Hoppa yfir valmynd

Nr. 190/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 190/2018

Miðvikudaginn 15. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. maí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. maí 2018 um að synja kæranda um örorkulífeyri og örorkustyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 16. september 2017. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. október 2017, var umsókninni synjað með þeim rökum að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði staðals til fullrar örorku né örorkustyrks. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsóknum, dags. 7. nóvember 2017, 3. janúar 2018, 12. febrúar 2018, og 29. mars 2018. Með ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. janúar 2018 og 14. maí 2018, var umsóknum kæranda synjað. Í hinni kærðu ákvörðun frá 14. maí 2018 kemur fram að það sé mat Tryggingastofnunar ríkisins að engin breyting hafi orðið á heilsufari kæranda frá síðasta örorkumati.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. maí 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. júní 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um örorkulífeyri og örorkustyrk verði endurskoðuð.

Í kæru segir að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á örorku sé ekki réttmæt þar sem hún uppfylli kröfu um örorku og að þetta sé í þriðja skiptið sem umsókn hennar sé synjað. Hún hafi útskrifast frá VIRK í X 2017 með 50% starfsgetu en hafi ekki getað unnið eða sinnt starfi sínu sem […] vegna mikilla verkja í líkama eftir bílslys í X  og áfalla. Þá þjáist kærandi einnig af miklum kvíða og áfallastreituröskun. Kærandi hafi ekki unnið neitt síðan um […] en þá hafi hún verið í hlutastarfi.

Læknir kæranda hafi sent nokkur vottorð til Tryggingastofnunar þess efnis að hún sé ekki með fulla starfsgetu og starfsgetumatið frá VIRK hafi einnig verið sent með umsókn hennar.

Kærandi hafi alltaf verið mjög heilsuhraust þar til hún hafi lent í slysi en þá hafi hún skaddast á […] öxl og […] herðablaði. Í kjölfarið hafi hún þróað með sér mikinn kvíða og mikla vanlíðan og þurft að hætta að vinna sem [...]. Kærandi hafi farið í endurhæfingu hjá VIRK í X 2015. Við útskrift frá VIRK hafi kæranda verið bent á að sækja um örorku hjá Tryggingastofnun og hún hafi gert það. Í september 2017 hafi hún sótt fyrst um örorkulífeyri og hún sé enn að fá synjun um örorku. Kærandi sé á barmi taugaáfalls eftir allar þessar synjanir og ekki sé það bætandi ofan á kvíðann og vanlíðanina sem hún sé að kljást við.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á endurmati á örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins sem hafi farið fram 14. maí 2018. Í örorkumatinu hafi kæranda verið synjað á ný um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. og örorkustyrk samkvæmt 19. gr. laga nr. 100/2007 almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn þann 16. september 2017 í kjölfar þess að hafa lokið 24 mánuðum á endurhæfingarlífeyri. Tryggingastofnun hafi synjað umsókninni þar sem kærandi hafi ekki staðist örorkumat sem fram hafi farið hjá tryggingalækni þann 11. október 2017. Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið send kæranda þann 24. október 2017. Í kjölfarið hafi kærandi ítrekað óskað eftir endurmati stofnunarinnar með erindum, dags. 7. nóvember 2017, 12. febrúar 2018 og nú síðast 29. mars 2018. Þeim erindum hafi öllum verið synjað af hálfu Tryggingastofnunar með sömu niðurstöðu á þeim grundvelli að engin breyting hafi orðið á heilsufari kæranda frá því að upphafleg skoðun hjá skoðunarlækni Tryggingastofnunar hafi farið fram þann 11. október 2017. 

Við endurmat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat, dags. 14. maí 2018, hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 22. mars 2018, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 29. mars 2018, umsókn kæranda, dags. 29. mars 2018, ásamt skoðunarskýrslu, dags. 11. október 2017. Jafnframt hafi verið hjá Tryggingastofnun eldri gögn vegna fyrri endurmata á örorku kæranda.

Við örorkumatið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins segi að kærandi sé tæplega X ára gömul einstæð kona. Atvinnusaga hennar felist aðallega í að hafa unnið sem [...] sem einnig sé áhugamál hennar. Í sjúkrasögu kæranda komi fram að hún hafi sögu um kvíða og erfið uppvaxtarár og þá hafi hún verið með fjárhagsáhyggjur síðastliðið ár. Kærandi hafi lenti í bílslysi í X og í kjölfarið hafi hún verið með verki í […] herðablaði, öxl og fram í handlegg. Lengri saga sé um höfuðverki og þá sé hún með mígreni og hafi höfuðverkirnir versnað mikið eftir bílslysið. Kærandi hafi verið í VIRK og niðurstaða starfsgetumats sé 50% vinnugeta.

Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið talin uppfyllt við örorkumat Tryggingastofnunar. Kærandi hafi ekki fengið stig í líkamlega hlutanum en hafi fengið eitt stig í andlega hluta málsins. Á þeim forsendum hafi kærandi hingað til hvorki verið talin uppfylla skilyrði til örorkustyrks né örorkulífeyris.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins og viðbótargögn sem hafi fylgt kæru. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort niðurstaða skoðunarskýrslu læknis og örorkumats sé í samræmi við gögn málsins. Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi benda á að það sé mat skoðunarlæknis að vegna afleiðinga andlegra vandamála kæranda þá hafi kærandi hlotið eitt stig í andlega þætti matsins en ekkert stig í líkamlega þættinum. Nánar tiltekið þá hafi kærandi fengið í andlega hluta matsins, eitt stig fyrir 5. spurningu í liðnum „að ljúka verkefnum“. Í rökstuðningi tryggingalæknis komi fram að geðrænt ástand umsækjanda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins þann 14. maí 2018 hafi verið talið, eins og í fyrri mötum, að skilyrði staðals um hæsta örorkustig í tilviki kæranda væru ekki uppfyllt og var kæranda heldur ekki metinn örorkustyrkur.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja bæði um örorkulífeyri og örorkustyrk eins og nú hafi verið gert að nýju, sé rétt niðurstaða miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. maí 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri  og tengdar greiðslur og henni ekki metinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða eftir atvikum örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi læknisvottorð B, dags. 22. mars 2018. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu kvíði, mígreni, verkir og „hypertensio arterialis“. Þá segir í læknisvottorðinu:

„X árs kona sem hefur verið að kljást við kvíða í lengri tíma. Erfið uppvaxtarár og fjárhagsáhyggjur sl. ár. Lenti svo í bílslysi X og í kjölfarið verkir í […] herðablaði, öxl og verkir fram […] handlegg. Lengri saga um höfuðverki og er með mígreni. Höfuðverkir versnuðu mikið eftir bílslys. Verið í Virk og niðurstaða starfsgetumats þar er 50% vinnugeta.“

Samkvæmt vottorðinu hefur kærandi verið óvinnufær frá 1. september 2015 og óvinnufær að hluta frá 1. september 2017.

Fyrir lá við örorkumatið starfsgetumat VIRK, dags. 12. september 2017, þar sem segir að kærandi hafi verið greind með verki og kvíða. Í sögu segir meðal annars svo:

„Kona sem að lendir í bílslysi með áverka á háls og öxl vi. megin. Um svipað leiti erfiðleikar í fjölskyldulífi og áföll sem höfðu veruleg áhrif á hana. Í framhaldi af meiðslunum á öxl verður hún að loka […] sinni, en hún hefur verið að starfa […] sem […]. Fer að finna fyrir kvíða í áframhaldi og raunar ýmislegt gengið á í einkalífi á þessum árum. […] Kvíði sem var til staðar hefur jafnað sig, hún hefur opnað […] að einhverju leyti alla vega og einkenni frá öxl og baki ekki versnað og eru ekki afgerandi hamlandi til venjulegra starfa þó þau hafi áhrif á []vinnu daglangt […] Svefn hefur verið erfiður […]“

Í samantekt segir:

„Kona sem er með einkenni eftir hnykkáverka frá herðum og öxl hæ. megin. Var að takast á við lífskreppur og fjölskylduerfiðleika. Hefur komist all langt áleiðis hvað andlega þáttinn varðar og er komin til starfa í sínu fagi, sem er raunar það erfitt að henni er bent á alla vegna tímabundið að leita að léttari störfum á almennum vinnumarkaði. Starfsgeta er metin á um 50% til allléttustu starfa sem launþegi, jafnframt er metið svo að starfsendurhæfing sé fullreynd að sinni.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða kvíða, áfallastreituröskun og verki. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja þannig að svo sé ekki en við of langa setu komi þreytuverkur í mjóbak. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að svo sé ekki en það komi stundum fyrir að hún missi […] fótinn eftir langa setu þegar hún standi upp vegna verkja sem komi í […]mjöðm eftir fótbrot í X. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum við að beygja sig eða krjúpa þannig að svo sé ekki en það sé verkur sem komi í […] mjöðm annað slagið þegar hún beygi sig eða krjúpi. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta eða bera þannig að vegna dofa í […] herðablaði, verkja í […] öxl og mjóbaki lyfti hún hvorki né beri þunga hluti. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún sé með mikla nærsýni, -7,25 á báðum augum og sjónskekkju. Sjónin hafi farið mikið versnandi á síðustu árum og að hún hafi verið með gleraugu frá 8 ára aldri. Þá svarar kærandi ekki spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 11. október 2017. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand komi í veg fyrir að kærandi sinni áhugamálum sem hún naut áður. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[…] Kemur gangandi í skoðun, göngulag eðlilegt. Sest í stól án erfiðleika og situr án sjáanlegra erfiðleika í viðtali. Stendur upp og getur gert það án stuðnings, gengur upp og niður stiga án erfiðleika og þarf ekki stuðning við. Gegnur á tám og hælum, lyftir höndum upp fyrir höfuð og setur aftur fyrir hnakka. Fínhreyfingar eðlilegar, handfjatlar smápening með báðum höndum.

Sest á hækur sér or reisir sig aftur upp án stuðnings. Getur náð í hlut upp af gólfi. Klemmupróf jákvætt […] megin, tendintapróf neikvæð.

Vantar um 12 cm upp á að fingur nái í gólf. Góðar hreyfingar í hálsi. Eðlilegar hreyfingar í mjöðmum beggja vegna.

Eymsli í hnakka […] megin sem og paraspinalt í hálsi […] megin. Lítil eymsli lumbosacralt og iliolumbalt […] megin en væg. Eymslalaus yfir mjaðmasvæði.

Góðir kraftar í lykilvöðvum. SLR 90/90, reflexar jafnir hægra og vinstra megin í efri og neðri útlimum. Grófskoðun á skyni eðlileg.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Löng saga um kvíða sem rekja má til erfiðrar æsku sem og áfalla í persónulegu lífi undanfarin ár. Hefur undanfarið verið að vinna í sínum málum og virðist vera á betri stað hvað það varðar.“

Atferli í viðtali er lýst svo:

„Glaðleg ung kona, vel til höfð og snyrtileg til fara. Gefur greinagóða sögu og góðan kontakt, geðslag eðlilegt. Neitar vonleysi, dauðahugsunum og sjálfsvígshugsunum. Ekki ber á ranghugmyndum eða rangfærslum.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur ekkert stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis fær kærandi því ekkert stig samkvæmt staðlinum vegna líkamlegrar færniskerðingar. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand komi í veg fyrir að kærandi sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til eins stigs.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk ekkert stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og eitt stig úr andlega hlutanum þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Um örorkustyrk er fjallað í 19. gr. laga um almannatryggingar. Þar kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins skuli veita einstaklingi á aldrinum 18 til 62 ára örorkustyrk ef örorka hans sé metin að minnsta kosti 50% og hann uppfylli búsetuskilyrði samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna. Ekki er gerð grein fyrir því í lögunum hvernig meta skuli læknisfræðileg skilyrði örorkustyrks. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki séð að ætlun löggjafans hafi verið að breyta skilyrðum örorkustyrks þegar skilyrðum örorkulífeyris var breytt með lögum nr. 62/1999 og ekki heldur þegar orðalagi ákvæðisins um örorkustyrk var breytt með lögum nr. 74/2002. Úrskurðarnefndin telur því að við mat á örorkustyrk eigi að styðjast við mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. skerðingu á getu til að afla atvinnutekna, en ekki læknisfræðilegt örorkumat eins og gert hafði verið um áratugaskeið áður en lögunum var breytt árið 1999.

Að mati B læknis er kærandi óvinnufær að hluta síðan 1. september 2017, sbr. læknisvottorð, dags. 22. mars 2018. Samkvæmt starfsgetumati VIRK, dags. 12. september 2017, er starfsgeta kæranda 50% til tiltekinna starfa. Með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli skilyrði til greiðslu örorkustyrks. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkustyrk er því felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkustyrks.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um örorkustyrk er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði 50% örorku séu uppfyllt. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til ákvörðunar á tímalengd greiðslu örorkustyrks.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta