Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 183/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 183/2017

Miðvikudaginn 4. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags 10. maí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. maí 2017, þar sem honum var synjað um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greidda uppbót til bifreiðakaupa í apríl 2013 frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi sótti á ný um uppbót/styrk til bifreiðakaupa með umsókn, dags. 17. janúar 2015. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2015, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda á þeim grundvelli að hún væri ótímabær. Kærandi keypti nýja bifreið X 2015. Með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 138/2015, dags. 26. ágúst 2015, var synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk til bifreiðakaupa staðfest. Með umsókn, dags. 1. maí 2017, sótti kærandi á ný um uppbót/styrk til bifreiðakaupa vegna sömu bifreiðar og keypt var X 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. maí 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að ekki voru liðin fimm ár frá fyrri greiðslu uppbótar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. maí 2017. Með bréfi, dags. 12. maí 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. júní 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júní 2017. Þann 22. júní 2017 lagði kærandi fram læknisvottorð, dags. 21. júní 2017, og var það sent Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2017. Athugasemdir Tryggingastofnunar bárust með bréfi, dags. 3. júlí 2017 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi geri kröfu um að honum verði veitt uppbót/styrkur til bifreiðakaupa.

Í kæru er greint frá því að samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar sé heimilt að víkja frá fimm ára reglunni um veitingu styrkja til bifreiðakaupa hafi bifreið verið afskrifuð vegna umferðaróhapps eða ef hún hafi eyðilagst í sambærilegu atviku. Kærandi hafi átt X ára gamla bifreið sem hafi þurft mikið viðhald, vélin hafi verið skemmd og púst hafi verið ónýtt. Það hafi ekki borgað sig að láta gera við bifreiðina og hafi hann því selt hana fyrir slikk. Þá hafi einnig verið orðið erfitt fyrir kæranda að ganga og að standa upp úr lágu bílstjórasætinu. Kærandi hafi keypt sér [bíl] sem hafi hentað honum mjög vel og sé þægilegur í umgengni. Ekki séu liðin fimm ár frá því að kærandi hafi síðast fengið uppbót til bifreiðakaupa sem hafi verið í apríl 2013. Kærandi óskar þess að við skoðun nefndarinnar á máli hans verði litið til þess að hann hafi verið í þeirri stöðu að ný bifreið hafi verið nauðsynleg fyrir hann.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn um uppbót til bifreiðakaupa. Kærandi hafi áður kært synjun Tryggingastofnunar um nýja uppbót til bifreiðakaupa á sömu forsendum. Í máli nr. 138/2015 hafi afgreiðsla Tryggingastofnunar verið staðfest og hafi úrskurðarnefndin sagt meðal annars:

„Samkvæmt 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð kemur fram að heimilt sé að veita uppbót og styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ætla má af því að uppbætur og styrkir til bifreiðakaupa samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 séu ætluð að duga einstaklingum í þann tíma. Kærandi mátti gera sér grein fyrir því að bifreið sem komin sé til ára sinna við kaup, þarfnist viðhalds eðli málsins samkvæmt.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa.”

Afgreiðsla Tryggingastofnunar í málinu hafi verið, að öllu leyti, efnislega samhljóða þeirri afgreiðslu sem kærð hafi verið í máli nr. 138/2015. Enn séu ekki liðin fimm ár frá því að kæranda hafi verið veitt uppbót til kaupa á bifreið nr. [...] og kærandi vilji enn fá uppbót til að fjármagna kaup á sömu bifreið og hann keypti á meðan að mál nr. 138/2015 var í gangi, þ.e. bifreið nr. [...].

Kærandi hafi ekki skilað inn nýju hreyfihömlunarvottorði í stað þess sem liggi fyrir hjá Tryggingastofnun, dags. 30. ágúst 2012. Það vottorð, ásamt öðrum gögnum málsins, staðfesti að hreyfihömlun sé í samræmi við skilyrði uppbótar samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Undantekningarheimild 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, um greiðslu á mismun uppbótar og styrks, eigi því ekki við í þessu máli.

Með vísan til framangreinds vísi Tryggingastofnun því til greinargerðar stofnunarinnar í máli nr. 138/2015, ásamt öllum fylgigögnum til frekari rökstuðnings í máli þessu. Tryggingastofnun telji að sér hafi ekki verið heimilt að víkja frá þeirri reglu að einungis sé heimilt að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Í athugasemdum Tryggingastofnunar segir að nýtt læknisvottorð, sem kærandi hafi lagt fram undir rekstri málsins, sé í samræmi við fyrirliggjandi eldra vottorð.

Í eldri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærumáls 138/2015 var vísað í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 og bent á að samkvæmt því ákvæði sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar, sé sýnt að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með breytingalögum nr. 120/2009 hafi eftirfarandi málslið verið bætt við þessa málsgrein:

„Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi verið sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 3. gr. hennar sé fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Þar komi fram skilyrði fyrir greiðslu þessara uppbóta og eins upphæðir þessara uppbóta. Þar komi meðal annars fram að uppbót sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Í 7. mgr. 3.gr. reglugerðarinnar segi:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.”

Kærandi fékk síðast samþykkta uppbót til bifreiðakaupa þann 26. nóvember 2012 og var hún greidd út í aprílmánuði 2013.

Tryggingastofnun sé ekki heimilt að veita uppbót vegna bifreiðakaupa vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt sé að vekja athygli á því að reglan sé afdráttarlaus og án undantekninga í 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram þröng undantekningarheimild til þess að heimila sölu á bifreið áður en fimm ár séu liðin frá því að kæranda hafi verið veitt uppbót en það sé vegna þess að bifreið hafi eyðilagst eða bótaþegi látist.

Í framkvæmd hafi ákvæðið verið túlkað á þann hátt að hægt sé að veita umsækjanda nýjan styrk þó að ekki séu liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu ef bíllinn hafi eyðileggst í árekstri, eða sambærilegu atviki og umsækjandinn hafi ekki fengið neinar bætur frá tryggingunum vegna tjónsins.

Rétt sé að vekja athygli á að þessi framkvæmd Tryggingastofnunar sé byggð á orðalagi 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar eingöngu og sambærilegu ákvæði í fyrri reglugerð. Framkvæmdin hafi verið svona frá því áður en fimm ára reglan hafi verið lögfest með breytingalögum nr. 120/2009 og færa megi því rök fyrir því að hún standist ekki afdráttarlaust orðalag hinnar breyttu 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Það er að með réttu ætti ekki að vera heimilt að veita nýja uppbót/styrk til bifreiðakaupa þótt bifreið hafi eyðilagst.

Af gögnum málsins sé ekki hægt að sjá að bifreið kæranda, [...], hafi eyðilagst í árekstri eða sambærilegu atviki. Ekki sé hægt að sjá annað á málflutningi kæranda og gögnum málsins en að bifreið kæranda hafi þá ekki verið ónýt og enn í fullri notkun.

Tryggingastofnun hafi því í máli nr. 138/2015 ekki talið sér heimilt að víkja frá þeirri reglu að einungis væri heimilt að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð með síðari breytingu. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða:

„1. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,

2. mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma,

3. annað sambærilegt.“

Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar til bifreiðakaupa að nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og að mat á hreyfihömlun liggi fyrir. Þá er í 4. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Í 2. mgr. þeirrar greinar koma eftirtalin skilyrði fram:

„1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. […].

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er til dæmis bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir svo:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tíma­mörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.“

Í 6. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar er fjallað um það hvað gera skuli ef hreyfihömlun einstaklings hafi versnað frá veitingu uppbótar til bifreiðakaupa, ákvæðið er svohljóðandi:

„Ef hinn hreyfihamlaði hefur móttekið uppbót samkvæmt 3. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og fjárhæð styrks. Styrkur og uppbót geta þó aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.“

Samkvæmt framangreindu er meginreglan sú að einungis er heimilt að veita uppbót/styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti vegna sama einstaklings, sbr. 2. málsl. 1. og 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði laganna um fimm ára frest samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 hafi bifreið eyðilagst á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar. Ágreiningslaust er að kæranda var veitt uppbót til bifreiðakaupa í apríl 2013 og uppfyllir hann því ekki skilyrði laganna um fimm ára frest. Jafnframt liggur fyrir að úrskurðarnefnd almannatrygginga komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði nr. 138/2015 frá 26. ágúst 2015 að kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrði 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 120/2009 fyrir undanþágu frá áðurgreindum fimm ára tímamörkum eftir að hafa tekið til skoðunar hvort eldri bifreið kæranda hefði eyðilagst í skilningi ákvæðisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga, en fyrir liggur að kærandi seldi bifreið sína eftir það. Því er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu uppbótar til bifreiðakaupa, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Þá er rétt að taka til skoðunar hvort sjúkdómsástand kæranda hafi versnað þannig að hann uppfylli nú skilyrði til þess að fá styrk til bifreiðakaupa, sbr. 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð er það skilyrði fyrir veitingu styrks vegna bifreiðakaupa að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti. Fjallað er nánar um skilyrði styrks í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 en þar kemur meðal annars fram að styrkur skuli einungis veittur ef einstaklingur sé verulega hreyfihamlaður og sé t.d. bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri. Við túlkun á umræddu reglugerðarákvæði lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð er ekki kveðið á um að það sé skilyrði fyrir veitingu styrks til bifreiðakaupa að viðkomandi sé bundinn hjálpartæki. Þá telur úrskurðarnefndin að orðasambandið „til dæmis“ sem kemur fram í reglugerðarákvæðinu vísi til þess að þörfin fyrir hjálpartækin sem nefnd eru í ákvæðinu sé tekin sem dæmi til að skýra hvað við sé átt með verulegri hreyfihömlun. Því telur nefndin að það sé ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu styrks til kaupa á bifreið að viðkomandi sé bundinn hjálpartæki.

Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun sé uppfyllt í skilningi 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Í vottorði B læknis, dags. 30. ágúst 2012, kemur fram í lýsingu á sjúkdómsástandi:

„Hann mjaðmabrotnaði á hæ. mjaðmaspaða sem og hæ. lærlegg. Einnig hefur hann fengið emb pulm árið X. […]

Árni á erfitt um gang sökum falls og mjaðmar/lærleggs brots og fór í kjölfarið í ísettningu gerviliðs X. Því á hann nokkuð erfitt með gang sökum þessa.“

Í vottorðinu er hakað við að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Fyrir liggur að kærandi notar staf.

Með kæru fylgdi nýtt vottorð C læknis, dags. 21. júní 2017. Þar segir í lýsingu á sjúkdómsástandi:

„Hann mjaðmabrotnaði á hæ. mjaðmaspaða sem og hæ. lærlegg. Einnig hefur hann fengið emb pulm árið X. A á erfitt með gang sökum falls og mjaðmar/lærleggs brots og fór í kjölfarið í ísettningu gerviliðs X. Því á hann nokkuð erfitt með gang sökum þessa. Þetta hefur ekkert breyst eða frekar versnað síðan síðasta vottorð var ritað. Því til viðbótar þá einnig haft dofa í fótum, sem truflar allt jafnvægisskyn.

Hann getur ekki gengið nema kannski 40-50 m áður en hann hvílir. Hann var áður á bíl sem lá mjög lágt og átti þá í verulegum erfiðleikum með að komast í og úr bílnum. Þannig þurfti hann nauðsynlega að losa sig við þann bíl og fá bíl sem hentar hans líkamsástandi betur.“

Þá segir í rökstuðningi fyrir hjálpartæki að hann notist við staf.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið gögn málsins og fær af þeim ráðið að kærandi búi við skerta göngugetu. Þrátt fyrir það telur úrskurðarnefndin að kærandi verði ekki talinn hreyfihamlaður til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála, sem er meðal annars skipuð lækni, að sjúkdómsástand kæranda hafi ekki versnað þannig að hann uppfylli nú skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um verulega hreyfihömlun. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. maí 2017 um að synja A, um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta