Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 42/2001

Þriðjudaginn, 18. desember 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 3. september 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A ódagsett.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. maí 2001, var kæranda tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar varðandi greiðslur í fæðingarorlofi.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:

"Telja verður að reikna beri mismunandi hluta fæðingarorlofs - eins og aðilar ráðningarsamnings hafa samið um að skipta því (allt að viku í senn, sbr. 2. ml. 2. mgr. 10. gr. ffl.) - sjálfstætt til greiðslna miðað við 12 mánaða samfellt tímabil á undan sem lýkur tveimur mánuðum áður en hver hluti fæðingarorlofs hefst.

Bent er á að sveigjanleikinn sem hér er nýttur er sérstaklega lögheimilaður og að lögum aðeins bundinn vikulágmarki skv. 2. ml. 2. mgr. 10. gr. ffl. ásamt því að síðasti/síðari hluti fæðingarorlofs skuli hefjast áður en barn nær 18 mánaða aldri. Á svo löngum tíma verða nánast alltaf einhverjar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Útreikningur TR og lagatúlkun sú sem útreikningurinn byggir á skerðir því stórlega raunverulega (de facto) möguleika launafólks til þess að nýta sér sveigjanleika laganna (de jure) með samningi við atvinnurekendur. Útreikningsviðmiðið fer því jafnframt í bága við markmið laganna um stóraukinn sveigjanleika til töku fæðingarorlofs og samræmingar atvinnuþátttöku og fjölskylduábyrgðar, sbr. 2. gr. ffl. og 2. mgr. 10. gr. ffl. Þá fer lagatúlkun TR í bága við eldri reglur og samningsfrelsi aðila ráðningarsamnings og forræði á skiptingu fæðingarorlofs innan marka laganna, sbr. fyrrgreint lágmarkstímabil sem nemur einni viku, sbr. 2. ml. 2. mgr. 10. gr. ffl. og tímafrest miðað við 18 mánaða aldur barns.

Loks má benda á að lagatúlkun TR sem að mati undirritaðs er langsótt "bæði gagnvart ólöglærðum og löglærðum" hefði þurft að styðjast við skýra lagaheimild eða reglugerðarheimild sem hefði borið að kynna opinberlega þannig að hlutaðeigandi gætu fremur sett saman áunnið sumarorlof og fæðingarorlof svo tekjuskerðing vegna fjölskylduábyrgðar yrði sem minnst, sbr. fortakslausa 80%-reglu ffl.

Telja verður að hagsmuna TR af því að þurfa ekki að reikna of oft út greiðslur vegna skiptingar fæðingarorlofs í fleiri en eitt tímabil sé nægilega gætt með

    1. vikulágmarki skv. 2. ml. 2. mgr. 10. gr. ffl. og

    2. því að atvinnurekendur eru ekki líklegir til þess að fallast á mjög margþætta skiptingu fæðingarorlofs nema í fáum tilvikum.

Stjórnsýslulegir hagsmunir TR vegna Fæðingarorlofssjóðs hljóta að víkja fyrir þeirri fortakslausu lagareglu að miðað skuli við 80% meðaltals heildarlauna á hverjum tíma."

Með bréfi, dags. 18. september 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 23. nóvember 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með umsókn dags. 8. apríl sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í einn mánuð vegna væntanlegrar fæðingar barns hans þann 1. júní. Í umsókninni kom fram að hann óskaði eftir að skipta fæðingarorlofi sínu þannig að hann tæki ½ mánuð frá fæðingardegi barns, að hann tæki 50% í júní og 50% í október og um skiptingu greiðslna og/eða greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli var vísað í meðfylgjandi tilkynningu um fæðingarorlof þar sem fram kom að hann ætlaði að vera í fullu leyfi í fæðingarorlof 1.-16. júní og lengdu leyfi á hálfum launum 1.-31. október. Barn hans fæddist þann 25. maí 2001 og hann fékk fullar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í hálfan mánuð frá þeim degi og hálfar greiðslur í októbermánuði.

A gerir kröfu um að viðmiðunartímabili við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum til sín verði hafnað hvað varðar síðari hluta fæðingarorlofs, þ.e. þess hluta sem óskaði eftir að taka samhliða 50% starfshlutfalli í október 2001, og í stað þess úrskurði nefndin að útreikningur greiðslna í fæðingarorlofi miðist sjálfstætt við tvö 12 mánaða samfelld tímabil fyrir hvorn hluta fæðingarorlofsins þannig að hann njóti 80% heildartekna einnig í síðari hluta fæðingarorlofsins. Hann kveður laun sín hafi hækkað hinn 1. apríl um 6,9% í framhaldi af kjarasamningi sem miðað sé við í ráðningarsamningi og þar með séu greiðslur í síðari hluta fæðingarorlofs hans lægri en sem nemur 80% meðaltals heildarlauna á því 12 mánaða tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir síðari hluta fæðingarorlofsins...

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er skýrlega kveðið á um útreiknitímabil greiðslna í 2. mgr. 13. gr. þar sem segir:

"Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald."

Tryggingastofnun ríkisins telur að lögin séu alveg skýr varðandi það að tímabil útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði reiknist út frá upphafsdegi fæðingarorlofs og að þar sé hvorki að finna nein fyrirmæli um það að upphafsdagur fæðingarorlofs í þessum skilningi geti verið fleiri en einn dagur né að það eigi að hafa nein áhrif á útreikninginn ef töku fæðingarorlofs er skipt. Jafnframt skal bent á það að ef um skiptingu fæðingarorlofs væri að ræða yrði sjálfsagður útreikningur á hverjum hluta fæðingarorlofsins ekki nauðsynlega til þess að hækka greiðslur í síðari hluta/hlutum vegna þess að þá gætu laun á hluta viðmiðunartímabilsins verið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem skv. lögunum eru 80% af meðaltali heildarlauna og það gæti í mörgum tilvikum lækkað meðaltalið."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. nóvember 2001, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins við útreikning greiðslna á síðari hluta fæðingarorlofs kæranda.

Kærandi tók mánuð í fæðingarorlof og skipti því í tvo hluta, fyrri hluta fæðingarorlofsins hóf hann við fæðingu barnsins, þ.e. frá 26. maí 2001 til og með 9. júní 2001, síðari hluta fæðingarorlofsins tók hann í október 2001, með því að starfa í 50% starfi þann mánuð.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal mánaðarleg greiðsla til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Útreikningur greiðslna í fæðingarorlofi kæranda miðast því við tímabilið mars 2000 til febrúar 2001 samkvæmt framangreindu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl., stofnast réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlof. Framangreind regla er skoðuð þegar finna á út hvort viðkomandi foreldri á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Það kemur skýrt fram bæði í 1. og 2. mgr. 13. ffl. að eingöngu er verið að tala um einn upphafsdag fæðingarorlofs, en ekki marga.

Upphafsdagur fæðingarorlofs konu er skilgreindur í 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl., það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs og hagað vinnu til ávinnslu réttinda í samræmi við það.

Það er grundvallarregla að foreldrar njóti jafnræðis þegar kemur að því að taka fæðingarorlof, með hliðsjón af því er ljóst að sama regla gildir gagnvart konum og körlum þegar kemur að útreikningi greiðslna í fæðingarorlofi, þ.e. að útreikningur skuli miðast við upphafsdag fæðingarorlofs sem stofnast samkvæmt framangreindu í síðasta lagi við fæðingu barns.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta