Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 103/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 103/2017

Miðvikudaginn 4. október 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 8. mars 2017, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 28. desember 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem hún varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu X þegar hún rann til og féll. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi, dags. 2. janúar 2017, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 5%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. mars 2017. Með bréfi, dags. 21. mars 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 10. apríl 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að varanleg læknisfræðileg örorka hennar vegna afleiðinga slyssins X verði endurskoðuð og metin í samræmi við mat C læknis.

Í kæru er greint frá því að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið stödd fyrir utan vinnustað sinn þegar hún hafi hrasað og við það borið fyrir sig vinstri hendi, lent á hægra hné og síðan á baki. Í fallinu hafi hún hlotið hnykk á hálsinn. Kærandi hafi leitað á Heilsugæsluna D nokkrum dögum síðar vegna vaxandi verkja í vinstri öxl og hendi auk verkja í hægra hné. Við skoðun hafi einnig komið í ljós talsvert mikil vöðvabólga í hálsi niður í herðar. Í framhaldinu hafi hún verið send í röntgenmyndatöku af hálshrygg sem hafi sýnt vægar slitbreytingar og segulómskoðun af vinstri öxl sem hafi sýnt tendinosu breytingu í suprasinatus sin og bursalt fyrir miðju hennar hafi vottað fyrir trosnun með þynningu.

Vegna afleiðinga eftir slysið hafi hún verið til meðferðar hjá heimilislækni, sjúkraþjálfara, heila-, tauga- og æðaskurðlækni ásamt bæklunarskurðlæknum. Hún hafi gengist undir liðspeglunaraðgerð á öxl 22. apríl 2014 og sprautumeðferðir.

Afleiðingar slyssins hafi verið metnar úr slysatryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands af C lækni, sbr. álitsgerð hans dags. 13. september 2016. Kærandi hafi sagst á matsfundi 9. ágúst 2013 aðallega kenna til í vinstri öxl og upplifa máttleysistilfinningu fram í hendi og stundum dofa. Þá hafi hún sagst vera verri af einkennum á vinstra mjaðmasvæði og með stingverki í nára og aftur í rasskinn, sérstaklega við vissar hreyfingar. Hún hafi sagst eiga erfitt með að ganga langt, beygja sig, bogra og sitja lengi. Þá hafi hún sagst vera orðin viðkvæmari í hálsinum.

Í samantekt matsgerðar og forsendum matsins segi:

„Að mati undirritaðs má vera ljóst að A hefur við slysið þann X hlotið áverka sem enn í dag valda henni óþægindum og líkamlegri færnisskerðingu.[...]Við mat á orsakasamhengi leggur matsmaður til grundvallar að ofanrituð hefur fyrri sögu um einkenni frá vinstra axlarsvæði og einnig frá vinstri mjöðm og háls- og herðasvæði. Við slys það sem hér er fjallað um sem var falláverki fær hún að því virðist helst áverka á vinstri öxl og vinstri mjöðm og hnykk á háls. Var upphaflega með áverka á hægra hné sem virðist hafa jafnað sig. [...]Matsmaður telur meiri líkur en minni á því að ofanrituð búi við eftirstöðvar tognunaráverka í hálsi, vinstri öxl og vinstra mjaðmasvæði ofan í fyrri óþægindi. [...]Tekið er tillit til fyrra heilsufars og lagt til grundvallar miskatöflur Örorkunefndar, sérstaklega liðir VI.A.a, VII.A.a. og VII.B., og telst varanleg læknisfræðileg örorka þá hæfilega metin 10%.“

Kærandi byggi á því að matsgerð C læknis sé ítarleg og faglega unnin og því beri að leggja hana til grundvallar við ákvörðun á varanlegri læknisfræðilegri örorku hennar vegna afleiðinga slyssins.

Í matsgerð E matlæknis Sjúkratrygginga Íslands hafi kærandi verið metinn til 5% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Kærandi gagnrýni harðlega að matslæknir hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi aðeins hlotið tognunaráverka frá vinstri mjöðm í slysinu. Þá beri matsgerðin þess merki að kærandi hafi sjálf aðeins lýst einkennum frá vinstri mjöðm á matsfundinum. Hún telji það sæta furðu að matslæknir hafi komist að fyrrgreindri niðurstöðu, enda hafi hún lýst nákvæmlega einkennum bæði frá vinstri öxl og hálsi auk einkennum frá vinstri mjöðm. Það líti út fyrir að matslæknir hafi af einhverjum orsökum aðeins tiltekið einkenni frá mjöðm í matsgerðinni þrátt fyrir að bæði hafi kærandi lýst öðrum einkennum á matsfundinum sjálfum og fyrir liggi læknisfræðileg gögn því til staðfestingar.

Kærandi bendi á að matsfundur hjá C hafi farið fram 9. ágúst 2016 og hjá E 12. september sama ár. Því sé ansi ólíklegt að hún hafi lýst einkennum sínum með misjöfnum hætti með svo stuttu millibili.

Að öllu framangreindu telji kærandi rétt að matsgerð C læknis verði lögð til grundvallar við ákvörðun læknisfræðilegrar örorku.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að slys kæranda hafi átt sér stað X þegar hún hafi runnið til og fallið við vinnu sína. Kærandi hafi leitað til heimilislæknis síns X þar sem hún hafi verið greind með hrúður á hægra hné og vinstri hendi, eymsli í vinstri olnboga og talsverð eymsli í vinstri öxl (en þar hafði hún verið slæm fyrir og ekki á bætandi samkvæmt umsögn heimilislæknisins), með talsvert mikla vöðvabólga eða stífa vöðva í hálsi niður í herðar. Nokkrum mánuðum síðar hafi komið fram verkir í vinstri mjöðm.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 5%. Við ákvörðun stofnunarinnar hafi verið byggt á örorkumatstillögu E læknis, dags. 27. september 2016, sem hafi byggt á þágildandi 34. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Tillagan hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat stofnunarinnar að í tillögunni hafi forsendum örorkumats verið lýst og rétt hafi verið metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar frá árinu 2006, lið VII.B.a.4. Tillagan hafi því verið grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hafi verið rétt ákveðin 5%.

Kærandi vísi til þess að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar, sbr. örorkumatstillögu E læknis. Í kæru hafi verið farið fram á að varanleg læknisfræðileg örorka yrði miðuð við álitsgerð C læknis um læknisfræðileg örorku, dags. 13. september 2016, þar sem varanleg læknisfræðileg örorka kæranda hafi verið metin 10%.

Í örorkumatstillögu E séu afleiðingar áverka kæranda heimfærðar undir miskatöflur örorkunefndar, lið VII.B.a.4. (gróið mjaðmarbrot en álagsóþægindi með vægri hreyfiskerðingu, 5%). Niðurstaða Guðjóns sé því 5% varanleg læknisfræðileg örorka. Í matsgerð C sé hins vegar varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 10% með vísan til liða VI.A.a. (hálshryggur), VII.A.a. (öxl og upphandleggur) og VII.B. (ganglimur) í miskatöflum örorkunefndar.

Í raun sé enginn munur á niðurstöðum matslæknanna. E hafi skipt einkennunum upp í afleiðingar tveggja slysa kæranda. Annars vegar vegna slyss Y, þar sem læknirinn hafi metið varanlega læknisfræðilega örorku 5% með vísan til liðs VII.A.a.1. (daglegur áreynsluverkur í öxl og upphandlegg með vægari hreyfiskerðingu) í miskatöflum örorkunefndar. Hins vegar vegna slyss X, sem kæran varði, þar sem læknirinn hafi metið 5% varanlega læknisfræðileg örorku með vísan til liðar VII.B.a.4., samanlagt 10%. Aftur á móti hafi C metið varanlega læknisfræðilega örorku 10% og tengt öll einkenni seinna slysinu. Þannig sé heildarniðurstaða læknanna tveggja sú sama.

Það sé því afstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt sé að miða mat á afleiðingum slyssins þann X við lýsingar á einkennum og niðurstöðu skoðunar sem hafi komið fram í tillögum E læknis að varanlegri örorku. Með hliðsjón af lið VII.B.a.4. í miskatöflum örorkunefndar teljist því rétt niðurstaða vera 5% varanleg læknisfræðileg örorka.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir X. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku hennar 5%.

Í læknisvottorði F, dags. 18. mars 2015, vegna slyssins segir meðal annars:

„Þann X leitaði ofanskráð til mín og þá segir:

„Þann X var Íris á gangi á G þar sem hún vinnur. Vissi ekki fyrr en hún lá á jörðinni, lenti einhvern vegin á hægra hné og þar sár og reif gat á buxur. Einnig borið fyrir vinstri hönd og þar smá mar, einnig vinstri olnbogi aumur og öxlin og þar roði um tíma en horfið. Var fyrir slæm í vinstri öxl og ekki ábætandi. Lá síðan á bakinu og [...] sá hana út um gluggann og kom hlaupandi og þá var kona sem kom aðvífandi búin að kippa henni upp. Flutt á [...] og þar gert að sárum og fór síðan heim. Var ekki vönkuð en hefur enga hugmynd um hvers vegna hún datt, gangstéttarhellur en engin misfella. Virðist einnig hafa fengið hnykk á hálsinn og var slæm í hálsinum í 2-3 daga, aðallega hægra megin en hefur lagast. Verri í vinstri öxlinni en áður og það truflar sem fyrr svefn meira núna en áður.

Við skoðun er sem sagt hrúður á hægra hné og vinstri hönd er smá mar, eymsli í vinstri olnboga og talsverð eymsli í vinstri öxl en enginn roði eða neitt slíkt. Talsvert mikil vöðvabólga eða stífir vöðvar í hálsi niður í herðar.“

Í framhaldinu er hún síðan send í sjúkraþjálfun og er að kvarta um verk á vi mjaðmarsvæði. Fer í umtalsverðar rannsóknir af mjöðmum og lendhrygg en síðan kemur frá sjúkraþjálfara að grunur sé um kviðslit í vi nára og sannaðist það með ómskoðun af kviðvegg. Þá send til skurðlæknir sem síðan gerir aðgerð þann X […]“

Í örorkumatstillögu E læknis, dags. 27. september 2016, sem unnin var að beiðni Sjúkratrygginga Íslands vegna slyss kæranda þann X, segir svo um skoðun á kæranda 12. september 2016.

„Tjónþoli kemur vel fyrir og gefur greinargóða sögu. Hún gengur ein og óstudd og stingur ekki við. Getur sest niður á hækjur sér og stendur auðveldlega á tám og hælum. Við skoðun á mjaðmaliðum kemur eftirfarandi fram: Það er ekki að sjá neina aflögun eða ytri áverkamerki. Það eru væg eymsli í vinstri nára og yfir stórahnjót vinstra megin.

Hreyfiferlar Hægri Vinstri
Rétta 10° 10°
Beygja 130° 130°
Fráfærsla 40° 40°
Aðfærsla 20° 20°
Snúningur inn 40° 30°
Snúningur út 50° 40°

Niðurstaða matsins var 5% varanleg læknisfræðileg örorka og um niðurstöðuna segir:

„Í ofangreindu slysi hlaut tjónþoli tognunaráverka á vinstri mjöðm. Enn fremur leiddu myndgreiningarrannsóknir í ljós yfirborðslægt mar á liðskálina vinstra megin. Meðferð og endurhæfingu telst lokið og heilsufarsástand telst vera orðið stöðugt.

Ekki er talið að vænta megi neinna breytinga á ofangreindum einkennum í framtíðinni svo heitið geti. Þá er og litið svo á að einkennin megi rekja til slysatburðarins en ekki annars heilsubrests, þ.e. að skilyrði að um orsakasamhengi séu uppfyllt.

Miskatöflur Örorkunefndar eru hafðar til hliðsjónar við mat þetta sem byggist á eðli áverkans og afleiðingum hans fyrir tjónþolann. Einkenni tjónþola eru best talin samrýmast lið VII.B.a.4. í töflunum. Með tilvísan til þess telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 5% (fimm af hundraði).“

Lögmaður kæranda hefur lagt fram álitsgerð C um læknisfræðilega örorku, dags. 13. september 2016, en matsgerðina vann hann að ósk lögmannsins. Um skoðun á kæranda 9. ágúst 2016 segir svo:

„Um er að ræða X konu í meðalholdum. Situr kyrr í viðtali. Gefur ágæta sögu. Grunnstemning telst eðlileg.

Hún hreyfir sig tiltölulega lipurlega. Gengur óhölt. Við mat á líkamsstöðu sést að hryggur er beinn og eðlilega lagaður. Hún er heldur rýrari á vinstra axlarsvæði og það er ör eftir axlaraðgerð.

Við skoðun á hálsi snýr hún 70° til beggja hliða, hallar 35° til beggja hliða, rétt er um 45° og það vantar eina fingurbreidd upp á að haka nái bringubeini. Hún kvartar um óþægindi í endastöðu hreyfinga í hálsi. Það eru þreifieymsli í vöðvum hliðlægt í hálsi út á herðasvæði og niður á milli herðablaða beggja vegna, meira vinstra megin.

Axlarhreyfingar eru vægt skertar í vinstri öxl við flexion og abduction. Það eru þreifieymsli yfir lyftihulsu en ekki til staðar klemmueinkenni. Við skoðun á griplimum lýsir hún óljóst breyttri tilfinningu í vinstri griplim án skýrrar taugarótarútleiðslu, þó helst C7. Taugaviðbrögð jöfn í báðum griplimum. Gripkraftar og fínhreyfingar eðlileg í höndum.

Við skoðun á bakinu í heild sinni væg almenn hreyfiskerðing með óþægindum í endastöðu hreyfinga í neðanverðu baki. Það eru þreifieymsli í vöðvum hliðlægt í neðanverðu brjóstbaki og í mjóbaki út á rasskinnar, meira vinstra megin. Liggjandi eru mjaðmahreyfingar vægt skertar í vinstri mjöðm með óþægindum í endastöðu hreyfinga. Óþægindi koma fram í nára og aftan til við setbein og hún er þreifiaum yfir vinstra setbeini og þar í kring. Skoðun á ganglimum annars eðlileg og taugaskoðun eðlileg. Niðurstaða framangreindrar álitsgerðar Guðmundar Björnssonar læknis er sú að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teljist vera 10%. Í forsendum matsins segir meðal annars:

„Að mati undirritaðs má vera ljóst að A hefur við slysið þann X hlotið áverka sem enn í dag valda henni óþægindum og líkamlegri færnisskerðingu.

[…]

Við mat á orsakasamhengi leggur matsmaður til grundvallar að ofanrituð hefur fyrri sögu um einkenni frá vinstra axlarsvæði og einnig frá vinstri mjöðm og háls- og herðasvæði.

Við slys það sem hér er fjallað um sem var falláverki fær hún að því virðist helst áverka á vinstri öxl og vinstri mjöðm og hnykk á háls. Var upphaflega með áverka á hægra hné sem virðist hafa jafnað sig. Hún var eitthvað í sjúkraþjálfunarmeðferð til að byrja með og leitaði síðan til heimilislæknis með vaxandi einkenni frá vinstra axlarsvæði og vinstra mjaðmasvæði. Hún var skoðuð af bæklunarskurðlækni sem leiddi til axlaraðgerðar og nokkurs bata. Hún fékk síðan sterasprautu í vinstri öxl og vinstri mjöðm og mun hafa verið eitthvað í sjúkraþjálfunarmeðferð. Fram kemur að hún hefur verið óvinnufær frá X.

Rannsóknir hafa leitt í ljós vægar slitbreytingar í hálsi og einnig nokkrar slitbreytingar í vinstri mjaðmalið.

Matsmaður telur meiri líkur en minni á því að ofanrituð búi við eftirstöðvar tognunaráverka í hálsi, vinstri öxl og vinstra mjaðmasvæði ofan í fyrri óþægindi. Slitbreytingar sem greindar voru í vinstri mjöðm allnokkru eftir slysið teljast ekki vera bein afleiðing þess.

[…]

Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku leggur matsmaður til grundvallar umræðu um orsakasamhengi hér að ofan. Tekið er tillit til fyrra heilsufars og lagt til grundvallar miskatöflur Örorkunefndar, sérstaklega liðir VI. A.a., VII. A.a. og VII. B., og telst varanleg læknisfræðileg örorka þá hæfilega metin 10%.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að kærandi féll við vinnu á [...]. Samkvæmt örorkumatstillögu E læknis, dags. 27. september 2016, eru afleiðingar slyssins taldar vera tognunaráverkar á vinstri mjöðm og yfirborðslægt mar á liðskálina vinstra megin. Í álitsgerð C læknis, dags. 13. september 2016, eru afleiðingar slyssins taldar vera eftirstöðvar tognunaráverka í hálsi, vinstri öxl og vinstra mjaðmasvæði ofan í fyrri óþægindi.

Í töflum örorkunefndar er í kafla VII. fjallað um áverka á útlimi. Undir staflið B er fjallað um ganglim og a-liður í staflið B fjallar um áverka á mjöðm og lærlegg. Samkvæmt undirlið VII.B.a.4. leiðir gróið mjaðmabrot en álagsóþægindi með vægri hreyfiskerðingu til allt að 5% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Í hinni kærðu ákvörðun var varanleg læknisfræðileg örorka metin til 5 stiga með hliðsjón af þessum lið. Í sama kafla fjallar stafliður A um áverka á öxl og upphandlegg og a-liður í staflið A fjallar um áverka á öxl og upphandlegg. Samkvæmt undirlið VII.A.a.1. leiðir daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu til allt að 5% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Í örorkumatstillögu E læknis vegna slyss kæranda þann Y, var varanleg læknisfræðileg örorka metin til 5 stiga með hliðsjón af lið VII. B.a.4. Í álitsgerð C læknis vegna slyssins sem kæran varðar, er niðurstaða um varanlega læknisfræðilega örorku kæranda byggð á framangreindum liðum í miskatöflum örorkunefndar, það er VII.A.a. og VII.B., auk þess sem álitsgerðin byggði einnig á lið VI.A.a. sem fjallar um áverka á hálshygg, en tilvísun í undirliði var ekki nákvæmari í álitsgerðinni.

Í læknisvottorði F kemur fram að kærandi hafi verið með einkenni frá hálsi eftir slysið en í vottorðinu er ekki rakið að hve miklu leyti slík einkenni voru til staðar áður. Í beiðni sama læknis um segulómun af hálsliðum X (niðurstaða rannsóknar dags. X) er hins vegar eftirfarandi sjúkrasaga: „Lenti í slysi Y og aftur X. Slynku á hálsinn. Send til taugaskurðlæknis sem myndaði hana í X 2014 á landspítala. Verið slæm í hálsinum alla tíð og hvel aumir og stífir vöðvar í dag, verra hæ megin. Sjúkraþjálfari ekki viljað snerta mikið.“ Af fyrirliggjandi gögnum fær úrskurðarnefnd því ráðið að þótt kærandi hafi varanleg einkenni sem svarað geti til afleiðinga vægrar tognunar í hálsi, hafi þau einkenni verið til staðar fyrir umrætt slys og ekki hafi verið sýnt fram á að einkennin hafi versnað að marki við slysið. Ekki kemur því til álita að meta kæranda varanlega örorku vegna einkenna frá hálsi sem afleiðingar slyssins er hún varð fyrir í X.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði kærandi áður orðið fyrir áverka á vinstri öxl í slysi árið Y. Vegna viðvarandi óþæginda þurfti hún að gangast undir aðgerð á öxlinni hjá H bæklunarlækni árið X. F segir í vottorði, dags. X: „Verri í vinstri öxlinni en áður og það truflar sem fyrr svefn meira en áður.“ Í vottorði, dags. 18. mars 2015, segir F ennfremur: „Var fyrir slæm í vinstri öxl og ekki ábætandi.“ Úrskurðarnefnd fær því ráðið af fyrirliggjandi gögnum að varanleg einkenni frá vinstri öxl kæranda hafi að hluta verið til komin fyrir slysið í X. Þau einkenni samrýmast best lið VII.A.a.1. í miskatöflu örorkunefndar en hann er unnt að meta til allt að 5% varanlegrar örorku. Þar af telur úrskurðarnefnd hæfilegt að meta 3% varanlega læknisfræðilega örorku af völdum slyssins í X en 2% hafi verið tilkomin áður.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að nokkru leyti óljóst af fyrirliggjandi gögnum hversu mikill hluti einkenna sem kærandi býr við frá vinstri mjöðm stafi af slysinu í X og hve mikil einkenni kærandi hafði fyrir það slys. F segir í beiðni um röntgenmyndatöku af mjaðmagrind og vinstri mjöðm 2. júlí 2014 að kærandi hafi verið viðkvæm í vinstri mjöðm en það verið að ágerast. Jafnframt segir svo í beiðninni: „Datt X í fyrra og versnaði eftir það.“ Við túlkun segulómunar X 2016 vaknaði grunur um áverka á augnakarlsbrún og samkvæmt vottorði F 26. júní 2016 var talið mjög sennilegt að þær skemmdir hefðu komið til við slysið í X. Enn fremur lét F þess getið að hér væri um sjaldgæfan áverka að ræða. Úrskurðarnefnd fær ráðið af þessum gögnum að kærandi hafi haft óþægindi frá vinstri mjöðm fyrir slysið í X en hafi versnað við það slys. Í töflum örorkunefndar er ekki að finna lið sem beinlínis á við áverka á mjaðmalið eins og þann sem kærandi hlaut. Liður VII.B.a.4. fjallar um gróið mjaðmabrot en álagseinkenni með vægri hreyfiskerðingu og telur úrskurðarnefnd þá lýsingu koma heim og saman við varanleg einkenni kæranda. Þessi liður er metinn til 5% varanlegs miska. Að mati úrskurðarnefndar benda framangreindar upplýsingar til að meirihluti þess miska eða 4% hafi komið til við slysið í X en minnihluti einkenna verið til staðar áður.

Auk þessa greindist hjá kæranda nárahaull (hernia inguinalis) við ómskoðun X 2014. Hefði þetta mein hlotist af byltunni í X hefðu einkenni þess átt að gera vart við sig strax eða fljótlega eftir slysið. Úrskurðarnefnd fær ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að nárahaull hafi verið afleiðing umrædds slyss.

Áverki sem kærandi hlaut á hægra hné við slysið í X olli ekki varanlegum einkennum.

Með hliðsjón af framangreindu er samanlögð varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyss sem hún varð fyrir X rétt metin 7%. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega örorku er því felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% örorkumat vegna slyss sem A, varð fyrir X, er felld úr gildi og varanleg læknisfræðileg örorka metin 7%.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta