Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 36/2001

Þriðjudaginn, 26. febrúar 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 21. ágúst 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá Heru Ósk Einarsdóttur, félagsráðgjafa, vegna A, dags. 15. ágúst 2001. A hefur í framhaldi af því séð um málið sjálf.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 16. maí 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og með bréfi, dags. 21. maí 2001, var kæranda tilkynnt um synjun varðandi lengingu fæðingarorlofs.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"A skilaði með umsókn sinni skólavottorði fyrir vorönn 2000 en þá var hún í fullu námi. Einnig skilaði hún inn vottorði frá atvinnurekenda en A var í fullu starfi frá október til desember 2000, en þá sagði hún upp störfum vegna veikinda. Í kjölfarið var A sjúkraskrifuð og óvinnufær fram að fæðingu. Vegna veikinda á meðgöngu sinni náði A ekki samfelldu 6 mánaða tímabili á vinnumarkaði. Við afgreiðslu umsóknar er væntanlega tekið tillit til þeirra fjarveru sem slík veikindi orsaka, en A fékk greidda hálfa sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun í veikindum sínum.

Í ljósi þessa er lögð fram beiðni um að fyrri ákvörðun um að A fái eingöngu greiddan fæðingarstyrk í stað fæðingarorlofs verði endurskoðuð og A úrskurðuð greiðsla fæðingarorlofs miðað við 50-100 % starf."

Með bréfi, dags. 22. nóvember 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 22. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:

"A fæddi barn sitt þann 3. apríl 2001. Til að uppfylla skilyrði um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði hún þurft að vera samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 eða frá 3. október 2000. Starfshlutfall hvers mánaðar hefði þurft að nema a.m.k. 25% skv. 2. mgr. 7. gr. laganna.

Í kærunni er því lýst yfir að A hafi verið í fullu starfi frá því í október 2000. Fyrir liggur yfirlýsing frá B um að hún hafi verið í starfi þar frá 1. september til 31. desember 2000. Greiðslur sjúkradagpeninga hófust þó 11. desember. Samkvæmt upplýsingum úr skrám Ríkisskattstjóra var A með tekjur hjá C í október, nóvember og desember, en var tekjulaus mánuðina þar á undan að frátöldum greiðslum úr lífeyrissjóði. Þessar upplýsingar eru í samræmi við launaseðla sem A lagði fram með umsókn sinni um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Að öllum gögnum virtum virðist því mega draga þá ályktun að hún hafi ekki verið á vinnumarkaði í september. Samkvæmt framlögðum launaseðli fyrir októbermánuð 2000 voru vinnustundir A í þeim mánuði 16. Því má ljóst vera að ekki var um 25% starf að ræða í þeim mánuði. Þegar af þeirri ástæðu var ekki grundvöllur til annars en að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 er heimild til að lengja fæðingarorlof konu um allt að 2 mánuði, sé henni nauðsyn að leggja niður launuð störf á meðgöngu af heilsufarsástæðum, Um greiðslur samkvæmt ákvæðinu fer skv. 13. gr. laganna, sem þýðir að þær eru bundnar skilyrðinu um undanfarandi 6 mánaða samfellt starf. Þar sem það skilyrði er ekki uppfyllt, sbr. ofangreint, var ekki hægt að verða við beiðni A um greiðslu á þessu tímabili.

Í kæru er greint frá því að sjúkradagpeningar hafi verið stöðvaðir 28. febrúar 2001 með vísun til þess að lenging greiðslna í fæðingarorlofi tæki þá við. Einnig að A hafi orðið að skila starfslokavottorði án þess að vera upplýst um áhrif þess á réttindi til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Af ofanrituðu má sjá að hvorugt þessar atriða hafa úrslitaáhrif á niðurstöðu málsins. Afgreiðsla sjúkradagpeninga heyrir hvorki undir Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála né lífeyristryggingasvið, og verður því ekki fjallað um hana hér. Þess má þó geta að lífeyristryggingasvið hefur gert sjúkratryggingasviði viðvart um málið og verður réttur A til greiðslna sjúkradagpeninga frá 1. mars 2001 kannaður. Komi í ljós að hún hafi átt frekari rétt verða greiðslur lagfærður eða hún látin vita, þurfi hún að leggja fram frekari gögn."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. janúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Engar athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í máli kæranda er framangreint sex mánaða viðmiðunartímabil talið frá október 2000. Þær vinnustundir sem kærandi innir af hendi í októbermánuði verða ekki taldar jafngilda 25% starfi í þeim mánuði. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði um samfellt starf á sex mánaða tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þar af leiðandi hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með hliðsjón af framangreindu var engin heimild til þess að framlengja fæðingarorlof móður vegna veikinda hennar á meðgöngu, þar sem það kemur eingöngu til þegar viðkomandi á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta