auglýsingu um starfið og af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur því verið haldið fram að af þeim sökum sé menntun aukaatriði. Þegar litið er til starfslýsingar í auglýsingu og þeirra starfslýsinga, sem umsækjendum voru kynntar, telur kærunefnd engu að síður óhjákvæmilegt að menntun hafi þýðingu við samanburð á umsækjendum. A er viðskiptafræðingur og telur kærunefnd að sú menntun falli vel að hinu umrædda starfi. B hefur próf frá Verzlunarskóla Íslands. Menntun hennar er því ótvírætt meiri en hans.

Kærandi hefur starfað í tæp átta ár sem viðskiptafræðingur, þar af sem aðalbókari Ísafjarðarbæjar frá 1996. Kærunefnd telur að sú starfsreynsla hefði nýst vel í umræddu starfi. Sá sem ráðinn var hefur gegnt skrifstofustörfum frá 1967. Hann starfaði hjá útgerðarfyrirtækinu Hrönn hf. í átta ár, þar af sem framkvæmdastjóri síðustu árin, og hefur setið í stjórnum fyrirtækja í tengslum við störf sín. Þrátt fyrir lengri starfsreynslu hans og nokkra stjórnunarreynslu þykir starfsreynsla kæranda, sérstaklega á skrifstofu Ísafjarðarbæjar, falla betur að starfinu.

Því hefur verið haldið fram af hálfu Ísafjarðarbæjar að kærandi hafi ekki staðið sig sem skyldi í starfi aðalbókara hvað varðar upplýsingagjöf úr bókhaldi og færslu bókhalds. Kærandi hefur gefið þær skýringar á drætti á færslu bókhalds að verkefni hafi safnast upp vegna sumarleyfa og aukins álags í kjölfar sameiningar sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Þær skýringar þykja trúverðugar og telur kærunefnd Ísafjarðarbæ því ekki hafa sýnt fram á réttmæti umræddra fullyrðinga.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur því jafnframt verið haldið fram að kærandi hafi neitað að vinna nauðsynlega yfirvinnu. Kærandi hefur lýst því yfir að hún sé tilbúin að vinna þá yfirvinnu sem óskað er og hefur í því sambandi vísað til mikillar yfirvinnu sinnar árið 1996 sem ekki hefur verið mótmælt af hálfu Ísafjarðarbæjar. Ágreiningur er hins vegar um fyrirkomulag yfirvinnu og greiðslur fyrir hana. Enginn skriflegur ráðningarsamningur liggur fyrir og hefur Ísafjarðarbær ekki sýnt fram á að kærandi hafi neitað að vinna yfirvinnu.

Í máli Ísafjarðarbæjar hefur komið fram að samskiptahæfileikar og persónulegir eiginleikar þess sem ráðinn var hafi ráðið miklu um valið. Kærunefnd fellst á að slík atriði geti vissulega skipt máli við mat á hæfni einstaklinga í starf. Slík huglæg atriði verða þó að vera studd einhverjum gögnum. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem sýna fram á yfirburði þess sem ráðinn var umfram kæranda hvað þetta varðar.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að Ísafjarðarbær hafi ekki sýnt fram á sérstaka hæfileika þess, sem ráðinn var, sem vegið gætu upp menntun kæranda og starfsreynslu umfram þann sem var ráðinn. Af framansögðu þykir kærunefnd ljóst að kærandi sé hæfari til að gegna starfinu.

Þegar skoðuð eru kynjahlutföll í æðstu stöðum Ísafjarðarbæjar kemur í ljós að þær eru allar skipaðar körlum. Samkvæmt 5. gr. jafnréttislaga var það skylda Ísafjarðarbæjar að reyna af fremsta megni að fjölga konum í þessum stöðum. Þá var sérstaklega vakin athygli á 5. gr. jafnréttislaga í auglýsingu um starfið. Rík ástæða var því til að huga að stöðu kynjanna og ákvæðum jafnréttislaga við þessa ráðningu.

Með hliðsjón af því er að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með ráðningu B í starf bæjarritara Ísafjarðarbæjar hafi verið brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, l. nr 28/1991, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til stjórnenda Ísafjarðarbæjar að fundin verði viðunandi lausn á málinu.
 


Sigurður Tómas Magnússon

Erla S. Árnadóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta