Hoppa yfir valmynd

Nr. 439/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 439/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080032

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 22. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2021, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Niðurstaða kærunefndar var send lögmanni kæranda þann 23. júní 2021. Þann 6. júlí 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og barst kærunefnd greinargerð í málinu þann 13. júlí 2021. Í greinargerð kæranda óskaði hann jafnframt eftir endurupptöku málsins. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað þann 14. september 2021 með úrskurði nr. 438/2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafði verið með mál til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra hafi mál kæranda verið fellt niður þann 23. mars 2021. Kærandi hafi kært umrædda ákvörðun til ríkissaksóknara. Hafi ríkissaksóknari tekið afstöðu til kæru kæranda þann 7. júlí 2021 þar sem kom fram að ákvörðun lögreglustjóra um að fella niður mál kæranda hafi verið felld úr gildi að hluta til. Vegna þessa byggir kærandi á því að nauðsynlegt sé fyrir hann að vera staddur hér á landi til þess að gefa skýrslu í eigin persónu og leggja fram frekari gögn til þess að aðstoða lögreglu við rannsókn málsins. Verði honum gert að yfirgefa landið myndi það tefja málið auk þess sem það væri bersýnilega ósanngjarnt.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar nr. 288/2021 frá 22. júní 2021 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kæranda skyldi brottvísað frá landinu auk þess sem honum yrði gert að sæta tveggja ára endurkomubanni. Þá var komist að því að skilyrði 102. gr. laga um útlendinga sem kveði á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun á brottvísun ættu ekki við í máli kæranda. Var m.a. ekki talið bersýnilega ósanngjarnt að kæranda yrði brottvísað frá landinu vegna þeirra hagsmuna sem væru undir í máli hans hjá lögreglunni, líkt og kærandi hafði byggt á í greinargerð sinni.

Við meðferð máls þessa hefur kærandi lagt fram afstöðu ríkissaksóknara, dags. 7. júlí 2021. Þar kemur m.a. fram að ákvörðun lögreglustjórans um að hætta rannsókn máls kæranda sem varðaði meintar líkamsárásir og hótanir hafi verið staðfest en að öðru leyti hafi umrædd ákvörðun verið felld úr gildi. Af afstöðu ríkissaksóknara má ráða að embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi borið að rannsaka betur ásakanir kæranda á hendur fyrrum vinnuveitanda um brot gegn atvinnuréttindum útlendinga, fjársvik og mansal. Vísar ríkissaksóknari m.a. til þess að tilefni hafi verið fyrir lögreglu til að taka aðra skýrslu af fyrrum vinnuveitanda kæranda og bera undir hana gögn sem þegar hefur verið aflað við rannsókn málsins. Var því lagt fyrir lögreglustjóra að taka málið að því leyti til frekari rannsóknar.

Í ljósi afstöðu ríkissaksóknara áréttar kærunefnd það sem kom fram í úrskurði kærunefndar frá 22. júní 2021 að það sé á frumkvæði lögreglu að halda áfram með rannsókn málsins og koma því í réttan farveg telji lögregla ástæðu til að gefa út ákæru í málinu. Vera kæranda á landinu er því hvorki forsenda fyrir því að ákæra sé gefin út í málinu eða að sakamál sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Aðili sakamáls hefur jafnframt möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá er ljóst af gögnum málsins að lögreglan hefur þegar tekið skýrslur af kæranda ásamt því að kærandi hafi veitt aðstoð við frekari gagnaöflun. Eru þau gögn því orðin hluti af gögnum málsins. Líkt og að framan greinir þá taldi ríkissaksóknari að tilefni væri fyrir lögreglu að taka skýrslu af öðrum aðila máls kæranda en honum sjálfum og bera undir þann aðila gögn sem þegar hefur verið aflað við rannsókn máls kæranda. Er það því mat kærunefndar að vera aðila hér á landi sé ekki nauðsynleg til þess að tryggja framgang máls hans hjá lögreglu eða að flutningur kæranda úr landi gæti talist sem bersýnilega ósanngjörn ráðstöfun.

Hafi kærandi í hyggju að höfða einkamál þá er enn fremur ljóst að vera aðila á landinu ekki forsenda fyrir því að einkamál sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur aðili möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Að mati kærunefndar er ekkert því til fyrirstöðu að kærandi geti gefið aðilaskýrslu í gegnum síma muni hann höfða einkamál fyrir dómstólum hér á landi.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 22. júní 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Athygli kæranda er vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta