Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 170/2012

Fimmtudaginn 7. ágúst 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 6. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. ágúst 2012 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 9. ágúst 2011 um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

                                                                  

Með bréfi 11. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, sem barst með bréfi dagsettu 29. október 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 1. nóvember 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 13. nóvember 2012.

Með bréfi 14. nóvember 2012 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru bæði fædd 1965. Þau eru í hjúskap og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin íbúð að C götu nr. 45 í sveitarfélaginu D. Kærandi A er með BA-gráðu í Fashion Merchandising og starfar í barnafataverslun. Kærandi B er með BA-gráðu í Fashion Design, en var í atvinnuleit um tíma. Hann hefur þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun, en auk þess verið í hlutastarfi hjá X og unnið aðra hverja helgi í versluninni Y. Samkvæmt greiðsluáætlun vegna greiðsluaðlögunar námu tekjur kærenda samtals um 546.247 krónum á mánuði að meðtöldum vaxtabótum, barnabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 46.648.875 krónur en þar af falla 40.774.991 króna innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge).

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársloka 2008 en þá varð kærandi B atvinnulaus. Um svipað leyti hófust framkvæmdir á húsi því sem kærendur eiga íbúð í, en að þeirra sögn hafði húsfélag hússins samþykkt framkvæmdirnar gegn vilja kærenda og ekki á löglegan hátt. Kærendur tóku því að eigin sögn nauðbeygð þátt í kostnaði vegna þessa. Í byrjun árs 2009 sóttu kærendur son sinn til R-lands en ættleiðing hans hafði verið í bígerð í nokkur ár. Kostnað vegna ættleiðingarinnar segja kærendur hins vegar hafa orðið mun meiri en í upphafi hefði verið gert ráð fyrir, meðal annars vegna gengisbreytinga í kjölfar hruns bankanna.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. ágúst 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og þeim í kjölfarið skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum.

Með bréfi umsjónarmanns 27. mars 2012 var lagt til við umboðsmann skuldara að felldar yrðu niður greiðsluaðlögunarumleitanir á grundvelli 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við meðaltekjur kærenda árið 2011 hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra umfram framfærslu verið 162.072 krónur frá því að kærendur fóru í greiðsluskjól.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 8. maí 2012 voru kærendur upplýst um afstöðu umsjónarmanns. Var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 13. maí 2012 og viðbótargögn með svari 1. júní 2012. Þar gerðu kærendur grein fyrir hækkuðum raunútgjöldum sínum þann tíma sem þau höfðu verið í greiðsluskjóli.

Með bréfi til kærenda 21. ágúst 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar frá 9. ágúst 2011 með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. 

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 21. ágúst 2012 um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar verði endurskoðuð og málið tekið upp að nýju þar sem kærendur telji málið ekki hafa hlotið réttmæta meðferð hjá umboðsmanni skuldara. Þau hafi ekki vitað betur en þau hafi sent inn fullnægjandi gögn til umboðsmanns skuldara, en ef svo reyndist ekki vera hafi þau ekki verið upplýst um það hverra gagna þyrfti að afla.

Kærendur taka fram að þau hafi verið tekin undir verndarvæng umboðsmanns skuldara í janúar 2011 og þau einungis beðin um að spara eins og þau gætu. Kærandi B hafi verið atvinnulaus frá byrjun árs 2009 til september 2011 og þegið atvinnuleysisbætur og í raun hafi ekki verið hægt að spara neitt á þeim tíma. Allt varðandi fjármál kærenda hefði legið opið fyrir umboðsmann skuldara til athugunar.

Kærendur taka fram að í 18 mánuði hafi þau staðið í þeirri trú að þau væru að vinna af heilindum í því að fara inn í það ferli sem umboðsmaður skuldara hafi samþykkt að setja þau í. Það hafi þau gert með því að koma með gögn og upplýsingar þegar á hafi vantað. Hins vegar telja kærendur að umboðsmaður skuldara og umsjónarmaður þeirra hafi ekki unnið fyrir þau af heilindum hvað varðar leiðbeiningarskyldu og aðstoð vegna máls þeirra.

Um mánaðamótin febrúar/mars 2012 hafi kærendur ekki vitað betur en að verið væri að senda inn endanleg skjöl frá umsjónarmanni í máli þeirra þar sem gert hafi verið ráð fyrir ákveðnum sparnaði á mánuði, sem þeim hafi reyndar fundist vera mjög mikill og ekki gert sér fulla grein fyrir því hvernig sú fjárhæð væri tilkomin. Umsjónarmaður kærenda hafi gert tillögu um að kærendur gætu nýtt sparnað sinn til að kaupa bíl og hafi þá verið gert ráð fyrir að Lýsingu yrði skilað bíl þeirra. Ástæða þess að kærendur hefðu mátt nýta sparnaðinn í bílakaup hafi verið sú að kærandi B starfi á fjórum stöðum í Reykjavík og hafi ekki bíl til umráða. Þá séu kærendur með tvö börn sem keyra þurfi í skóla og fleira. Talað hafi verið um að kærendur hefðu átt að fá svar í lok mars eða byrjun apríl, en í maí hafi borist ábyrgðarbréf þar sem tilkynnt hafi verið að heimild til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á þeim forsendum að kærendur hefðu ekki svarað tölvupóstum og ekki sparað eins og þau hefðu átt að gera.

Í kæru er tekið fram að eftir að kærandi B hafði verið atvinnulaus í tvö og hálft ár hafi þurft að fara í fatakaup, sem hafi verið nauðsynlegt fyrir kærendur því bæði séu þau í sölustörfum. Það hafi einnig verið þörf á því að kaupa föt á börnin þar sem þau séu á þeim aldri að þau vaxi og slíti fatnaði mjög ört. Viðmiðunartalan í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara varðandi fatakaup sé algjörlega óraunhæf. Þá hafi kærendur þurft að greiða hluta kostnaðar vegna tjóns sem varð er hitavatnsrör hjá þeim sprakk haustið 2011. Enn fremur hafi kærendur fengið leyfi hjá umsjónarmanni til að endurnýja ísskápinn, sem hafi hrunið endanlega í byrjun janúar 2012. Heimilað hafi verið að kærendur tækju 100.000 krónur af sparnaði sínum í þessu skyni.

Röksemdir kærenda fyrir því að ekki hafi verið unnt að spara eins mikið og ætlast hafi verið til sé vegna þess að mikill munur sé á kostnaðartölum kærenda og þeim sem umboðsmaður skuldara leggi til grundvallar. Þar sé himinn og haf á milli og ekki sé tekið tillit til þeirra hækkana sem orðið hafi frá 2010.

Kærendur hafi fengið frest til að leggja fram gögn vegna yfirvofandi niðurfellingar á heimild til greiðsluaðlögunar. Hafi þeim verið sagt að koma með síðustu greiðsluseðla fyrir raunútgjöldum og matar- og fatakostnaði síðustu þriggja mánaða til að sýna fram á að framfærsluviðmið væru hærri. Gögnum hafi verið skilað 1. júní 2012 og þess óskað, ef gögnin væru ekki fullnægjandi, að haft yrði samband svo unnt væri að koma að frekari gögnum. Það hafi svo komið í ljós að gögnin hafi ekki verið talin fullnægjandi en ekkert látið uppi um það hvað væru fullnægjandi gögn. Ekki sé unnt að bregðast við svona vinnubrögðum. Niðurstaða um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar hafi svo komið tveimur mánuðum síðar.

Gengið sé út frá því að kærendur hafi getað safnað saman 3.300.000 krónum í sparnað á tíu mánuðum, því hina mánuðina átta sem B hafi verið á atvinnuleysisbótum hafi verið vitað að ekkert væri hægt að spara. Ef unnt hefði verið að spara þá fjárhæð hefði ekki verið þörf á því að leita aðstoðar umboðsmanns skuldara.

Í athugasemdum kærenda frá 13. nóvember 2012 vegna greinargerðar umboðsmanns skuldara er tekið fram að aldrei hafi verið talað um ákveðna fjárhæð sem átti að sparast. Einungis að kærendur skyldu reyna að spara það sem þau gætu. Talað hafi verið um hvað mætti hafa í framfærslu, síðan þurfi að greiða raunútgjöld og þegar lítið sé eftir verði sparnaður ekki mikill. Þegar kærandi B hafi verið atvinnulaus og kona hans í 60% starfi hafi ekkert verið hægt að spara og varla hægt að borga reikninga vegna raunútgjalda. Framfærslukostnaður sem miðað sé við sé svo lítill að það standist ekki.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni hafi kærendur einungis lagt um 400.000 krónur til hliðar á þeim sextán mánuðum sem frestun greiðslna hafi staðið yfir. Á sama tímabili hafi greiðslugeta kærenda aukist nokkuð. Umsjónarmaður hafi því tilkynnt umboðsmanni skuldara með bréfi 27. mars 2012 það mat sitt að þar sem kærendur hefðu ekki lagt nægilega mikla fjármuni til hliðar væri rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir skyldu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu skilgreindar tilteknar skyldur við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í a-lið 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendum hafi mátt vera vel ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar þeirra um greiðsluaðlögun 9. ágúst 2011. Þá séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi með umsjónarmanni. Þessar upplýsingar sé enn fremur að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara.  

Ljóst sé að frestun greiðslna hafi staðið yfir frá því í janúar 2011, eða í rúmlega átján mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur alls haft 5.072.518 krónur í launatekjur að frádregnum skatti árið 2011 að janúarmánuði undanskildum. Frá ársbyrjun 2012 hafi kærendur haft sem nemi 3.398.874 krónum í launatekjur að frádregnum skatti, sé miðað við lok júlímánaðar þ.á. Verði því lagt til grundvallar að kærendur hafi alls haft 8.471.392 krónur í launatekjur hið minnsta frá því frestun greiðslna hófst í janúar 2011. Að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, sem kærendur fengu á árunum 2011 og 2012, hafi heildartekjur kærenda á greindu tímabili því numið 9.468.901 krónu.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 342.617 krónur á meðan frestun greiðsla hafi staðið yfir. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum ágústmánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna einstaklinga og tvö börn. Miðað sé við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum, enda liggi fyrir að heildarfjárhæð útgjalda hafi verið lægri sem einhverju nemi við upphaf frestunar greiðslna. Samkvæmt framansögðu sé gengið út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að hafa getu til að leggja fyrir því sem nemi um 3.301.794 krónum, sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 183.433 krónur í átján mánuði.

Við útreikning á greiðslugetu kærenda beri umsjónarmanni ávallt að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og stýrist af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að kærendum sé jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Fullyrðingar kærenda um að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um séu ekki studdar fullnægjandi gögnum.

Samkvæmt eignayfirliti eigi kærendur innstæður á bankareikningi að fjárhæð 866.791 króna, en ekki 400.000 krónur eins og umsjónarmaður tilgreini. Sé miðað við að greiðslugeta kærenda hafi að jafnaði verið um 183.443 krónur á meðan frestun greiðslna hafi staðið þyki vera ljóst að kærendur hafi einungis lagt fyrir um 26% þeirrar fjárhæðar sem þeim hefði átt að vera unnt að leggja til hliðar á þeim átján mánuðum sem frestun greiðslna hafi varað. Við framangreinda útreikninga hafi verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tilgreindu tímabili og miðað sé við meðaltal heildartekna, eins og fram sé komið.

Af framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 29. október 2012 er tekið fram að í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í hinni kærðu ákvörðun sé ítarlegur rökstuðningur fyrir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli þeirra ástæðna sem tilgreindar séu í 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna.

Í kæru fjalli kærendur um að þau telji að hvorki umsjónarmaður þeirra né umboðsmaður skuldara hafi aðstoðað eða leiðbeint þeim nægilega í máli þeirra. Af gögnum málsins sé ekki annað að sjá en að andmælaréttur kærenda hafi verið virtur sem og að leiðbeiningarskyldu hafi verið fullnægt.

Vegna fullyrðinga kærenda um að framfærslukostnaður þeirra sé hærri en viðmið umboðsmanns skuldara sé ítrekað að samkvæmt 4. gr. 16. gr. lge. beri að fara eftir þeim framfærsluviðmiðum sem umboðsmaður skuldara setji. Í framkvæmd hafi verið horft til aukinnar framfærslu hafi hún verið réttmæt og studd gögnum.

Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt geti þeim forsendum sem ákvörðun um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar sé byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar byggist á 15. gr. laga nr. 101/2010 með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. laganna. 

Í 15. gr. lge. segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Telji umsjónarmaður að skuldari hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. lge. skal hann óska þess við umboðsmann skuldara samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar að greiðslu­aðlögunar­umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna. Með bréfi umsjónarmanns 27. mars 2012 lagði hann til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með bréfi umboðsmanns skuldara 8. maí 2012 voru kærendur upplýst um þessa afstöðu umsjónarmanns og þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 13. maí 2012 og viðbótargögn með svari þeirra 1. júní 2012.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Skylda kærenda að þessu leyti var sérstaklega brýnd í skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 9. ágúst 2011 og var áréttuð á fyrsta fundi með umsjónarmanni. Af málatilbúnaði kærenda verður ekki annað ráðið en að þau hafi verið meðvituð um þessa skyldu sína á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Kærendur byggja á því að þeim hafi ekki verið gert að leggja ákveðna fjárhæð til hliðar mánaðarlega, heldur hafi þeim einungis verið sagt að spara það sem þau gætu. Sú fjárhæð sem umboðsmaður skuldara telji að þau hafi átt að spara á átján mánaða tímabili greiðsluaðlögunar sé með öllu óraunhæf með tilliti til aðstæðna kærenda og raunútgjalda þeirra. Þá telja kærendur mál sitt ekki hafa hlotið réttmæta meðferð hjá umboðsmanni skuldara og leiðbeiningum hafi verið ábótavant.

Samkvæmt greiðsluáætlun sem lögð var til grundvallar umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var greiðslugeta þeirra 268.171 króna, en á þeim tíma var kærandi B atvinnulaus. Í forsendum ákvörðunar um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana er gengið út frá því í samræmi við fyrirliggjandi gögn að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að hafa getu til að leggja fyrir sem nemur um 3.301.794 krónum sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 183.433 krónur í átján mánuði. Fram kemur í forsendum ákvörðunarinnar að við útreikninga hafi verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tilgreindu tímabili og miðað sé við meðaltal heildartekna. Samkvæmt eignayfirliti 21. ágúst 2012 eiga kærendur innstæður á bankareikningi að fjárhæð 886.791 króna. Er því fjarri lagi að kærendur hafi lagt til hliðar af tekjum sínum í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur byggja jafnframt á því að framfærslukostnaður þeirra sé hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem réttlæta að miðað sé við hærri framfærslu í þeirra tilviki.

Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að ferill máls kærenda hjá umboðsmanni skuldara hafi verið með eðlilegum hætti, andmælaréttur kærenda hafi verið virtur og leiðbeiningarskyldu gætt. Kærendur hafi brugðist við andmælabréfi 8. maí 2012 og lagt fram viðbótargögn með bréfi sem umboðsmanni skuldara barst 1. júní s.á. Hefur andmælarétti kærenda og rannsóknarskyldu stjórnvalda þar með verið fullnægt.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á sjónarmið og röksemdir umboðsmanns skuldara í máli þessu og staðfest ákvörðun hans um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda með vísan til a-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta