Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/1997

Álit kærunefndar jafnréttismála

í málinu nr. 4/1997

   

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 11. desember 1997 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 14. apríl 1997 óskaði A, starfsmaður við tjónauppgjör ökutækja hjá Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort mismunur á launum hennar og karlkyns samstarfsmanns B bryti gegn ákvæðum l. nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, (jafnréttislög).

Erindið var kynnt forsvarsmönnun VÍS og óskað upplýsinga um launakjör þess starfsmanns sem kærandi ber sig saman við, skýringar á launamun milli þeirra, væri hann til staðar, ásamt afstöðu fyrirtækisins til erindisins. Svarbréf VÍS er dags. 29. maí 1997. Með því fylgdi m.a. yfirlit yfir viðveru þessara tveggja starfsmanna, læknisvottvorð vegna slyss sem kærandi varð fyrir og minnisblað frá fyrrverandi starfsmannastjóra. Umsagnir kæranda um svar forsvarsmanna VÍS eru dags. 21. júní 1997. Málsaðilar hafa lagt fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Kærandi hefur m.a. lagt fram vottorð læknis um heilsu sínu, vottorð frá sjúkraþjálfara sínum, nýjar greinargerðir dags. 10. september og 18. september sl. ásamt afriti af orðsendingu nr. 8 frá tjónadeild dags. 12. október 1992 þar sem fram kemur m.a. lýsing á starfi starfsmanna í tjónaskoðunardeild, yfirlýsingu frá C, fyrrverandi starfsmanni VÍS dags. 19. september sl. og yfirlýsingu frá D, yfirmanni tjónaskoðunarstöðvar VÍS einnig dags. 19. september. þá yfirlýsingu hafa forsvarsmenn VÍS einnig lagt fram svo og yfirlýsingu dags. 4. september sl. frá núverandi og fyrrverandi starfsmannastjórum VÍS, yfirlýsingu frá Ö, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá VÍS dags. 18. september, yfirlýsingu frá B, starfsmanni við tjónauppgjör ökutækja dags. 24. september og sundurliðaðar upplýsingar um launakjör kæranda og B.

Kærandi, H, fyrrverandi starfsmannastjóri og S, núverandi starfsmannastjóri VÍS mættu á fund kærunefndar 4. september sl. og greindu nefndinni frá afstöðu sinni til málsins.

 

M Á L A V E X T I R

Kærandi hóf störf hjá VÍS á árinu 1990, fyrst við afleysingar en frá október 1992 hefur hún gegnt fullu starfi í tjónaskoðunarstöð fyrirtækisins. Með henni störfuðu C sem hafði yfirumsjón með starfinu og B. B hóf störf á aðalskrifstofu VÍS í apríl 1991 og á tjónaskoðunarstöðinni í nóvember 1992. Í júlí 1994 var C fluttur á aðalskrifstofu fyrirtækisins en hann lét af störfum hjá VÍS á árinu 1995. Kærandi og B unnu hins vegar í tjónaskoðunarstöðinni við tjónauppgjör ökutækja fram í apríl 1997 að B var fluttur til innan fyrirtækisins. Næsti yfirmaður þeirra var D, yfirmaður tjónaskoðunarstöðvarinnar.

B og kærandi eru bæði með verslunarskólapróf. Hún hefur að auki lokið stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og MFA prófi í höggmyndalist frá listaháskóla í Stokkhólmi.

Í mars 1994 varð kærandi fyrir slysi sem leiddi til þess að hún var frá starfi um tíma. Hún kom aftur til starfa í ágúst 1994, fyrst í hálfu starfi en í fullu starfi frá mars 1995. Eftir að hún hóf fullt starf að nýju var hún frá vinnu vegna sjúkraþjálfunar u.þ.b. hálfan vinnudag vikulega til ársloka 1995 en sjaldnar fyrstu fimm mánuði ársins 1996.

Eftir að C lét af störfum hjá VÍS árið 1995, komst kærandi að því að bæði hann og B höfðu haft hærri laun en hún. Vegna launaleyndar hjá fyrirtækinu fékk hún ekki upplýsingar um launakjör þeirra fyrr. Samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna VÍS voru byrjunarlaun hennar [ X krónur] en hækkuðu í [ X krónur] við fastráðningu í febrúar 1993. Í desember 1996 voru laun hennar komin í rúm [ X krónur]. Kærandi fór fram á launahækkun í byrjun ársins 1997. Henni var boðin 13% hækkun en hafnaði því boði þar sem hún taldi sig með því ekki fá sömu laun og B.

Laun B voru rúmar [ X krónur] í febrúar 1993 en voru komin í rúmar [ X krónur] í desember 1996. Þannig hafði B liðlega 10% hærri laun en kærandi í febrúar 1993 en í desember 1996 hafði sá munur aukist í liðlega 25%. Þessi munur hefði minnkað um helming, ef kærandi hefði þegið boðna launahækkun.

Erindi sitt rökstyður kærandi með því að hún og B hafi frá árinu 1992 til ársins 1997 unnið hliðstæð störf við uppgjör tjóna á ökutækjum í tjónaskoðunarstöð VÍS. Störf þeirra og ábyrgð hafi verið sú sama. Hún, B og C hafi öll hafið störf í tjónaskoðunarstöðinni um svipað leyti eða í október eða nóvember 1992. Henni hafi verið tjáð af þáverandi starfsmannastjóra að þau myndu gegna sömu störfum þ.e. uppgjöri tjónamála. C yrði í forsvari fyrir uppgjörsþættinum gagnvart deildarstjóra tjónadeildar og framkvæmdastjóra einstaklingstryggingasviðs en hún og B ættu að leita til hans með öll vafamál varðandi uppgjör á tjónum. Stöðvarstjóri tjónaskoðunarstöðvarinnar myndi hins vegar hafa umsjón með skrifstofuhaldi. Þegar C hætti hjá tjónaskoðunarstöðinni í júlí 1994 hafi starf þeirra verið komið í ákveðið horf enda um að ræða verkefni sem eðli málsins samkvæmt komi af sjálfsdáðum. Þannig hafi hún og B gengið í störf hvors annars eftir þörfum og hún ekki vitað annað en að þau væru jafnhátt sett hjá fyrirtækinu.

Þeirri skýringu forsvarsmanna VÍS að B hafi verið falin yfirumsjón með starfi þeirra tveggja og þar með aukin ábyrgð, þegar C var fluttur á aðalskrifstofuna mótmælir kærandi. Engin tilkynning í þá veru hafi borist henni frá yfirmönnum fyrirtækisins og starfið hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar. Þá hafi stöðvarstjóra tjónaskoðunarstöðvarinnar, sem jafnframt er yfirmaður B, ekki einu sinni verið kunnugt um slíka ákvörðun. Þetta hafi bæði hann og C sem starfaði hjá fyrirtækinu í rúmt ár eftir flutning frá tjónaskoðunarstöðinni staðfest. Því hafi verið raunhæft að álíta að starf C hafi verið lagt niður.

Kærandi bendir einnig á að hún hafi meiri menntun en B. Bæði hafi lokið verslunarskólaprófi en að auki hafi hún stúdentspróf og MFA gráðu frá sænskum listaháskóla. Þá hafi hún lengri starfsreynslu hjá tryggingafélögum en hún hafi starfað hjá vátryggingafélaginu Tryggingu hf. í sjö ár áður en hún hóf störf hjá VÍS.

Ákvæði kjarasamninga hafi enga þýðingu hér enda hafi hún aldrei haldið því fram að VÍS hafi brotið á sér kjarasamninga. Því er mótmælt að fjarvera hennar vegna slyss sem hún varð fyrir eigi að hafa áhrif á mat á störfum hennar. Hún hafi í einu og öllu farið að fyrirmælum lækna og sjúkaraþjálfara og upplýst yfirmenn sína um gang mála. Henni sé ekki kunnugt um annað en að hún hafi sinnt störfum sínum vel og að viðskiptamenn fyrirtækisins hafi verið ánægðir með þá þjónustu sem hún veitti. Hún hafi aldrei fengið áminningu í starfi og samstarf hennar við yfirmann tjónaskoðunarstöðvarinnar og aðra samstarfsmenn sé gott. Óánægjan nú sé tilkomin vegna þess að hún telji sig sæta mismunun í kjörum en hafi engin áhrif á starf hennar að öðru leyti.

Ástæðu þess að hún hafnaði 13% launahækkun á fyrri hluta þessa árs, segir A vera þá að krafa sín hafi ætíð verið um sambærileg laun við karlkyns samstarfsmenn. Boð forsvarsmanna VÍS hafi ekki tryggt henni þau.

Forsvarsmenn VÍS skýra launamuninn með mismunandi starfsaldri þeirra hjá fyrirtækinu. B hafi hafið störf hjá VÍS í apríl 1991 við afgreiðslu einstaklingstrygginga en kærandi í október 1992. Starfsreynsla hjá öðrum sé ekki metin á sama hátt og starfsreynsla hjá VÍS en komi inn í heildarmat á starfsmanni. Auk þess verði að hafa í huga að kærandi hafi starfað sem gjaldkeri hjá Tryggingu hf. sem sé allt annars konar starf en hún gegni hjá VÍS. B hafi strax sýnt mikla hæfni í starfi sem lýsi sér m.a. í því að yfirmanni hans á einstaklingstryggingasviði hafi fundist mikil eftirsjá í honum þegar hann var fluttur í tjónaskoðunarstöðina. Þá hafi álag á hann aukist mjög vegna fjarveru kæranda í framhaldi af því slysi sem hún varð fyrir í mars 1994. Þegar C hafi látið af störfum í tjónaskoðunarstöðinni í júlí 1994, hafi B verið falin umsjón með skrifstofurekstri stöðvarinnar. Þeirri breytingu hafi ekki fylgt breyting á starfsheiti en launakjör hans hafi í kjölfarið verið endurskoðuð í samræmi við aukna ábyrgð. B hafi sinnt útleigu á barnabílstólum og útboðskerfi fyrir sölu á tjónabílum í afleysingum samhliða aðalstarfi sínu. Starf hans sé því ekki hið sama og kæranda.

Kærandi hafi verið mikið frá vegna slyss sem hún varð fyrir í mars 1994. Eftir að hún hóf störf að nýju hafi hún hvorki farið að fyrirmælum stjórnenda VÍS né læknis um þjálfun vegna endurhæfingar. Fjarvera hennar og fyrirkomulag sjúkraþjálfunar hafi verið með þeim hætti að óhjákvæmilegt sé annað en það hafi áhrif á heildarmat yfirmanna á starfshæfni hennar. Í reynd hafi komið til tals að segja henni upp störfum vegna þessa.

Kærandi hafi síðan sótt um launahækkun í byrjun ársins 1997 en afgreiðslu erindis hennar hafi verið frestað m.a. vegna yfirstandandi kjarasamninga. Þegar það síðan hafi verið tekið til afgreiðslu, hafi legið fyrir mat yfirmanns tjónaskoðunarstöðvarinnar sem mælt hafi með launahækkun. Kærandi hafi hins vegar hafnað þeirri launahækkun sem henni var boðin. Þá hafi í annað sinn komið til tals að segja henni upp störfum vegna augljósrar og yfirlýstrar óánægju hennar með kjör sín og það fyrirtæki sem hún starfi hjá og hvernig hún brást við boði um launahækkun. Uppsögnin hefði komið til framkvæmda ef ekki hefði komið til kæra hennar til kærunefndar jafnréttismála.

VÍS telji rétt og í reynd óhjákvæmilegt að greiða starfsfólki laun í samræmi við frammistöðu þess og hæfni. Fyrirtækið hafi ekki brotið kjarasamning á kæranda, hvorki launalið hans né félagslega þætti. Starfsfólk, þ.m.t. kærandi og B fái greidd laun langt umfram lágmarkstaxta kjarasamninga. Í starfsliði fyrirtækisins séu margir einstaklingar með ólíkan bakgrunn, kunnáttu og færni. Fullyrt er að kynferði hafi engin áhrif á ákvörðun launa heldur sé byggt á reynslu, frumkvæði, framkomu og frammistöðu í starfi. Sá munur sem var á launum A og B skýrist af þeim þáttum en ekki kynferði þeirra.

 

N I Ð U R S T A Ð A

Samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991 er tilgangur þeirra að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðun þeirra m.a. um launakjör starfsmanna.

Í 4. gr. jafnréttislaga segir að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns aðra þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.

Launamisrétti vegna kynferðis telst því vera til staðar ef störf eru jafn verðmæt og sambærileg, verði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem hafa ekkert með kynferði að gera.

Kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi benda sterklega til þess að konum séu að meðaltali greidd lægri laun en körlum fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. Erfitt getur hins vegar verið að sýna fram á í einstökum tilvikum að kynferði ráði launamun milli konu og karls. Launamuninn má m.a. rekja til rótgróinna viðhorfa um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Kærandi hefur í máli þessu kosið að bera starf sitt og launakjör saman við starf og launakjör B hjá VÍS. Hún telur störfin fullkomlega jafn verðmæt og sambærileg og að sá munur sem var á launum þeirra hjá fyrirtækinu verði ekki skýrður með því að hann hafi sýnt meiri hæfni en hún í starfinu.

Fyrir liggur að bæði kærandi og B voru yfirborguð m.v. kjarasamninga og því koma þeir ekki til sérstakrar skoðunar í máli þessu.

Kærunefnd jafnréttismála hefur fengið upplýsingar um laun þeirra aðila sem bornir eru saman og kærandi hefur ekki borið brigður á að þær séu réttar. Hvorugur aðila hefur óskað eftir að laun annarra starfsmanna VÍS væru skoðuð eða borin saman við laun kæranda og B. Kærunefnd ákvað því að krefjast ekki frekari upplýsinga um launagreiðslur hjá fyrirtækinu.

Sem fyrr segir voru laun kæranda frá fastráðningu í febrúar 1993 og þar til B fékk launahækkun í árslok 1995 liðlega 10% lægri en hans. Frá því hann fékk launahækkunina og þar til hann var fluttur til í starfi innan fyrirtækisins í apríl 1997 voru laun hans hins vegar um 25% hærri en hennar. Kæranda var sem fyrr segir boðin um 13% launahækkun í apríl 1997. Hefði kærandi ekki hafnað launahækkuninni hefði launamunurinn minnkað um helming.

Laun B voru því óumdeilanlega hærri en laun kæranda allt frá því að þau hófu bæði störf í tjónaskoðunarstöð VÍS í október og nóvember 1992 og þar til B lét af störfum þar í apríl 1997. Kærandi telur að þar sem störf þeirra hafi verið sambærileg og jafn verðmæt hafi VÍS brotið jafnréttislög með því að greiða henni lægri laun en B. Mótrök VÍS lúta annars vegar að því að störf kæranda og B hafi ekki verið sambærileg og hins vegar að því að launamunurinn byggist á mismunandi frammistöðu þeirra og hæfni.

 

Sjónarmið varðandi launamun.

Við mat á því hvort jafnréttislög hafi verið brotin á kæranda með því að greiða B hærri laun en henni er til margra atriða að líta.

1. Skuldbindingargildi samninga og samningafrelsi.

A samdi við VÍS um [ X krónur] mánaðarlaun. Hún heldur því fram að sér hafi verið sagt að launin mætti endurskoða þegar fram í sækti. Hún kveðst hins vegar í upphafi hafa sett fram kröfu um [ X krónur] mánaðarlaun. Af hálfu VÍS hefur ekki verið við það síðastnefnda kannast.

Þann skilning verður að leggja í 1. mgr. 4. gr. jafnréttislaga að atvinnurekendur geti almennt ekki ráðið konu til að gegna sambærilegum og jafn verðmætum störfum og karlar gegna hjá fyrirtækinu gegn lægri launum, enda sé konan jafn hæf og karlarnir til að gegna starfinu. Störfin og hæfi starfsmannanna verður ennfremur að meta eftir fyrirfram ákveðnum, gagnsæjum mælikvarða sem ekki halli á konur. Með setningu jafnréttislaga setti löggjafinn samningarfrelsi því nokkrar skorður.

2. Markaðsverð starfsmanna.

Kærunefnd jafnréttismála telur að ekki sé hægt að réttlæta lægri laun konu en karls með þeim rökum að konur séu almennt verðminni starfskraftur og að launa þurfi karla betur svo að atvinnurekandi missi ekki hæfa starfsmenn til annars atvinnurekanda. Gegn þessu misrétti var jafnréttislögum stefnt. Í einstökum tilvikum getur verið réttlætanlegt að bjóða einum starfsmanni hærri laun en öðrum af gagnstæðu kyni, sem gegnir sambærilegu starfi, til að fá hann til starfa eða halda honum. Þetta á m.a. við þegar starfsmaður býr yfir þekkingu eða hæfni sem nýtist í starfinu og er fyrirtækinu nauðsynleg eða mjög verðmæt. Launamunur í slíkum tilvikum getur því verið réttlætanlegur, svo framarlega sem starfsmaður af gagnstæðu kyni búi ekki yfir jafn verðmætum eiginleikum. Kærunefndin telur því að markaðssjónarmið geti réttlætt launamun en að atvinnurekandi verði að sýna fram á að slík sjónarmið hafi ráðið í einstökum tilvikum og að þau skýri launamuninn að fullu.

3. Glatar starfsmaður rétti til að bera fyrir sig launamisrétti með því að sækja ekki um launahækkun.

Fyrir liggur að launaleynd hjá VÍS gerði það að verkum að kæranda gekk illa að fá upplýsingar um launakjör samstarfsmanna sinna. Þannig kveðst hún ekki hafa fengið upplýsingar um launakjör C fyrr en hann hafði látið af störfum. Hún hafi ekki talið sig geta borið laun sín saman við hans sökum meiri menntunar hans. Kærandi kveðst hins vegar ekki hafa fengið upplýsingar um launakjör B fyrr en á árinu 1997 og þá hafist handa við að fá kjör sín leiðrétt. Þegar það tókst ekki hafi hún kært málið til kærunefndar jafnréttismála.

Ekki hafa verið bornar brigður á þessar fullyrðingar kæranda og verður það því ekki metið henni til réttarspjalla að hún hafði ekki uppi kröfu um launahækkun fyrr en í janúar 1997.

Í þessu máli er ekki tilefni til að taka afstöðu til þess hvort atvinnurekanda sem hefur hækkað laun starfsmanns beri að bjóða starfsmanni af gagnstæðu kyni sem vinnur sambærilegt og jafn verðmætt starf og býr yfir sambærilegum eiginleikum og hæfni, sömu launahækkun. Kærunefnd telur þó að í fyrirtækjum þar sem launaleynd ríkir og launakerfið er algerlega ógagnsætt leggi jafnréttislög atvinnurekendum þá skyldu á herðar að taka laun stafsmanna reglulega til endurskoðunar með hliðsjón af jafnrétti kynja og samræma laun þeirra sem sömu laun ber. Má í þessu sambandi benda á ákvæði 5. gr. jafnréttislaga sem leggur atvinnurekanda þá skyldu á herðar að vinna að jafnri stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns.

 

Voru störf kæranda og B sambærileg og jafn verðmæt.

Fyrst verður fjallað um hvort störf kæranda og B hafi verið sambærileg og jafn verðmæt. Gerð verður grein fyrir helstu sjónarmiðum VÍS sem að þessu lúta, mótrökum kæranda og afstöðu kærunefndarinnar til þeirra.

1. Álag á B hafi aukist mjög vegna fjarveru A í framhaldi af slysi því sem hún varð fyrir í mars 1994.

Fyrir liggur að ekki var bætt við starfsmanni í tjónaskoðunarstöð þegar A varð fyrir slysinu í mars 1994. Því er eðlilegt að álykta að álag á B hafi aukist þar sem aðeins tveir starfsmenn gegndu starfi þriggja. Ekki er upplýst í málinu hvort þessu aukna álagi var mætt með yfirvinnugreiðslum eða öðrum hætti meðan á því stóð. C lét síðan af störfum í tjónaskoðunarstöð í júlí 1994. Í yfirlýsingu D frá 19. sept. 1997 er eftirfarandi upplýsingar að finna:

Þegar C hættir hjá mér í maí (sic) 1994 var skrifstofureksturinn kominn í ákveðið horf og fastan farveg.

Má því ætla að álag á starfsmenn hafi verið farið að minnka þar sem ekki var ráðinn annar maður í stað C þótt kærandi væri enn forfölluð vegna slyss. Kærandi kom síðan aftur til starfa í byrjun ágúst í hálft starf. Laun B voru ekki hækkuð fyrr en í árslok 1995, löngu eftir að kærandi var komin til starfa að fullu. Ekki virðist vera tímalegt samhengi milli aukins álags á A vegna slyss kæranda og ákvörðunar um að hækka laun hans, en hann virðist hafa notið þessa við endurskoðun launanna.

Kærunefnd getur fallist á að eðlilegt hafi verið að B nyti aukins álags vegna slyss kæranda með yfirvinnugreiðslum eða tímabundinni álagsgreiðslu. VÍS þykir hins vegar ekki hafa sýnt fram á að álag á B hafi verið meira en á kæranda eftir að hún var komin í fullt starf, enda hlaut fækkun starfsmanna að valda þeim báðum auknu álagi. Kærunefnd jafnréttismála getur þ. a. l. ekki fallist á að tímabundið aukið álag á B hafi gert starf hans verðmætara en starf kæranda og hafi þar með réttlætt varanlegan launamun þeirra.

2. Þegar C hafi látið af störfum í tjónaskoðun í júlí 1994 hafi B verið falin umsjón með skrifstofurekstri stöðvarinnar.

Þessu til stuðnings hefur verið lögð fram svohljóðandi yfirlýsing B dags. 24. sept. 1997:

Eftir að starfsmannastjóri VÍS kynnti mér það kærumál sem kærunefnd hefur nú til meðferðar óska ég eftir að eftirfarandi komi fram.

Ég get með góðri samvisku staðfest að þegar C hætti störfum í tjónaskoðunarstöð VÍS, fór Ö þáverandi framkvæmdastjóri fram á það við mig að ég gengi í störf C sem og ég gerði.

Eftir að hafa sinnt þessu starfi um tíma og reynsla var komin á þetta fyrirkomulag voru laun mín endurskoðuð til hækkunar.

Jafnframt vil ég benda á að C hætti mjög snögglega að starfa í tjónaskoðunarstöð VÍS, og um svipað leyti var A mikið frá störfum vegna bílslyss sem hún hafði lent í skömmu áður.

Einnig hefur af hálfu VÍS verið lögð fram yfirlýsing, dags. 18. sept. 1997, frá Ö sem starfaði sem framkvæmdastjóri einstaklingstrygginga hjá VÍS á þeim tíma sem B var veitt launahækkun:

Í framhaldi af beiðni S starfsmannastjóra VÍS hef ég sett eftirfarandi á blað í tilefni erindis A til kærunefndar jafnréttismála.

Á þeim tíma er atburðir þeir gerðust sem kæra A fjallar um gegndi ég starfi framkvæmdastjóra einstaklingstrygginga hjá VÍS og var Tjónaskoðun VÍS í Kópavogi m.a. undir minni umsjón. Rétt er að fram komi, að launamál einstakra starfsmanna VÍS eru trúnaðarmál milli starfsmannsins og VÍS. Vitneskju um kjör einstaka starfsmanna hafa einungis forstjóri, starfsmannastjóri og framkvæmdastjóri.

Er C fluttist úr starfi í Tjónaskoðun, en þar gegndi hann starfi staðgengils stöðvarstjóra og hafði yfirumsjón með skrifstofuþætti starfseminnar, var ákveðið að ráða ekki mann í hans stað, heldur gera skipulagsbreytingar sem leysa áttu verkþætti þá sem vinna þurfti. Í því sambandi var ákveðið að fela B aukna ábyrgð og var ljóst, að aukið álag fylgdi því skipulagi sem ákveðið var að vinna eftir. Af þeim ástæðum var ákveðið að hækka laun B, án þess þó að því fylgdi formleg stöðuhækkun. Á þessum tíma var jafnframt óvenjumikið álag á starfsmönnum stöðvarinnar þar sem m.a. veikindi A juku á vinnuálagið.

Starfsemi stöðvarinnar gekk vel í framhaldinu, og er þar ekki síst að þakka óeigingjörnu og fórnfúsu starfi B. Hygg ég að ákvörðun mín um að fela honum aukna ábyrgð og umbuna honum með launahækkun, hafi verið rétt.

Að lokum vil ég upplýsa, að A nýtur góðs álits hjá mér. Hún reyndist mér hreinskiptin og var forkur til vinnu það best ég veit, enda þótt aðrar ástæður yllu því, að starfsframi hennar varð ekki sem skyldi.

Fyrir liggur svohljóðandi yfirlýsing D yfirmanns tjónaskoðunarstöðvar VÍS, dags. 19. sept. 1997:

Það staðfestist hér með að 1989 þegar ég var ráðinn til þess að stofnsetja og stjórna tjónaskoðunarstöð VÍS í Kópavogi var þar einungis um tæknilega tjónaskoðun að ræða.

Þegar skrifstofurekstur starfseminnar jókst samhliða því að við fórum að kaupa og selja bíla í tjónaskoðunarstöðinni, jókst starfsemin að mun. Þá var eðlilega ákveðið að ráða starfsmenn til skrifstofustarfa þau A og B, og C til að hafa yfirumsjón með skrifstofuþætti starfseminnar.

Þegar C hættir hjá mér í maí (sic) 1994 var skrifstofureksturinn kominn í ákveðið horf og fastan farveg.

Framkvæmdastjóri einstaklingstryggingasviðs hefur síðan ákveðið að B tæki að sér ábyrgð á skrifstofuhlutanum. Það kemur nú á daginn að þetta var gert án minnar vitundar.

Þá liggur einnig fyrir svohljóðandi yfirlýsing C, dags. 19. sept. 1997: Ég undirritaður C ... og fyrrum starfsmaður Vátryggingafélags Íslands hf. staðfesti að engar yfirlýsingar hvorki munnlegar né skriflegar komu frá stjórnendum félagsins þess efnis að einhver starfsmaður hafi tekið við stjórnunarstöðu minni í tjónaskoðunarstöð félagsins, enda var hún lögð niður. Ég starfaði hjá félaginu í rúmt ár eftir að starfi mínu á tjónasviðinu lauk þannig að mér hefði átt að vera kunnugt um starfstilhögun og skipurit fyrirtækisins.

Eina gagnið sem fram hefur verið lagt í málinu og er sagt stafa frá þeim tíma sem launahækkunin var veitt er svohljóðandi minnisblað frá 27. okt. 1995, merkt sem trúnaðarmál:

Efni: B.

Hefur verið í sambandi við Ö út af launamálum sínum.

Ö bað mig að skoða þetta.

Ræddum saman í dag. Ö leggur til að B verði færður upp að (texti ólæsilegur vegna útstrikunar) í launum. Segir B vera einn af sínum bestu mönnum í dag sem slæmt væri að missa. Segir hann nánast halda utan um skrifstofuhaldið í tjónaskoðunarstöðinni.

B er með þessi laun í dag:

Mánaðarlaun [ X krónur]

Önnur laun [ X krónur]

Bílastyrk kr. 16.750

Samtals [ X krónur] [ X krónur] 11%

27/10/95/HF Samþ.

Rétt ljósrit staðfest:

H.

fyrrv. starfsmannastj.

S

Stm.stj.

 

Kærandi hefur alfarið neitað að hún hafi vitað um meinta stöðu B gagnvart henni á tjónaskoðunarstöðinni.

Yfirlýsingar Ö og B þess efnis, að breytingar hafi verið gerðar á stöðu B sem starfsmanns tjónaskoðunarstöðvar eftir að C lét af störfum þykja afar ótrúverðugar í ljósi þess að kærandi, D og C, sem áfram starfaði hjá VÍS, virðast hvorki hafa verið upplýst um stöðubreytinguna né gert sér grein fyrir henni. Virðist minnisblaðið og yfirlýsingar yfirmanna VÍS þannig fyrst og fremst vera til þess gerðar að rökstyðja þá launahækkun sem B var veitt í árslok 1995. Þegar gögn málsins og þá sérstaklega yfirlýsing D, eru virt í heild verður að telja að VÍS hafi ekki tekist að gera sennilegt að slíkar breytingar hafi orðið á starfi B að staða hans hafi eftir þær talist ósambærileg stöðu kæranda og starf hans verðmætara en hennar.

Í minnisblaðinu er látið að því liggja að fyrirtækið vildi ekki missa B. Gögn málsins bera ekki með sér að slík hætta hafi verið yfirvofandi og verður því ekki frekar um það fjallað.

3. B hafi sinnt útleigu á barnabílstólum og útboðskerfi fyrir sölu á tjónabílum í afleysingum samhliða starfi sínu.

Kærandi hefur ekki borið á móti því að B hafi séð um þessa þætti. Hún hefur hins vegar haldið því fram að þau B hafi gengið í störf hvors annars eftir þörfum og hún ekki vitað til annars en að þau væru jafnhátt sett hjá fyrirtækinu. Þá telur hún sig hafa verið eina starfsmann tjónaskoðunarstöðvarinnar sem gengið gat í öll störf.

Ekki verður séð að útleiga á barnabílstólum eða annað það sem VÍS heldur fram að B hafi sinnt sérstaklega séu störf sem séu erfiðari eða krefjist meiri kunnáttu en þau störf sem B og kærandi sinntu að öðru leyti. Verður því ekki fallist á þessar röksemdir VÍS fyrir því að starf B hafi verið verðmætara en kæranda.

 

Niðurstaða um sambærileika starfa.

Kærandi þykir hafa fært fram veigamikil rök fyrir því að starf hennar hafi verið sambærilegt og jafn verðmætt starfi B. Yfirlýsing yfirmanns tjónaskoðunarstöðvarinnar styður eindregið að svo hafi verið. Hér að ofan hefur verið sýnt fram á að sú meginröksemd VÍS að B hafi verið veitt stöðuhækkun réttlæti ekki launamun þar sem hin meinta stöðubreyting hafði ekki meiri áhrif á starfið en svo að samstarfsmenn hans virðast ekki hafa um hana vitað. Þá er það einnig niðurstaða nefndarinnar að tímabundið álag á B vegna slyss kæranda leiði ekki til þess að störf aðila teljist ekki sambærileg. Með vísan til þessa og framangreindra raka undir tölulið 1-3 hér að framan verður að leggja til grundvallar að störf aðila teljist sambærileg og jafn verðmæt í skilningi 4. gr. jafnréttislaga.

Þar sem launakerfi VÍS er algerlega ógagnsætt telur kærunefnd að VÍS eigi á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga að bera sönnunarbyrðina fyrir því að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið þeim launamun sem var á kæranda og B. Með vísan til rökstuðnings undir liðum 1-4 hér að framan þykir nefndinni VÍS ekki hafa sýnt fram á að sá launamunur sem var á kæranda og B verði réttlættur með þeim rökum sem VÍS hefur teflt fram í máli þessu.

 

Samanburður á frammistöðu og hæfni kæranda og B.

Rök VÍS lúta einnig að því að rétt sé og óhjákvæmilegt að greiða starfsfólki laun í samræmi við frammistöðu þess og hæfni. Kynferði hafi þannig engin áhrif á ákvörðun launa heldur sé byggt á reynslu, frumkvæði, framkomu og frammistöðu í starfi.

Kærunefnd jafnréttismála fellst á að fyrirtæki geti greitt einstaklingum mishá laun fyrir störf sem telja verður sambærileg og jafn verðmæt ef launamunurinn byggist á fyrirfram skilgreindum og gagnsæjum viðmiðunum. Slíkur launamunur verður að byggjast á mælikvörðum sem ekki eru fallnir til þess að mismuna kynjunum og þeir verða auk þess að vera starfsmönnum ljósir þannig að sjá megi á hvaða rökum launamunur í fyrirtækinu er reistur og með hvaða hætti starfsmenn geta áunnið sér launahækkun.

Af þeim upplýsingum sem fram hafa komið af hálfu VÍS verður sú ályktun dregin að hjá fyrirtækinu sé ekki rekin launastefna sem byggist á fyrirfram mótuðum og gagnsæjum mælikvörðum. Hjá fyrirtækinu ríkir launaleynd og starfsmenn hafa afar takmarkaða möguleika á að kynna sér hvaða atriði hafa áhrif þegar laun þeirra eru ákveðin og þar með launahækkanir. Skýringar þær sem VÍS hefur gefið á launamun kæranda og B virðast þannig hafa verið mótaðar í tengslum við kærumál þetta.

Þar sem nefndin getur ekki lagt mat á launastefnu VÍS út frá fyrirliggjandi gögnum um hvaða eiginleikar starfsmanna og aðrir þættir hafa áhrif á laun þeirra og með hliðsjón af 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga verður að leggja á VÍS þá byrði að sýna fram á að launamunur kæranda og B hafi byggst á öðru en kynferði.

VÍS hefur bent á nokkur atriði þessu til stuðnings.

1. B hafi lengri starfsreynslu en kærandi hjá VÍS. Starfsreynsla hjá öðrum aðilum sé ekki metin á sama hátt og starfsreynsla hjá VÍS. Kærandi hafi starfað sem gjaldkeri hjá Tryggingu hf. en það hafi verið allt annars konar starf en það sem hún gegni hjá VÍS.

Kærunefnd telur að starfsreynsla innan fyrirtækis geti réttlætt launamun milli starfsmanna sem vinna sambærileg og jafn verðmæt störf. Starfsmaður með lengri starfsaldur er almennt líklegri til að búa yfir meiri hæfni til að gegna starfi og er þar með fyrirtækinu verðmætari en sá sem skemur hefur starfað.

Kærunefnd telur að réttlætanlegt geti verið af hálfu fyrirtækis að semja við starfsmann um tiltekin byrjunarlaun á reynslutíma eða því tímabili sem það tekur starfsmanninn að sanna sig í starfi. Kærunefnd hefur ekki haft tök á að kanna til fullnustu eðli gjaldkerastarfs þess hjá Tryggingu hf. sem kærandi gegndi í 7 ár. Þó verður að ætla að það hafi gefið nokkra innsýn í starfsemi tryggingarfélags. Telja verður að störf kæranda hjá öðru tryggingarfélagi, hjá VÍS í sumarleyfum og jólaleyfum frá skóla árin 1990 og 1991, að viðbættri meiri menntun en B hafi að reynslutíma liðnum vegið fyllilega upp á móti því eina og hálfa ári sem B hafði unnið við afgreiðslu einstaklingstrygginga hjá VÍS áður en þau hófu bæði störf í tjónaskoðunarstöðinni. Kærunefnd telur því að starfsaldursmunur kæranda og B hjá VÍS réttlæti ekki launamun milli þeirra.

2. B hafi sýnt mikla hæfni í starfi sem lýsi sér m.a. í því að yfirmanni hans á einstaklingstryggingasviði hafi fundist mikil eftirsjá í honum þegar hann var fluttur í tjónaskoðunarstöðina.

Kærunefnd telur að þarna vanti samanburð við hæfni kæranda. Báðum hefur verið lýst sem hæfum starfsmönnum en ætla má að almennt sé eftirsjá af slíkum starfsmönnum úr starfi sem þeir hafa náð góðum tökum á. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að starfið á einstaklingstryggingarsviði hafi krafist meiri hæfni en starfið í tjónaskoðunarstöð. Kærunefnd telur að þessi röksemd VÍS geti því ekki réttlætt launamun milli kæranda og B.

3. Kærandi hafi verið mikið frá vegna slyss sem hún varð fyrir í mars 1994 og hvorki farið að fyrirmælum stjórnenda VÍS né læknis um þjálfun vegna endurhæfingar. Fjarvera hennar og fyrirkomulag sjúkraþjálfunar hafi verið með þeim hætti að óhjákvæmilegt hafi verið að það hefði áhrif á heildarmat yfirmanna á starfshæfni hennar. Kærandi hefur hins vegar haldið því fram að hún hafi í einu og öllu farið að fyrirmælum lækna og sjúkraþjálfara og upplýst yfirmenn sína um gang mála.

Telja verður með öllu ósannað að fjarvera kæranda í kjölfar slyssins og endurhæfing hennar eftir slysið hafi verið með þeim hætti að það ætti að koma niður á launum hennar eða koma í veg fyrir launahækkanir. Eins og fyrr er frá greint voru laun B 10% hærri en kæranda áður en hún lenti í slysinu. Sá launamunur verður ekki réttlættur með meintri framkomu kæranda eftir slysið. VÍS var frjálst að hækka laun B. Samkvæmt grundvallarmarkmiði jafnréttislaga hefðu laun kæranda hins vegar einnig átt að hækka þegar hún hafði náð fullum bata.

4. B hafi verið liprari í framkomu við viðskiptavini VÍS en A.

Þessari fullyrðingu hefur kærandi hafnað og kveður engar kvartanir hafa verið gerðar vegna sinna starfa. Kærunefnd jafnréttismála er ljóst að slíkar fullyrðingar sem byggjast á huglægum sjónarmiðum er erfitt að sanna og enn erfiðara að afsanna. Þær kröfur verður þó að gera til þess aðila sem slíkri fullyrðingu heldur fram að einhverjar líkur séu leiddar að réttmæti hennar, svo sem með vætti samstarfsmanna, kvörtunum viðskiptavina eða sannanlegum aðfinnslum yfirmanna.

Fyrir liggur að yfirmaður kæranda hjá tjónaskoðunarstöðinni hefur talið hana hæfan starfsmann. Ekki hafa verið lögð fram í málinu gögn um kvartanir vegna starfa hennar hjá VÍS og ekki hefur verið fundið að störfum hennar að þessu leyti af yfirmönnum. Þá virðist óánægja með hana og hugleiðingar um uppsögn úr starfi fyrst og fremst sprottnar af óánægju hennar með launakjör sín. Kærunefnd telur ofangreinda fullyrðingu VÍS ósannaða og því ekki rök fyrir launamun milli kæranda og B.

 

Niðurstaða um frammistöðu og hæfni.

Með vísan til 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga og þar sem launakerfi VÍS er algerlega ógagnsætt telur kærunefnd að VÍS eigi, að bera sönnunarbyrðina fyrir því að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið þeim launamun sem var á kæranda og B. Með vísan til rökstuðnings undir liðum 1-4 hér að framan þykir kærunefnd VÍS ekki hafa sýnt fram á að sá launamunur sem var milli kæranda og B verði réttlættur með þeim rökum sem VÍS hefur teflt fram í máli þessu.

 

Niðurstaða málsins.

Kærunefnd jafnréttismála telur því að VÍS hafi hvorki fært að því viðhlítandi rök að sá munur sem var á launum kæranda og B hafi verið til kominn vegna þess að störf þeirra hafi ekki verið sambærileg eða jafn verðmæt né að B hafi verið hæfari eða verðmætari starfsmaður en kærandi samkvæmt þeim viðmiðunum sem leggja verður til grundvallar við slíkt mat.

Með vísan til framangreindra raka verður því að líta svo á að kynferði hafi ráðið þeim launamun sem var á kæranda og B. VÍS telst því hafa brotið gegn 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til VÍS að kæranda verði bættur sá launamunur sem var á henni og að framan hefur verið lýst.

 

 

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta