Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/1997

Álit kærunefndar jafnréttismála

í málinu nr. 7/1997:

A

gegn

Akureyrarbæ

-------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála mánudaginn 23. febrúar 1998 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 24. júní 1997 óskaði A, jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrarbæjar, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun bæjaryfirvalda á að greiða henni sömu laun og tryggja henni sambærileg kjör og atvinnumálafulltrúa Akureyrarbæjar bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislög). Til vara óskaði hún þess að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun bæjaryfirvalda á að greiða henni sömu laun og tryggja henni sambærileg kjör og íþrótta- og tómstundafulltrúa Akureyrarbæjar bryti gegn sömu lögum.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram í málinu:

  1. Kæra dags. 24. júní 1997 ásamt greinargerð, bréf formanns jafnréttisnefndar Akureyrar til formanns kjarasamninganefndar Akureyrar, dags. 10. júlí 1995, bréf fulltrúa Akureyrarbæjar í starfsmatsnefnd Akureyrar til kjarasamninganefndar bæjarins, dags. 28. júní 1996, afrit af fundargerð kjarasamninganefndar frá 6. nóvember 1996 og afrit af launatöflu 23 frá launanefnd sveitarfélaga.
  2. Svarbréf bæjarlögmanns Akureyrar, dags. 20 ágúst 1997.
  3. Greinargerð Láru V. Júlíusdóttur, lögmanns kæranda, dags. 2. október 1997.
  4. Starfslýsing jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar, ódagsett en væntanlega frá 1991 eða 1992.
  5. Starfslýsing forstöðumanns atvinnumálaskrifstofu, dags. 3. júní 1996.
  6. Starfslýsing íþrótta- og tómstundafulltrúa, ódagsett.
  7. Bréf bæjarlögmanns Akureyrar, dags. 19. janúar 1998, ásamt starfslýsingu fyrir starf fræðslu- og jafnréttisfulltrúa dags. 22. maí 1991 og atvinnumálafulltrúa, dags. 3. júní 1996, yfirlit yfir fjölda umsækjenda um starf atvinnumálafulltrúa haustið 1995, afrit af umsókn þess sem var ráðinn og skipurit þar sem umræddar stöður koma fram.
  8. Kjarasamningar STAK og Akureyrarbæjar fyrir tímabilið apríl 1995 til desember 1996 og mars 1997 til maí 2000.
  9. Kjarasamningur launanefndar sveitarfélaga og stéttarfélags tæknifræðinga tímabilið febrúar 1996 til febrúar 1997 og kjarasamningur launanefndar sveitarfélaga annars vegar og kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélags Verkfræðinga hins vegar, tímabilið febrúar 1997 til nóvember 2000.
  10. Bréf lögmanns kæranda dags. 18. febrúar 1998 ásamt ljósriti af auglýsingum úr Morgunblaðinu um starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa, afrit af umsókn kæranda um starfið og ljósrit af blaðaúrklippum vegna ráðningar jafnréttis- og fræðslufulltrúa.

Á fund kærunefndar 20. nóvember 1997 mættu kærandi ásamt lögmanni sínum Láru V. Júlíusdóttur hdl. og Baldur Dýrfjörð bæjarlögmaður Akureyrar.

MÁLSATVIK

Starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar var auglýst laust til umsóknar í júní 1995. Fyrri auglýsing hafði að mati bæjaryfirvalda engum árangri skilað og var því um ítrekaða auglýsingu að ræða. Kærandi var ein umsækjenda kölluð í viðtal á grundvelli seinni auglýsingarinnar. Viðtalið tóku starfsmannastjóri, formaður jafnréttisnefndar og nefndarmaður í fræðslunefnd bæjarins. Í viðtalinu kom fram mikill áhugi á að fá hana til starfa og varð þá þegar nokkur umræða um þau kjör sem starfinu fylgdu. Samkomulag varð um að kjör kæranda skyldu verða samkvæmt launaflokki 87 samkvæmt kjarasamningi bæjarins við Starfsmannafélag Akureyrar (STAK). Þá skyldi greidd föst yfirvinna, samtals 22 klukkustundir á mánuði. Kröfu um fastan bílastyrk var hafnað en samþykkt að akstur yrði greiddur samkvæmt akstursbók og að greiddur yrði flutningskostnaður fyrir kæranda sem þá bjó í Reykjavík. Þá tók bærinn að sér að auglýsa eftir íbúð fyrir kæranda en hafnaði beiðni um að útvega henni húsnæði. Kærandi hóf störf 1. september 1995.

Langflestir starfsmenn Akureyrarbæjar taka laun samkvæmt kjarasamningi bæjarins við STAK og er jafnréttis- og fræðslufulltrúi þar á meðal. Sá kjarasamningur byggist á starfsmati. Sérstök starfsmatsnefnd metur störfin en í henni eiga sæti fulltrúar STAK og bæjaryfirvalda ásamt oddamanni, Böðvari Guðmundssyni en hann er jafnframt sérfræðingur nefndarinnar. Kjör starfsmanna sem aðild eiga að öðrum stéttarfélögum s.s. Félagi leikskólakennara, Verkamannafélaginu Einingu eða Verkfræðingafélagi Íslands eru utan starfsmats. Einstaka starfsmenn aðrir, einkum æðstu embættismenn bæjarins, standa einnig utan starfsmats þó svo einhverjir þeirra eigi aðild að STAK. Launakjör þeirra ráðast af einstaklingsbundnum samningum sem felldir eru að eða sækja viðmiðanir til kjarasamnings verkfræðinga og Akureyrarbæjar.

Þegar kærandi hóf störf hjá Akureyrarbæ lá fyrir beiðni frá jafnréttisnefnd bæjarins til kjaranefndar STAK um að starfsmatinu yrði beitt til að gera samanburð á kjörum nokkurra kvenna og karla í deildarstjórastörfum hjá bænum. Í bréfinu sem dags. er 10. júlí 1995 segir:

Með bréfi þessu fer undirrituð fram á að gerð verði örlítil tilraun til að nýta starfsmat til samanburðar launa og starfa karla og kvenna í deildarstjórastöðum hjá Akureyrarbæ, út fyrir þann hóp sem samkvæmt samningum gangast undir starfsmat.

Óskað er eftir samanburði á störfum þriggja "para", þ.e.:

  1. a) Deildarstjóra leikskóladeildar og b) deildarstjóra öldrunardeildar
  2. a) Jafnréttis- og fræðslufulltrúa og b) atvinnumálafulltrúa
  3. a) Deildarstjóra ráðgjafardeildar og b) deildartæknifræðingi hjá tæknideild

Forsenda þess að einmitt þessi pör eru valin er sú að ekki eru fleiri deildarstjórastöður skipaðar konum hjá Akureyrarbæ og reynt er að velja á móti störf sem í fljótu bragði virðast sambærileg, eru skipaðar körlum og eru á öðrum sviðum.

Hjá pari 1 er starf a) ekki metið í starfsmati en b) er metið

Hjá pari 2 er starf a) nýlega metið í starfsmati en starf b) ekki metið

Hjá pari 3 er starf a) metið í starfsmati en starf b) ekki metið

Auk þess að bera hér saman einstök störf kvenna og karla er forvitnilegt að skoða hvaða áhrif það hefur haft á stéttir eins og leikskólakennara og tæknifræðinga að þau fóru út úr starfsmati (STAK), annars vegar dæmigerð karlastétt og hins vegar kvennastétt.

Óskað er eftir því að starfsmatsnefnd STAK framkvæmi matið, en ef fulltrúum STAK finnst þetta vera utan þeirra verksviðs þá er óskað eftir að Böðvar Guðmundsson ásamt fulltrúum Akureyrarbæjar sjái um framkvæmdina.

Konurnar þrjár sem gegna þessum störfum nú eru samþykkar því að þessi tilraun fari fram, en ekki hefur enn verið rætt við þá karla sem skipa viðkomandi stöður.

Upplýst er að á þessum tíma gegndu konur starfi deildarstjóra leikskóladeildar, jafnréttis- og fræðslufulltrúa og deildarstjóra ráðgjafardeildar en karlar starfi deildarstjóra öldrunardeildar, atvinnumálafulltrúa og deildartæknifræðings hjá tæknideild.

Í framhaldi af beiðni formanns jafnréttisnefndar voru unnar starfslýsingar fyrir þau þrjú störf sem ekki höfðu áður verið metin og þeim vísað til starfsmatsnefndar. Fulltrúar Akureyrarbæjar í starfsmatsnefnd ásamt oddamanni Böðvari Guðmundssyni framkvæmdu matið. Í bréfi dags. 28. júní 1996 til kjarasamninganefndar bæjarins undirrituðu af Dan Brynjarssyni segir:

Fulltrúar Akureyrarbæjar í starfsmatsnefnd ásamt sérfræðingi nefndarinnar hafa metið þrjú störf sem ekki eru í starfsmati auk þriggja starfa sem metin hafa verið áður að ósk jafnréttisnefndar.

Niðurstaðan er þessi:

Starfsheiti                                          stig
Áður metið
Deildarstjóri öldrunardeild              172
Deildarstjóri ráðgjafardeildar          169
Jafnréttis og fræðslufulltrúi              167

Nýtt mat
Deildarstjóri Leikskóladeildar          168
Atvinnumálafulltrúi                         170
Deildartæknifræðingur Tæknideild 169

Rétt er að taka fram að vinnuhópurinn hefur metið störfin miðað við fyrirliggjandi starfslýsingar og gildandi starfsmatskerfi. Í starfsmati skiptir engu máli hver gegnir starfinu eða hvort það er karl eða kona. Því tekur vinnuhópurinn enga afstöðu til þess sem kemur fram í bréfi frá formanni jafnréttisnefndar, þ.e. hvort störfin séu sambærileg á grundvelli "pörunar" jafnréttisnefndar eða hvort störfin tilheyri dæmigerðum karla- eða kvennastéttum.

Í framhaldi af niðurstöðu vinnuhóps starfsmatsnefndar óskaði kærandi eftir að fá kjör sín leiðrétt til samræmis við kjör atvinnumálafulltrúa en kjör hans taka mið af kjarasamningum verkfræðinga. Þann 6. nóvember 1996 var haldinn fundur í kjarasamninganefnd þar sem starfsmannastjóri bæjarins gerði grein fyrir stöðu málsins. Þann fund sátu, auk fulltrúa í kjarasamninganefnd, fulltrúar frá jafnréttisnefnd, kærandi og starfsmaður frá Skrifstofu jafnréttismála. Engin niðurstaða varð af fundinum. Þá hefur erindi kæranda verið til umfjöllunar í bæjarráði Akureyrar án þess að niðurstaða hafi fengist. Af hálfu bæjarins er bent á, að ef fallist yrði á kröfu kæranda myndu laun hennar taka mið af kjarasamningi verkfræðinga við bæinn. Það fordæmi sem slíkt myndi verða öðrum starfsmönnum, geti bærinn ekki skapað.

Þegar jafnréttisnefnd Akureyrarbæjar sendi kjaranefnd STAK erindi sitt 10. júlí 1995, gegndi karl starfi atvinnumálafulltrúa. Hann lét af störfum í mars 1997 og var kona ráðin í hans stað. fiar sem hún nýtur ekki sömu kjara og forveri hennar, hefur verið aflað upplýsinga um kjör atvinnumálafulltrúa þegar matið fór fram en einnig eins og þau voru þegar málinu var vísað til kærunefndar jafnréttismála.

Í bréfi bæjarlögmanns Akureyrar, dags. 20. ágúst 1997, eru kjör atvinnumálafulltrúa, íþrótta- og tómstundafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa rakin. Samkvæmt því voru kjör atvinnumálafulltrúa í mars 1997 eftirfarandi:

Atvinnumálafulltrúi tók laun sín skv. kjarasamningi verkfræðinga og Akureyrarbæjar, sem þýðir föst mánaðarlaun að fjárhæð [ X kr.]. Þá voru honum greiddir 33 fastir yfirvinnutímar sem ætlað var að ná til allrar tilfallandi yfirvinnu og ekki var greitt sérstaklega þótt tímarnir yrðu fleiri. Tímakaup fyrir yfirvinnu var [ X kr.]. Þá var orlof á yfirvinnu 13,04%. Heildarlaun á mánuði, allt með talið, voru því [ X kr.] auk orlofs á yfirvinnu [ X kr.] (greitt í maí ár hvert fyrir s.l. 12 mánuði). Þá er greitt fyrir akstur samtals 600 km. á mánuði og er það föst greiðsla, 34,55 fyrir hvern km.

Samkvæmt bréfi bæjarlögmanns eru núverandi kjör atvinnumálafulltrúa eftirfarandi:

Atvinnumálafulltrúi tekur laun sín skv. kjarasamningi verkfræðinga og Akureyrarbæjar, sem þýðir föst mánaðarlaun að fjárhæð [ X kr.]. Þá eru henni greiddir 33 fastir yfirvinnutímar sem ætlað er að ná til allrar tilfallandi yfirvinnu og ekki er greitt sérstaklega þótt að tímarnir séu fleiri. Tímakaup fyrir yfirvinnu er [ X kr.]. Þá er orlof á yfirvinnu 13,04%. Heildarlaun á mánuði, allt með talið, eru því [ X kr.] auk orlofs á yfirvinnu [ X kr.] (greitt í maí ár hvert fyrir s.l. 12 mánuði). Þá er greitt fyrir akstur samtals 600 km. á mánuði og er það föst greiðsla, kr. 34,55 fyrir hvern km.

Kjör íþrótta- og tómstundafulltrúa eru samkvæmt upplýsingum bæjarlögmanns:

Íþrótta- og tómstundafulltrúi tekur laun sín skv. kjarasamningi STAK og Akureyrarbæjar, sem þýðir föst mánaðarlaun að fjárhæð [ X kr.]. Þá eru honum greiddir 33 fastir yfirvinnutímar sem ætlað er að ná til allrar tilfallandi yfirvinnu og ekki er greitt sérstaklega þótt að tímarnir séu fleiri. Tímakaup fyrir yfirvinnu er [ X kr.]. Þá er orlof á yfirvinnu 11,59%. Heildarlaun á mánuði, allt með talið, eru því [ X kr.] auk orlofs á yfirvinnu [ X kr.] (greitt í maí ár hvert fyrir s.l. 12 mánuði). Þá er greitt fyrir akstur samtals 800 km. á mánuði og er það föst greiðsla, kr. 34,55 fyrir hvern km.

Kjör jafnréttis- og fræðslufulltrúa eru eftirfarandi:

Jafnréttis- og fræðslufulltrúi tekur laun sín skv. kjarasamningi STAK og Akureyrarbæjar, sem þýðir föst mánaðarlaun að fjárhæð [ X kr.]. Þá eru henni greiddir 22 fastir yfirvinnutímar sem ætlað er að ná til allrar tilfallandi yfirvinnu og er ekki greitt sérstaklega þótt tímarnir séu fleiri. Tímakaup fyrir yfirvinnu er [ X kr.]. Þá er orlof á yfirvinnu 13,04%. heildarlaun á mánuði eru því [ X kr.] auk orlofs á yfirvinnu [ X kr.] (greitt í maí ár hvert fyrir s.l. 12 mánuði). Þá er greitt fyrir akstur samkvæmt akstursbók, kr. 34,55 fyrir hvern km.

 

SJÓNARMIÐ KÆRANDA

Kærandi telur sig eiga rétt á sömu kjörum og atvinnumálafulltrúi. Störfin hafi verið metin jafn verðmæt í starfsmati sem bærinn eigi aðild að og því beri þeim samkvæmt 4. gr. jafnréttislaga sömu kjör. Þegar störfin voru metin, hafi verulegur munur verið á kjörum þeirra. Starfsmatinu hafi ekki verið mótmælt sem röngu. Þvert á móti hafi bærinn lagt þetta sama starfsmat til grundvallar launaflokkaröðun stórs hóps starfsmanna sinna og margoft lýst sig ánægðan með það. Akureyrarbær hafi verið með fyrstu sveitarfélögum til að taka upp starfsmat en fleiri sveitarfélög hafi fylgt í kjölfarið og nú sé þetta starfsmat grundvöllur launaflokkaröðunar starfsmanna flestra stærstu sveitarfélaga landsins.

Því er mótmælt að bærinn geti firrt sig ábyrgð á niðurstöðu starfsmatsins með því að vísa til þess að það takmarkist við þá starfsmenn sem aðild eigi að STAK. Ákvæði 4. og 6. gr. jafnréttislaga kveði skýrt á um að atvinnurekandi megi ekki mismuna starfsfólki sínu í kjörum. Honum beri að greiða starfsmönnum sínum sömu kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Nú liggi fyrir að umrædd tvo störf uppfylli það skilyrði. Bent er á að bærinn hafi, til viðbótar skýrri lagaskyldu, ítrekað stefnu sína á þessu sviði í grein 2.2.2 í jafnréttisáætlun sinni fyrir tímabilið 1993 til 1997.

Þeirri skýringu bæjarlögmanns að mismunandi kjör jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa megi rekja til mismunandi kjarasamninga er mótmælt þar sem hún eigi sér ekki lagastoð. Í dómi Hæstaréttar frá 13. mars 1997 í málinu kærunefnd jafnréttismála gegn íslenska ríkinu komi fram að mismunandi kjarasamningar geti ekki réttlætt launamun milli kvenna og karla. Skýring bæjarlögmanns á þessu atriði fari því í bága við jafnréttislög. Hið sama eigi við um þá skýringu að einstaka ráðningasamningar ráðist af aðstæðum á markaði. Með vísan til skýrra ákvæða jafnréttislaga verði að telja slíka mismunun brot á ákvæðum 4. og 6. gr. auk þess að ganga þvert á yfirlýsta stefnu Akureyrarbæjar í jafnréttismálum. Því til viðbótar þyki rétt að benda á að erfiðlega hafi gengið að fá hæfa starfsmenn í mörg störf hjá bænum, þ.m.t. í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Það geti ekki talist viðunandi skýring á betri kjörum atvinnumálafulltrúa að erfiðlega hafi gengið að fá hæfan mann í það starf. Verði talið heimilt að greiða markaðslaun, þá hljóti það að teljast brot á ákvæðum jafnréttislaga að greiða markaðslaun einungis þegar erfiðlega gangi að fá fólk til starfa í hinum hefðbundnu starfsgreinum karla en ekki þegar erfiðlega gangi að fá fólk til starfa í hefðbundum starfsgreinum kvenna.

Þeirri fullyrðingu bæjarlögmanns að einungis þeir starfsmenn fái fastan aksturssamning sem starfs síns vegna þurfi að nota bíl, t.d. vegna umsjónar með öðrum stofnunum, er mótmælt. Atvinnumálafulltrúi hafi enga slíka umsjón. Þá er á það bent að þegar ráðinn hafi verið aðstoðarmaður atvinnumálafulltrúa hafi hann einnig fengið fastan samning um 600 km akstur á mánuði en ekki haft yfir bíl að ráða. Þetta sýni að um hreina launauppbót til einstaka starfsmanna sé að ræða. Starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa fylgi námskeiðahald víða um bæinn og því þurfi hann, starfs síns vegna, að nota bíl. Þrátt fyrir það hafi því verið hafnað að gera fastan akstursamning við hana.

Loks ítrekar kærandi, að í gegnum tíðina hafi verið lögð mikil áhersla á starfsmat sem leið til að jafna þann mun sem lengi hefur verið vitað að væri á kjörum kvenna og karla í samfélaginu. Starfsmat hafi verið eins konar lausnarorð framsækinna jafnréttissinnaðra kvenna. Um leið og starfsmat væri komið, lægi fyrir hversu verðmæt störfin sjálf væru og þá gætu konur sótt mismuninn fyrir dómstólum. Þá fyrst væri kominn nauðsynlegur lagagrundvöllur til að sækja þann rétt sem ákvæði 4. gr. jafnréttislaga um sömu kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf kvæði á um. Í máli þessu liggi fyrir að umrædd störf hafi verið metin jafn verðmæt samkvæmt starfsmati en sjaldgæft sé að slíkt mat liggi fyrir þegar ágreiningur er um kjör. Starfsmatið leiði til þess að greiða beri fyrir þessi störf með sambærilegum hætti. Önnur niðurstaða þýddi einfaldlega að ákvæði 4. og 6. gr. jafnréttislaga væru með öllu haldlaus og fæli í sér skýr skilaboð til atvinnurekanda um að vísa megi til aðstæðna á markaði við ákvörðun launa starfsmanna.

 

SJÓNARMIÐ KÆRÐA

Af hálfu Akureyrarbæjar er því ekki mótmælt að munur sé á kjörum atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Sá munur hafi hins vegar ekkert að gera með kynferði. Launastefna Akureyrarbæjar sé með þeim hætti að meginþorri starfsmanna bæjarins eigi aðild að STAK og taki laun sín samkvæmt kjarasamningi þess félags og bæjarins, sem byggist á starfsmati. Þeir starfsmenn sem séu utan starfsmats eigi annað hvort aðild að öðru stéttarfélagi eða teljist til æðstu embættismanna bæjarins. Auk þeirra starfsmanna sem eru í Verkfræðingafélagi Íslands, taki æðstu embætismenn bæjarins laun sem miðast við kjarasamninga þess félags. Laun samkvæmt þeim kjarasamningi taki einnig einstaka aðrir starfsmenn, bæði konur og karlar, sem falla undir verk- og tæknisvið bæjarins án þess að vera verk- eða tæknimenntaðir. Einn þessara starfsmanna sé atvinnumálafulltrúi sem kærandi beri sig saman við. Fordæmi séu fyrir því að að hann taki laun sín samkvæmt kjarasamningi verkfræðinga og bæjarins og gildi það óháð því hvort verkfræðingur gegni stöðunni og að sjálfsögðu óháð því hvort atvinnumálafulltrúi sé kona eða karl. Starfsmatið hafi þannig verið tengt tilteknum kjarasamningi en ekki öðrum kjarasamningum sem bærinn eigi aðild að. Með vísan til þess er því hafnað að bærinn sé bundinn af þeirri niðurstöðu sem fékkst úr því "mati" sem lagt sé til grundvallar kröfu kæranda. Dómur Hæstaréttar frá 13. mars 1997 eigi ekki við í þessu tilviki.

Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að á vinnumarkaði sé fylgt ákveðnum reglum varðandi uppbyggingu launakerfisins sem aðilar vinnumarkaðarins hafi komið sér saman um í formi kjarasamninga. Þar sé eftir föngum tekið mið af menntun og starfsaldri en ekki síður af mati á viðkomandi starfi. firátt fyrir það sé verulegur munur sé á milli stéttar/fagfélaga eins og mál þetta sýni ljóslega. Verkfræðingum séu t.d greidd hærri laun en félagsráðgjöfum. Aðalatriði sé að engu máli skipti hvort kona eða karl gegni starfi verkfræðings eða félagsráðgjafa. Akureyrarbær hafi samið við nokkra starfsmenn sína um að laun þeirra tækju mið af kjarasamningi verkfræðinga og bæjarins enda þótt umræddir starfsmenn séu hvorki verkfræðingar né í fagfélögum verkfræðinga. Það sem ráðið hafi þessum ákvörðunum eða flokkun starfa séu aðstæður á markaði og önnur atriði sem markaði tengjast. Að því er varði starf atvinnumálafulltrúa þá hafi Akureyrarbær strax í upphafi, haft miklar væntingar til þessa starfs og þýðingar þess fyrir þróun og eflingu atvinnulífs í bænum. Hafi því verið lagt upp með að til starfsins réðist hæfur og vel menntaður einstaklingur og þá eftir atvikum úr atvinnulífinu. Honum hafi verið ætlað að starfa í tengslum við markaðinn og því hafi verið horft til þes að honum væri sköpuð staða sem gerði honum kleyft að standa jafnfætis aðilum á þeim markaði. Þessi sjónarmið hafi leitt til þess að við ákvörðun launakjara hafi verið horft til markaðarins og þá þess starfshóps hjá Akureyrarbæ sem næst stæði því að vera með slíka viðmiðun, þ.e. þeirra starfsmanna sem taka laun samkvæmt viðmiði við kjarasamninga verkfræðinga. Til starfsins hafi síðan valist einstaklingur með menntun sem féll beint að þeim kjarasamningi. Störf atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa séu því alls ekki sambærileg.

Í greinargerð bæjarlögmanns Akureyrar, dags. 20 ágúst 1997 segir síðan:

Akureyrarbær telur að þetta sé honum að sjálfsögðu heimilt enda aðeins um að ræða einn þátt í kjarasamningum. Oft á tíðum kann þessi niðurstaða að virka ósanngjörn ekki síst í ljósi þess að mjög er umdeilanlegt hvaða störf eru sambærileg og falla þar af leiðandi í sama flokk. Frá sjónarhóli bæjarins verður hins vegar ekki fallist á að ekki ríki fullt samningsfrelsi í þessum efnum eins og að öðru leyti varðandi gerð kjarasamninga enda hefur þessi munur ekkert með karla og konur að gera. Staðan hjá Akureyrarbæ er að þessu leyti sú sama og hjá öðrum á markaðinum. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að vafalaust mætti gera sambærilegan samanburð á mjög mörgum störfum með starfsmati og fá út svipaðan eða sambærilegan mun með tilliti til kjara. Hins vegar liggur fyrir að matið tekur ekki til allra þeirra þátta sem á endanum ráða röðuninni eins og lýst var hér að framan. Ljóst er að ef bærinn viðurkenndi þessa leið og breytti ("leiðrétti") launum allra samkvæmt þessu yrði gerð kjarasamninga við einstök stéttarfélög marklaus. Nægir í þessu sambandi að benda á að yrði launum kæranda breytt ætti íþrótta- og tómstundafulltrúi væntanlega rétt til leiðréttingar á sama grunni, þ.e. með tilvísun til jafnréttislaga, sér í lagi þar sem kona gegnir nú starfi atvinnumálafulltrúa, sem og með vísun til breyttra launa kæranda. Sama ætti við um fjölmarga aðra starfsmenn. Má reyndar varpa fram þeirri spurningu hvort grundvöllur fyrir kærunni er brostinn með hliðsjón af því að það er kona sem gegnir nú starfi því sem kærandi vísar til í rökstuðningi sínum? En það er ekki aðalatriði málsins.

Og síðar í bréfi bæjarlögmannsins segir:

Að lokum vill Akureyrarbær ítreka að hann telur að þeim muni sem er milli launa kæranda og þess aðila sem hann vísar verði ekki breytt á grundvelli ákvæða jafnréttislaga. Ítrekað er að launakerfið er einfaldlega þannig upp byggt að verulegur launamunur er milli stétta/fagfélaga enda þótt með mjög einföldum hætti sé hægt að sýna fram á að um sambærileg störf sé að ræða út frá þeim sjónarmiðum sem starfsmatið er unnið eftir. Þessi staðreynd er þekkt og auðvitað iðulega verið að vísa til hennar við gerð kjarasamninga. Gildir þá einu hvort um er að ræða kjarasamninga við stéttarfélög eða einstaka starfsmenn. Um kaup og kjör er síðan samið með mismunandi árangri eins og alkunna er.

Einnig er ítrekað að ef krafa kæranda nær fram að ganga er ljóst að grundvöllur fyrir þeim kjarasamningum sem í gildi eru, er brostinn sem og gerð þeirra í framtíðinni. Geti starfsmenn, eftir að hafa fundið starf sem er sambærilegt sínu samkvæmt einhverri tiltekinni viðmiðun en hærra launað, gert um það kröfu með tilvísun til ákvæða jafnréttislaga að launum sínum sé breytt er ljóst að um slíka byltingu er að ræða að ekki sér fyrir endann á slíku ferli.

Ákvörðun um fasta aksturssamninga við starfsmenn byggist á hlutlægu mati á þörf viðkomandi starfsmanns til að nota bifreið í starfi sínu. Það sé mat bæjaryfirvalda að starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa sé ekki þess eðlis að þörf sé á föstum aksturssamningi.

 

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er samkvæmt 1. gr. að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. msar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvarðanir þeirra m.a. um launakjör starfsmanna.

Í 4. gr. jafnréttislaga segir m.a. að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns aðra þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Fyrir liggur að þau störf sem kærandi ber starf sitt saman við eru ekki eins að því er lýtur að viðfangsefnum og það starf sem hún gegnir. Kærunefnd jafnréttismála telur hins vegar að mat á því hvort störf teljist jafn verðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga verði að byggjast á heildstæðu mati. Þannig geti störf verið jafn verðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist t.d. mismunandi menntunar.

Kærandi hefur aðallega borið starf sitt saman við starf atvinnumálafulltrúa en til vara við starf íþrótta- og tómstundafulltrúa. Nefndin mun í samræmi við það einkum fjalla um samanburð á starfi kæranda og starfi atvinnumálafulltrúa. Sú staðreynd að kona tók við starfi atvinnumálafulltrúa í mars 1997, áður en kæran barst nefndinni, þykir ekki koma í veg fyrir að nefndin geti fjallað um hvort um brot á jafnréttislögum hafi verið að ræða þar sem karl gegndi starfinu allt frá því að kærandi hóf störf hjá Akureyrarbæ í september 1995 og fram í marsmánuð 1997.

Áður en fjallað verður um hvort starf kæranda sé jafn verðmætt og sambærilegt þeim störfum sem kærandi ber starf sitt saman við þykir rétt að fjalla annars vegar um aðdraganda að ráðningu kæranda hjá Akureyrarbæ og hins vegar um þann mun sem var á launum kæranda og atvinnumálafulltrúans fram í mars 1997.

 

Aðdragandi að ráðningu kæranda.

Kærandi kveðst hafa sótt um starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar vegna hvatningar frá fyrirrennara sínum. Starfið hafi verið auglýst tvisvar. Fyrra sinnið hafi enginn umsækjenda talist hæfur að mati bæjarins. Kærandi hafi ein umsækjenda samkvæmt seinni auglýsingu verið kölluð í viðtal. Það viðtal hafi fljótlega snúist upp í ráðningarviðtal þar sem fulltrúar bæjarins hafi sagt beint út að áhugi væri á að ráða hana. Vegna þessa mikla áhuga bæjaryfirvalda, hafi hún talið sig í góðri aðstöðu til að semja um kaup og kjör. Fulltrúar bæjarins hafi hins vegar lagt áherslu á að bærinn hefði litla möguleika á að koma til móts við kjarakröfur hennar. Því hefði verið borið við að starfið hefði farið í gegnum starfsmat og væri samkvæmt því raðað í tiltekinn launaflokk sem ekki væri hægt að breyta, nema innan ramma starfsaldursþrepa. Kærandi kveðst hafa lagt á það áherslu að hún tæki ekki starfið ef því fylgdu laun sem væru lægri en hún hefði þá þegar eða [ X krónur]. Eftir allnokkrar umræður og nokkurt þref hafi tekist að koma mánaðarlaunum hennar í þá fjárhæð að meðtalinni greiðslu fyrir fasta yfirvinnu. Ýmsum kröfum hennar, s.s. um fastan aksturssamning, hafi verið hafnað með þeim skýringum að slíkt tíðkaðist ekki hjá bænum. Kærandi hafi sætt sig við þessi málalok þar sem hún gat fallist á að hún ætti ekki að njóta sérkjara. Fljótlega hafi hún hins vegar komist að raun um að ýmsir starfsmenn bæjarins nytu sérkjara, þrátt fyrir fullyrðingar bæjarins um annað.

Staðfest hefur verið af hálfu bæjarins að mikill áhugi hafi verið á að ráða kæranda í starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar. Lýsingu hennar á því hvernig sú ráðning gekk til og öðru framangreindu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og verður hún lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.

 

Munur á launakjörum

Samkvæmt upplýsingum Akureyrarbæjar voru föst mánaðarlaun atvinnumálafulltrúa [ X krónur] í mars 1997 en föst mánaðarlaun jafnréttis- og fræðslufulltrúa á sama tíma [ X krónur] og mismunurinn því [ X krónur]. Laun atvinnumálafulltrúa fyrir 33 klst. fasta yfirvinnu á mánuði voru [ X krónur] en laun kæranda fyrir 22 klst. fasta yfirvinnu [ X krónur] og mismunurinn því [ X krónur]. Heildarlaun atvinnumálafulltrúa auk orlofs á yfirvinnu voru [ X krónur] á mánuði en kæranda [ X krónur] og mismunurinn því [ X krónur]. Atvinnumálafulltrúinn var því með um 41% hærri heildarlaun en kærandi sem telja verður verulegan mun á launakjörum.

Þá fékk atvinnumálafulltrúinn greiðslu fyrir 600 km akstur á mánuði sem nam 20.730 krónum í mars 1997 en kærandi fékk greitt samkvæmt akstursbók. Fullyrðingu kæranda um að henni hafi verið neitað um fastan aksturssamning hefur ekki verið mótmælt af hálfu Akureyrarbæjar. Líkur þykja benda til þess að með föstum aksturssamningi hafi atvinnumálafulltrúinn notið betri kjara en kærandi. Erfitt er hins vegar að meta að hve miklu leyti var um hlunnindi að ræða sem meta megi til launa.

 

Samanburður á starfi kæranda og atvinnumálafulltrúa

1. Störfin sem borin eru saman.

Lagðar hafa verið fram tvær starfslýsingar fyrir starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Önnur starfslýsingin er dagsett 22. maí 1991 en hin er ódagsett en augljóslega nýrri. Gegn mótmælum kærða, verður síðarnefnda starfslýsingin ekki lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.

Samkvæmt starfslýsingunni frá 22. maí 1991 er starfsheiti kæranda fræðslu- og jafnréttisfulltrúi. Fræðslu- og jafnréttisfulltrúi skal vinna að framgangi jafnréttisáætlunar bæjarins og annarra verkefna sem jafnréttisnefnd og bæjarstjórn fela honum á sviði jafnréttismála. Hann skal veita ráðgjöf þeim fyrirtækjum sem þess óska. fiá skal hann hafa umsjón með fræðslumálum starfsfólks Akureyrarbæjar í samstarfi við starfsmannastjóra og stjórn fræðslunefndar, sem er samstarfsnefnd yfirstjórnar bæjarins og fulltrúa stéttarfélaga. Hann skal m. a. fylgjast með því að ákvæði jafnréttisáætlunarinnar varðandi ráðningar starfsfólks og auglýsingar um laus störf séu virt og veita starfsmannastjóra og öðrum yfirmönnum ráðgjöf í því sambandi, beita sér fyrir því að haldin sé sérstök skrá hjá vinnumiðlun bæjarins yfir konur sem geta hugsað sér að taka að sér stjórnunarstörf, kanna hvaða stjórnunarstörf hjá bænum megi vinna í hlutastarfi og hvar koma megi við sveigjanlegum vinnutíma. Fræðslu- og jafnréttisráðgjafi skal veita einstaklingum og fyrirtækjum ráðgjöf og skipuleggja fræðslu um jafnréttismál, m.a. fyrir kennara. Hann skal vinna að mótun stefnu í fræðslumálum starfsfólks hjá bænum og gera tillögur um nýtingu þeirra fjármuna sem til þess málaflokks fara. Þá skal hann hafa umsjón með fræðslumálum starfsfólks og fylgjast með hvaða fræðslumöguleikar eru í boði og veita starfsmönnum og kjörnum fulltrúum ráðgjöf svo og fræðslunefnd og stéttarfélögum. Hann hefur umsjón með útgáfu fréttabréfs starfsfólks Akureyrarbæjar.

Samkvæmt starfslýsingu ber starf atvinnumálafulltrúa starfsheitið "forstöðumaður atvinnumálaskrifstofu". Í starfslýsingunni eru helstu verkefni rakin. Þar kemur fram að hann skuli annast samskipti við atvinnulífið f. h. atvinnumálanefndar, hafa yfirsýn yfir atvinnulífið og veita upplýsingar um þróun, stöðu og horfur í atvinnumálum bæjarins. Hann skal stuðla að því að aðstæður til rekstrar fyrirtækja á Akureyri séu a.m.k. ekki lakari en annars staðar. Jafnframt skal atvinnumálafulltrúi veita fyrirtækjum og einstaklingum almenna ráðgjöf í samvinnu við þróunarfélag Eyjafjarðar. Í því skyni skal atvinnumálafulltrúi hafa á hendi upplýsingar um möguleika til fjármögnunar atvinnurekstrar og aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við að nýta sér þessa möguleika. Hann skal stuðla að hvers konar fræðslustarfi um atvinnumál á Akureyri og láta gera athuganir á hagkvæmum kostum til atvinnuuppbyggingar. Þá skal atvinnumálafulltrúi stuðla að samstarfi fyrirtækja á Akureyri og samvinnu fyrirtækja og opinberra aðila. Atvinnumálafulltrúi skal framfylgja ályktunum og samþykktum atvinnumálanefndar og sinna öðrum þeim verkefnum eða störfum sem nefndin eða bæjarstjóri felur honum.

Samkvæmt starfslýsingunum tengjast bæði störfin atvinnulífi á Akureyri, innan sem utan stjórnsýslu bæjarins. Í báðum starfslýsingunum er lögð áhersla á fræðslu, upplýsingamiðlun og þróunarstarf innan viðkomandi sviðs með það að markmiði annars vegar að styrkja atvinnulíf í bænum og hins vegar að stuðla að jafnrétti kynja. Starf fræðslu- og jafnréttisfulltrúa snýr fremur að innra starfi á vegum sveitarfélagsins en ákveðnir þættir þess varða þó fyrirtæki í bænum. Starf atvinnumálafulltrúa er meira í tengslum við atvinnulífið á Akureyri. Starfslýsingarnar lýsa viðkomandi starfi en tilgreina ekki hvaða kröfur eru gerðar um menntun og aðra hæfni þeirra sem gegna viðkomandi starfi.

Fyrir liggur að störf atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa eru jafnsett samkvæmt skipuriti Akureyrarbæjar.

 

2. Starfsmat sem grunnur að launaflokkaröðun.

Kæra jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar grundvallast á niðurstöðu starfsmatsnefndar, sem að beiðni formanns jafnréttisnefndar bæjarins og með samþykki bæjaryfirvalda mat störf þriggja deildarstjóra hjá bænum, sem ekki voru í starfsmati fyrir. Samkvæmt umræddu starfsmati var starf atvinnumálafulltrúa metið til 170 punkta en starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa til 167 punkta. Óumdeilt er að sá punktamunur réttlætir ekki einn og sér þann launamun sem hefur verið milli þeirra sem þessum störfum hafa gegnt. Hann gæti þó réttlætt launamun sem samsvarar einum launaflokki.

Í áfangaskýrslu starfshóps á vegum félagsmálaráðuneytisins, útgefinni í febrúar 1996, sem ber nafnið "Starfsmat - leið til að ákvarða laun", kemur fram að Akureyrarbær hafi, eitt sveitarfélaga, notað kerfisbundið starfsmat við ákvörðun launa frá árinu 1975. Árið 1987 hafi fleiri sveitarfélög tekið upp starfsmat en í kjarasamningi milli launanefndar sveitarfélaga og starfsmannafélaganna, sem samþykktur hafi verið það ár, hafi verið sett ákvæði um þróun á nýju starfsmatskerfi er ná skyldi til 42 sveitarfélaga. Fleiri sveitarfélög hafi bæst við síðar, þ.m.t. öll stærri sveitarfélögin nema Reykjavík. Í skýrslunni kemur fram að markmiðið með starfsmatinu hafi fyrst og fremst verið að samræma launakjör þeirra sem störfuðu hjá viðkomandi sveitarfélögum kjörum í sambærilegum störfum á einkamarkaði, auk þess að samræma innbyrðis kjör starfsfólks sveitarfélaganna.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að það starfsmatskerfi, sem lagt sé til grundvallar starfsmati sveitarfélaganna, byggist á þeim reglum sem Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO), hafi sett um gerð slíkra starfsmatskerfa. Fjórir þættir séu lagðir til grundvallar kerfinu hæfni, ábyrgð, áreynsla og starfsskilyrði, sem síðar greinist í einn eða fleiri undirþætti. Sérstakar starfsmatsnefndir, sem í eigi sæti fulltrúar launafólks og atvinnurekenda, útbúi starfslýsingar í samvinnu við starfsfólk og atvinnurekendur og meti störfin á grundvelli þeirra. Tekið er fram í skýrslunni að samkomulag þurfi að nást í starfsmatsnefndinni um niðurstöðu matsins. Eftir að starfslýsingar liggi fyrir og búið sé að gefa sérhverju starfi punktagildi sé það metið til launa. Samninganefndir sveitarfélaganna og bæjarstarfsmannafélaganna semji um launin. Þær hafi ekki aðgang að starfsmatsnefndunum en fái frá þeim heildarstigagjöf hvers starfs til viðmiðunar fyrir sjálfa samningagerðina.

 

3. Uppbygging kjarasamninga.

Af hálfu Akureyrarbæjar er því haldið fram að lagt hafi verið fyrir starfsmatsnefndina að meta starf atvinnumálafulltrúa í tilraunaskyni. Niðurstaða starfsmatsnefndarinnar, að því er varðar mat á starfi atvinnumálafulltrúa, sé því ekki bindandi fyrir Akureyrarbæ þar sem matið byggist ekki á ákvæði í kjarasamningi eins og eigi við um mat á starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa.

Akureyrarbær heldur því fram að sá launamunur sem er á milli jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa skýrist af þeim mun sem sé á kjörum mismunandi faghópa á vinnumarkaði almennt. Staðreynd sé að ýmsir faghópar, s.s. verkfræðingar, hafi náð lengra í samningum um kjör sín en aðrir hópar. Þetta sé ekki sérvandamál Akureyrarbæjar heldur eigi við um vinnumarkaðinn í heild. Þó svo að niðurstaða starfsmatsnefndarinnar hafi verið að störfin fengju svipaðan fjölda punkta miðað við það kerfi sem þar sé byggt á, verði því ekki haldið fram að um sambærileg störf sé að ræða. Sú niðurstaða myndi leiða til mikillar röskunar og uppstokkunar á kjörum starfsmanna bæjarins og í reynd á kjarasamningum á vinnumarkaði í heild.

Kærandi hefur mótmælt ofangreindri túlkun Akureyrarbæjar og bent á að skylda atvinnurekanda samkvæmt jafnréttislögum takmarkist ekki við nákvæmlega sömu störfin heldur við það að störfin séu jafn verðmæt og sambærileg.

Fyrir liggur að Akureyrarbær leggur starfsmat til grundvallar launaflokkaröðun þeirra starfsmanna bæjarins sem eiga aðild að STAK. Verkfræðingar og tæknifræðingar sem hjá Akureyrarbæ starfa taka laun samkvæmt kjarasamningi tæknifræðinga og verkfræðinga við launanefnd sveitarfélaga og upplýst er að nokkrir af æðstu starfsmönnum bæjarfélagsins fá greidd laun samkvæmt þeim kjarasamningi án tillits til menntunar þeirra. Kæranda var ekki boðið að taka laun samkvæmt umræddum kjarasamningi. Fyrir liggur hins vegar að ákveðið var að laun atvinnumálafulltrúa tækju mið af samningnum án tillits til menntunar þess sem á hverjum tíma gegndi starfinu. Sá sem fyrstur gegndi starfinu var hvorki verkfræðingur né tæknifræðingur en tók þó laun samkvæmt viðmiðun við fyrrnefndan kjarasamning. Af því sem fram er komið í málinu virðist ljóst að það er komið undir mati æðstu yfirmanna bæjarins hvort greitt er fyrir starf samkvæmt kjarasamningi við STAK eða samkvæmt viðmiðun við aðra kjarasamninga. Verður því ekki betur séð en að launamunur á milli atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa byggist á einhliða ákvörðun Akureyrarbæjar um að greiða laun fyrir störfin samkvæmt mismunandi kjarasamningum en hafi að öðru leyti ekkert með kjarasamninga að gera.

 

4. Verðmæti starfa með hliðsjón af markaðssjónarmiðum.

Í bréfi Akureyrarbæjar til nefndarinnar, dags. 19. janúar 1997, er frá því greint að launaákvörðun atvinnumálafulltrúa hefði byggst á mati Akureyrarbæjar á mikilvægi starfsins. Greint er frá eftirfarandi þáttum sem áhrif höfðu á það mat:

- Lagt hafi verið upp með að til starfsins réðist hæfur og vel menntaður starfsmaður og þá eftir atvikum úr atvinnulífinu.

- Horft hafi verið til þess að honum yrði sköpuð staða sem gerði hann í stakk búinn til að standa jafnfætis aðilum á þeim markaði sem honum hafi verið ætlað að starfa í tengslum við.

- Þau sjónarmið hafi verið orðuð að ná þyrfti í sérfræðing af markaðinum og þegar launakjör hafi verið ákvörðuð hafi því verið horft til markaðarins og þess starfshóps hjá Akureyrarbæ sem næst stóð því að vera með slíka viðmiðun.

- Einnig hafi skipt máli að gert var ráð fyrir að til starfsins gæti valist umsækjandi með menntun sem félli að kjarasamningi tækni- og verkfræðinga.

Þá er í bréfinu fjallað um starfsmatið með þessum orðum:

Í þessu samhengi er því mikilvægt að átta sig á því að í starfsmatinu felst enginn samanburður á mismunandi kjarasamningum, launum eða launatöflum. Niðurstaða starfsmatsins sýnir fyrst og fremst innbyrðis afstætt gildi viðfangsefnanna út frá forsendum viðkomandi matskerfis og þeim upplýsingum, sem koma fram í starfslýsingum og hugsanlega verkvísum séu þeir fyrir hendi.

Eftir stendur samningafrelsið og það mat sem lýst er hér að framan og byggir á allt öðrum forsendum en fram koma í starfsmatinu sjálfu. Þessi staðreynd hefur leitt til mismunandi launakjara milli ákveðinna hópa en alls ekki milli karla og kvenna nema að því marki sem þeir tilheyra sitt hvorum hópnum, og eins og dæmin sýna er þar jafnt á komið með báðum kynjunum.

Akureyrarbær telur að samningsfrelsið og mat á verðmæti starfa út frá markaðslegum forsendum hafi leitt til mismunandi launakjara milli ákveðinna hópa en alls ekki milli karla og kvenna innan sama hóps. Alkunna er að hlutfall kynja innan starfsstétta er mjög misjafnt þannig að hægt er að tala um karla- og kvennastörf. Innlendar rannsóknir sýna að dæmigerð kvennastörf eru að jafnaði verr launuð en dæmigerð karlastörf. Kærunefnd jafnréttismála telur að það markmið jafnréttislaga að konur og karlar njóti sömu launakjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf náist ekki ef launajöfnuðurinn á einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar. Verður því að hafna framangreindum rökum Akureyrarbæjar.

Kærunefndin telur ljóst að verðmæti starfa ráðist af mörgum og ólíkum þáttum svo sem menntunarkröfum, faglegum hæfniskröfum, ábyrgð sem fylgir starfinu, vinnuálagi, mannaforráðum, o.fl. Ef eftirspurn eftir fólki með tiltekna menntun og hæfileika er meira en framboð í langan tíma má vænta þess að bjóða þurfi hærri laun og kann það að hafa varanleg áhrif á mat á verðmæti starfsins. Með þessum hætti má segja að markaðsáhrifa geti gætt varðandi verðmæti starfa.

Svo virðist sem Akureyrarbær hafi gengið að því vísu að betri laun þyrftu að vera í boði til að laða að hæfan starfsmann til að gegna starfi atvinnumálafulltrúa en jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Kærunefndin telur að þetta mat Akureyrarbæjar, sem virðist byggt á markaðssjónarmiðum, hafi ekki verið stutt viðhlítandi rökum. Virðist það fremur hafa ráðist af hefðbundnum viðhorfum um verðmæti dæmigerðra karla- og kvennastarfa en rökstuddri úttekt á því hvaða kjör þyrftu að vera í boði til að fá fólk með tilskilda hæfni og eiginleika til að gegna störfunum. fietta ræður kærunefndin m.a. af því að þvert á mat Akureyrarbæjar virðist hafa gengið mun betur að fá hæfa umsækjendur um starf atvinnumálafulltrúa en jafnréttis- og fræðslufulltrúa, þótt vissulega væru ekki sömu laun í boði.

Þess má einnig geta að í fyrrnefndri áfangaskýrslu um starfsmat kemur fram að markmiðið með starfsmatinu hafi fyrst og fremst verið að samræma launakjör þeirra sem störfuðu hjá viðkomandi sveitarfélögum kjörum í sambærilegum störfum á einkamarkaði, auk þess að samræma innbyrðis kjör starfsfólks sveitarfélaganna. Má því ætla að starfsmat það sem framkvæmt var á störfum atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa hafi m.a. tekið mið af markaðslegum sjónarmiðum.

Samkvæmt framansögðu getur kærunefndin ekki fallist á að umrætt mat Akureyrarbæjar, sem byggt er m.a. á markaðslegum forsendum, taki mati starfsmatsnefndar fram.

 

5. Niðurstaða varðandi mat á verðmæti og sambærileika starfanna.

Kærunefnd gerir sér grein fyrir að erfitt getur verið að bera saman störf í mismunandi starfsgreinum sem krefjast mismunandi menntunar. Sem fyrr segir hefur verið leitast við að framkvæma slíkan samanburð á störfum með starfsmötum sem framkvæmd eru á eins faglegan hátt og unnt er. Eins og áður er frá greint hefur Akureyrarbær raðað starfsmönnum sem taka laun samkvæmt kjarasamningi bæjarins við STAK í launaflokka í samræmi við slíkt starfsmat frá árinu 1975.

Þrátt fyrir þá yfirlýstu skoðun Akureyrarbæjar að starf atvinnumálafulltrúa hafi verið lagt fyrir starfsmatsnefnd í tilraunaskyni verður ekki annað séð af gögnum málsins en að framkvæmd matsins hafi verið á allan hátt sambærileg mati á öðrum störfum hjá bænum, þ.m.t. mati á starfi jafnréttis- og fræðslufulltrúa. Eina frávikið er að fulltrúar STAK í starfsmatsnefndinni tóku ekki þátt í matinu þar sem störfin tilheyrðu ekki kjarasamningi þeirra. Matið var því unnið af fulltrúum Akureyrarbæjar og sérfræðingi nefndarinnar.

Stefna Akureyrarbæjar varðandi launajafnrétti kynjanna er rækilega undirstrikuð í jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 1993-1997 en í grein 2.2.2. segir m.a. svo um starfsaðstæður og kjör:

Við ákvörðun launa og fríðinda skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað, sbr. 4. gr. laga nr. 28/1991. Í því sambandi skal horfa sérstaklega til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.

Málatilbúnaður Akureyrarbæjar í máli þessu þykir stangast á við jafnréttisáætlun bæjarins að þessu leyti.

Sem fyrr segir hefur Akureyrarbær ekki látið starfsmat taka til þeirra starfa sem greitt er fyrir samkvæmt kjarasamningum tæknifræðinga og verkfræðinga. Þá hefur Akureyrarbær kosið að miða launagreiðslur nokkurra embættismanna bæjarins við kjarasamning verkfræðinga án tillits til þess hvort þeir sem starfinu gegna heyri beint undir kjarasamninginn. Á þetta m.a. annars við um starf atvinnumálafulltrúa. Það að Akureyrarbær hefur valið þann kost einhliða að miða launakjör starfsmanna sinna við mismunandi kjarasamninga kemur ekki í veg fyrir að störf þeirra verði borin saman með hliðsjón af hugsanlegu launamisrétti.

Akureyrarbær samþykkti að starf atvinnumálafulltrúa yrði metið af starfsmatsnefnd. Ekki liggur annað fyrir en að starfsmatsnefndin hafi komist að faglegri niðurstöðu eftir þeim sjónarmiðum sem um starfsmat gilda og rakin eru hér að framan. Tilgangur starfsmatsins er að ákveða "verðmæti" starfs út frá hlutlægum mælikvörðum. Í 4. gr. jafnréttislaga segir að konur og karlar skuli njóta sömu kjara og launa fyrir "jafnverðmæt og sambærilegt störf". Með hliðsjón af orðalagi í greinargerð með frumvarpi til jafnréttislaga telur kærunefnd að samskonar mælikvarða beri að leggja á "verðmæti" í 4. gr. laganna og gert er í starfsmati. Þá liggur ekki fyrir að Akureyrarbær hafi mótmælt niðurstöðunni eða reynt að fá henni hnekkt. fiar sem kærunefnd telur starfslýsingar þeirra starfa sem borin eru saman og önnur gögn styðja niðurstöðu starfsmatsins og röksemdir Akureyrarbæjar samkvæmt framansögðu ekki til þess fallnar að hnekkja því, telur kærunefndin að fallast megi á það með kæranda að störf hennar og atvinnumálafulltrúa séu jafn verðmæt og sambærileg í skilningi 4. gr. jafnréttislaga.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu þykir ekki þörf á að bera saman starf kæranda og íþrótta- og tómstundafulltrúa.

 

Samanburður á þeim aðilum sem störfunum gegndu

Kemur þá til álita hvort sá munur sem sannarlega var á kjörum jafnréttis- og fræðslufulltrúa og atvinnumálafulltrúa meðan karlmaður gegndi starfi atvinnumálafulltrúa fram í mars 1997 geti skýrst af sjónarmiðum óháðum kynferði þeirra starfsmanna sem störfunum gegndu. Almennt er viðurkennt að ýmsir þættir svo sem menntun, starfsaldur, dugnaður, sérstök færni og aðrir slíkir þættir sem ekki hafa með kynferði að gera geti réttlætt launamun milli þeirra sem gegna störfum sem talin eru jafn verðmæt og sambærileg.

 

1. Menntun og starfsreynsla atvinnumálafulltrúa og jafnréttis- og fræðslufulltrúa.

Menntunar- og starfsferill kæranda og þess sem gegndi starfi atvinnumálafulltrúa þegar starfsmatið fór fram, er rakinn í 3. og 4. tbl. Sveitarstjórnamála frá árinu 1996. Afrit af umsóknum beggja hafa verið lögð fram í málinu. Samkvæmt þessum gögnum var kærandi ráðin í starfið 1. september 1995. Hún lauk BA-prófi í sögu og mannfræði og námi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 1985 og MA-prófi í sögu og safnfræðum frá New York University árið 1988. Meðan á námi stóð vann hún ýmis verkefni fyrir íslensk söfn. Að námi loknu vann hún m.a. á söfnum í New York. Eftir að heim kom hefur hún sinnt ritstörfum, flutt pistla í útvarp, starfað sem fararstjóri, sett upp ýmsar sögusýningar, veitt minjasöfnum faglega ráðgjöf og sinnt kennslu. Hún var ritstjóri tímaritsins Veru frá 1990 til 1995.

B var ráðinn forstöðumaður atvinnumálaskrifstofu Akureyrarbæjar um miðjan janúar 1996. Hann lauk prófi frá Vélskóla Íslands árið 1977, B.Sc. prófi frá tækniháskólanum í Odense 1985 og M.Sc. prófi í vélaverkfræði frá Álaborgarháskóla árið 1987. Hann starfaði sem vélstjóri á togurum árin 1977 til 1981. Árið 1987 hóf hann störf sem vélaverkfræðingur hjá Sláturfélagi Suðurlands og var deildarstjóri tæknideildar fyrirtækisins frá 1988 til 1996 er hann hóf störf hjá Akureyrarbæ.

Akureyrarbær hefur ekki haldið því fram að launamunur kæranda og atvinnumálafulltrúans hafi ráðist af persónulegum eiginleikum þeirra sem störfunum gegndu. Með hliðsjón af því og framangreindri lýsingu á menntun og starfsreynslu telur kærunefnd jafnréttismála að launamunur á kæranda og atvinnumálafulltrúa hafi ekki verið skýrður með mismunandi kostum þeirra sem störfunum gegndu.

 

2. Eftirspurn eftir starfsmanni - markaðssjónarmið varðandi laun.

Kærunefnd jafnréttismála telur að markaðssjónarmið geti ráðið því að tilteknum starfsmanni séu greidd hærri laun en öðrum sem gegnir jafn verðmætu og sambærilegu starfi hjá sama vinnuveitanda. Sem dæmi um slík markaðssjónarmið má nefna tímabundinn vinnuaflsskort í tiltekinni starfsstétt eða yfirvofandi uppsögn viðkomandi starfsmanns vegna betra atvinnutilboðs.

Því hefur hvorki verið mótmælt af hálfu Akureyrarbæjar að auglýsa hafi þurft starf jafnréttis- og fræðslufulltrúa tvisvar þar sem enginn umsækjenda í fyrra sinnið hafi þótt heppilegur né að sóst hafi verið eftir kæranda til starfa þegar starfið var auglýst öðru sinni. Þá liggur fyrir að umsækjendur um starf atvinnumálafulltrúa haustið 1995 voru 12 og nokkrir þeirra með mjög góða menntun. Akureyrarbær þykir því ekki hafa sýnt fram á það í máli þessu að betri launakjör þess sem gegndi starfi atvinnumálafulltrúa fram í mars 1997 en kæranda hafi ráðist af markaðssjónarmiðum í þessum skilningi.

 

3. Niðurstaða varðandi samanburð á þeim sem störfunum gegndu.

Það er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að launamunur á kæranda og þeim karli sem gegndi starfi atvinnumálafulltrúa fram í mars 1997 hafi hvorki verið skýrður með mismunandi kostum þeirra sem störfunum gegndu né með því að launakjör atvinnumálafulltrúans hafi verið betri af markaðslegum ástæðum.

 

Áhrif þess að kona var ráðin sem atvinnumálafulltrúi í mars 1997

Þegar jafnréttisnefnd Akureyrarbæjar óskaði eftir títtnefndu starfsmati, gegndi karl starfi atvinnumálafulltrúa. Hann lét af störfum í mars 1997 og var kona þá ráðin í starfið. Fram er komið í málinu að hún njóti ekki alveg sambærilegra kjara og forveri hennar.

Það kemur að mati kærunefndar ekki í veg fyrir samanburð á störfum og útilokar ekki að launamisrétti geti verið til staðar milli kvenna og karla að í hefðbundnu karlastarfi fyrirfinnist kona eða karl í hefðbundnu kvennastarfi. Nefndin telur þá staðreynd að Akureyrarbær réði konu í starf atvinnumálafulltrúa veita takmarkaða vísbendingu um að þættir sem ekkert hafi með kynferði að gera hafi ráðið þeim launamun sem var á kæranda og þeim karli sem gegndi starfi atvinnumálafulltrúa frá því að kærandi var ráðin og fram í mars 1997. Af þeirri ástæðu að kona hefur gegnt starfi atvinnumálafulltrúa frá því í mars 1997 telur nefndin sig þó ekki geta fjallað um launamun kæranda og atvinnumálafulltrúa frá þeim tíma.

 

LOKAORÐ

Atvinnurekendum eru samkvæmt jafnréttislögum nr. 28/1991 lagðar ýmsar skyldur á herðar til að ná fram jafnrétti kvenna og karla. Þeim eru m.a. settar skorður varðandi launakjör starfsmanna og samningsfrelsi þeirra þar með nokkuð skert.

Þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga og jafnréttisreglu 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 verður almennt að ætla atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á verðmæti einstakra starfa og ákvörðun launakjara einstakra starfsmanna í atvinnurekstri hans, enda þótt í því mati felist nokkuð frávik frá fræðilegu mati á verðmæti starfanna. Slík frávik verður atvinnurekandi þó að geta réttlætt með vísan til þátta sem ekkert hafa með kynferði að gera og launastefnan þarf einnig að vera sýnileg starfsmönnum.

Kærunefnd jafnréttismála telur að stjórnvöldum, þ.m.t. stofnunum ríkisins og sveitarfélögunum beri enn ríkari skylda en öðrum atvinnurekendum til virða ákvæði jafnréttislaga og vinna eftir markmiðum þeirra. Með samþykkt fyrrnefndrar jafnréttisáætlunar hefur Akureyrarbæjarbær gefið þau fyrirheit að bærinn muni við ákvörðun launa og fríðinda gæta þess að kynjum sé ekki mismunað og í því sambandi horfa sérstaklega til þess að meta jafnt mismunandi starfssvið, reynslu og menntun karla og kvenna.

Fyrir liggur að sá munur sem var á kjörum kæranda og atvinnumálafulltrúans fólst í því að þeim voru greidd laun samkvæmt mismunandi kjarasamningum, fleiri föstum yfirvinnustundum atvinnumálafulltrúans og föstum aksturssamningi sem hann hafði. Kærunefnd jafnréttismála telur nægjanlega fram komið í málinu að sá munur sem var á launum og öðrum kjörum kæranda og atvinnumálafulltrúans hafi fyrst og fremst stafað af því að Akureyrarbær vék faglegu mati starfsmatsnefndar til hliðar og lagði til grundvallar ákvörðun um val á kjarasamningsviðmiðun og heildarlaunakjörum annað mat á verðmæti starfanna, sem kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að ekki hafi verið færð rök fyrir að eigi að ganga framar starfsmatinu. Nefndin telur Akureyrarbæ ekki hafa tekist að sýna fram á að það mat hafi einvörðungu byggst á þáttum sem ekkert hafa með kynferði að gera.

Með hliðsjón af ríkum skyldum Akureyrarbæjar til að stuðla að launajafnrétti, niðurstöðu margnefnds starfsmats og öðru því sem fram er komið, þykja nægjanleg rök vera fyrir hendi til að fella á Akureyrarbæ sönnunarbyrði í máli þessu svo sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga. Akureyrarbæ þykir hvorki hafa lánast að sýna fram á að sá verulegi munur sem var á launum og öðrum kjörum kæranda og atvinnumálafulltrúans skýrist af því að störf þeirra hafi ekki verið sambærileg eða jafn verðmæt, né að karl sá sem gegndi starfi atvinnumálafulltrúa hafi verið hæfari eða verðmætari starfsmaður en kærandi. Verður því að líta svo á að kynferði hafi ráðið þessum mun. Akureyrarbær telst því ekki hafa fylgt 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 við umræddar launaákvarðanir.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að kæranda verði bættur sá munur sem var á launum og öðrum starfskjörum hennar og atvinnumálafulltrúans fram í mars 1997, að því leyti sem hann verður ekki skýrður með þeim óverulega punktamismun sem var á störfunum samkvæmt starfsmatinu, eða að fundin verði önnur lausn sem kærandi sættir sig við.

  

  

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta