Mál nr. 5/2015
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 27. maí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 5/2015:
Kæra A
á ákvörðun
Kópavogsbæjar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með bréfi, dags. 23. janúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 18 nóvember 2014, um uppsögn á húsaleigusamningi hennar við Kópavogsbæ.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur verið með leigusamning við Kópavogsbæ frá 1. desember 2008 vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 19. febrúar 2014, var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um fjölskylduhagi, tekjur og eignir. Tekið var fram að yrði beiðninni ekki sinnt eða rangar upplýsingar gefnar gæti það leitt til riftunar á leigusamningi. Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 25. mars 2014, var beiðnin ítrekuð. Með bréfi velferðarsviðs Kópavogsbæjar, dags. 24. september 2014, var leigusamningi kæranda sagt upp á þeirri forsendu að hún væri yfir tekju- og eignamörkum reglna um útleigu félagslegra leiguíbúða bæjarins.
Kærandi áfrýjaði ákvörðun velferðarsviðs til félagsmálaráðs Kópavogsbæjar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. nóvember 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Félagsmálaráð staðfestir uppsögn á húsaleigusamningi.“
Niðurstaða félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. nóvember 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 23. janúar 2015. Með bréfi, dags. 26. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur var óskað eftir gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 5. febrúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 12. febrúar 2015, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfum, dags. 23. febrúar og 3. mars 2015, og voru þær kynntar Kópavogsbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2015. Með tölvupósti 22. apríl 2015 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Kópavogsbæ um tekjur kæranda og bárust þau með tölvupósti 4. maí 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki fengið nægar leiðbeiningar frá sveitarfélaginu um réttarstöðu sína, hvorki við gerð húsaleigusamningsins né eftir að ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin. Þær upplýsingar sem hún hafi fengið hafi einungis verið á íslensku og ensku, en það sé ekki hennar móðurmál, sem hafi leitt til þess að hún hafi átt erfiðara með að átta sig á málinu og skilyrðum húsaleigusamningsins. Hún hafi fengið þær upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins að hún myndi ekki tapa neinum réttindum við að sinna launuðu starfi. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir að tekjur hennar gætu valdið uppsögn húsaleigusamningsins enda hafi hún verið í sambandi við íslenskt stjórnvald og leitað þar eftir upplýsingum sem hafi ekki gefið neitt tilefni til að ætla að hún þyrfti sérstaklega að kanna stöðu sína gagnvart Kópavogsbæ. Þá greinir kærandi frá því að hún hafi tekið út séreignasparnað á árinu 2013 en hafi ekki haft vitneskju um að það myndi hafa áhrif á húsaleigusamninginn við Kópavogsbæ.
Kærandi telur með vísan til IV. og XII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að hún eigi rétt á aðstoð og áframhaldandi leigu félagslegs húsnæðis. Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og fjölskyldu sinnar en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra við úrvinnslu málsins. Þá bendir kærandi á að tekjur hennar séu ekki mikið yfir tekjumörkunum. Það sé óvíst hvort hún geti sinnt starfi sínu áfram en jafnvel þó hún geri það dugi tekjur hennar ekki fyrir húsnæði á frjálsum markaði og framfærslu sonar hennar. Kærandi tekur fram að hún eigi engan að hér á landi og því komi hún til með að vera á götunni ef uppsögnin taki gildi.
III. Sjónarmið Kópavogsbæjar
Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að í reglum sveitarfélagsins um félagslegt leiguhúsnæði sé kveðið á um tekju- og eignaviðmið varðandi búseturétt. Jafnframt sé kveðið á um tilkynningarskyldu ef breytingar verði á fjölskylduhögum. Reglulegt eftirlit sé haft með hvoru tveggja enda sé litið á félagslegt leiguhúsnæði sem tímabundna lausn. Við eftirlit með tekju- og eignamörkum árið 2014 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið yfir tekjumörkum og leigusamningi hennar því sagt upp. Uppsögnin sé fyllilega í samræmi við reglur Kópavogsbæjar, ákvæði leigusamningsins kæranda og þá framkvæmd sem viðhöfð sé hjá sveitarfélaginu þegar komi að eftirliti með tekju- og eignastöðu leigjenda.
Félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Hjá Kópavogsbæ séu 153 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði sem metnir séu til 17 stiga eða fleiri samkvæmt matsblaði. Kærandi fengi í dag sjö til níu stig eftir því hvernig húsnæðisvandi hennar yrði metinn. Þegar leigjendur, eins og í tilviki kæranda, séu farnir að afla tekna sem eigi að standa undir leigu á almennum markaði sé farið fram á að þeir rými félagslega leiguhúsnæðið svo að hægt sé að úthluta íbúðinni til annarra einstaklinga og fjölskyldna sem uppfylla skilyrði reglnanna. Leigjendum sé gefinn rúmur frestur, allt að tólf mánuðir til þess að finna sér annað húsnæði. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún geti ekki fundið annað húsnæði innan þess frests.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um útleigu á félagslegum leiguíbúðum bæjarsjóðs Kópavogsbæjar frá 3. mars 2009, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um uppsögn á húsaleigusamningi kæranda við Kópavogsbæ vegna félagslegs leiguhúsnæðis.
Kærandi hefur verið með leigusamning við Kópavogsbæ frá 1. desember 2008 vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Leigusamningi kæranda var sagt upp á þeirri forsendu að tekjur hennar væru yfir tekjumörkum reglna Kópavogsbæjar um félagslegar leiguíbúðir. Í 4. gr. reglnanna kemur fram að leiga félagslegra leiguíbúða í eigu bæjarsjóðs sé að öllu jöfnu bundin þeim skilyrðum að við breytingar á félagslegum aðstæðum leigutaka skuli réttur hans til leigunnar endurskoðaður. Einkum sé um að ræða breytingar á hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og fjárhagsstöðu. Þá kemur fram að líta beri á leigu í félagslegu leiguhúsnæði bæjarsjóðs sem tímabundna úrlausn. Í 15. gr. reglnanna kemur fram að skyldur leigutaka séu skilgreindar í reglunum og sérákvæðum leigusamnings.
Í gögnum málsins liggur fyrir húsaleigusamningur kæranda og húsnæðisnefndar Kópavogs, undirritaður 17. nóvember 2008. Í grein 13.4 samningsins er kveðið á um sérákvæði húsnæðisdeildar Félagsþjónustu Kópavogsbæjar en þar kemur meðal annars fram að leiguréttur og úthlutun leiguhúsnæðis sé bundinn tilteknum eigna- og tekjuviðmiðum sem litið sé til þegar umsókn berst, við tímamörk úthlutunar og einu sinni á ári þann tíma sem leigusamningur varir. Þá kemur fram að félagsmálaráð bæjarins taki ákvörðun um endurskoðun eigna- og tekjumarka að teknu tilliti til ákvörðunar félagsmálaráðuneytis um hækkun tekju- og eignamarka í samræmi við árlega hækkun á neysluvísitölu og að á leigutímanum muni húsnæðisdeild Félagsþjónustu Kópavogs á tólf mánaða fresti gera athugun á því hvort leigutaki fullnægi skilyrðum um eigna- og tekjuviðmið.
Á grundvelli reglugerðar nr. 1042/2013, um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, er tekju- og eignamörkum breytt um hver áramót. Tekjumörkin fyrir árið 2013 voru 4.057.000 krónur fyrir einstaklinga en viðbót fyrir hvert barn yngri en 20 ára var 679.000 krónur. Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir árið 2013 var hún ekki með barn á framfæri. Tekjur hennar á árinu 2013 voru 4.448.272 krónur eða 391.272 krónum yfir framangreindum tekjumörkum og var leigusamningi hennar því sagt upp en í reglunum er ekki kveðið á um undanþágu fyrir leigutaka frá hámarksfjárhæð tekjumarkanna.
Kærandi hefur borið því við að hafa ekki fengið nægar leiðbeiningar um réttarstöðu sína, bæði við gerð samningsins og eftir að ákvörðun var tekin um uppsögn leigusamningsins. Hún hafi fengið þær upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins að hún myndi ekki tapa neinum réttindum við að taka launað starf. Hún hafi treyst þeim upplýsingum og ekki haft vitneskju um að það gæti leitt til uppsagnar á húsaleigusamningi hennar við Kópavogsbæ. Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er stjórnvöldum skylt að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Af þessu leiðir að stjórnvöldum er ekki skylt að veita leiðbeiningar um málefni sem ekki tilheyra þeirra starfssviði. Verður því ekki séð að þær upplýsingar sem Tryggingastofnun ríkisins veitti kæranda hafi áhrif á samskipti hennar við Kópavogsbæ.
Í fyrirliggjandi húsaleigusamningi er skýrt kveðið á um að leiguréttur sé bundinn tilteknum tekjuviðmiðum sem séu endurskoðuð árlega og samkvæmt gögnum málsins óskaði Kópavogsbær tvívegis eftir tekjuupplýsingum frá kæranda og vísaði til þess að í reglum um félagslegt leiguhúsnæði væri kveðið á um ákveðið tekju- og eignaviðmið varðandi búseturétt. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að kærandi hafi ekki haft vitneskju um að tekjur hennar hefðu áhrif á leigurétt hennar hjá Kópavogsbæ. Þar sem tekjur kæranda voru yfir tekjumörkum reglna Kópavogsbæjar um félagslegt leiguhúsnæði er það mat úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi verið heimilt að segja húsaleigusamningi kæranda upp. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur hvenær sem er lagt inn nýja umsókn hjá Kópavogsbæ og óskað eftir undanþágu frá skilyrðum fyrir umsókn, sbr. 8. gr. reglnanna. Þar kemur fram að búi umsækjandi við svo erfiðar kringumstæður að ástæða sé til að veita verði undanþágu frá skilyrðum fyrir umsókn skuli málið lagt fyrir félagsmálaráð sem taki ákvörðun um málið.
Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðunartöku. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Kópavogsbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 18. nóvember 2014, um uppsögn á húsaleigusamningi A er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal